Morgunblaðið - 12.04.2001, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 12.04.2001, Blaðsíða 16
16 D FIMMTUDAGUR 12. APRÍL 2001 MORGUNBLAÐIÐ F JÖLMIÐLA- og tjáning- arfrelsi stendur á veik- um grunni víða í Evr- ópu. Um það vitnar nýleg skýrsla sem rædd verður hjá þingmannasamkundu Evrópuráðsins eftir páska. Þingi Evrópuráðsins þótti ástæða til að skoða sérstaklega hver væru starfsskilyrði fjölmiðla í álfunni vegna þess hve mikilvægu hlutverki þeir gegna í lýðræðisþjóðfélagi við að veita stjórnvöldum og valdamiklum öflum aðhald sem og til að stuðla að upplýstu almenningsáliti. Í skýrslunni (sjá www.human- rights.coe.int/media) er fjölmiðla- frelsi í Evrópu skoðað frá öllum hlið- um. Alvarlegast er ástandið í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu þar sem seint gengur að losna við arfleifð komm- únismans. En pottur er víðar brotinn og nýjar hættur steðja að. Dómar Mannréttindadómstóls Evrópu í gegnum tíðina sýna að fæst lönd hafa hreinan skjöld í þessum efnum og óvíða sýna stjórnvöld fullkomið göf- uglyndi gagnvart „fjórða valdinu“ svokallaða, þ.e. fjölmiðlunum. Skýrsluhöfundar lýsa meðal annars áhyggjum vegna sívaxandi hraða og samkeppni í fjölmiðlaheiminum sem geri það að verkum að hefðbundin fréttamennska sem lúti ströngum siðareglum um vandvirkni og sjálf- stæði eigi síður upp á pallborðið. Ritskoðun af ýmsu tagi Blaðamennska er eitt af hættulegri störfum sem menn geta tekið sér fyr- ir hendur í Evrópu. Fjölmargir blaða- menn láta lífið á ári hverju í Evrópu eða verða fyrir limlestingum vegna starfa sinna. Það er merkilegt að það eru ekki endilega blaðamenn sem fjalla um hernaðarátök og fara um átakasvæði sem eru í hættu. Algeng- ara er að blaðamenn séu vegnir úr launsátri eða myrtir á heimilum sín- um. Segja má að þetta sé alvarlegasta tegundin af ritskoðun sem á sér stað. Þaggað er endanlega niður í gagn- rýnisröddum. Eru dæmi um þetta frá Rússlandi, Úkraínu og Hvíta-Rúss- landi. Sjaldnast er vitað með vissu hverjir standa að þessum ódæðis- verkum. Í einu kunnasta málinu sem upp hefur komið undanfarið leikur grunur á að úkraínsk stjórnvöld eigi í hlut. Er það morðið á blaðamannin- um Georgíj Gongadze í september síðastliðnum en hann hélt úti net- fréttablaði sem var gagnrýnið á stjórnvöld. Leynilegar upptökur úr forsetaskrifstofunni þykja sýna að forsetinn hafi fyrirskipað morðið. Hann hins vegur heldur því fram að upptökurnar séu falsaðar. Í síðustu viku lagði eftirlitsnefnd þings Evr- ópuráðsins til að Úkraínu yrði vísað úr Evrópuráðinu meðal annars vegna þvingana og ofsókna sem fjölmiðlar og blaðamenn verða fyrir. Í öðrum tilfellum er ekki hægt að kenna stjórnvöldum um eins og þegar hryðjuverkasamtök ETA vógu kunn- an spænskan blaðamann á síðasta ári. Atlaga að blaðamönnum með þess- um hætti þjónar auðvitað ekki síst þeim tilgangi að vara aðra við þannig að þeir sneiði hjá því að rannsaka spillingu, vafasöm viðskipti og gagn- rýna valdaklíkur og öfgahópa. Menn geta ímyndað sér hvort margir blaða- menn séu viljugir að rannsaka og af- hjúpa spillingu vitandi að það getur kostað þá og fjölskyldu þeirra lífið. Evrópuráðið hefur lagt áherslu á að jafnvel þegar stjórnvöld hafi hvergi komið nærri slíkum árásum þá beri þeim að sjálfsögðu skylda til að rannsaka slík mál af fyllstu einurð og draga ódæðismennina til ábyrgðar. Í fæstum tilfellum er því svo farið sem bendir til að hagsmunir stjórnvalda og ofbeldismannanna fari saman. Í öllu falli er úti um frjálsa gagnrýni ef blaðamenn geta ekki treyst á að stjórnvöld standi vörð um líf þeirra og limi. En ritskoðunin tekur á sig aðrar og lúmskari myndir. Víða beita stjórn- völd alls kyns þvingunum til að halda blaðamönnum í skefjum. Í Azerbaij- an hefur það til dæmis gerst fyrir kosningar að rafmagn sé tekið af einkasjónvarpsstöðvum í héruðum landsins augljóslega í því skyni að þagga niður í fréttamönnum til þess að tryggja að boðskapur ríkissjón- varpsins komist ómengaður til skila. Víða er það einnig stundað að beita skattalögreglu til að þjarma að óþæg- um fréttaritstjórnum. „Löglegar aðferðir“ Ein algengasta „löglega aðferðin“ til að klekkja á gagnrýni blaðamanna er sá háttur ráðamanna eða þeirra sem standa nærri þeim að höfða meiðyrðamál á hendur blaðamönn- um. Þungar fésektir eða jafnvel fang- elsisdómar geta legið við brotum á meiðyrðalöggjöf. Fjárkröfur á hend- ur úkraínskum blaðamönnum námu þannig þreföldum fjárlögum ríkisins árið 1999. Má nærri geta að þótt dóm- stólar féllust einungis á hluta þessara krafna dygði það til að ríða mörgum útgáfufyrirtækjum að fullu. Minnsta gagnrýni á ráðamenn getur þar orðið tilefni málshöfðunar. Það er því ekki að ófyrirsynju sem lögð er áhersla á það í skýrslunni að sem flest aðildarríki Evrópuráðsins hætti að beita hegningarlögum þegar í hlut eiga blaðamenn sem eru að gegna starfi sínu. Víða í Vestur-Evr- ópu er auðvitað fyrir löngu hætt að beita gömlum ákvæðum um fangels- isrefsingar við móðgunum og meið- yrðum í takt við kröfur tímans um aukið umburðarlyndi í garð blaða- manna og skilning á því að í starfi þeirra felst oft að ganga nærri æru manna. Samt er það kappsmál að ganga skrefi lengra og afnema slík ákvæði úr lögum til að sýna gott for- dæmi, líkt og Frakkar gerðu fyrir skemmstu. Það þýðir auðvitað ekki að menn eigi að vera réttlausir gagn- vart fjölmiðlunum heldur er átt við að fjölmiðlabrot séu færð úr hegningar- lagabálkum yfir í einkaréttargeirann. Eftir sem áður eiga þeir sem þykir á rétt sinn gengið möguleika á því að höfða einkamál og krefjast leiðrétt- ingar eða bóta. Siðferðisbrestur Það væri samt of mikil einföldun að draga upp þá mynd að blaðamenn í álfunni séu upp til hópa sakleysingjar sem sæti ofsóknum og ólögmætum þrýstingi úr öllum áttum. Skýrslan leiðir einmitt í ljós að víða er blaða- mennskusiðferði því miður með lægsta móti. Þannig er það oft haft á orði að í Rússlandi sé nánast hægt að kaupa hvaða blaðamann sem er til að skrifa hvað sem er. Almannatengsla- fyrirtæki þar í landi gerði tilraun fyrr á þessu ári og sendi kynningu á nýrri verslunarmiðstöð í Moskvu til flestra stærstu dagblaða borgarinnar. Nærri öll birtu kynningargreinina gegn þóknun sem nam á bilinu 130 til 2000 Bandaríkjadölum. En það skrýtna var að sjaldnast var fregnin birt sem auglýsing heldur var hún yf- irleitt prentuð óbreytt sem grein skrifuð af nafngreindum blaðamanni á viðkomandi fjölmiðli. Ekki var hirt um að kanna hvort fótur væri fyrir fregninni, sem reyndar var alls ekki því hún var uppspuni frá rótum (sjá nánar www.tol.cz). Víða stuðlar bágur efnahagur að því að fjölmiðlar eiga erfitt uppdrátt- ar. Í Armeníu og Azerbaijan sem bæði telja nokkrar milljónir íbúa er útbreiðsla vinsælustu dagblaðanna ekki meiri en tíu þúsund eintök. Er það vegna þess hve fáir hafa efni á að kaupa blöðin auk þess sem pappír er af skornum skammti. Þegar við bæt- ist að auglýsingamarkaður er vanþró- aður er augljóst að útgáfustarfsemi ber sig illa. Það leiðir aftur til þess að blöðin eru ósjálfstæð í skrifum sínum og blaðamenn illa launaðir og þar með auðvelt að múta þeim til að skrifa þvert á samvisku sína. Áhrifamátt fjölmiðla má að sjálf- sögðu bæði nota til góðs og ills. Þar sem grunnt er á því góða milli þjóða og þjóðarbrota geta fjölmiðlar haft miklu hlutverki að gegna við að upp- lýsa lesendur og áhorfendur um allar hliðar deilumála og útrýma fordóm- um. Að sama skapi geta þeir verið fljótir að breytast í verstu áróðurs- tæki. Í fyrrverandi Júgóslavíu hafa fjölmiðlar einmitt verið gagnrýndir fyrir að ala á hatri milli ólíkra þjóða stundum með skelfilegum afleiðing- um. Er það annað dæmi um siðferð- isbrest fjölmiðla. Ekki er auðvelt að gefa ráð um hvernig eigi að bregðast við. Annars vegar blasir við óvönduð og öfga- kennd blaðamennska sem þyrfti vissulega á ögun að halda en hins veg- ar eru hendur ríkisvaldsins mjög bundnar vegna þess hve tjáningar- frelsi og rúmt svigrúm til gagnrýni er talið mikilvægt. Lausnin hlýtur með- al annars að felast í aukinni „sjálf- stjórn fjölmiðla“, þ.e. að þeir taki til í eigin garði, efli siðferðiskennd meðal starfsmanna, komi á fót siða- og kærunefndum og jafnvel umboðs- mönnum lesenda. Vonir standa til að með þessum hætti megi með „mjúk- um hætti“ auka jafnvægi á fjölmiðla- markaðnum milli óvæginnar frétta- mennsku og hagsmuna lesenda og þeirra sem verða að ósekju fyrir barðinu á óprúttnum blaðamönnum og flýta þróun sem tekið hefur aldir á Vesturlöndum. Sjónvarp þjóni almenningi en ekki valdhöfum Sjónvarp er eftir sem áður áhrifa- mesti fjölmiðillinn og um það standa hvað hörðust pólitísk átök eins og ný- leg dæmi frá Tékklandi og Búlgaríu sýna. Afstaða Evrópuráðsins hefur verið sú þegar nýfrjálsum ríkjum er veitt ráðgjöf í þessum efnum að vita- skuld eigi að aflétta ríkiseinokun sjónvarps og losa um tök ríkisins og stjórnmálamanna á sjónvarpsstöðv- um og fréttaflutningi þeirra. Hins vegar hefur ekki verið tekið undir að skilyrðislaust beri að einkavæða rík- isstjónvarp. Fremur eigi að taka upp tví- eða þríþætt sjónvarpsfyrirkomu- lag. Í fyrsta lagi einkasjónvarps- stöðvar með hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi, í öðru lagi sjónvarpsstöðv- ar félagasamtaka og annarra aðila sem ekki keppa að hagnaði og í þriðja lagi eigi að breyta gömlu ríkiseinok- unarfyrirtækjunum í almannaþjón- ustustofnanir að vestrænni fyrir- mynd (dæmi BBC í Bretlandi og ARD/ZDF í Þýskalandi). Þessi umbylting gengur ekki átakalaust. Mjög erfitt hefur reynst að losa um tök stjórnmálamanna á sjónvarpsgeiranum. Einhvern tíma var það haft á orði að á meðan pólitísk íhlutun í innri málefni sjónvarps- stöðva væru pólitískt sjálfsmorð fyrir stjórnmálamann í Bretlandi eða Nor- egi þá væri þessu öfugt farið í Mið- og Austur-Evrópu þar sem pólitískt menningarstig er lægra, þar væri það pólitískt sjálfsmorð að láta fjölmiðla afskiptalausa! Hvað svæsnust hafa átökin orðið í Rússlandi þar sem nú stendur styr um hvort ríkisvaldinu eða aðilum sem standa nærri valdaapparatinu takist að ná undir sig einu óháðu sjónvarps- stöðinni, sem sjónvarpar á landsvísu, NTV-stöðinni svokölluðu, en hún hef- ur getið sér orð fyrir óháðan frétta- flutning meðal annars af stríðinu í Tsjetsjníu. Fréttir sem verslunarvara Eins og fyrr segir beina skýrslu- höfundar einnig sjónum að þróun fjöl- miðlunar í Vestur-Evrópu. Þar vekur samþjöppun fjölmiðla og tilurð fjöl- þjóðlegra fjölmiðlasamsteypa ugg um að fréttir verði fyrst og fremst verslunarvara sem lúti einvörðungu lögmálum markaðarins og blaða- mennska fari fyrst og fremst að þjóna eigendum og auglýsendum. Aukin samkeppni og hraði geri það að verk- um að fjölmiðlar leggi æ meiri áherslu á beinar útsendingar, æsi- fregnir og andartaksviðburði en van- ræki tímafreka rannsóknarblaða- mennsku þar sem skyggnst er undir yfirborðið. Þessu til staðfestingar er frétt í Süddeutsche Zeitung síðastliðinn mánudag þar sem segir að nokkrir blaðamenn frá virtum fjölmiðlum í Þýskalandi hafi komið saman og stofnað samtök rannsóknarblaða- manna. Rannsóknarblaðamennska eigi undir högg að sækja vegna þrýst- ings frá markaðnum og breytts skiln- ings á hlutverki frétta og dægurmála- umfjöllunar þar sem æ meiri áhersla sé lögð á afþreyingar- en ekki upplýs- ingagildi. Enginn efast um kosti Netsins og þá fjölmörgu auknu möguleika sem það býður upp á við upplýsingaöflun. En að sama skapi vakna óneitanlega spurningar um gæði og áreiðanleika allra þessara upplýsinga. Hvernig á að fara að því að greina á milli alvar- legrar fréttasíðu og auglýsingasíðu tiltekins fyrirtækis þegar hvort tveggja lítur eins út? Þegar hver og einn getur gerst sinn eigin ritstjóri – sem út af fyrir sig er stórkostleg lyfti- stöng fyrir tjáningarfrelsi – er þá ekki hætt við að gæðaefni og umfjöll- un sem skiptir einhverju máli hverfi hreinlega í hringiðu meira og minna einskis nýtra tjáskipta? Þetta eru spurningar sem Evrópuráðið er byrj- að að velta fyrir sér og eitt af augljósu svörunum virðist einmitt vera að blaðamenn hljóti áfram að gegna lyk- ilhlutverki og í raun og veru mikil- vægara hlutverki en fyrr við að greina kjarnann frá hisminu og standa vörð um vissa tegund upplýs- ingaöflunar og miðlunar sem lýtur skýrum siðareglum og setur hags- muni almennings en ekki stórfyrir- tækja og annarra ráðandi afla í önd- vegi. Höfundur er lögfræðingur hjá Evr- ópuráðinu. Skoðanir sem kunna að koma fram í þessari grein eru alfarið á ábyrgð höfundar. Vinsamlegast sendið ábendingar um efni til pall@evc.net. Fjölmiðlafrelsi víða ótryggt í Evrópu Reuters Fréttamenn sjónvarpsstöðvarinnar NTV í Rússlandi héldu á laugardag mótmælafund til að verja sjálfstæði sitt gagnvart nýjum eigendum, sem vilja kæfa gagnrýna umfjöllun stöðvarinnar um menn og málefni, og kom fjöldi Moskvubúa til að sýna þeim stuðning. Reuters Mótmælendur í Kænugarði komu saman í febrúar og kveiktu á kertum til að minnast blaðamannsins Georgiys Gongadzes, sem er horfinn. Kröfðust þeir afsagnar Leonids Kuchmas, forseta Úkraínu, sem grun- aður er um að vera að baki hvarfi Gongadzes. Lög og réttur eftir Pál Þórhallsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.