Lesbók Morgunblaðsins - 12.11.1983, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 12.11.1983, Blaðsíða 2
Jón Laxdal 1 navigi Einþáttungur í tveimur atriðum eftir Guðbrand Gíslason Viðtal við Jón Laxdal í tilefni af frumsýningu Þjóðleikhússins á verki hans „Návígi", en það verður frumsýnt í nóvember á litla sviðinu. Leikstjóri ásamt höfundi er Brynja Benediktsdóttir, en með hlutverk fara Róbert Arnfinnsson, Guðmundur Stefánsson, Borgar Garðarsson og Baldvin Halldórsson. Björn Björnsson gerði leikmynd og búninga, en Árni Bergmann sneri textanum úr þýsku. Persónur: Jón Laxdal: Góður miðlungsmaður á hæð, dökkhærður með svart skegg yrjað gráu, með gullspengd gleraugu á einarð- legu, rómversku nefinu og hangir keðja úr spöngunum á móts við gagnaugun og aftur á hálsinn og bendir til þess að hér fari maður sem hugsi oft um annað en að halda lausa- munum sem næst persónu sinni. Jón er frjálsmannlega klæddur í bláróndótta skyrtu með vasa framaná og þunna ljósa mussu utanyfir, hefur á ljósar buxur og eirbrúna skó. Hann er maður sem erfitt er að hugsa sér með bindi, og líkist helst listbróður sínum Peter Ustinov, án þess að hafa þó étið jafn gegndarlaust yfir sig um dagana og hann. Jón Laxdal er á þeim aldri þegar aldurinn skiptir ekki lengur máli, röddin er djúp og viðmótið alúðlegt eins og hjá mönnum sem eiga innistæðu fyrir hlýju sinni á sálinni en þurfa ekki að remb- ast til að yerða öðrum til geðs. Spyrill: Hann fiktar í sífellu við upptökutæki án þess þó að gera sér ljósa grein fyrir því hvað gera þarf til að koma því í gang. Púki: Stokkinn ofanaf fjósbitanum og hefur hreiðrað um sig í upptökutækinu og náð valdi á gangverki þess með þeim hryggilegu afleiðingum, að framvinda þáttarins er ekki með öllu hnökralaus: hann baular út úr tækinu mekanískri röddu þegar minnst varir og spillir gangverki þess þegar hæst lætur eða í þann mund sem aðalpersóna þáttarins segir eitthvað sem aðeins verður sagt einu sinni en aldrei aftur. Allar villur í þessum þætti hljóta því að skrifast á reikning púkans og frænda hans, prentvillupúkans. Fyrra atriði gerist á barnum á Hótel Holti snemma kvölds í bakháum stólum klæddum rauðu plussi innan um raðir af mannamyndum eftir meistara Kjarval, en hann er sá maður íslenskur sem hvað víðast hefur ferðast án þess að fara heiman frá sér; við barinn sjálfan standa fáir og hafa lágt enda á fyrsta glasi. Á borðinu fyrir framan plussstólana liggja tveir kaffibollar úr hvítu postulíni með rauðu rósa- munstri, hálffullir, stútmjó kaffikanna og pakki af filtersíg- arettum með amerísku tóbaki. Jón Laxdal er kominn til ættjarðarinnar aftur úr sveita- sælunni í Sviss og af sviðinu í Hamborg, kominn í þetta sinn til að setja á svið í Þjóðleikhúsinu (ásamt Brynju Benedikts- dóttur) verk sitt Návígi, en það skrifaði hann á þýsku og kallaði „Der Clinch oder Die Filmemacher" (kvikmyndagerð- armennirnir). Einnig heldur hann sýningu á málverkum sín- um í Norræna húsinu, því Jón Laxdal er ekki við eina fjölina felldur í listinni. Ljósmyndir: Ólafur K. Magnússon

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.