Alþýðublaðið - 08.01.1997, Blaðsíða 7

Alþýðublaðið - 08.01.1997, Blaðsíða 7
MIÐVIKUDAGUR 8. JANÚAR 1997 ALtADUBLAÐD 7 m i n n i n g + Þegar mér er hugsað til Sigfúsar Daðasonar kemur æðruleysi hans fyrst upp í hugann. Allt fas Sigfúsar bar með sér að hann væri svo þaul- kunnugur lögmálum mannlegs lífs að ekkert gæti komið honum úr jafnvægi. Ég veit ekki hvaðan hon- um kom æðruleysið sem virtist um- vefja hann. Mér fannst ætíð sem það hæfi hann langt yfir allt hið hvunndagslega en skapaði honum um leið vissa fjarlægð. Því er það svo, að þótt ég telji vináttu okkar Sigfúsar hafa verið djúpa og ein- læga þá gerði ég mér ætíð grein fyrir því að myndi aldrei þekkja manninn Sigfús Daðason til fulln- ustu. En við það varð ég snemma sátt. Ég var hálfþrítug þegar ég kynnt- ist honum og þrjátíu ára aldursmun- ur gerði að verkum að samskipti okkar minntu stundum á sérlega gott feðginasamband. Þar ríkti hlýja og blíða en einnig gleði og kátína. í alvöruleysinu fórum við ekki var- lega með orð, sem urðu bæði mörg og gáskafull. Öðrum stundum tók- um við orð ekki upp í kippum. Sterkasta minning mín af sam- skiptum okkar snertir dauða góðs kunningja míns sem hafði þráð að lifa en látist langt um aldur fram. Ég var umlukin skelfilegri sorg sem ég hélt í barnaskap mínum að tím- inn gæti ekki læknað. Sigfús tók undir handlegg minn og sagði: „Þér líður ekki vel.“ Það var ekki spurn í orðum hans og ég vissi að hann ætl- aðist ekki til svars. Hann tók mig að sér þennan dag, eins og svo marga aðra daga, og ég man hversu gott mér þótti að vera í návist hans og hversu fegin ég var að fá að ganga með honum í þögn. Og um tíma gat ég hafið mig yfir sorg mína og sú hugsun kom til mín að ég ætti alltaf eftir að muna þessa stund og vera Sigfúsi þakklát fyrir að hafa gefið mér hana. En ég þakkaði honum aldrei. Stundum er of erfitt að þakka mönnum vináttu þeirra. En ég á honum ótal margt að þakka: þolinmæðina sem hann hafði með ákaflyndi mínu, hvatn- inguna sem hann veitti mér margoft og umhyggjuna sem hann ætíð sýndi mér. Fyrir þó nokkrum árum spurði ég Sigfús hvort hann tryði á dauðann. Hann leit á mig eins og hann væri að gefa mér færi á að draga spurn- inguna til baka. Ég setti upp þrjóskufullan svip sem átti að gefa til kynna að ég ætlaðist til svars. Hann sá við mér og svaraði með vangaveltum um hugmyndafræði páfans. Ég tautaði nokkur orð í full- vissu um vist í betri heimi og skáld- ið svaraði með umburðarlyndri þögn. Ég vil trúa því að í þetta eina sinn í samskiptum okkar hafi ég vitað betur. Ég hef ekki kvatt Sigfús Daða- son, bíð þess einungis að fá að heilsa honum á ný. Kolbrún Bergþórsdóttir Árin fyrir 1960 er ég hafði óvænt dottið inní hóp ungra skálda hér á götunum, heyrði ég kunningja mína tala af sérstakri virðingu um mann nokkurn úti í París og væntanlegur væri hingað heim. Þessi maður var Sigfús Daðason sem þá hafði gefið út eina ljóðabók, en dvaldist um skeið við nám í Frakklandi. Svo Sigfús Daðason F. 20. maí 1928. D. 12. desember 1996 8BB mikil var virðingin að sumir lækk- uðu róminn þegar Sigfús barst í tal. Sigfús kom og árið 1959 birtist veigamesta frumsamda bók hans Hendur og orð og þótti mikill feng- ur. Sigfús varð ritstjóri Tímarits Máls og menningar eftir heimkom- una og reyndar var sagt að Kristinn E. Andrésson hefði útnefnt hann eftirmann sinn hjá útgáfunni einnig. Ungir menn birtu gjarnan ritverk sín í Tímaritinu og höfðu því oft viðkomu á skrifstofum þess. Er ég var spurður hvort ég hefði hitt Sig- fús og kvað nei við, var ég eindreg- ið hvattur tilað láta af því verða. Það var því með nokkuð hálfum huga að ég knúði loks dyra hjá Sig- fúsi, því ég vissi ekki hversu slík- um manni líkaði að vera truflaður við störfin af mér. Sá uggur hvarf um leið og dyrnar opnuðust, enda skemmst frá því að segja að varla hefur mér í annan tíma verið tekið af svo kurteislegri hlýju af ókunn- ugum manni. Ljóð Sigfúsar og önnur ritverk hans bera vandað svipmót franskrar hugsunar og evrópskrar heimspeki í ríkara mæli en hér þekktist og segja má að hann hafi jafnvel borið þau sömu einkenni utaná sér og í fari sínu. Hann var líka óvenju heill maður og sjálfum sér samkvæmur á alla lund. Ekki fór svo að Sigfús yrði arftaki Kristins hjá Máli og menningu. Hann hraktist þaðan eft- ir ágæt störf við Tímaritið og tel ég það ómældan skaða. Hann vann síðan við þýðingar og kennslu og rak um skeið eigin bókaútgáfu. Þýðingar Sigfúsar bera sömu ein- kenni og annað sem hann sinnti. Að öðru ólöstuðu þykir mér mest um vert vandaða þýðingu hans á Út- legðarbálkum Saint-John Perse sem út kom árið 1992. Sigfús var aldrei heilsuhraustur og stríddi við erfið veikindi síðustu árin. Við og við gafst þó tækifæri tilað mæta honum á götu og skiftast á nokkrum mergj- uðum setningum. Síðast hitti ég hann í Bankastræti fyrir fáeinum vikum. Sá fundur var að því leyti sérstakur að báðir þögðu. Var líkt og undarlegur grunur flögraði um stéttina. Svo ýfti Sigfús hendi með þeim orðum að hann þyldi ekki að standa úti í kuldanum. Ekki skal ég reyna að meta það hér og nú hversu ræst hafi þær væntingar er menn gerðu sér við heimkomu Sigfúsar forðum. Mér sýnist þó að áhrif hans hafi orðið minni en efni stóðu til. Vafalaust eiga veikindi þar hlut að máli en fyrst og fremst sú menningarlega útlegð sem hann dæmdist til á síð- ari árum og hann bar með reisn ein- sog veikindin. Ég hygg þó að áhrif Sigfúsar eigi eftir að vara lengur en margt það sem meira hefur borið á í samtímanum. Hvað sem öllu líður hefur enn fækkað viðmælendum hér á götunum og enn myndast autt rúm sem ekki verður fyllt. Jón frá Pálmholti Sambandsstjórn SUJ Ákveðið hefurveriðað haldasambandsstjórnarfund SUJ laugardaginn 11. janúar. Fund- urinn verður haldinn í aðstöðu Alþýðuflokksins í Kópavogi, Hamraborg 14a, og hefst hann klukkan 14.00, stundvíslega. Fulltrúar skulu mæta eða boða forföll ella. Seturétt eiga framkvæmdastjórn, formenn félaga, auk eins fulltrúa félags fyrir hverja 50 félags- menn auk þeirra er starfa í málstofum sambandsins. Dagskrá: 1. Venjuleg fundarstörf. 2. Stofnfundur Grósku. 3. Önnur mál. Að fundi loknum mun Knattspyrnumót SUJ hefjast klukkan 16.00. Við hvetjum öll aðild- arfélög til að senda í það minnsta eitt lið sem skipað skal þremur leikmönnum. Nánari upplýsingar verða veittar á skrifstofu SUJ á milli 10-14.00 alla virka daga og 20-22.00 á kvöldin. Að lokum munu ungir jafnaðarmenn í Kópavogi standa fyn'r einhverri skemmtun um kvöldið. Kolbeinn H. Stefánsson Framkvæmdastjóri SUJ \

x

Alþýðublaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Alþýðublaðið
https://timarit.is/publication/2

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.