Lesbók Morgunblaðsins - 14.03.1998, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 14.03.1998, Blaðsíða 8
NORÐURHLÍÐAR Eyrarfjalls séðar úr Eyrarodda. Lengst til vinstri sést í fjallið Klakk. Þar næst er Eyrarhyrna og Kórklettur framan í fjallinu, en yfir ber Steinahlíðarhaus og lengst til hægri eru Strákar. Undir fjallinu sjást bæjarhúsin á Hallbjarnareyri. GULLHÓLL. Á honum norðanverðum er jarðrask þar sem gripahús stóðu til skamms tíma. Á miðri mynd er Kórklettur í fjallinu og Sneiðings- gata hægra megin klettanna. ÚR EYRARPLÁSSI I ENGINN SKYLDI GRAFA í GULLHÓL EFTIR JÓN PÉTURSSON Eyrarpláss er á undirlendi norðanundir Eyrarfjalli. Þar er nú fátt sem minnir á horfið mannlíf en höfundurinn, sem ólst [ 3ar upp, minnist ekki síst hins dularfulla: foss- búanna, dysjarinnar sunnan við Kórkletta, álfabyggðar í Grásteini og Gullhóls á Efri-Hallbjarnareyri. r IEyrarsveit á nesi því er gengur norður úr aðalfjallgarði Snæfellsness og myndar Kolgrafarfjörð að austan en Grundarfjörð að vestan, rísa tvö ein- stök fjöll. Klakkur sunnar en Eyrar- fjall norðar. Bæði eru fjöll þessi ævafornar eldstöðvar, liðlega 350 m á hæð og tengjast með hæðardragi sem hallar til austurs og nefnist Bárarháls. Norðanundir Eyrarfjallinu er nokkuð und- irlendi og heitir það Eyrarpláss, mjög spillt af sjávargangi á umliðnum öldum, sérstaklega Grundarfjarðarmegin enda liggur það vel fyr- ir vestan- og norðvestanöldunni sem kemur úr mynni Breiðafjarðar, óbrotin frá opnu hafi. Þar sem landið nær lengst í austur við Kolgrafarfjörð kemur það saman í lágum klettahöfða, Eyrarodda, og myndar eyri, en eftir henni heitir sveitin og ein merkasta saga íslendinga er kennd við þá sem byggðu þessa Eyri, Eyrbyggja. Vígvélar landbúnaðarins, traktorinn og skurðgrafan, að viðbættri vegagerðinni hafa umbreytt svip landsins og máð út spor kyn- slóðanna á þessu svæði sem og annarsstaðar og hefur þá lítt verið hirt um hverju sé rutt úr vegi eða yfir mokað. Landið skal þurrkast og landið skal sléttast. Ennþá finnast þama minjar um löngu horfið mannlíf allt frá land- námsöld. Eru þær mestar við Kolgrafarfjörð- inn og í og við fyrrnefndan Eyrarodda. Þarna er landið mjög vel fallið til ræktunar, þurrt og sléttlent og bíður þess að verða umbylt og tætt sundur. Verður þá ef að líkum lætur ekki sneitt hjá þúst eða fornri hleðslu. Fyrir þann eða þá sem ólust upp í Eyrar- plássi fyrir 1950 verður einna mesta breyting- in að horfa nú yfir vel ræktuð tún og valllend- isgrundir þar sem áður voru mýrarflákar með kviksyndis keldum, dýjum og pyttum að við- bættum mógröfum. Svæði sem víða var illt yf- irferðar bæði fyrir menn og skepnur. Mýri þessi var vegna vatnsaga úr Eyrarfjallinu og frá uppsprettum við fjallsræturnar en hafði ekki framrás nema að litlu leyti vegna sjávar- kambsins sem er hærri en landið fyrir innan. Samfelldust var mýrin framan við Eyrarfjall- ið og skipti Eyrarplássinu í tvennt í byggðirn- ar uppi við fjallið og þeirra bæja er stóðu á þurrlendisræmu við sjóinn. Bændunum í EyrarpJássi var engin eftirsjá í mýrinni, en annað er með ýmsar tegundir fugla sem misst hafa kjörlendi sitt og veiði- svæði. Þá er gróður og smádýralíf fátækara eftir. Til eru þeir sem enn geyma með sér minn- ingar frá bernskudögum um ævintýr er gerð- ust á mýrarflákum þessum. Minningar um veiðiskap og slark í mógröfum og keldum. Heimur sem stöðugt gaf ungu auga tilefni til rannsóknar eða aðdáunar. Heimur athafnalífs og strits við töku mós og heyöflun. Þá verða þeim lengi minnisstæð vetrarkvöldin sem voru að leik á ísþaktri mýrinni þá er tungl bar fullt yfir Kórkletta og álfar áttu enn byggð í Eyrarstöpum. Mýrlendi þetta náði austast nokkuð inn fyrir túnið á Hallbjarnareyri þar sem taka við valllendismóar og holt. Heitir þar Kringlumýri og var aðalmótak Eyrarbænda. Þarna var mórinn harður og svartur og þótti hið besta eldsneyti. _ Fyrir neðan Eyrarbæinn var Eyrarveitan. Ágætis slægjuland og nokkuð þurrt. Yfir veituna og niður sjávarkambinn lá upphlaðinn vegur, kallaður Göngugarður. Meira mannvirki en nafnið bendir til því vel mátti fara um hann með kerru, sem og var gert til aðdrátta frá sjónum. Þá tók við mógrafarsvæði bæjanna í Eyrar- plássi fyrir ofan býlið Nýjubúð og var mórinn að mestu þurrkaður á holti sem hét Her- mannsholt. Holt þetta er nú horfið og komið í vegarstæði um plássið. Á tímum rútuferðanna fram í Eyrarpláss var þeirra endastöð og snúningsstaður á Hermannsholti. Þá kom Naustaflóinn, votlendur með slæm- um keldum þar sem fé tapaðist í árlega. Gegnum flóann rann Naustalækurinn að miklu leyti neðanjarðar en þó með götum í jarðveginum ofan á honum sem gátu verið varasöm. Lækur þessi endaði í litlu hópi við sjávarkambinn fyrir ofan Naustaklett sem þar er í fjörunni. Áll og silungur gekk í lækinn og var það mikil skemmtun að taka hann með höndunum og vildi þá ganga á ýmsu. Næst tók við Skallabúðaflóinn fyrir ofan bæinn Skallabúðir, grösugur og eftirsótt slægjuland enda mikið kríuvarp sem gaf góð- an áburð. Uppi í fjallinu, upp við fjallsbrúnina eru tveir einstakir klettadrangar með stuttu millibili, mikil og fögur náttúrusmíð og heita Strákar. Drangar þessir eru um 40-50 m háir og er austari drangurinn nokkuð hærri og reistari. Sjást þeir víða að og hafa verið mið sjómanna á grunnslóð við sunnanverðan Breiðafjörð um aldir. Sú sögn er til, að þá er sjö bræður búa samtímis á Skallabúðum munu Strákarnir steypast niður fjallsskrið- umar og flóann og eyða bænum. Vestast á mýrinni var Vatnabúðaflóinn og var hann langblautastur. Stóðu sláttumenn og rakstr- arkonur oft á tíðum í vatni upp að hné við heyskapinn. Á sléttum bala hjá litlum læk sem þama kemur niður brekkurnar var heyið borið á og látið renna úr því mesta vatnið áð- ur en það var bundið og reitt heim á tún og full þurrkað. I læk þessum rétt ofantil við núverandi vegarstæði var smá fossmyndun er hét Brekknendi, en hefur nú verið brotinn niður af vegagerðinni og er hoi’finn með öllu. Við Brekknenda var reimt og stóð fólki stuggur af staðnum allt fram á þennan dag. Gamli vegar- slóðinn lá fast upp að fossinum svo ferðamenn áttu mjög óhægt með að forðast staðinn. Draugur þessi eða fossbúi var í karlmanns- mynd og átti til að sækja á fólk sérstaklega þegar það var þarna eitt á ferð og jafnvel elta það langa leið. I dimmu haustveðri og komið nærri mið- nætti fyrir ekkert mörgum árum áttu tveir Eyrsveitungar leið þarna um. Annar á leið inn í Eyrarpláss en hinn úteftir. Þannig vildi til að leiðir þeirra mættust við Brekknenda. Sá sem var á inneftirleið, Sigurður Stefánsson, var heljarmenni að burðum á sínum yngri árum, víkingslundaður og hafði oft á orði að sig langaði að hitta drauginn og myndi hann þá ekki renna undan. Hinn var Guðmundur Guð- mundsson bóndi á Hallbjarnareyri, lágur maður og grannvaxinn. Báðir voru vissir um að þar væri draugurinn er þeir sáu grilla hvor í annan þar sem þeir fetuðu sig áfram á veg- arslóðanum við fossinn. Að Guðmundi sótti máttleysi við sýnina, en Sigurður sem nú fékk sitt langþráða tækifæri, óð þegar að Guðmundi, þreif hanu á loft og hugðist færa hann niður í götuna af því afli að viðskipti þeirra draugsins yrðu ekki fleiri en í þetta eina sinn. En í því er Guðmundur svífur til himins í heljar höndum Sigurðar rekur hann upp mikið óp og fyrir mikla mildi þekkir Sigurður röddina og rennur af honum ber- serksgangurinn svo lending Guðmundar verð- ur miklu mun mýkri en til stóð. Verður þarna við fossinn í náttmyrkrinu og þjóðtrúnni feg- insamlegur fundur tveggja vina. Annar fossbúi öllu meinlausari var við foss í Kálfadalslæk uppi á Eyrarfjalli þar sem koma saman Kálfadalur og Villingadalur en hann er gígur Eyrarfjalls, gróðurlaus með bröttum skriðum og á lækurinn upptök sín í honum. í brekkunum við fossinn, sem er nokkuð hár og aflíðandi, eru góð berjalönd og því voru það einkum börn við berjatínslu sem urðu fossbú- ans vör. Sögðu hann gráklæddan og vera huldumann. Meiri ógn stóð af dys nokkru sunnan Kór- kletta, sem er klettabelti norðan og framaní Eyrarfjallinu þar sem verður skarð í fjallið milli Eyrarhyrnu og háfjallakambsins. Tveir götuslóðar liggja úr skarðinu hvor sínu megin klettanna og niður á brekkurnar við fjallsræt- umar, Skarðsgata austar en Sneiðingsgata að vestan og er hún mun greiðfærari og oftast farin. Dys þessi er yfir smala frá Hallbjarnar- eyri en hann hafði lent í illdeilum og átökum við starfsbróður sinn, smalann frá Þórdísar- stöðum, út af landamerkjum bæjanna en lönd bæjanna koma saman á Báruhálsi þar sem heitir Vatnamýri og til fjallsins í norður. Á Vatnamýri var stundum heyjað í grasleysisár- um, seinast 1917 og 1918. Báðir lágu dauðir eftir átökin og er Þórdísarsmalinn heygður í norðurhlíðum Klakks. Tvö vötn eru þarna á hálsinum milli Eyrarfjallsins og Klakks. Bár- arvatn vestar og úr því fellur Bárará. Að- rennsli í Bárarvatnið kemur eftir gljúfri og giljum sem skerast inn í hlíðar Klakks norð- anvert og nefnast Draugagil. Þar uppaf, upp á fjallinu er lítil en hyldjúp tjörn, líklega forn gýgur. Tjörn þessi er fræg fyrir óskasteina sem þar fljóta upp á Jónsmessunótt eins og segir í þjóðsögum. Eyrarvatnið er austar og fellur Hjarðarbólsá úr því, en hún er landa- merki milli Hallbjamareyrar og Hjarðarbóls. Veiði er í vötnum þessum þótt lítil séu, nánast tjarnir, og var hægt að fá nokkra veiði í Eyr- arvatninu því sjóbirtingur nær að ganga í það hindrunarlaust. Hvað sem líður sannleiksgildi sagnarinnar um smalana, en skýring verður að vera á dysjunum, þá hafa átt sér stað landamerkja- deilur milli fyrrnefndra bæja þó þær hafi ekki verið mannskæðar nema í þetta eina sinn, því víst er að á seinustu öld var samankominn hópur manna á hálsinum með þáverandi sýslumann Snæfellinga í fararbroddi að setja niður deilur manna um landamerki bæjanna Hallbjarnareyrar, Þórdísarstaða, Arnarhóls og Hjarðarbóls, en lönd allra þessara jarða koma saman á þessu svæði. Þarna er grösugt 8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 14. MARZ 1998

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.