Lesbók Morgunblaðsins - 01.05.1999, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 01.05.1999, Blaðsíða 8
FRÁ fyrstu sinfóníutónleikunum á íslandi í Iðnó 1926. Jón Leifs stjórnaði Fílharmóníusveit Hamborgar. Við píanóið er eiginkona hans, Annie Leifs. mánuðum saman, áður en ég samdi mitt fyrsta tónverk. Gat ég bætt einhverju nýju við? Gat ég slegið nýjan tón? Þetta voru ögrandi spurningar og lögðust á mig eins og farg. Sá sem ekki gæti bætt einhverju nýju við, hefði ekki leyfí til að fara inn á þessa braut. Svo sagði ég við sjálfan mig, þegar ég átti í mesta sálarstríðinu, aðeins tvítugur að aldri: „Ja, nú skaltu semja eitt verk. Það getur verið prófsteinn." Og þá fór ég að leita og leita og reyna að svara þeirri áleitnu spurningu, hvort við Islendingar ættum ekki eitthvert efni eins og aðrar þjóðir, sem mætti endurnýja og vinna úr nýja tónlist, einhvern neista, sem gæti tendrað það stóra bál. Þá opnaðist fyrir mér heimur þjóðlaganna og ég þóttist kominn í tæri við lögmálin: Safn Bjarna Þorsteinssonar vísaði veginn, þó það væri gallað; hann sópaði inn í það öllu, sem hönd á festi, eins og þú veizt, svo úr varð ein heljarmikil hrúga. Það varð okkar hlutskipti að róta í þessari hrúgu. Það var erfítt verk og tímafrekt, en eftirtekjan sýnir, að það hefur borgað sig. Þarna voru lögmálin - þessi arfur, sem engin þjóð getur án verið. Tilviljun sennilega að ég fann þau. En verður ekki margt af því stórkostlegasta til fyrir tilviljun? Ég held, að Jón Sigurðsson hafí farið út í pólitík af einskærri tilviljun. Var hann ekki fræðimaður og bókavörður í Kaupmannahöfn? Svo fær hann alla þessa pappíra, skjöl og handrit upp í hendurnar, og hann sér í einni svipan, hvernig á að endurreisa Island; það er eins og örlögin bókstaflega skipi honum að hefjast handa. Svona er það með okkur hina líka. Sibelius ætlaði að verða fíðluleikari, en ekki tónskáid.“ „Hendingin hefur þá gert þig að tónskáldi?“ „Já, ætli það ekki. Þegar ég var í Þýzkalandi, skrifaði ég fóður mínum og sagði honum, að ég ætlaði að verða píanóvirtúós, dírigent, músíkrithöfundur og tónskáld. Hann skrifaði mér um hæl og sagði: „Ekki margt, heldur mikið. Þú skalt takmarka þig við eitt af þessu.“ Ég átti erfítt með að fallast á þetta sjónarmið, en reynslan hefur kennt mér, að hann hafði á réttu að standa.“ „Faðir þinn -?“ „Já, hann hét Þorleifur Jónsson og var póstmeistari hér í bæ. Hann var ritstjóri Þjóðólfs um tíma og hafði gaman af bókmenntum, en ég veit ekki til þess að það hafi verið nein tónlist í honum. Hann er göfugasti maður, sem ég hef þekkt, en hann var kannski of góður við mig. Ætli það hafí ekki veikt mig? Ég veit það ekki. Hann leyfði mér að fara til Þýzkalands, þegar ég var 17 ára. Þá var ég í 4. bekk Menntaskólans og skrópaði heilan dag til að þvinga fram leyfi foreldra minna til utanfarar og tónlistarnáms. Ég grét fram undir kvöld. Þá kom faðir minn til mín og sagði: „Ef þú tekur prófið í vor, skulum við sjá til, að þú færð að fara út í haust.“ Ég vissi þetta var samningur okkar á milli - og hann braut ekki samninga. En ég hefði aldrei getað stúderað tónlist, ef móðir mín hefði ekki stofnað verzlun og stutt mig. Hún heitir Ragnheiður Bjamadóttir. Hún fékk lánaðar 5 krónur hjá pabba og stofnaði Silkibúðina með Kristínu Sigurðardóttur 1908. Þú ættir heldur að tala við hana. Hún er fjölfróð og minnisgóð, þó hún sé orðin 85 ára. Hún er dóttir Bjama á Reykhólum - ja - há, það er nú svo. Afkomendur hans era orðnir um 400, þrekmikið fólk, og ég gæti hugsað mér, að Egill sé ættfaðirinn. Bjarni var breiður maður og þrekinn með digi-an háls eins og Egill." „Það er víst bezt að tala virðulega um jafnstóra ætt, svona rétt fyrir kosningar.“ „Já, það má vera. Þið hugsið allt í pólitík. Annars stendur til, að við endirreistum Reykhólafélagið. Það verður eins konar ríki í ríkinu, eða kannski keppinautur Frímúrarareglunnar. Þegar Reykhólafélagið hefur verið endurreist, verður ómögulegt að vita, hver stjórnar landinu." „Manstu eftir Bjarna afa þínum?“ „Já, já. Hann var merkismaður. Þegar hann fór með afurðir sínar á haustin í kaupstað, hef ég heyrt sagt, að hann hafi Ijaldað sjálfur og selt þær, en hvorki farið til kaupmannsins né kaupfélagsins. Hann var sjálfstæður, karlinn, og óhræddur, eins og menn eiga að vera.“ „Ég hef stundum heyrt, að Reykhólaættin sé, ja, svona dálítið gefin fyrir peninga." „Jæja, hefurðu heyrt það? Kannski það sé fjáraflafólk, ætli það?“ „Sumir segja, að þú hafir erft fjármálahæfileika þína úr þeirri ætt.“ „Ég hef enga slíka hæfileika. Ég hef aðeins hæfileika til að leggja mig niður við ýmislegt, sem ég vildi helzt ekki koma nærri. Stef er erlent kerfi, og ég hef ekkert gert annað en skipuleggja það hér á landi. Kannski hef ég einhverjar skipulagsgáfur, ég veit það ekki. Ég fór út í þetta til að verja réttinn, og af því við höfðum ekki efni á að ráða lögfræðing í fullt starf. Ég varð að læra frönsku til að geta rekið Stef. Ég hafði gaman af því. Maður yngist upp af að læra ný mál. En veiztu hvernig Stef varð til? Nokkrir höfundar sátu á veitingahúsi í París við mat og drykk, en gátu ekki borgað, þegar til kom. Þá sagði einn þeirra við veitingaþjóninn: „Ja, hvað eigum við að vera að borga? Þið spilið okkar lög og syngið okkar vísur án endurgjalds,“ - og svo fóru þeir allir út. Gestgjafinn stefndi þeim, en tapaði málinu. Höfundarrétturinn er þjóðarstolt Frakka, og þeir krefjast þess, að ekki sé talað annað tungumál á Stef- fundum en franska. Svona líta þeir nú á listirnar... En við vorum að tala um Reykhólaættina. Við Hans Þórðarson leituðum um daginn að lögfræðingi í Reykhólaættinni, en fundum engan. „Það er góðs viti,“ sagði Hans.“ „Eigum við að tala um höíúndarréttinn," spurði ég. „Það er skoðun mín, að höfundurinn sé heilagur maður,“ svaraði Jón Leifs ákveðinn. „Hann vinnur starf sitt oftast án vonar um ágóða, og þegar ágóðinn kemur, á hann að njóta hans.“ „Veiztu, að þú ert sennilega þekktari fjármálamaður en tónskáld hér á landi?“ „Já, það mætti svo sem segja mér. Fólk veit ekkert, hvað maður hefur verið að gera. Það skeður svo lítið í þessu landi, að fólk verður alltaf að hafa eitthvað ómerkilegt til að tala um. Ég hélt, að segulbandsmálið væri t.d. smámál, en vissi ekki fyrri til en það var orðið eitt af þessum viðbjóðslegu „stórmálum", sem taka allan tíma manns og koma í veg fyrir, að maður geti sofið eins og séntilmaður. En hérna geturðu séð skrá yfir tónverkin mín. Þetta er ekki svo lítið. Samt er þetta aðeins þriðjungurinn af því, sem ég hefði getað afkastað, ef ég hefði t.d. orðið þjóðgarðsvörður. En þjóðfélagið hefur ekki haft vit á að beizla þá orku, sem í mér býr.“ „Hefðirðu viljað láta beizla þig?“ „Nei, auðvitað ekki. En ríkið á að stuðla að því, að ég geti beizlað mína eigin orku í þágu þess. Með andans brandi verður sigrað, líka í landhelgismálinu. Orka listamannsins á að vera okkar landvarnarráðuneyti. Það þætti ekki fínt að ráðast á páfann. Hitler bannaði Chopin, en hann lifir, rússneski zarinn, bannaði Finlandia eftir Sibelius, að minnsta kosti mátti ekki leika verkið nema undir nafninu Forleikur, en Finalandia verður aldrei sigruð, og enn hafa Rússar ekki þorað að gleypa Finnland eins og Ungverjaland. Ætli Sibelius eigi ekki meiri þátt í því en margur hyggur? Annars vil ég ekki tala um pólitík. Ég veit samt, að list getur aldrei orðið eins alþýðleg eins og nazistar og kommúnistar vilja. Allar tilraunir í þá átt hljóta að mistakast. Andinn er sterkari en ofbeldið. Listin er aristókratísk. Hún getur ekki dafnað nema það sé auðvald á bak við hana. Það sýna fornar bókmenntir okkar. Þær hefðu aldrei verið skrifaðar, ef ekki hefði staðið sterkt auðvald á bak við þær. Það þurfti skinn af 120 kálfum til að skrifa á meðalsögu, hefur Jón Helgason prófessor sagt mér, 120 kálfar - allt okkar stolt! - Það var enginn ölmusumaður, sem átti svoleiðis bústofn. En auðmennirnir þurfa að vera menntaðir, og þeir eiga að standa djúpum rótum í gamalli menningu og hafa hæfileika til að skynja það, sem er stórt í nýju listinni. Þeir eiga að líkjast gömlu höfðingjunum og vera stoltir fyrir hönd þjóðar sinnar og þeirrar menningar, sem hún á. Mér mislíkar eitt við ykkur sjálfstæðismenn. Þið segizt vera aristókratar, en samt hafið þið ríka tilhneigingu til að dekra við skrílinn, ekki síður en hinir. Þið eigið að horfa af háum sjónarhól og segja: „Endurreisn Islands misheppnast, ef auðmennirnir taka ekki þátt í henni. Ríkið gerir aldrei stóra hluti. Hvernig hefði farið fyrir Beethoven, ef ríkið hefði átt að ráða örlögum hans? Þá hefði ekki komið neinn Lichnowsky fursti til Bonn að sækja hann og fara með hann til Vínar í þá aristókratísku salona, sem þar voru. Ef Beethoven hefði lifað núna, þá hefði hann aldrei skrifað annað en 8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 1. MAÍ 1999

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.