Morgunblaðið - 10.01.2001, Page 28

Morgunblaðið - 10.01.2001, Page 28
LISTIR 28 MIÐVIKUDAGUR 10. JANÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ FULLUR sigur. Frábært. Óska- draumur. Óvéfengjanlegt meistara- verk. Stóru orðin hafa ekki verið spöruð, hvorki í Danmörku né annars staðar í Evrópu til að lýsa nýjustu uppsetningu Bandaríkjamannanna Roberts Wilsons, sem leikstýrir, og tónlistarmannsins Tom Waits. Þeir félagar frumsýndu í Kaupmannahöfn í nóvember nýstárlega og magnaða útgáfu á 164 ára gömlu verki, Woy- zeck eftir Georg Büchner. Nú slást leikhús um alla Evrópu um að fá Betty Nansen-leikhúsið í heimsókn með sýninguna, því sýningarréttur- inn, hann verður ekki látinn af hendi næstu árin. Leikhúsáhugafólk ætti ekki að láta Woyzeck fram hjá sér fara. Þótt vissulega megi deila um ágæti þess að dubba gamlan harmleik upp sem söngleik velkist enginn í vafa um snilldargáfu Wilsons og Waits sem leikhúsmanna. Sýningin er lit- skrúðug og kraftmikil, tónlistin ber óvéfengjanleg höfundareinkenni Waits og viðtökurnar eins og áður segir einróma lof. Woyzek segir frá hermanninum Woyzek sem auralaus og auðmýktur, er tilraunadýr lækna, gengur af göfl- unum og myrðir unnustu sína, Maríu. Það er í senn harmleikur og þjóð- félagsgagnrýni en í höndum Wilson og Waits verður brjálæðið ráðandi. Alban Berg samdi óperuna Wozzek byggða á sögunni en hún á líklega fátt skylt með tónlist og textum Waits sem hann samdi ásamt konu sinni, Kathleen Brennan. Danskir áhorf- endur fá að njóta þeirra á frummál- inu, þar sem allir söngtextar eru á ensku, þótt leikið sé á dönsku. Það þykir ganga kraftaverki næst að jafnþekktur leikhúsmaður og Ro- bert Wilson hafi fengist til að setja upp nýtt verk og frumsýna í litlu leik- húsi í Kaupmannahöfn. En Betty Nansen-leikhúsið hefur ekki farið troðnar slóðir og Wilson langaði til að prófa eitthvað nýtt, svo heimsfrum- sýningin fór fram á Friðriksbergi í lok nóvember. Wilson hefur annars verið tregur til að tjá sig um uppsetn- inguna, sem hann segir þó hafa geng- ið mun betur en Black Rider, sem hann setti upp ásamt Waits í Ham- borg fyrir fáeinum árum. Wilson tengist þýsku leikhúslífi, hann starfaði þar á áttunda áratugn- um, hefur byggt tvær uppsetninga sinna á þýskum verkum og starfar þar. Er hann er spurður hvers vegna, er svarið hins vegar; ég veit það ekki. Hann segist ekki vilja tala um hlutina, heldur framkvæma þá. Viðtökurnar hafa verið betri en nokkur þorði að vona. Allir dönsku gagnrýnendurnir gáfu sýningunni fyrstu einkunn, sex stjörnur af sex mögulegum. „Sjaldan hefur existensí- alískur tómleiki verið kynntur af jafn fagurfræðilegum fullkomleika, og ég mæli eindregið með því að menn fari út á Friðriksberg og skelli meðvitund og skynfærum í hressilega hringekju sem vekur unað og óróa. Við ábyrgj- umst ekki örugga lendingu, segir í Extra Bladet. Og Jyllands Posten tekur í sama streng: „Ég hef aldrei séð svo fullkomna fagurfræðilega og töfrandi myndræna sýningu hér á landi. Og mun varla. Erlendir gagnrýnendur eru ekki síður hrifnir, gagnrýnandi Die Welt segir tónlistina næstum hafa verið eftir Kurt Weil og kollegi hans á Dag- ens Nyheter kallar sýninguna „óska- draum“. Fjölmörg erlend leikhús hafa óskað eftir sýningarréttinum en hann vill Betty Nansen-leikhúsið ekki láta af hendi næstu árin. Verði Woy- zeck sýndur erlendis, verði það á dönsku, með enskum söngtextum, eins og sýningin er nú. Eða mögulega á ensku. Það hefur hins vegar ekki dregið úr áhuga leikhúsanna og mega leikhús- unnendur, t.d. í Þýskalandi og Frakk- landi því eiga von á danskri heimsókn á næsta ári. Íslendingar, sem hafa lært dönsku frá blautu barnsbeini ættu hins vegar að íhuga að bregða sér í leikhús til Kaupmannahafnar. Woyzeck í fullu fjöri eftir hálfa aðra öld Woyzeck (Jens Jørn Spottag) og læknarnir (Morten Eisner & Hanne Uldar). Woyzeck (Jens Jørn Spottag) & kapteinn (Ole Thestrup). Richard Wilson (fyrir miðju), Kathleen Brennan & Tom Waits. Uppsetning Roberts Wilsons og Tom Waits á Woyzeck eftir Büchner hefur hlotið ein- róma lof. Urður Gunnarsdóttir brá sér í leikhús í Kaupmannahöfn. ÉG las nýlega merkilega bók þar sem lang- varandi sterameðferð og aukaverkunum henn- ar er lýst frá sjónarhóli sjúklings og læknis. Systurnar Eugenia Zukerman og dr. Julie R. Ingelfinger eru báðar heimsþekktar, hvor á sínu sviði. Julie er nýrnalæknir á barnadeild Massachusetts General Hospital (Mass Gen- eral) í Boston á austurströnd Bandaríkjanna en Eugenia er flautuleikari (hún var áður gift Pinchas Zukerman fiðluleikara og er móðir tveggja dætra hans), rithöfundur og vinnur auk þess að þáttagerð við bandarísku CBS-sjón- varpsstöðina. Sú síðarnefnda kom hingað til lands ásamt fleirum á vegum CBS sumarið 1994 til þess að gera þátt um Kristján Jóhanns- son óperusöngvara og kynntumst við þá lítil- lega og er það mér minnisstætt að hún sagði: My name is Eugenia (ég heiti Eugenia), Ím a writer (ég er rithöfundur) en ég svaraði: My name is Katrín, Ím a reader (ég heiti Katrín, ég les bækur). Við áttum skemmtilegt samtal en síðan hef ég lesið eina bók eftir hana, Taking the Heat, sem mér fannst góð og hlustað á nokkra geisladiska með flautuleik hennar, m.a. á einn sem heitir ARIA þar sem hún leikur þekktar óperuaríur ásamt Allan Vogel á óbó og Dennis Helmrich sem leikur á píanó (útg. Del- on International DE 3209 árið 1997). En nú að Prednisone! Eugenia veiktist alvar- lega árið eftir að hún kom til Íslands, fékk lang- vinnan lungnasjúkdóm sem kallast eosinophilic pneumonitis. Sá sjúkdómur nefnist á íslenzku lungnaíferð rauðkirninga eða rauðkirninga- lungnabólga en eina meðferðin sem hægt er að bjóða upp á við þeim sjúkdómi er langtíma- sterameðferð. Eugenia hafði verið veik í eina 4 mánuði áður en sjúkdómurinn greindist en ein- kennin lýstu sér þannig að hún átti varla til nægilegt loft í lungunum til þess að leika á flautuna og var það farið að há henni alvarlega við æfingar og á tónleikum. Þegar henni var sagt að hún yrði líkast til að taka stera að minnsta kosti í sex mánuði því að ekki væri upp á aðra meðferð að bjóða, og einnig að hún myndi verða fyrir aukaverkunum eins og að fitna og tútna út í framan, féll henni allur ketill í eld. Hún vissi auðvitað ekkert um stera þannig séð en hafði lífsviðurværi sitt af því að koma fram fyrir almenningssjónir, bæði sem flautu- leikari og í sjónvarpsþáttum. Þetta fannst henni því vera eins og dauðadómur yfir starfs- frama sínum og ekki batnaði það þegar litlar upplýsingar var að fá um það nánar hver auka- áhrifin gætu orðið. Það varð því verkefni systur hennar, læknisins Julie Ingelfinger, að leita uppi allar læknisfræðilegar upplýsingar en Julie hafði áratugum saman meðhöndlað fjölda sjúklinga með sterum og hélt sig vita allvel um hvað sú meðferð snerist. Henni kom að eigin sögn á óvart hve lítið hafði verið skrifað um aukaverkanir af sterum og líðan sjúklinga í langtímasterameðferð. Þó munu hátt í milljón manns í Bandaríkjunum þurfa á sterameðferð að halda á hverju ári. Í 10 mánaða sterameðferð tókst Eugeniu að verða sér úti um flestar þær aukaverkanir sem hægt er að hugsa sér. Hún tókst á við þær af viljastyrk en þó með svo miklum harmkvælum að hún ákvað í samráði við systur sína að þær skyldu skrifa bók sem gæti orðið öðrum, sem taka þurfa stera í langan tíma, að liði. Sterar, steroidar, prednisolon, prednis- one…..allt eru þetta nöfn sem ná yfir það sama, svokallaða glúkókortíkósteróída en það er efni sem nýrnahetturnar framleiða og er afar kröft- ugt bólgueyðandi efni. Ekki er átt við stera þá sem misnotaðir eru í sumum íþróttagreinum, þeir eru annars konar og kallast anabólískir sterar, heldur það kröftuga ofnæmisbælandi, bólgueyðandi en hættulega töfralyf sem notað er við mörgum alvarlegum sjúkdómum, svo sem asthma. liðagigt og ýmsum nýrnasjúkdóm- um svo eitthvað sé nefnt. Því er reyndar einnig beitt sem skammtímameðferð við vissum sjúk- dómum svo sem bráðaofnæmi og einnig eru sterar í ýmsum húðlyfjum en aukaverkanir þær sem fjallað er um í bókinni eiga aðeins við þá sem taka stera í töfluformi og í stórum skömmt- um að minnsta kosti í tvær vikur samfleytt. Systurnar skiptast á að skrifa um efnið og kemur skýrt fram hvor skrifar hvað. Eugenia lýsir líðan sinni, baráttu við sjálfa sig, persónu- leikabreytingu þeirri sem henni fannst hún verða fyrir, vonbrigðum, efasemdum og reiði, örvæntingu, ósigrum og sigrum, samskiptum við lækna og áhrifum alvarlegra veikinda á líf og starf. Julie, sem eldri systir, varð bæði að axla systurhlutverkið auk þess að vera læknir og lýsir hún því hve erfitt hafi oft verið að að- greina þetta tvennt. Í fyrstu vildi hún fá álit annarra lækna, þeirra beztu í Bandaríkjunum, á greiningu og rannsóknaniðurstöðum. Hún vildi vera samvizkusami góði læknirinn sem leitaði uppi alla helztu lungnasérfræðinga og sérfræðilækna á skyldum sviðum svo að syst- irin fengi beztu meðferð sem hægt væri að veita en gerði sér síðar grein fyrir því að ef til vill hefði hún gengið of langt hvað þetta varðaði. Hún segist einnig hafa lært að meta hve mik- ilvægt er að samband læknis og sjúklings sé gott. Eugenia skipti um lungnalækni fljótlega eftir að sjúkdómurinn greindist af því að fyrri læknirinn gaf henni ekki næga von að hennar áliti en sá nýi spilaði ef til vill um of á tilfinn- ingar hennar. Alla vega var það mat eigin- manns Eugeniu þegar hann var spurður álits eftir á. Bókin Prednisone hefur reyndar ekki verið þýdd á íslenzku en hún er án efa sá bezti leið- arvísir sem ég hef rekizt á um sterameðferð, bæði frá sjónarhóli læknis og sjúklings. Ekki sízt leiðbeiningar um það sem sjúklingurinn getur sjálfur gert sér til hjálpar. Margir Íslend- ingar lenda í því ár hvert að taka stera til langs tíma og finnst mér því sjálfsagt að vekja athygli þeirra á þessari ágætu bók. Fyrir lækna hefur heldur ekki verið um auðugan garð að gresja og efast ég ekki um að ýmislegt sem skrifað er í bókinni eigi eftir að koma þeim á óvart og að gagni. Leiðarvísir um sterameðferð BÆKUR F r æ ð s l u r i t „It may work miracles, but how do you handle the side effects?“ (Að ná tökum á sterameðferð, sem getur gert kraftaverk, en hvernig er hægt að ráða við aukaverk- anirnar?) Eftir Eugenia Zukerman og dr. Julie R. Ingelfinger MD. Útgefandi: St. Martińs Press, New York (ISBN 0-312-15502-6). 208 bls. 1997. „COPING WITH PREDNISONE“ Katrín Fjeldsted

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.