Lesbók Morgunblaðsins - 21.01.1984, Blaðsíða 12

Lesbók Morgunblaðsins - 21.01.1984, Blaðsíða 12
Eg hef þá tilfinningu hér, að hver maður gegni hlut- verki og skipti máli Sigríður Ella hefur hljóðfæri og æfir sig heima ílitla húsinu sínu á Grímstaðaholti — en börnin eru ekkert mjög hrifin af æfingunum, segir bún. snemma farið að vinna fyrir sér. Þetta var heilbrigt og gott líf. En þú minntist á uppeldi og inn- rætingu. Ég hef takmarkaða trú á þessum nútíma kenningum uppeldis- og félagsfræðinga um áhrif umhverfis og uppeldis. Ég held að við séum að verulegu leyti fædd með það sem við verð- um, enda kemur ótrúlega fljótt í ljós hjá börnum, hvernig krókur- inn beygist." „Fór hann snemma að beygjast hjá þér í þá átt sem verða vildi? „Já, mér er óhætt að segja það. Ég var alltaf syngjandi; hafði bara svona gaman af að syngja. Samt þótti ég alvörugefin og alls ekki eins skapgóð og mamma. Það er mikil guðsgjöf að vera skapgóður." „Kom þá einnig fljótt í Ijós, að þú hefðir góða söngrödd?" „Ég held ekki. Mér finnst ekki, að ég hafi haft sérstaka söng- rödd, en áhuginn var alltaf fyrir hendi og í útvarpsþætti, þegar ég var 7 ára, lýsti ég því blákalt yfir, að ég ætlaði að verða óperu- söngkona. Að sjálfsögðu vissi ég þá ekkert hvað það var. Þetta var bara ákveðið mál og þar komst enginn efi að.“ „Varstu svona opin og einlæg eins og þú ert nú?“ „Áreiðanlega ekki. Ég var af- skaplega feimin og er það reynd- ar enn. Kannski sést það ekki á mér núna, en ég finn það vel, ekki sízt þegar ég er búin að syngja og fólk kemur og þakkar mér fyrir. Þá verð ég feimin. En ég er það ekki á meðan ég syng. En vegna feimninnar var heil- mikið átak að stíga fyrstu skref- in útá sönglistarbrautina. Ég var þá 15 ára og mannaði mig uppí að hringja í Demetz og lét skrá mig í söngtíma." „Merkilegt að sumir skuli fædd- ir með svona gott hljóðfæri í háls- inum.“ „Jú, merkilegt er það að vísu. En það er ekki nóg að hafa rödd. Og það getur verið galli að hafa fallega rödd, þegar maður er að læra. Þá sættir kennarinn sig ómeðvitað við galla í söngnum." „En getur sú rödd orðið fögur að námi loknu, sem alls ekki var fal- leg fyrir?“ „Þetta er afstæð spurning. Það sem einum þykir fagurt, þykir öðrum ef til vill alls ekki fagurt; jafnvel ljótt." „En það er þetta með hljóðfærið í hálsinum, sem búið er að þjálfa og skóla með þindarlausum æfing- um og sjálfsaga svo árum skiptir. Eru ekki sífelldar áhyggjur af þessu dýrmæti?“ „Ef þú meinar hvort ég gangi um innpökkuð í trefla og með sífelldar áhyggjur af því, hvort ég fái ef til vill kvef á morgun, þá er það ekki svo. Satt að segja hef ég bara aldrei hugsað um þetta. En röddin er líkamlegs eðlis og stendur í sambandi við almennt líkamsástand. Þess vegna reyni ég að lifa rólegu lífi, borða vel og sofa vel. Þar að auki iðka ég daglega líkamsæfingar; stend meira að segja á höfði. Já, það er gott fyrir einbeitinguna að standa dálítið á höfði. Þetta hef ég gert alla tíð síðan ég var í fimleikum í Ármanni fyrir margt löngu. Ég var meira að segja í sýningarflokki þar. Mað- ur verður að halda sér í formi. En hljóðfærið eins og þú nefndir röddina, — ég hef ekki áhyggjur af því.“ „Svo eldist þetta hljóðfæri raeð söngvaranum og þar kemur að þú getur ekki bcitt því eins og áður. Finnst þér það skelfileg tilhugs- un?“ „Nei, sú tilhugsun skelfir mig alls ekki. Ég tel mig enn vera í framför og hugsa aldrei um það, að söngröddin bregðist mér ein- hverntíma, þegar ég verð gömul. Það er nógur tími til að hafa áhyggjur af því og kannski verð ég búin að fá nóg af söng þegar þar að kemur. Svo er þess að gæta, að söngvari sem hættur er að syngja, getur stundað kennslu ef hann vill áfram vera í náinni snertingu við sönglistarheiminn. Það er lögmál, held ég, að flestar raddir verði dekkri og þyngri með aldrinum. Og í nú- tímanum hefur orðið nokkur breyting, sem kannski er ekki til hins betra; að minnsta kosti ekki fyrir söngvarann sem mann- eskju og einstakling. Söngvarar endast nefnilega skemur nú en áður og þar kemur tvennt til. í fyrsta lagi stóð söngnámið leng- ur yfir, enda sungu menn þá allt til sjötugs. — I öðru lagi er söngvurum beinlínis slitið fljót- ar nú en áður og þar koma til sífellt auknar kröfur um magn raddar og sífelld, slítandi ferða- lög. Leiðin að markinu er misjafn- lega löng hjá söngvaranum og fer eftir því hverskonar rödd hann hefur. Dramatískir sópr- anar eru ekki fullmótaðir fyrr en hátt á fertugsaldri, en þeir geta líka enzt nokkuð vel.“ „Svo skiptir sálræna hliðin ugg- laust miklu máli?“ „Já, sjálfstraustið til dæmis. Það er afskaplega vont, ef sjálfs- traustið býður hnekki. í námi verður maður stundum að þora að syngja ljóta tóna til þess að geta fengið fagra tóna síðar. En það tekur á taugarnar fyrir mús- íkalskan mann að hlusta á slíkt og það er áreiðanlega auðveld- ara, ef sjálfstraustið er í lagi. „Þú kvaðst vera í framför og samt eru 19 ár síðan þú hélzt utan til framhaldsnáms. Finnst þér þú fyrst núna tilbúin að taka að þér hvað sem væri — og þá miða ég vitaskuld viö það sem þinni rödd bcntar að flytja?“ „Ég er tilbúin til þess núna, það er rétt. í hálft þriðja ár hef ég unnið mjög samvizkusamlega með kennara og þetta hefur ver- ið framfaraskeið. Fyrir 6 árum bauðst mér að prufusyngja fyrir einn af forráðamönnum Metro- politan-óperunnar í New York, en ég þakkaði fyrir gott boð og fannst sjálfri, að það kæmi ekki til greina. Ég var ekki tilbúin þá. Uppá síðkastið hafa svo barn- eignir komið til sögu og haft sín áhrif. Til dæmis bauðst mér að hlaupa í skarðið fyrir þekkta söngkonu á listahátíð í Alden- burg í Englandi og varð að af- þakka það boð vegna þess að þá var ég að eignast hana dóttur mína. Eftir að hún kom í heim- inn vann ég samkeppni á vegum Benson & Hedges og átti þá að koma fram á listahátíð, sem fyrirtækið efndi til. En þá var ég komin langt á leið að ganga með tvíburana og varð enn að af- þakka." „Mér hefur skilizt aft hver söngvari hafi sína hjátrú, sem felst ef til vill í aft bera ákveöinn hring eða eitthvaft sem fólk telur vernd- argrip. Kannast þú við það?“ „Ekki svo mjög, — ég er ekki hjátrúarfull. Og þó, — ég vil helzt vera í sömu fötunum á sýn- ingum og generalprufu ef vel hefur gengið þar. Það flokkast víst undir hjátrú. Aðrar reglur, sem ég fer eftir, flokkast fremur undir persónulega afstöðu, eða sérvizku. Ég á við að daginn sem ég kem fram, reyni ég að hafa allt í sem föstustum skorðum, — og borða vel. En ég gæti þess einnig að fara ekki of snemma, því það tekur á taugarnar að bíða eftir að maður er alveg til- búinn. Sem sagt: Ég er ekki mjög hjá- trúarfull, en ég er trúuð. Og ævinlega fer ég með bænirnar mínar áður en ég kem fram. Það gefur mér styrk. Ég trúi mjög á mátt bænarinnar.“ „Lætur ekki nærri aft þú sért búin að búa hálfa ævina erlend- is?“ „Það lætur nærri. Samtals er ég búin að vera 17 ár erlendis, en alltaf hef ég komið til íslands á hverju ári. í þessari útivist var ég lengst í Vínarborg, — það varð heill áratugur, sem ég var þar bæði við nám og vinnu. Á vissan hátt var ég orðin nokkuð rótföst í Vín. En þetta voru námsár og þau eru ólík öllu öðru. Samt gat ég ekki hugsað mér að setjast að í Vín fyrir fullt og fast. Til þess að njóta Vínar- borgar þarf maður nefnilega að vera annaðhvort ríkur — eða stúdent. Og flestir Vínarbúar eru hvorugt. Þessi meðalmennska, sem er svo ömurleg í stórborgum, er ekki til á íslandi nema í marg- falt minni mæli. Ég hef þá til- finningu hér, að hver maður gegni hlutverki og skipti máli. Líka er munur á hugsunarhætti, — að því leyti eru Austurríkis- menn líklega enn fjær okkur en Englendingar, sem ég þykist þekkja dálítið líka. Mér finnst til dæmis ógeðfellt í Vín, að allt er hægt með mútum. Ef fullt er í leikhúsi eða óperu, þá stingur maður seðli í hönd dyravarðar — og um leið verða sætin til. Ekki þarf nú meira en sæmilegan hring á fingri til að maður verði ávarpaður „Náðuga frú“ — en það væri áreiðanlega ekki gert annars." „En nú býrð þú í London, þegar þú ert ekki á Grímsstaðaholtinu. Finnst þér ekki England ljúft?“ „Mér finnst það svo ljúft, að það minnir mig ósjálfrátt á brjóstin á henni móður minni; hún er afskaplega barmfögur kona. Það er þessi mikla mýkt og mistrið í loftinu eykur á hana. Aftur á móti vantar kraftinn, sem býr í íslenzku landslagi. Og það er að minni hyggju meira en kröftug form, hörð og oft nokkuð köld. Það stafar orku frá þessu landi og mér finnst það eins og orkuhleðsla að koma hingað." „Svo það verður enginn orku- skortur hjá þér í íslenzku óper- unni. Hvernig er þetta hlutverk þitt í Rakaranum í Sevilla?" „Já, hún Rósína. Hún er aðal kvenhetjan í Rakaranum, bráð- ung, full af kvenlegum klækjum og prakkari í sér. Áratugum saman sungu þetta hlutverk ekki aðrar en sópransöngkonur. Fyrir mezzosópran er þetta erfitt hlut- verk; spannar allt raddsviðið og þær mezzosópran-söngkonur eru fáar, sem syngja Rossini yfir- leitt. Það er búinn að vera skemmti- legur tími á meðan við höfum verið að koma þessari sýningu saman; gott lið og bandaríski leikstjórinn, Franceska Zam- belli, er dugnaðarforkur." „Er ekki ástæða til að ætla að Rakarinn gangi til vors? Ætlar þú að dveljast hér jafn Iengi?“ „Mín ráðning nær til 6. marz og eftir þann tíma verður að gera aðrar ráðstafanir með Rós- ínu. Maðurinn minn er nú farinn utan til starfa og það er einfald- lega ekki hægt að búa sitt í hvoru lagi svo mánuðum skiptir. En þegar ég kem til London í marz, verður tímabært að setja niður allskonar grænmeti og kryddjurtir, sem við ræktum, því við búum eiginlega í sveit, þótt það sé aðeins 13 mílur frá Picca- dilly í miðri London. Af öðru sem framundan er má nefna Ijóðatónleika, sem ég held í London í júní.“ „Hvernig er staðið að því? Hef- ur þú sjálf útvegað þér hús?“ „Nei, það gerir umboðsmaður- inn. Án umboðsmanns væri ekk- ert hægt að komast áfram, enda er erfitt að ná í góðan umboðs- mann. Það eru margir um hit- una; samkeppnin er gífurleg. í þessum slag er hugsað nokk- uð langt fram í tímann. Og nú þegar er farið að hugsa fyrir ár- inu 1985. Þar er tvennt á döfinni hjá mér, en bezt að segja ekki neitt fyrr en búið er að skrifa undir samningana." Er óskadraumurinn fastur samningur hjá einhverri frægri óperu, svo sem Metropolitan?“ „Sá óskadraumur tilheyrir mér ekki. Mig dreymir um fram- ar öðru að vera góð söngkona, en tiltölulega frjáls og geta samein- að sönginn og fjölskyldulífið." 12

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.