Morgunblaðið - 10.01.2001, Page 41

Morgunblaðið - 10.01.2001, Page 41
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 10. JANÚAR 2001 41 ✝ Jónína Brynjólfs-dóttir, húsfreyja á Ásvallagötu 40 í Reykjavík, áður í Traðargerði við Húsavík, fæddist í Austurkoti á Vatns- leysuströnd 12. sept- ember 1906. Hún lést í Landakotsspítala 31. desember síðast- liðinn. Foreldrar hennar voru Brynj- ólfur Sigurðsson, f. á Ásmúla í Holtum 10.11. 1871, bóndi í Austurkoti á Vatns- leysuströnd, síðar verkamaður í Reykjavík, d. 3.9. 1931, og Geir- þrúður Geirsdóttir húsfreyja, f. á Bjarnarstöðum í Grímsnesi 13.7. 1872, d. 15.2. 1961. Jónína var yngst þriggja systkina sem upp komust. Hin voru Sigurður Valdi- mar, f. 21.6. 1897, d. 30. ágúst 1984, og Kristín, f. 23.9. 1901, d. 30. ágúst 1984. Hinn 16.5. 1929 giftist Jónína Stefáni Halldórssyni sjómanni, f. 25.9. 1899 á Hallbjarnarstöðum á Tjörnesi, d. 9.11. 1940. Jónína bjó í Traðargerði á Húsavík frá 1929 til 1958 og frá þeim tíma í Reykja- vík. Jónína og Stefán eignuðust fjögur börn. Þau eru: 1) Bryndís, húsfreyja, f. 4.7. 1930, giftist Jóni Guðmundi Bern- harðssyni, f. 21.9. 1930, d. 20.8. 1998. Börn þeirra: Jóna Björg, f. 11.2. 1952, Stefán Ingi, f. 30.10. 1954, Bernharð Smári, f. 3.11. 1960, Bryndís Þóra, f. 13.8. 1962, og Guð- rún Katrín, f. 26.6. 1970. 2) Geir, lög- reglumaður, f. 12.3. 1932, d. 7.6. 1997. Barn með Erlu Hannesdóttur, f. 4.4. 1931, Jó- hanna, f. 9.10. 1951. Kvæntist Ólafíu Sigurðardóttur, f. 9.8. 1932. Börn þeirra: Sigurður, f. 16.8. 1953, Stefán Rafn, f. 16.2. 1956, Ívar, f. 16.2. 1958, og Geir- þrúður, f. 1.11. 1961. 3) Hörður, stýrimaður, f. 9.3. 1936, d. 26.1. 1984. 4) Stefán Örn, vélaverk- fræðingur, f. 15.2. 1938, kvæntur Gunnþórunni R. Þórhallsdóttur, f. 21.5. 1941. Börn þeirra: Stefán Geir, f. 15.10. 1960, Halla f. 1.12. 1965, Finnur, f. 14.10. 1969, og Rebekka, f. 9.5. 1971. Útför Jónínu fer fram frá Dóm- kirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30. Mig langar til að minnast ömmu minnar í fáeinum orðum. Amma Jóna var viskubrunnurinn í fjöl- skyldunni. Það var svo gaman að hlusta á hana fara með ljóð og málshætti og alltaf mundi hún þá jafnvel. Þegar ég var lítil og átti að gera málsháttaverkefni í skólanum hringdi ég oft í ömmu og hlustaði á hana fara með fjölmarga máls- hætti. Ég skrifaði þá upp eftir henni og fékk alltaf tíu fyrir verk- efnin. Amma mundi nefnilega svo marga málshætti sem öðrum voru gleymdir. Ég man hve oft amma talaði um La France-rósina lang- þráðu og þegar ég vann í garðyrkj- unni gerði ég ófáar tilraunir til að hafa upp á henni, en allt kom fyrir ekki. Ég mun halda leitinni áfram og þegar hún finnst ætla ég færa ömmu hana. Amma kom oft í mat til okkar á sunnudögum en það voru ákveðnir dagar þar sem samverustundir okkar voru orðnar að hefð sem erf- itt var að rjúfa. Síðasti jóladagur var því fremur óvenjulegur hjá fjölskyldu minni því amma var ekki hjá okkur. Við höfðum snætt saman á þessum degi síðustu þrettán ár og að málsverði loknum skiptumst við oft á ýmsum ljóða- brotum. Heimsókn til ömmu Jónu hefur einnig alltaf fylgt sautjánda júní. Allt frá því að ég man eftir mér fórum við til ömmu í mjólk og kökur. Þegar við systkinin vorum yngri óðum við inn til ömmu á þessum degi með þrjár uppblásnar gasblöðrur sem svifu um íbúðina meðan við hámuðum í okkur dýr- indis veitingar. Þegar við urðum eldri urðu heimsóknirnar fágaðri þar sem við sátum saman og spjöll- uðum í rólegheitunum. Fyrir rúmum tveimur mánuðum áttum við góða stund saman. Ég kom til hennar á spítalann. Fyrst spjölluðum við um daginn og veg- inn og þegar við höfðum rætt hann til hlítar þögnuðum við báðar. Ég hvíslaði að henni að mér fyndist stundum svo gott að sitja í þögn- inni og hún samsinnti því. Við sát- um því saman og nutum nærveru hvor annarrar. Ég mun ávallt geyma þessa minningu í hjarta mínu. Þó að líkami minn hafi brugðist við andláti ömmu með sorginni virðist sálin ekki hafa meðtekið raunveruleikann. Það er vegna þess að amma er ekki alfarin og hún mun ávallt búa í hjarta og minningum þeirra er kynntust henni. Amma hafði rætt þessi tímamót við mig í mörg ár og ég held við vitum báðar að dauðinn er ekki endalok. Hann er hluti af ferli lífsins og um leið byrjun á öðru til- verustigi. Sá sem eftir lifir deyr þeim sem deyr en hinn dáni lifir í hjarta og minni manna er hans sakna. Þeir eru himnarnir honum yfir. (Hannes Pétursson.) Elsku amma mín, það var alltaf svo gott að faðma þig og knúsa. Ég mun ávallt vera hjartakrúsin þín. Bryndís Yngvadóttir. Það eru ljúfar minningar sem koma upp í hugann þegar ég minn- ist Jónínu (Jónu) Brynjólfsdóttur sem var amma Jónu Bjargar konu minnar. Þær nöfnur voru alla tíð góðar vinkonur og á milli þeirra var sterk taug sem átti rætur frá þeim tíma er Jóna passaði þau Jónu Björgu og Stefán Inga bróður hennar í Traðargerði á árunum 1953-1958 þegar Bryndís móðir þeirra var að vinna á Húsavíkur- spítala. Þetta tímabil er umvafið ævintýraljóma sem oft var tilefni til upprifjunar og engu líkara en þar hafi verið heilt konungsríki með víðfeðmar lendur og fjöl- menna hirð þar sem amma Jóna var drottningin. Traðargerðisbýlið var ofan við Húsavíkurkaupstað á fallegu bæjarstæði. Þaðan var víð- sýnt yfir Skjálfanda með Kinnar- fjöllin í bakgrunni. Húsið frá 1904 var ein hæð með risi og kjallara byggt úr rekaviði en veggir úr torfi, grjóti og hvalbeinum. Um- hverfis voru grösug tún og bæj- arlækur rann austan við húsið. Jóna ólst upp á Vatnsleysu- strönd og gekk þar í barnaskóla og tók þátt í þeim störfum sem til- heyrðu lífinu við sjávarsíðuna. Á unglingsárunum fór hún í vist til Reykjavíkur þar sem hún gætti barna hjá kaupmannsfjölskyldu í Þórshamri við Templarasund og var sá tími henni mjög minnis- stæður. Á árinu 1928 var hún á leið í kaupavinnu með strandferðaskipi norður á Langanes og kynntist þá ungum myndarlegum manni, Stef- áni Halldórssyni, sem var að koma af vertíð frá Suðurnesjum. Þau felldu hugi saman og voru ári síðar gift af séra Bjarna Jónssyni dóm- kirkjupresti. Þau fluttu til Húsa- víkur og bjuggu í Traðargerði ásamt foreldrum Stefáns, þeim Ingibjörgu Stefánsdóttur og Hall- dóri Nikulási Sigurjónssyni. Stefán stundaði hefðbundinn sauðfjárbú- skap og gerði tilraunir með silf- urrefarækt. Hann fór til Noregs til að kynna sér slíkt eldi og einnig verkun á saltkjöti. Stefán var sjómaður og var stundum leitað til hans þegar véla- mann vantaði á sjó. Haustið 1940 tók hann að sér þrjá róðra með opnum vélbáti. Þegar kom að þriðja róðrinum var farið út í blíð- skaparveðri sem breyttist eins og hendi væri veifað í grenjandi stór- hríð og mikið brim. Í sjóferð þess- ari drukknaði Stefán en tveir báts- félagar hans komust lífs af. Nú stóð Jóna ein uppi með fjögur ung börn og þarf ekki að orðlengja að lífsbaráttan hefur verið hörð. Segja má að með þrautseigju og mikilli vinnu hafi henni tekist að halda fjölskyldunni saman. Hún hélt búrekstrinum áfram með kindur, kýr og hænur og seldi m.a. mjólk til Húsavíkurspítala. Haustið 1958 brá hún búi og flutti ásamt Bryndísi og hennar börnum til Reykjavíkur. Eftir komuna suður vann hún um tíma á Hrafnistu og síðan tók hún að sér umönnun á heimilum tveggja aldr- aðra kvenna. Hún bjó ýmist ein eða með Herði syni sínum og síð- asta aldarfjórðunginn á Ásvalla- götu 40. Fáum hef ég kynnst á lífsleiðinni með jafngott minni og Jóna hafði og átti það jafnt við um vísur, málshætti, frásagnir, símanúmer og afmælisdaga. Það var margur fróðleiksmolinn sem ég nam í öku- ferðum á milli Skólagerðis og Ás- vallagötu. Þá naut ég þess að leiða tal okkar að gamla tímanum og fræddist m.a. um dagleg líf við Vatnsleysuströnd í byrjun aldar- innar, um þjóðleiðina milli Reykja- víkur og Suðurnesja og margt fleira sem var mér til gagns og gamans. Ekki verður Jónu minnst án þess að rifja upp áhuga hennar á blómum og bóklestri. Þar skal sér- staklega nefna La France-rósina sem hún taldi fegursta rósa, með stóran bleikan blómknúpp og ynd- islegan ilm. Þessi rós átti hug hennar frá því að hún á fimmtánda ári fékk afskorna rós að gjöf. Seinna eignaðist hún rósina í potti sem glataðist þegar Jóna lá á Ak- ureyrarspítala 1954. Fyrir nokkr- um árum tókst mér að útvega stikling úr Grasagarðinum, sem virtist ætla að koma til en náði því miður ekki að festa rætur. Eftir það voru gerðar fleiri tilraunir og La France-rósin var óþrjótandi umræðuefni. Bóklestur var ein helsta ástríða Jónu og ræddum við oft lesefni hennar sem spannaði allvítt svið frá rómantískum ástarsögum til sagnfræðilegs fróðleiks. Þegar sjónin fór að daprast komst hún upp á lag með að hagnýta sér hljóðspóluþjónustu Blindrabóka- safnsins sem vikulega færði henni nýjar bækur sem stytti henni stundirnar. Jóna bjó á Ásvallagötunni fram á sl. sumar og kunni því sjálfstæði vel. Hún hefði ekki getað búið ein svo lengi nema til hefði komið hjálparhönd þeirra Stefáns Arnars og Gunnþórunnar sem sinntu henni eins og best varð á kosið. Að lokum vil ég þakka Jónu þann hlýhug og vináttu sem hún ávallt sýndi mér, Jónu Björgu og börnunum. Minningar um ótal- margar ljúfar samverustundir munu lifa með okkur um ókominn tíma. Yngvi Þór Loftsson. JÓNÍNA BRYNJÓLFSDÓTTIR ✝ Sturla Þór Frið-riksson fæddist í Reykjavík 10. maí 1983. Hann andaðist á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi að kveldi nýársdags, eftir nær fimm mánaða hetju- lega baráttu við af- leiðingar áverka er hann hlaut í flug- slysinu í Skerjafirði 7. ágúst 2000. For- eldrar hans eru Kristín Dýrfjörð, lektor í leikskóla- fræðum, f. 28.6. 1961, og Friðrik Þór Guðmundsson, blaðamaður, f. 22.9. 1956. Bróðir Sturlu Þórs er Trausti Þór Friðriksson, nemi, f. 13.11. 1979. Unnusta Trausta Þórs er Karólína Jóhannesdóttir, nemi, f. 2.5. 1980. Móðuramma Sturlu Þórs er Kristín Á. Viggós- dóttir, sjúkraliði, f. 6.1. 1939. Hennar foreldrar voru Viggó Loftsson, kokkur, og Kristín Þor- steinsdóttir (sem lifir barna- barnabarn sitt). Móðurafi Sturlu Þórs er Birgir Dýrfjörð, raf- virkjameistari, f. 26.10. 1935. Hans foreldrar voru Kristján Dýrfjörð, rafvirki, og Þorfinna Sigfúsdóttir, matráðskona. Föð- uramma Sturlu Þórs er Guðrún Sigurveig Jónsdóttir, húsmóðir, f. 12.7. 1934. Hennar foreldrar voru Jón Guðmundsson, yfirtoll- vörður, og Jóna Kristrún Jónsdóttir, húsmóðir. Föðurafi Sturlu Þórs var Guð- mundur Trausti Friðriksson, raf- magnsverkfræðing- ur, f. 11.6. 1920, d. 28.9. 1997. Hans for- eldrar voru Friðrik Þorvaldsson, fram- kvæmdastjóri Akra- borgarinnar, og Helga Guðrún Ólafs- dóttir, húsmóðir. Sturla Þór lauk grunnskólanámi í Hagaskóla. Eftir hlé í námi og störf hjá verktökufyrirtækinu Heimi og Þorgeiri og hjá P. Samúelsson (Toyota) skráði hann sig í Fjölbrautaskólann við Ár- múla, þar sem hann hugðist hefja framhaldsnám sl. haust. Þær fyr- irætlanir urðu hins vegar að engu 7. ágúst sl., er hann slas- aðist alvarlega í flugslysinu í Skerjafirði. Háði hann síðan kröftuga baráttu fyrir lífi sínu næstu mánuði og vann þá marg- ar erfiðar orrustur, með hjálp frábærs heilbrigðisstarfsfólks, aðstandenda og traustra vina. Stríðinu lauk hins vegar með ósigri að kveldi fyrsta dags fyrsta árs nýrrar aldar. Útför Sturlu Þórs fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 13.30. Elsku besti drengurinn minn. Ósköp munaði litlu að þetta tækist hjá okkur. Styrkur þinn og dugnaður kom mér ekki á óvart; þú varst oft og fyrir löngu búinn að auðsýna þessa eigin- leika. Bæði andlega og líkamlega. Nær fimm mánaða þrotlaus barátta við afleiðingar flugslyssins er að baki; þar vannstu ótal orrustur með aðdáanlegum árangri. Hvað eftir annað hristir þú af þér erfiðleikana, þannig að jafnvel bjartsýnasta heil- brigðisstarfsfólkið gapti af undrun. Í liðlega tvo mánuði héldum við að sig- ur hefði unnist, en þá hófst lokahrina, sem reyndist þér um megn. Ó hve sárt ég sakna þín, Stubburinn minn. Mikil reiðinnar býsn hvað þetta er bitur niðurstaða. Hefðbundin huggunarorð duga skammt. Það léttir hins vegar sorg- ina hversu mikill friður og fegurð var yfir ásjónu þinni eftir að baráttunni var lokið. Þú virtist sáttur og þá verð ég að vera það líka. Eitt af því sem einkenndi þig hvað mest í lifanda lífi var rík réttlætis- kennd. Augljóslega er sanngirninni ekki alltaf fyrir að fara í jarðlífinu. Ég vona að réttlætið sé þér að skapi hinum megin. Fallegur líkami þinn fær að hvíla milli Guðmundar afa þíns og Jóns langafa, með viðeigandi útsýni yfir Skerjafjörðinn og Borg- arspítalann. Ég bið að heilsa öllum ættingjum og vinum sem á undan þér fóru. Faðmaðu þau að þér og sömu- leiðis það unga fólk sem flugslysið hörmulega svipti lífi. Af ykkur er Jón Börkur nú einn á lífi og er vonin um góðan bata hans okkur nú enn mik- ilvægari en fyrr. Elsku besti Stulli minn. Hversu órækur vitnisburður um persónu þína felst í ástúðlegri og einlægri framkomu og frammistöðu þíns stóra vinahóps undanfarna mánuði. Þau hafa veitt okkur ómælanlegan styrk, sem við erum djúpt snortin yfir og ei- líflega þakklát fyrir. Einnig er fag- legur og persónulegur metnaður starfsfólks Borgarspítalans í þína þágu okkur ógleymanlegur. Ég er þess fullviss að þú ert áfram í góðum höndum og byrjaður að setja mark þitt á lífið hinum megin. Þú segir mér allt um það þegar við hittumst aftur síðar. Pabbi. Ég þakka öllum þeim sem komu nálægt björgun Sturlu, og þá sér- staklega hjúkrunarfólkinu og Hirti lækni, því allt þetta fólk gerði allt sem það mögulega gat til að hjálpa honum. Síðustu fimm mánuðir hafa verið endalaust erfiðir, en þeir hafa líka verið rosalega dýrmætir, því að þú, Sturla minn, fékkst að vita það hversu mikið allir í kringum þig elska þig. Þótt ég væri ekki búinn að segja bless við þig get ég sætt mig við það að þú vissir hversu mikið ég elska þig og mun ætíð gera. Sturla minn, það verður erfitt að gleyma fyrstu nóttinni eftir slysið, það er nokkuð sem ég óska engum manni að þurfa að upplifa. Þú gerðir hvert kraftaverkið á fæt- ur öðru og varst alltaf að koma lækn- unum á óvart með því að yfirstíga hvert áfallið á fætur öðru, en í lokin, fimm mánuðum seinna, varstu búinn með alla þá orku sem til var og meira en það. Svona lífsreynsla kennir manni að meta það sem maður á. Ég vildi óska þess að ég hefði lært það með öðrum hætti, en svona vildi guð hafa þetta og því er ekki hægt að breyta. Ég á örugglega aldrei eftir að sætta mig við þetta, en maður verður að læra að lifa með þessu. Sturla minn, við höfum deilt saman herbergi meirihluta ævi okkar. Ég þekkti þig út í gegn og vissi nánast allt um þig og þú allt um mig. Það er ekki fyrr en nýlega sem ég áttaði mig á því að þú hefur alltaf verið besti vin- ur minn. Þessa dagana hafa minningarnar um þig verið að streyma um huga minn. Það er sérstaklega ein sem er hvað sterkust, en það er hvernig þú brostir, þú áttir svo fallegt bros; svona bros sem smitaði út frá sér og fékk aðra til að brosa með. Þegar þú varst yngri var það enn sterkara því þá voru framtennurnar pínulítið skakkar. Þrátt fyrir öll veikindin þín náðir þú að brosa á ný, þú náðir að vera þú sjálfur og það er sú minning sem ég mun mest halda upp á þegar ég hugsa um þig. Fyrir þá sem þekkja ekki brosið þitt er nóg að skoða myndina sem fylgir greininni og sjá hvernig þú brosir með öllu andlitinu. Dauði þinn varð til þess að minna mig á það sem ég á, því stundum veit maður ekki hvað maður á fyrr en maður hefur misst það. Ég bið að heilsa afa og langafa. Takk, Sturla minn, fyrir allar þær minningar sem ég á um þig. Takk fyrir allt. Þinn bróðir að eilífu, Trausti. STURLA ÞÓR FRIÐRIKSSON Handrit afmælis- og minningargreina skulu vera vel frá gengin, vélrituð eða tölvusett. Sé handrit tölvusett er æskilegt, að disklingur fylgi útprentuninni. Senda má greinar til blaðsins í bréfsíma 569 1115, eða á netfang þess (minning@mbl.is). Nauðsynlegt er, að símanúmer höf- undar/sendanda fylgi. Nánari upplýsingar má lesa á heimasíðum. Það eru vinsamleg tilmæli að lengd greina fari ekki yfir eina örk A-4 miðað við meðallínubil og hæfilega línulengd — eða 2.200slög. Höfundar eru beðnir að hafa skírnarnöfn sín en ekki stuttnefni undir greinunum.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.