Lesbók Morgunblaðsins - 27.09.1986, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 27.09.1986, Blaðsíða 10
Jappe Nilssen og Jens Thiis stóðu fyrir mikilli sýningu 100 málverka og 200 graf- ískra verka í Osló. Staðan breyttist í einu vetfangi því aldrei áður hafði ein málverkasýning hlotið aðra eins aðsókn í Osló né sala verið jafn grimm. En hvort það stóð í sambandi við hin erfiðu veikindi hans skal ekki sagt — ég tel það fremur ólíklegt en það hefur ef til vill hjálpað til. Munch varð svo glaður að hann bauð nokkrum vinum sínum og velunnurum til gríðarlegrar veizlu á Grand Hotel og stóð í símasambandi við veizlugestina frá sjúkra- beði sínum! Er Munch útskrifaðist af heilsuhælinu, var hann 46 ára gamall, og nú flytur hann loks heim, en er þó á báðum áttum. En raunin var sú, að hann var alkominn til átthaganna og lifir í Noregi það sem eftir er ævinnar, en hann átti heil 35 ár 'ólifuð, eftir að hafa sloppið úr þessari miklu þrek- raun. Hann gjörbreytir um lífsstíl og hættir að flakka um og umgangast listamenn, — hættir og allri neyzlu vímuefna, nema hvað hann fékk sér kampavín, er hann fór til tannlæknis! Hann hættir ekki aðeins að umgangast aðra listamenn í þeim mæli, sem hann gerði áður, heldur fylgist miklu minna með því, sem var að gerast í list Evrópu, sem var í hraðri umbyltingu sem Munch átti að hluta til þátt í. Hann einangrar sig frá umheiminum og tekur einungis við heimsóknum fárra útval- inna, lætur sér svo nægja að síðustu að jagast við ráðskonur sínar, þyrfti hann að tala við einhvern. Fyrir utan eftirmyndirnar mörgu, sem hann gerði af lykilverkum sínum, tekur hann að mála umhverfið og jafnvel pjóðleg- ar myndir. Hann er með margar vinnustofur í takinu, raunar eru þetta allt heilu húsin í nágrenni Osló, og á Kragerö sem og víðar. Fyrir átti hann draumahúsið við Ásgaard- strand, þar sem hann málaði margar sínar nafntoguðustu mynda. Það hús er í raun líkast veiðikofa samanborið við húsin er hann festi sér síðar. I stað þess að flakka á milli borga Evr- ópu flakkar hann nú á milli vinnuathvarfa sinna og málar af lífi og sál, jafnframt því sem hann ritar sitthvað í minniskompur sínar. Muneh var mjög vel ritfær og hefði vafa- lítið getað náð langt á ritvellinum, því að í rituðu máli var hann bæði hugmyndaríkur og frjór og athugasemdir hans skarplega fram settar. Það voru myndir fyrra tímabils listar Munchs, sem ollu um margt straumhvörfum í list Evrópu, voru sem löðrungar á eldri hefðir og þó eru þær einmitt raunsönn lýs- ing á samtíð hans. En menn þóla víst aldrei sannleikann um samtíðina, frekar en að menn þoli að horfast í augu við það, hvern- ig þeir líta raunverulega út í augum málarans — vilja hér frekar glansmynd af sér, — sína eigin ásköpuðu ímynd. Lengi vel ríkti vanmat á myndum Munchs, er hann gerði á þessu seinna tímabili sínu — mönnum fannst sem hann hefði gerzt innhverfur og snúið bakið við þróuninni, þar sem hann hafði staðið í fylkingarbrjósti. Ef til vill var Munch einmitt innhverfur í eðli sínu og notaði fyrrum vímuefnin til að brjótast úr einangrun sinni og blanda geði við fólk. Það rennir stoðum undir þá ágizkun, að það gekk á ýmsu í samskiptum hans við aðra listamenn, svo sem frægt er. Leiða má getum að því, að hann hafi feng- ið um sumt uppbót á sitt fyrra villta líf á þessu seinna tímabili listar sinnar — fengið útrás fyrir áskapað eirðarleysi er hann nú málar upp eldri myndir á öllu umbúða- lausari og skynrænni hátt en áður. Breytt mat á myndlist í sambandi við til- komu villta málverksins hefur í öllu falli aukið gildi þessara mynda Munchs og um leið stóraukið áhuga manna á þeim. Snilldartaktana átti Munch ekki síður en áður, en hann hugsar ekki í sama mæli um formfasta og hnitmiðaða uppbyggingu og fyrr. Með nokkrum undantekningum þó en allajafna eru myndir hans vel upp byggðar því að hann hafði þau atriði vel á hreinu, sjálfrátt sem ósjálfrátt. Hvað hið þjóðlega áhrærir verðum við að setja hér allt annan mælikvarða á hugtak- ið en flestir gera, því að hér var hvorki um að ræða almenna kortagerð umhverfisins né leit að vinsælum efnum. Munch var meiri málari í eðli sínu en svo, að myndir hans gætu nokkurn tíma orðið hversdagslegar eða í ætt við mynd- kotrugerð samtímans, þar sem sama þrönga myndefnið og keimlík form eru iðulega end- urtekin í síbylju með örlitlum tilfæringum. Hver endurtekning af hans hálfu fól í sér vissa endurnýjun. Hér liggur styrkur hans og mikilleiki, og auk þess endurnýjar hann um leið ýmislegt í norskri myndlist og ger- ist frumkvöðull að ferskri endurnýjun á veggmyndagerð. Á ég hér við veggskreyt- ingar hans í „Aulaen", hátíðarsal háskólans í Osló, svo og hinar stóru myndir hans af verkamönnum, þar sem hann ruddi braut nýjum kafla í norskri myndlist. Það, sem einkenndi Munch og list hans, var, að hann vildi alltaf vera í náinni snert- ingu við myndefni sitt, jafnvel þótt myndir hans væru jafn mikill myndrænn skáldskap- ur og lýsing á myndefninu sjálfu. Eða máski meiri raunveruleiki en raunveruleikinn sjálf- ur! Þetta kemur m.a. fram í því, að er hann hugðist mála myndefni, sem hann staðsetti hest í, þá festi hann sér einfaldlega einn, sem hann átti lengi og málaði margar fræg- ar myndir af. Hann hefur viljað geta klappað honum, þefað af honum, horft á hann frá ótal sjónarhornum og séð hann taka sprett- inn og leika sér . . . Myndefni Edvards Munchs spannaði vítt svið — hann tók sér- staklega fyrir lífsþróunina, lífið, ástina og dauðann, en ekki einungis skuggahliðarnar og sorgina svo sem margur heldur. Margar mynda hans búa yfir einhverju yfirskilvitlegu, dulrænni fegurð — fágætri stemmningu, er heldur skoðandanum hug- föngnum, grípur hann og gagntekur. Á safni einu í Þýzkalandi kom ég í heilan stór- an sal slíkra mynda, er byggðust á huglægri og skynrænni vitund og þar var ekki vottur af neikvæðri hugsun né þunglyndi. Þvert á móti óður til allífsins og gróandans. Slíkur er áhrifamáttur margra mynda Munchs, að ein mynd eftir hann í sal á safni megnar oft að grípa skoðandann sterk- ari tökum en allar aðrar, þótt um úrvals- myndir heimsþekktra snillinga sé að ræða. Hér er ferskur og þróttmikill norrænn andi á ferðinni, heiðríkja og birta í öndvegi ellegar djúpir, langir og dulrænir skuggar er skerast af máttugri birtu. — Víst er að listasagan er á stöðugri hreyfingu og nýbylgjan, eða villta málverk- ið hefur orðið til gagngerðs endurmats á seinna tímabili listar Munchs, og raunar lyft honum hærra í list aldarinnar en nokkru sinni fyrr. Komið mörgum til að skynja list hans á nýjan hátt. Sýningin í Norræna húsinu kemur frá Vestur-Þýzkalandi og er hluti sýningar, sem þar var í gangi og átti m.a. að varpa ljósi á tengsl Munchs og nýbylgjumálaranna og villta málverksins. Þessi tengsl voru m.a. tekin til meðferðar í sýningarskrá og þá einkum hvað varðar einn nafntogaðasta framúrstefnumálara Þjóðverja í dag, Georg Baselitz. Það þykir þannig upphefð að því að vera undir áhrifum snillingsins, en vel að merkja að viðbættum eigin og sterkum persónu- leika. Verður mér ósjálfrátt hugsað til Jóns Engilberts, sem fékk bágt fyrir hið sama á sínum tíma viðkomandi til lítils sóma svo og íslenzkum listavettvangi. Þeir Iistafjársjóðir, sem til sýnis eru í Norræna húsinu, lyfta íslenzku menning- arlífí enn hærra en hin nýafstaðna Picasso- sýning, en hér er þó ekki mögulegt að gera samanburð vegna eðlismunar. Þykir mér henta að ljúka greinarkorni þessu með því að vitna í eina setningu úr kompum listamannsins: „Náttúran er ekki eingöngu fyrir það, sem auganu birtist — hún er einnig hinar innri myndir sálarinnar — myndirnar á bakhlið augans." Það mætti einnegin halda áfram og orða hlutina líkt og Einar Benediktsson: „Hugann grunar, hjartað finnur löginn/heilinn greinir skemmra en nemur taugin." A Kragerb' hafði Munch útívinnustofu — fríluftsatelier — og þar snjóaði á gólfið eins og hér sést. "10

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.