Lesbók Morgunblaðsins - 08.10.1983, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 08.10.1983, Blaðsíða 7
Um miðstýringu framburóar Fyrri grein — eftir Kristján Árnason — Þar sem talsverðar umræður hafa farið fram að undanförnu í fjölmiðlum um framburðarmál íslensku og þar sem einatt er vísað til Heimspekideildar Há- skóla íslands og gjarna látið að því liggja að þar séu þeir sem allt eiga að vita og öllu stjórna án þess að gera það, langar mig að gera nokkrar athugasemdir, einkum í tilefni af grein Ævars R. Kvarans í Lesbók Morgun- blaðsins, og hugleiðingum Skúla Magnússonar í framhaldi af grein Ævars (Morgunblaðið 2. sept. 1983). Ástæðan til þess að ég sting niður penna er sú að ég hef starfað við þessa marg- nefndu Heimspekideild nokkur undanfarin ár og fengist þar við kennslu í málfræði, einkum þó hljóðfræði og því sem þar er oft kallað hljóðkerfisfræði. Enda þótt langt sé frá því að ég hafi nokkurt bréf upp á það að ég sé löglegur verndari íslensks fram- burðar né boðberi hinnar hreinu tungu, er mér málið að sjálf- sögðu náskylt, bæði sem kenn- ara og fræðimanni. Það er raun- ar með hálfum huga að ég hætti mér út í að taka þátt í blaða- umræðu um þessi mál, en vona þó að umræðurnar þurfi ekki að fara niður á það lágkúrulega plan hártogana, útúrsnúninga og svívirðinga sem svona blaða- skrif verða gjarna hér á landi. Það eru margar þarfar at- hugasemdir sem koma fram í greinum Ævars og Skúla. Þeir benda á, að enda þótt málvernd og málrækt hafi lengi átt upp á pallborðið með þjóðinni, hafi framburðinum verið heldur lítill sómi sýndur og lítið gert til þess að verja tunguna óheppilegum framburðarbreytingum. T.a.m. hafi ekki verið til nein opinber tilskipun um samræmingu framþurðar á líkan hátt og til séu reglur um samræmdan rit- hátt. Þetta er að nokkru leyti rétt. Eins og fram hefur komið, lagðist Heimspekideild fyrir margt löngu gegn því að gefnar yrðu út samræmdar reglur um íslenskan framburð. Hér var fyrst og fremst rætt um gam- algróinn framburðarmun eftir landshlutum hvort eitt væri betra eða fallegra en annað. Á sínum tíma skaut Heimspeki- deild sér undan því að fella úr- skurð í smáatriðum um þessi efni, e.t.v. af ótta við að móðga einhverja sem héldu upp á fram- burðarvenjur sinna heima- byggða. Raunar má segja að, að svo miklu leyti sem Heimspeki- deild felldi einhvern dóm, hafi hann verið í samræmi við al- menningsálitið í landinu. T.a.m. var hið svokallaða flámæli dæmt óæskilegt, en það var ein- mitt það framburðareinkenni sem hvað minnstrar virðingar naut í þjóðfélaginu. Ég er hér kominn að öðru meginatriði þess máls sem Ævar og Skúli flytja, sem sé þeirri skoðun að þörf sé á hand- leiðslu einhverra yfirvalda til þess að stjórna meðferð þjóðar- innar á tungu sinni, eins konar mállögreglu. Að sjálfsögðu tek- ur þetta til allra þátta tungunn- ar, og hefur um þetta verið rætt í sambandi við baráttu fyrir bættri málmenningu á öðrum sviðum en framburðar. Uppi hafa verið tvær stefnur, frjáls- lyndisstefna og aðhaldsstefna. Ér það þá svo að aðhaldsstefnan felur í sér að miðstýra skuli þróun málsins og helst sporna gegn of miklum breytingum. (Miðstýring felur þó að sjálf- sögðu ekki endilega í sér íhalds- semi. Hægt er að hugsa sér að með valdboði verði öllum sagt að breyta máli sínu í einhverja átt, frá því sem áður var.) Ég geri ráð fyrir að almenningsálit- ið hafi verið og sé í stórum dráttum frekar hallt undir að- haldsstefnu og íhaldssemi ábreytingar, þótt frjálslyndis- raddirnir hafi orðið háværari á síðari árum. Það hefur verið al- gengur hugsunarháttur, og er enn, að þartilgerðir menn sitji og læri íslenska tungu áratugum saman og útskrifist svo frá stofnunum sem mállögreglu- menn, sem gæta eiga fjöreggs þjóðarinnar og gefa vottorð upp á rétta og ranga málnotkun. Þessi einfalda lausn á varð- veisluvanda tungunnar hefur þann kost einan að hún er ein- föld og auðskilin. En flestir aðrir eiginleikar hennar eru nei- kvæðir að mínu mati. Þessi „lausn“ er þægileg og einföld fyrir þjóðina að því leyti til að hún getur sagt við sjálfa sig: „Ég er búin að fá til þess sérstaka menn að vernda tung- una mína. Þeir bera ábyrgðina, og ef eitthvað fer úrskeiðis þá er það þeim að kenna.“ Þetta getur orðið til þess að almenningur leggur sig ekki eftir því að meta sjálfur og hugleiða hvað í mál- farslegum efnum er æskilegt og hvað óæskilegt. Það er ekki hins almenna borgara að segja til um fott mál eða vont, hugsa menn. Ig hef lent í því að stæla við mann sem er í jafn ábyrgðar- mikilli stöðu og að vera þulur í ríkisfjölmiðli um það hvort það væri sérfræðingunum að kenna að talað væri vont mál í sjón- varpi og útvarpi. Ég lagði áherslu á ábyrgð þular. Eg vona að fáránleiki þeirrar hugmynd- ar að fela sérfræðingum varð- veislu fjöreggs þjóðarinnar sé svo augljós að ekki þurfi að eyða frekari orðum að því. Ég trúi því statt og stöðugt að ekki komi til þess að málfræðingarnir verði skotnir þegar tungan hefur spillst frekar en fiskifræð- ingarnir þegar þorskurinn hætt- ir að veiðast. Það er augsjáan- lega á einsks færi annars en al- mennings sjálfs að varðveita tungu sína, og tungan er fyrst og fremst á hans ábyrgð. En hvað geta þá sérfræð- ingarnir gert? Sumir segja að þeir eigi að móta hina opinberu stefnu í málverndarmálum. Annað sem þeir augljóslega geta gert er að fræða að svo miklu leyti sem þeir hafa meiri skiln- ing en aðrir á viðfangsefninu. Þeir eiga að reyna að útbreiða þá þekkingu sem þeir búa yfir og koma henni til sem flestra. Því betur sem landslýður er upplýstur um tungumál sitt, því færari ætti hann að vera um að meta þær hættur og vanda sem að því kunna að steðja. Varðandi það hvern þátt mál- fræðingar eiga að taka í því að móta opinbera málræktarstefnu leiðir í rauninni sama röksemd og sú sem nú var nefnd til þess að málfræðingar ættu alla jafna að vera betur til þess fallnir en aðrir að meta spurningar um málpólitík. Sem sé, að öðru jöfnu skyldi hafa málfræðinga með í ráðum þegar örlagaríkar ákvarðanir eru teknar um mál- leg efni. Það er þó ekki þar með sagt að þeir séu þeir einu sem þar eigi um að fjalla. Margir aðrir geta þar komið að góðu liði. Rithöfundar og skáld eru e.t.v. þeir sem næmasta tilfinn- ingu hafa fyrir málinu og ráða mestu um þróun þess. Sú hefur enda verið raunin að meðal ötul- ustu málræktarmanna hafa ver- ið menn sem hafa aðrar greinar en málfræði að sérgrein. Hér má nefna menn eins og Guðmund Finnbogason heimspeking, sem á sínum tíma gekk einna drengi- legast allra manna fram í ný- yrðasmíð. Um þetta atriði í máli Ævars og Skúla vil ég því segja það, að þótt ég viðurkenni að ábyrgð málfræðinga sé mikil í málverndarefnum, eru það aðrir menn sem bera ekki minni ábyrgð. Hér má nefna leikara, útvarps- og sjónvarpsmenn, skáld, kennara og blaðamenn. Fjöregg þjóðarinnar er ekki síð- ur í þeirra höndum en málfræð- inganna. Þeir eru með fjöreggið í höndunum og verða að vera þeir manndómsmenn að fara vel með það. Segir kannski einhver að það komi úr hörðustu átt af mál- fræðingur sé að firra sig ábyrgð á örlögum tungunnar og afsala sér valdi og áhrifum. Yfirleitt virðist stefna allra „sérfræð- inga“ vera sú að sölsa undir sig sem mest af ábyrgð og störfum og benda á gagnsemi síns starfs og halda því fram að enginn sé fær um að gera þetta eða hitt aðrir en þeir. Ég held þó að óhætt sé að segja að í mörgum tilfellum sé slíkt tal fram sett í atvinnu- og kjarabótaskyni fyrir viðkom- andi stétt. Ég vona að kollegar mínir fyrirgefi mér þennan vott af „óstéttvísi". Raunar held ég að þegar til langtíma er litið hljóti það að vera faginu í hag að það finni sér eðlilegan vett- vang, en ekki sé verið að þvinga það til starfa sem því henta ekki sérstaklega. Ég held sem sé að málfræð- ingar geri mest gagn með því að fræða um málfræði á sem allra lýðræðislegastan hátt og losa við fordóma og útrýma mis- skilningi um íslensku ekki síður en mannlegt mál almennt. Þá er komið að hlutverki há- skóla í þessu efni. Að mínu mati gera háskólarnir (H.í. og K.H.Í.) mest gagn með því að brautskrá víðsýnt og sjálfstætt fólk sem getur beitt þekkingu sinni og reynslu til þess að fræða um mál og auka skilning á málfræði meðal almennings. Öll stjórnun málfarslegra efna verður því auðveldari og skynsamlegri og ólíklegri til þess að leiðast út í öfgar og ógöngur, því almennari sem þekking á málinu og sögu þess er. Ég tel það þessvegna vera skyldu háskólanna í mál- verndarbaráttunni að leggja grundvöllinn að góðri þekkingu þjóðarinnar á tungumáli sínu. Þetta gera þeir best með því að efla þekkingu og þjálfun í málfræði og brautskrá fólk sem getur nýtt og útbreitt þekkingu sína vítt og breitt um skólakerf- ið og þjóðfélagið. Þetta tel ég miklu líklegra til árangurs en einhverjar véfréttarlegar yfir- lýsingar og ályktanir úr fíla- beinsturni einangraðra dómara í hæstarétti tungunnar. Hættan er sú að fyrir slíkum dómstóli fari eins og guði, þegar honum tekst einna verst upp, að vegir hans verða órannsakanlegir, þannig að fólkið missir skilning og trú á hann. Um það hvernig háskólarnir hafa gegnt og mega gegna þessu hlutverki mun ég ræða í fram- haldi þessarar greinar. Krístján Árnason er lektor rið heimspekideild Háskóla fslands. 7

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.