Morgunblaðið - 11.07.2001, Blaðsíða 19

Morgunblaðið - 11.07.2001, Blaðsíða 19
ALEKSANDER Kwasniewski, for- seti Póllands, viðurkenndi formlega fyrir hönd Pólverja í gær að pólskir íbúar bæjarins Jedwabne hefðu myrt nær alla gyðinga bæjarins, alls um 1.500 manns, fyrir 60 árum. Her- mönnum nasista hafði verið kennt um fjöldamorðið. „Þetta var einstaklega grimmileg- ur glæpur. Ekkert gat réttlætt hann. Fórnarlömbin voru hjálpar- og varn- arlaus,“ sagði forsetinn. „Við ættum að biðja sálir hinna látnu og ættingja þeirra afsökunar á þessum glæp. Þess vegna bið ég þá nú afsökunar sem borgari og forseti Póllands.“ Kwasniewski lét þessi orð falla í ræðu sem hann flutti þegar hann af- hjúpaði minnismerki í Jedwabne í tilefni þess að 60 ár voru liðin frá því að pólskir íbúar bæjarins myrtu alla gyðinga sem bjuggu í bænum. Flest- ir gyðinganna voru læstir inni í hlöðu og brenndir lifandi. Minningarat- höfnin var sýnd í beinni sjónvarps- útsendingu og leiðtogar Póllands vona að hún verði til þess að sam- skipti Pólverja og gyðinga batni. Um 3.000 manns voru við athöfn- ina, þeirra á meðal 40–50 ættingjar gyðinga sem voru myrtir í Jedw- abne. Margir þeirra komu frá Bandaríkjunum og Ísrael. Nokkrir íbúa bæjarins voru dæmdir árið 1949 fyrir aðild að fjöldamorðinu. Þýskum hermönnum var þó kennt um fjöldamorðið á valdatíma kommúnista og Pólverjar litu þá aðeins á sig sem fórnarlömb nasista. Þetta breyttist í fyrra þegar birt var bókin „Nágrannar“ eftir Pólverj- ann Jan Gross, sagnfræðiprófessor við New York-háskóla. Bókin var byggð á frásögnum sjónarvotta og dómskjölum sem þykja sanna að pólskir íbúar bæjarins hafi verið að verki. Bókin olli mikilli umræðu í Pól- landi um þátttöku Pólverja í útrým- ingarherferð nasista og virðist hafa sannfært marga embættismenn í Póllandi um að pólskir íbúar Jedw- abne hafi myrt gyðingana. Nokkrar hægrihreyfingar hafa þó dregið nið- urstöðu bókarinnar í efa. Jedwabne. AP. AP Aleksander Kwasniewski Póllandsforseti leggur blómsveig að minnis- merki um gyðinga sem myrtir voru í bænum Jedwabne fyrir 60 árum. Gengist við fjölda- morði á gyðingum ERLENT MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 11. JÚLÍ 2001 19 AMOS Nadai, sendiherra Ísraels á Íslandi með aðsetur í Ósló, er í heim- sókn á Íslandi um þessar mundir. Nadai hélt sinn síðasta blaðamanna- fund í þessu embætti í gær en mun láta af því í ágúst. Á fundinum ræddi sendiherrann um ástandið í Mið-Austurlöndum og samskipti Ísraela og Palestínumanna sem hann segir ekki fara batnandi. „Ágreiningur Ísraelsmanna og Palestínumanna er átök sem auðvelt er að skilgreina en mjög erfitt er að leysa. Ágreiningurinn hefur staðið í meira en 100 ár og snýst um mjög lít- inn landskika sem báðir aðilar telja sig eiga tilkall til. Í sögulegu sam- hengi sem og lagalegu er erfitt að skera úr um hvor hefur í raun rétt á því landi sem um er deilt. Það er nokkuð sem við gætum rætt fram og tilbaka í tvær til þrjár kynslóðir,“ segir Nadai. Tímamót í Ósló árið 1993 Sendiherrann segist vera þeirrar skoðunar að Óslóarsamningurinn, sem undirritaður var í september 1993 hafi verið tímamótasamningur. „Þar var ákveðið að setja til hliðar spurninguna um hver á rétt á þessu landi. Í Ósló reyndum við að bara finna raunsæja lausn á því hvernig Palestínumenn og Ísraelar geti búið hlið við hlið í sátt og samlyndi.“ Nadai segir að þær vonir sem menn bundu við samninginn sem Ísraelar og Palestínumenn gerðu í Ósló hafi brostið. „Við vonuðumst til að geta byggt upp traust á milli okk- ar; það gerðist ekki. Á hinn bóginn er mjög jákvætt að samskipti okkar hafa breyst. Fram til 1993 voru Ísr- aelar settir í fangelsi fyrir að tala op- inberlega við Palestínumenn. Slíkt var bannað með lögum. Nú erum við í það minnsta að tala saman, við skipt- umst á skoðunum.“ Nadai heldur áfram og lýsir þeirri skoðun sinni að mesta framförin sem orðið hafi á þeim sjö árum sem liðu milli friðar- umleitananna í Ósló og Camp David sé að nú viðurkenni flestir Ísraelar rétt Palestínumanna til sjálfstæðis. „Ég tel þó að samsvarandi hugar- farsbreyting hafi ekki átt sér stað í hinum herbúðunum.“ Mikill friðarvilji Ísraela í Camp David „Það skilur enginn Ísraeli hvað gerðist í Camp David,“ segir Amos Nadai um friðarviðræðurnar sem áttu sér stað í júlí og ágúst í fyrra. „Ehud Barak, þáverandi forsætis- ráðherra Ísraels, mætti til fundarins og bauð Palestínumönnum mun meira en nokkurn hefði grunað sem tók þátt í samningaferlinu í Ósló. Meðal þess sem tillaga hans fól í sér var að deila yfirráðum í Jerúsalem með Palestínumönnum og að af- henda þeim 95% af hernumdu svæð- unum. Hann bauð Palestínumönnum meira þar en þá hefði sjálfa órað fyrir ári áður. Samt sem áður hafnaði Yasser Arafat þremur mismunandi tilboðum Ísraelsstjórnar og það er ástæðan fyrir því að viðræðum í Camp David lauk.“ Sendiherrann segist vera þeirrar skoðunar að ófriður hafi hafist að nýju eftir að friðarumleitunum í Camp David lauk vegna þess að Ara- fat hafi fundið að þá hefði heimurinn snúist gegn sér. „Palestínumenn hófu átökin sem nú hafa staðið frá því í september í fyrra. Arafat taldi að myndir af látnum palestínskum börnum væri leiðin til að öðlast sam- úð heimsins að nýju. Það að hefja átök var herkænskubragð af hálfu Arafats.“ Nadai segir ljóst að Arafat hafi fullt vald til að stöðva hryðjuverk landa sinna. „Það kom í ljós þegar of- beldi af hálfu Palestínumanna minnkaði um helming í kjölfar sjálfs- morðsárásarinnar í Tel Aviv í júní.“ Ekki bjartsýnn á lausn deilunnar Þegar sendiherrann er inntur eftir því hvort kosning Ariel Sharon í embætti forsætisráðherra hafi haft slæm áhrif á friðarferlið segist Nadai telja að svo sé ekki. Hann segir sam- komulagið milli Ísraela og Palestínu- manna hafa versnað löngu áður og leggur áherslu á að Sharon hafi sýnt einstakan friðarvilja frá því hann tók við embætti. Að lokum segist Amos Nadai ekki vera bjartsýnn á að friðarsamkomu- lag náist á næstunni. „Við munum ekki bjóða nálægt því jafn mikið í næstu friðarviðræðum og við gerðum í Camp David, fyrir því höfum við ekki stuðning almennings í Ísrael. Palestínumenn munu á hinn bóginn ekki samþykkja neitt minna. Því er ég ekki bjartsýnn á að við komumst að samkomulagi í fyrirsjáanlegri framtíð. En ofbeldi er ekki rétta leið- in til að leysa þessa deilu.“ Nýr sendiherra Ísraels á Íslandi, Leora Herzl, tekur við embætti í ágúst. Hún mun hafa aðsetur í Ósló. Friður er ekki í nánd Reuters Palestínsk kona klöngrast yfir rústir húss síns í Rafah á Gaza í gær, en það var meðal húsa sem ísraelsk stjórnvöld létu rífa. Fráfarandi sendiherra Ísraels á Íslandi, Amos Nadai, ræddi við íslenska fjölmiðla- menn á Hótel Borg í gær. Hrafnhildur Huld Smáradóttir tók þátt í umræðunum. ANGELA Ermak- ova, 34 ára gömul kona af rússneskum ættum sem unnið hefur sem fyrirsæta í Lundúnum, kom fyrir rétt í brezku höfuðborginni í gær til að freista þess að fá niðurstöðu í samninga um ein- greiðslumeðlag frá þýzku tennisstjörn- unni Boris Becker sem hefur við- urkennt að vera faðir barns sem Ermakova skilaði í heiminn í fyrra. Talið er að Erm- akova vilji fá því framgengt að hún fái í sinn hlut, fyrir hönd dótturinnar Önnu, meira en þær tvær milljónir sterl- ingspunda, andvirði um 290 millj- óna króna, sem áætlað er að Beck- er hafi þegar fallizt á að greiða. Um leið og Ermakova mætti í réttinn í gær settist hún á lokaðan fund með lögfræðingum Beckers sem sjálfur var ekki viðstaddur. Eftir þann fund tilkynnti dómar- inn að dómurinn hefði lagt bless- un sína yfir samkomulag sem af hálfu Beckers væri „sannarlega sanngjarnt og reyndar rausn- arlegt“. Getnaður í kústaskáp Ermakova heldur því fram að hún hafi fyrir tveimur árum átt stuttan ástarfund með Becker inni í kústaskáp japansks veitingahúss í Lundúnum, eftir að þau hittust á kaffihúsi þar í borg, en hann var þá staddur þar sem keppandi á Wimbledon-tennismótinu. Fyrst eftir að Ermakova kom fram með fullyrðingar um að Becker væri barnsfaðir hennar neitaði hann því en í kjölfar þess að gert var faðernispróf með sam- anburði erfðaefnissýna viður- kenndi hann það. Hann var lög- formlega úrskurðaður faðir Önnu litlu Angeludóttur í marz sl. Einkalíf Beckers hefur verið mjög á milli tannanna á fólki á síðustu misserum, einkum í heima- landi hans Þýzkalandi. Hann samdi um skilnað við eiginkonu sína Barböru fyrir þýzkum dóm- stól í desember sl. en hún leitaði til bandarískra dómstóla til að freista þess að fá forræðið yfir sonum þeirra tveimur og rausn- arlegt meðlag að auki. Lögfræð- ingar sömdu án dómsúrskurðar og varð niðurstaðan sú að þau skiptu með sér forræðinu. Hvernig fjár- málahlið samningsins leit út var ekki gert opinbert. Nokkrum dögum eftir þetta slógu þýzkir fjölmiðlar því upp að nýja ástin í lífi Beckers væri söng- og sjónvarpsstjarnan Sabrina Setl- ur en aðeins um mánuði síðar var þetta samband sagt vera á enda. Becker varð heimsþekktur árið 1985 er hann varð yngsti sig- urvegarinn í sögu Wimbledon- tennismótsins. Hann var þá 17 ára. Boris Becker semur um meðlag Angela Ermakova umkringd fréttamönnum við dómhúsið í Lundúnum í gær. AP NEFND í japanska þinginu hefur krafist þess að samning- ur japanskra og bandarískra stjórnvalda um framsal banda- rískra hermanna sem grunaðir eru um að hafa framið glæpi í Japan verði endurskoðaður. Árið 1995 voru þrír bandarískir hermenn fundnir sekir um að hafa nauðgað ungri stúlku á japönsku eyjunni Okinawa. Hörð mótmæli Okinawa-búa leiddu til þess að Bandaríkja- stjórn samþykkti nýjar reglur sem leyfðu framsal hermanna til japanskra yfirvalda áður en þeir væru ákærðir. Mörgum þykir Bandaríkjaher hins veg- ar hafa dregið lappirnar hvað varðar framsal hermanns sem grunaður er um að hafa nauðg- að ungri konu á Okinawa hinn 29. apríl sl. Vilja þingmennirnir að samningurinn taki á því hve fljótt eigi að framselja her- menn sem grunaðir eru um að hafa framið glæpi í Japan. N-írskir mótmæla HRYÐJUVERKAHÓPUR mótmælenda, Frelsisher Ulst- ers (UFF), tilkynnti í gær að hann styddi ekki lengur friðar- samkomulagið sem kennt er við föstudaginn langa, en sagði jafnframt að vopnahléið væri ennþá í gildi. Sagði í tilkynn- ingunni að það væri óþolandi að Sinn Fein, hinn pólitíski armur Írska lýðveldishersins (IRA), fengi undanþágu á und- anþágu ofan frá samkomulag- inu. Estrada birt ákæra SPILLINGARMÁL á hendur Joseph Estrada, fyrrverandi forseta Filippseyja, var þing- fest í Manila í gær. Er forset- inn fyrrverandi sakaður um að hafa dregið sér fé og að hafa þegið mútur meðan hann sat í embætti. Sonur Estrada, Jinggoy, var einnig ákærður fyrir spillingu, en hann var hér- aðsstjóri í Manila þar til fyrir tveimur vikum. Hinir ákærðu neituðu að tjá sig um sakir þær sem á þá voru bornar. Lög- fræðingar Estrada hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að seinka málaferlunum en dómararnir stóðu fast á því að réttað yrði yfir forsetanum fyrrverandi. Ofaldir hermenn SAMKVÆMT nýrri skýrslu frá þýska hernum er hinn al- menni þýski hermaður allt of þungur. Þýskir hermenn hafa í gegnum tíðina þótt meðal þeirra bestu í heimi og eru þessar fréttir því talsvert áfall fyrir þýska hershöfðingja. Vaxtarlagsvandamál þýskra hermanna komu fyrst í ljós þegar þeir tóku þátt í friðar- gæslu á Balkanskaga. Vilja menn kenna því um að gert hafi verið of vel við hermennina. Þeir vinni frá klukkan níu til fimm, fái vel borgað og mikið og gott að borða. Þeir fái einnig meiri bjór en góðu hófi gegni. STUTT Japanir ósáttir við Banda- ríkjaher

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.