Lesbók Morgunblaðsins - 06.06.1998, Blaðsíða 19

Lesbók Morgunblaðsins - 06.06.1998, Blaðsíða 19
HRAFN SÆMUNDSSON SÍÐASTA RÓSIN Iiann sat á bakkanum og horfði út á vatnið þar sem fuglarnir stungu saman nefjum, hvítir og gulir og rauðir og fuglarnir dýfðu höfðinu oní vatnið til að sækja konfektmola handa elskunni sinni, því þetta var sá tími þegar þurfti að frjóvga eggin í hringrás náttúrunnar. Hann sat undir öspinni og hlustaði á raddir fuglanna á greinum asparinnar og hann hugsaði um vorið sem var liðið og hann mundi ekki eftir, því óminnisgyðjan hafði breitt slæðu yfír þetta vor. Hann sat á grænum bala á vatnsbakkanum og náttúran kom til hans í líki svansins sem hafði eitthvað til málanna að leggja og sagði það með sínu nefi og hann var lengi að skilja þann svanasöng. Og það var ekki fyrr en svanurinn skipti ham að söngur hans varð að ljóði um lífið og dauðann og þá staðreynd að meðan vorið kemur aftur syngur enginn sitt síðasta og eftir hamskiptin verður nýtt ljóð um annað vor sem fyllir loftið nýjum mildum þey. Pað vor blæðir í tíbránni og leggur vængina yfir síðustu rósina sem aldrei fölnar. EG VAKI YFIR YKKUR ______ÖRSAGA_____ EFTIR RANNVEIGU ÞORKELSDÓTTUR Húsið sefur. Það er vindur úti og rign- ingin lemur úthliðar hússins eins og hún eigi líf sitt að leysa. Húsinu er sama, það er upptekið af barsmíðunum sem eiga sér stað innan veggja þess. Fólkið á efri hæðinni er að rífast. Krakkarnir tveir liggja í rúmi sínu með sængina yfir höfðinu. Þau reyna af veikum mætti að útiloka hljóðin sem berast úr stofunni. Tár dettur niður á kodd- ann, og húsið finnur til. Þetta er gott fólk, en stundum er gott fólk slæmt, og þetta veit hús- ið. Hjónin hafa áður rifist en nú er meiri al- vara að baki. Húsið skilur ekki ástæðuna, enda er það bara gömul bygging, að vísu með sál eins og fólk er alltaf að tala um. En sálin mótast af hamingjustundum sem fólk á í hús_- inu, og ekki af neinu öðru. Húsinu líður illa. Á neðri hæð hússins sefur ung kona. Hana dreymir... Hún er hamingjusöm í húsinu. Húsið reynir að vernda hana frá hávaðanum að ofan, en mistekst. Hún vaknai- og liggur kyiT. Hún er ekki að heyra í hjónunum á efri hæðinni í fyrsta skipti. Hún veit eins og húsið og börnin sem liggja undir sæng, að brátt hefjast barsmíðar. Hún biður. Húsið biður og börnin biðja foreldra sína að hætta. Það er þögn. Maðurinn sér börnin sín stara á sig tár- votum augum, með sængina í annarri hend- inni. Maðurinn sér konu sína liggja saman- hnipraða í stofuhorninu. Hann grætur. Konan grætur, börnin gráta og unga stúlkan á neðri hæðinni grætur. Allir gráta nema húsið. Það finnur fyrir vanmáttarkennd. Þetta stóra hús, sem leyfir öllum, sem vilja, búa í sér, leyfir rigningunni að berja sig að utan, það getur ekki grátið. Það hætti að gráta einn daginn. Það man ekki hvort það var þegar gluggarnir voru teknh- úr og nýir settir í staðinn. Eða þegar það stóð tómt í nokkur ár. Eða þegar til greina kom að rífa það. Það man það bara ekki. Auðvitað átti það að vera stolt yfir nýju gluggunum. Stórir og nýtískulegir. Húsið varð alveg eins og hin húsin í götunni. Eða þegar það fékk hvíld í nokkur ár. Það skipti engu máli hvort húsinu væri kalt. Það hitar enginn upp gamalt ónotað hús. Húsinu þykir vænt um hjónin á efri hæðinni. Þau voru fyi-st til að flytja inn. Svo kom unga konan, og fólk- ið í kjallaranum. Fólkinu þykh’ vænt um hús- ið og talar um sál þess. Nú er húsið komið með sína réttu glugga. Því er alltaf heitt og það verður aldrei rifið. En hvað getur húsið gert fyrir fólkið? Ekkert nema veitt því skjól fyrir rigningunni og varðveitt hamingju- stundirnar um ókomna tíð. Því húsið verður hér, þegar allir aðrir eru farnir. Höfundur er fulltrúi og býr i Kópavogi. ÍVAR BJÖRNSSON FRÁ STEÐJA HLÍN í HERDÍSARVÍK Hún dáði hann alveg frá æsku og ást hennar rótum þar skaut. Hann átti’ hennar umhyggju’ oggæsku til enda á jarðlífsins braut. Hún hreifst af hans litríku ljóðum og lærði þau hvar sem hún fór og gladdist í hug sínum hljóðum því hann var svo frægur og stór. Hún gleymdi’ honum aldrei þau árin er eyddi’ hann í veraldar sveim. Með ellinnar sviða og sárin að síðustu kom hann þó heim. Hún barghonum, bjó honum skýli á berri og afskekktri strönd í vari frá umheimsins víli og varð honum líknandi hönd. Pó hyrfi hann til ókunnra heima í Herdísarvík átti’ hún skjól. Þar hamingju hafði’ hún að geyma og hjá henni átti hann stól.* * Hér er vísun til sagnar þess efnis, aS Hlín hafi beðið gesti, sem heimsóttu hana í Herdísarvík eftir lót Einars, að setjast ekki í tiltekinn stól, því að hann Einar sæti þar. Höfundurinn er kennari ó eftirlaunum. LEIÐIN HEIM ÖRSAGA EFTIR SÓLVEIGU RAGNARSDÓTTUR að var sem tíminn stæði í stað. Ég heyrði ekki lengur trén vaxa né fuglana syngja. Það var allt svo undur bjart og einhvers staðar í fjarska heyrðist ómur. Þetta var alveg örugglega rödd. Jú, þetta var rödd, rödd sálarinnar. Mér fannst hún segja: Þú ert þessa heims barn, rétt eins og trén og stjörn- urnar, þú átt þinn rétt. Hverjar sem vænting- ar þínar eru i erli lífsins vertu þá varkár. Mundu að lífið er þess virði að lifa því þrátt fyrir erfiðleika, fals og vonbrigði. Röddin fjar- aði út og Ijósið hætti að skína. En hversu varkár sem ég reyni að vera er það eins og að koma frá einum stað til annars og heyra að þú hafir verið þar en sért farinn. Förin heldur áfram niður á bryggju, í gegnum trjágarðinn. Þar nem ég staðar í porti, vegna regnsins. Það er eins og portið sé fullt af skuggum, minningum um einhvern sem er ekki þar lengur. Það hafði stytt upp. Ég leit til himins, það gat ekki verið stjörnubjartari nótt. Einhvern tíma hafði gamall afi minn sagt við mig að örlögin væru skráð í stjörnu- rnar og þegar hann dæi, myndi hann verða stjarna og gæta mín. Þar sem enginn var á ferli í trjágarðinum stóð ég mig að því að spyrja afa í stjörnunum að því hvort þetta væri satt með örlögin. Það var sem stjörnurn- ar blikkuðu mig, það var nóg. Ég settist á blautan bekkinn undir luktinni og horfði út á vatnið. Mér sýndist lítil kæna líða yfir það líkt og mannleg örlög rækju hana áfram. Síðan hvarf hún úr augsýn eins og sól- in þegar hún sígur í sædjúpin. Uppgjörið hélt áfram og ég sá að líf okkar er tvær samhliða götur, þar sem við göngum og göngum, hlið við hlið og getum ekki einu sinni náð hvort öðru í draumum. Þannig mun tíminn ekki leiða neitt í ljós. Ef ég bara gæti sagt þér það, þá myndi ég láta þig vita. Luktin barðist til, það var farið að hvessa. Ég gekk af stað heim og gaf mér tíma til að horfa upp til stjarnanna og minnast orða spá- mannsins um að snúa heim að kvöldi með þakklátum huga og sofna með fyrirbæn í hjarta og lofsöng á vörum. I gleði hafði ég skoðað huga minn og séð að það sem hafði valdið hryggð minni gerði mig glaða. Þegar ég varð sorgmædd skoðaði ég huga minn aft- ur og sá að ég grét vegna þess sem var gleði mín. Það er því satt að systurnar sorg og gleði ferðast saman að húsi þínu. Þegar önnur situr við borð þitt, sefur hin í rúmi þínu. Ég var komin heim. Höfundur er nemi í Menntaskólanum ! Reykjavík. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 6. JÚNÍ 1998 1 9

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.