Lesbók Morgunblaðsins - 28.05.1983, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 28.05.1983, Blaðsíða 11
Indriði G. Þorsteimson Með vorvindunum Það vorar fyrir norðan og næðingunum linnir og nóttin verður björt. Bóndinn leggst í tamningar og lambféinu sinnir og landið grænkar ört. Og innfirðirnir dúa af amstri máva og ritu og aldan sandinn þvær. Birtir mynd á spegilfleti af fjalli myrkurlitu hinn fáði og kyrri sær. Bráðum koma að sunnan vorvindar um heiðar á vit þín gróðurjörð. Þeir hrista mold úr dróma og dvala vetrarneyðar um dal og fjallaskörð. Ég sendi þetta kvæði með vorferð sunnanvinda að verma feðrareit. Öll þekki ég mýrasundin, merkisteina og rinda og móbörð undirleit. Munið að þeir sem fóru eru í vorsins vindum sem verma sinubörð, þótt lengi hafi þeir amlað annarra manna kindum um önnur Gönguskörð. Reykjavík, 5. maí 1983 Núna eru landsins börn í prófum. Þús- undum saman, lítil og stór og sum jafnvel roskin sitja þau yfir bókum til að lappa upp á þann þekkingarforða, sem þau hafa heyj- að að sér í vetur. Undirstaðan er misgóð, eins og gengur og fólk á misjafnlega mikið í húfi. Sumir eru á síðasta snúningi og árangur prófanna getur skipt sköpum fyrir framtíð þeirra. Öðrum er það kappsmál að bæta við síðustu einkunn og halda sess sín- um í bekknum. Enn aðrir segjast ekki nenna að lesa og treysta á guð og lukkuna, en sjálfsagt er þeim ekki rótt. Flest er þetta fólk þjakað af prófstreitu, sem verkar hvetjandi á suma, letjandi á aðra og svo má um það deila, hvort nettóniðurstaðan ergóð eða slæm. Stundum hugsa ég með hálfgerðum hrolli til prófanna á menntaskólaárum mínum. Nóttina fyrir próf fór ég oftast úr sam- bandi, svo að mér kom ekki blundur á brá. Svo mætti maður hríðskjálfandi á taugum í prófið ognáði litlum tökum á verkefnunum. Vinkona mín ein var svo yfirkomin af streitu, að hún rauk upp í bullandi hita í flestum prófum. Aðrir sátu við lestur sól- arhringunum saman og héldu sér uppi á lútsterku kaffi og þrúgusykri, þar til eitt- hvað lét undan. Víst voru þeir til, sem virt- ust taka þessu öllu saman með stóískri ró, en þegar betur var að gætt voru þeir litlu betur á sig komnir en hinir. Skömmu fyrir stúdentspróf sagði einn kennarinn við bekkinn minn, að prófin hefðu ekki einungis þeim tilgangi að þjóna að kanna hvað við hefðum lært. Þau væru jafnframt undirbúningur undir þau átök, sem við ættum framundan í henni veröld. Hann sagði eitthvað á þessa leið: „Vitaskuld vildum við getað tekið á ykkur með silki- hönskum, og kvatt ykkur svo með veizlu, en ég er hræddur um, að það sé í litlu sam- ræmi við það sem þið eigið von á í lífinu. Þar verður ekki alltaf tekið á ykkur með silkihönzkum.“ Nú eru liðin 18 ár frá því að þessi orð voru sögð og flest höfum við komizt að raun um að lífið getur verið harðhnjóskulegt. Hvort prófin hafa gert okkur færari um að mæta erfiðleikum og taka áföllum, er þó mikið vafamál, og sé þetta viðurkennt hlut- verk skólans, er unnt að benda á aðrar leið- irheilladrýgri en þindarlausa prófavinnu. Ymsar viðkvæmar sálir hafa haldið því fram, að þær hafi beinlínis skaðazt af því gríðarlega álagi, sem próf höfðu í för með sér. Og til eru þeir, sem hafa beðið varan- legt tjón á geðheilsu sinni í próflestri, en það þykir mér nokkuð hastarlegur undir- búningur undir lífið. Hvað varð svo um alla þekkinguna, sem fólk sporðrenndi með kaffi ogþrúgusykri? Sumum nýttist hún til ágætiseinkunnar, en alltof mikið hefur síðan farið forgörðum vegna þess að til hennar hefur sjaldan þurft að grípa í daglega lífinu. Að sjálf- sögðu situr ýmislegt eftir, en of lítið miðað við þann tíma og það þrek, sem kröfur voru gerðar til. Þetta hripaði oftast nær niður úr minni, þegar eldraunum prófanna var lokið. Prófin voru nefnilega tilgangur í sjálfu sér, en ekki sú þekking, sem þau áttu að mæla. A þessum 18 árum hefur mörgu fleygt fram í skólamálum. Námið er yfirleitt hag- nýtara, nemendur hafa meira valfrelsi en áður var og virðast virkari við þekkingar- öflun en þegar gamla ítroðslukerfið var við lýði. Eitt hefur þó sáralítið breytzt. Það er áhrifamáttur prófanna. Enn þurfa nemend- ur að hesthúsa þúsundir blaðsíðna fyrir próf, muna ógrynni af nöfnum og smáatrið- um, reglum og undantekningum, sem þeir verða búnir að steingleyma, áður en þeir fá prófskírteinin sín afhent, hvort sem á þeim standa háar tölur eða lágar. Oft virðist það tilviljunum háð, hvort nemendur standast próf eða falla. Slíkar tilviljanir geta verið glópalán, óheppni, misskilningur eða mein- lokur ogýmsar afleiðingar þjakandi prófstreitu. Framtíð margra er undir þess- um tilviljunum komin. Hér er ekki verið að mæla með því að próf verði aflögð í skólum. Þau eru að sönnu mikilvæg fyrir margra hluta sakir, en margt bendir til þess að þau séu of fyrir- ferðamikil, afdrifarík og hafi of mikinn til- gang í sjálfu sér. í raun réttri eru próf umfram allt tæki til að meta þekkingu nemenda, og þau eru gölluð eins og flest tæki. í stað þess að einblína á árangur þeirra þyrfti að taka upp svokallað símat í miklu ríkara mæli, en í því felst að kennari meti vinnu nemenda jafnt ogþétt allan vet- urinn. Með því móti ætti að fást gleggra yfirlit yfir uppskeruna en í hinum hefð- bundnu prófum. Með því mótiyrði lögð auk- in áherzla á að kenna nemendum skynsam- leg vinnubrögð, en það er öllu heppilegri undirbúningur undir skóla lífsins en hrað- lestur og taugatitringur síðustu dagana fyrir próf. Gudrún Egilson 11

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.