Lesbók Morgunblaðsins - 08.01.1983, Blaðsíða 15

Lesbók Morgunblaðsins - 08.01.1983, Blaðsíða 15
Alexander Glowacki Skeyta- send- ingar Baldur Pálmason þýddi .. ;.. Alexander Glowacki, sem þekktur var og dáður meðal þjóðar sinnar með höfundarnafninu Boleslav Prus, fæddist í grennd við Lúblínborg árið 1847. Fyrsta skáldsaga hans var gefín út 1872, og þaðan í frá varð ekkert lát á höfundarferli hans allt til dauðadags árið 1912. Prus var mjög fjölhæfur rithöfundur. Hann trúði á mannkærleik, siðmenningu og sköpunarmátt hinna góðu eiginda og björtu. Hann gerði kröfu til aimennrar sjálfsmenntunar og að fólk kappkostaði að stæla vilja sinn, því að hann hélt því fram, að hver maður ætti að finna í sjálfum sér uppsprettur heilbrigðrar lífsorku. Smásögur Prus lýsa ekki hvað sízt einkennum manna. Þegar greifafrú X ... heim- sótti munaðarleysingjahælið nýlega, varð hún vitni að óvanalegu atviki. Fjórir drengir fóru í handalögmál út af bókarslitri og greiddu hver öðrum þung högg með kreppt- um hnefum, og réð tilviljun ein hvar þau lentu. „Heyrið mig nú — svona, svona, drengir góðir — hvað er atarna? — þið látið bara hendur skipta!“ hrópaði frúin þrumu lostin. „Fyrir vikið fær enginn ykkar að bragða á hun- angskökunni, og auk þess verðið þið að krjúpa á kné í skammarkróknum drykk- langa stund.“ „Hann tók Róbinson Krúsó frá mér,“ áræddi einn dreng- urinn að segja í afsökunartón. „Það er ekki satt. Hann tók bókina sjálfur," hreytti annar út úr sér. „Þú lýgur því eins og þú ert langur til!“ skrækti þriðji drengurinn. „Þú tókst einmitt Róbinson Krúsó frá mér!“ Reglusystirin, sem hafði að- alumsjón á hendi í þann svip- inn, skýrði greifafrúnni frá því, að svipuð tilvik kæmu býsna oft fyrir, enda þótt eft- irlit væri gott, þar eð börnin þráðu að lesa og hælið skorti bækur. Þá var líkt og kviknaði ljós í hugskoti greifynjunnar. En hún reyndi að kæfa það jafn- harðan, því að henni veittist erfitt að hugsa. Og hugsunin blundaði þar til hún var gest- ur á heimili aðalráðgjafans nokkrum dögum seinna, en þar var boðað til umræðu um trúarleg efni og mannúðar- mál. Þá datt henni allt í einu í hug að nefna þetta. Og hún greindi í smáatriðum frá at- burðinum, sem hún var vitni að á munaðarleysingjahælinu, svo og frá skýringu hjúkrun- arsysturinnar. Ráðgjafinn hlustaði með at- hygli og varð einnig var við- kvæmra tilfinninga innra með sér, og þar sem þann var leiknari í hugsun en frúin, stakk hann upp á því snjall- ræði að senda munaðarleys- ingjunum nokkrar bækur. Reyndar kvaðst hann minnast þess, að í bókahillum hans eða bókakössum væru ekki ófá bindi, sem hann keypti handa börnum sínum fyrir margt löngu og væru nú engum til gagns. En sá væri hængur á, að hann hefði líklega ekki tíma til að grúska í þessu og safna bókunum saman. Þetta sama kvöld heimsótti ráðgjafinn herra V ..., sem varið hafði öllu lífi sínu til að sinna ýmsum smærri þurftar- verkum í mannúðarmálum hinnar opinberu klerkstjórn- ar. Og af því að ráðgjafann langaði til að láta gott af sér leiða, sagði hann herra V ... frá því, sem greifynjan sá á munaðarleysingjahælinu og hvers hún hafði orðið vísari af framburði fulltrúa systraregl- unnar. Og hann jók þar við eindreginni stuðningsyfirlýs- ingu sinni í þá veru — að, já — að vissulega þyrfti að senda unglingunum á hælinu bækur. „Ekkert einfaldara," mælti herra V ... hárri röddu. „Ég fer á morgun á ritstjórnar- skrifstofu Hraðboðans og set í blaðið auglýsingu um þarfir hælisins." Daginn eftir brunaði herra V ... hinn ákafasti inn á skrifstofu Hraðboðans og bað þess í nafni ailra heilagra, að blaðið birti áskorun til al- mennings um að senda hinum munaðarlausu gjafabækur. Hann hitti á óskastund, því að blaðið vantaði efni, sem hefði á sér þýðingarmikið yfir- bragð. Fréttamaður settist niður undir eins og bjó sig undir að rita grein með fyrir- sögninni: „Hópur barna í opinberri umsjá líður af bóka- skorti. Angarnir litlu eru full- ir lestrarlöngunar. Minnist sveltandi sálna þeirra!“ Að þessum orðum rituðum blístraði blaðamaðurinn hinn ánægðasti og arkaði heim til hádegisverðar. Fáum dögum síðar fór ég á ritstjórnarskrifstofuna í fylgd vinar míns, háskólakennara í eðlisfræði. Þetta var á sunnu- degi, og frammi fyrir lokuðum dyrum skrifstofunnar komum við að töturlega klæddum manni með óhreinar hendur eins og sótari, og við hlið hans stóð lítil telpa, illa til fara, með dálítinn stafla af gömlum bókum í fanginu. „Hvers óskið þér, maður minn?“ spurði ég. Óhreini maðurinn lyfti húfu sinni og svaraði feimnislega: „Við erum hérna með fáeinar bækur, herra minn, handa þessum lestrarfúsu börnum, sem sagt var frá í blaðinu." Litla stúlkan magra roðnaði eins mikið í framan og blóð- leysi hennar gat framast gert henni kleift. Ég tók við bókunum úr höndum hennar og fékk þær skrifstofudrengnum til um- sjár. „Hvað heitið þér, góði mað- ur?“ spurði ég. „Herra minn, hversvegna spyrjið þér að því?“ spurði hann vandræðalega. „Nú, auðvitað verðum við að prenta nafn þess, sem bæk- urnar gefur.“ „Æ, það er ekki nauðsyn- legt.^Sjáið þér til, herra minn, ég er bara fátækur maður. Ég starfa í hattaverksmiðjunni. Það er engin þörf á slíku.“ Og hann hvarf á brott með dóttur sinni litlu, hinni mögru. Vera má að návist eðlis- fræðiprófessorsins hafi orðið til þess, að hugsuninni um nýja skeytasendingaraðferð sló niður í mig. Sendistöðin var munaðarleysingjahælið, móttökustöðin starfsmaður- inn í hattaverksmiðjunni. Þegar sendistöðin lét frá sér fara kallmerkið „Takið eftir“, anzaði móttökustöðin á svip- stundu. Þegar fyrri aðilinn lýsti þörf sinni, lét hinn síðari af hendi rakna það, sem farið var fram á. Við hin vorum öll ekkert annað en símastaurar. Pólskt harmljóð Burt, á bylgjum ánna berast laufin trjánna. Hnípinn fugl í hljóði harm sinn tér — / Ijóði: Storð mín, æ hve strengir stynja, ógnum slegnir; þínir djörfu drengir af drýsilfjendum vegnir; borgir eru brunnar, brenndar skógarrætur; burt með reyknum runnar raunamæddar dætur; svarrasveðj ur glampa, svigna spjót og kesjur, trylltir jóar trampa tún og víðar gresjur. Varsjá, þú sást þegna þétt á vör sér bíta, einni ætlun gegna: eymd og neyð, já ógn og deyð að hlíta; sást þá bröndum beita, blóð sitt láta af mörkum jafnt í sumars sveita sem í vetrarhörkum, berjast, ærast, eggja, engjast, falla í valinn, unz varð enginn seggja úr þeim flokki talinn. Eru allir dauðir? Einhverjir í böndum ? Eigra aðrir snauðir um í fjarrum löndum, trúnni á Drottin týndir, trúnni á lífið sviptir, ytra: áþján píndir, innra: skapdeild riftir? Hvílík pínsl, ó Pólland, mitt prúða Pólland, ó, Pólland, ó, Pólland! Heim ef hetjur sneru, heima þeim und fótum sviðnar grundir greru. Og þeir ynnu frelsi aftur þér til handa, svo ei hamli helsi höfuðprýði landa. Æ, þeir heimtast aldrei, er í moldu sofa. Klukknaslög í kyrrþey kappa dáðir lofa. Kynslóð frjáls og fögur fús mun letursetja ótal afrekssögur allra pólskra hetja. Baldur Pálmason þýddi úr þýzku nótnahefti, þar sem textinn er við sönglag eftir frægasta tónskáld Pólverja, Fréderic Chopin. Höfundarnafns kvæðisins er ekki get- ið, hvorki þar né í öðrum tiltækum lagasöfnum, t.d. enskum. Er ekki fráleitt að hugsa sér, að lagið sé samið vip pólskt þjóðkvæði. Þessi þýðing Baldurs birtist áður í Arbók skálda 1956, sem Helgafell gaf út. 15

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.