Morgunblaðið - 02.09.2001, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 02.09.2001, Blaðsíða 10
Sælkerar á sunnudegi Steingrímur Sigurgeirsson Álfheiður Hanna Friðriksdóttir Áslaug Snorradóttir LÖNGUM hefur tíðkast hérá landi að pakka ýmsugrænmeti í plast og jafn-vel frauðbakka. E.t.v. ertenging á milli þessara umbúða og þeirrar staðreyndar hvað við Íslendingar verðum oft á tíðum að pakka okkur inn í mörg lög af alls kyns peysum og úlpum. Það er a.m.k. staðreynd að þeim mun sunnar í álfuna sem komið er, því minna er hirt um umbúðir á græn- meti og ávöxtum og matvörum al- mennt jafnvel. Lengra mætti fara og halda því fram með talsverðum rökum að bæði hráefni og mat- reiðsla verði jafnbetri eftir því sem sunnar dregur í álfunni. Jafnframt – sem ekki er síður mikilvægt – ger- ist það að borðsiðir og almennar neysluvenjur verða með frjálsari formerkjum. Þeim mun verri sem eldamennska þjóðarinnar er, þeim mun smámunasamari, tilgerðar- legri og snobbaðri eru borðsiðir hennar. E.t.v. er stundum verið að reyna að bæta sér upp vondan mat og þar með hráefni með tilheyrandi umgjörð, umbúðum og tilgerðar- legri háttprýði við matborðið. Eftir því sem sunnar dregur er vitanlega meira úrval af grænmeti og ávöxtum árið um kring og fólk er einhvern veginn í mun „nánari“ tengslum við hráefnið ef svo má taka til orða. Salatvöndum er pakkað inn í dag- blaðið frá í gær og grófar teygjur eru settar utan um asparsvöndlana til að halda þeim saman. Þetta verður hvort sem er allt þvegið þegar heim er komið. Nú er mikill uppskerutími og einnig hér á landi. Dásamlegt kálmeti af ýmsum toga, gulrætur, rófur, kartöflur, kryddjurtir og fleira góðgæti er á boðstólum á þolanlegu verði svona til tilbreytingar. Fyrir þá sem vilja tengjast hrá- efni sínu sterkari böndum og upp- lifa skemmtilega markaðsstemmn- ingu er upplagt að skella sér einhvern næstu laugardaga á græn- metismarkaðinn í Dalsgarði í Mos- fellsdal. Þar er slegist um bestu rucolasalathausana og pestóið hennar Diddúar selst alltaf upp. Dásamlegar rósir eru þar einnig á boðstólum og hægt er að kaupa sér léttar veitingar eins og t.d. brauðsnittur úr Mosfellsbakaríi með reyktum silungi úr Þingvalla- vatni og náttúrlega kaffi. Markaðurinn er opinn á laugar- dögum fram í miðjan september frá kl. 13–17, en betra er að koma í fyrra fallinu til að verða sér úti um bestu bitana. Í garðyrkjumiðstöðinni Lundi við Vesturlandsveg hefur einnig verið settur upp bændamarkaður þar sem er boðið upp á ferskt grænmeti frá fyrstu hendi. Hann er opinn mánudaga til föstudaga frá 15–18 en um helgar frá 12–18 eitthvað fram eftir hausti. Þessir útimark- aðir eru mikið gleðiefni og skemmtileg nýjung í matvöruversl- unarflóru landsmanna. Ein af þeim dásamlegu grænmet- istegundum sem fást nú á hagstæðu verði eitthvað fram eftir hausti er blessað blómkálið. Blómkálið líkt og brokkolí er hægt að nota sem aðaluppistöðu máltíðar eða sem meðlæti, því það má matreiða á óteljandi vegu. Blómkál er best að sjóða í fremur litlu vatni, ásamt saltlús. Heilir hausar þurfa u.þ.b. 20 mín. suðu, en sé kálið brotið í litla vendi þurfa þeir 10–15 mín. suðu. Múskat og steinselja fara mjög vel við blómkál, en einnig þurrkað- ar krydddjurtir á borð við basil. Þá getur verið gott að setja bæði franskt sinnep og sítrónusafa í sal- atsósu sem ætluð er blómkáli. Með nautakjöti er t.d. afar gott að bera fram salat úr hráum blómkálsvönd- um með sósu samsettri til helminga úr hreinni jógúrt og majónesi, bragðbættri með frönsku sinnepi, sítrónusafa og agnarögn af karrýi. Ostasósur eru svo ávallt fyrirtak með heitu blómkáli og ekki sakar að steikja nokkrar vænar beikonsneið- ar með. Eftirfarandi sósa er ekki síður ljúffeng með blómkáli sem og öðru soðnu grænmeti. Hún passar og vel með grilluðum laxi. Kryddjurtasósa með sýrðum rjóma 1 askja sýrður rjómi hálfur dl hvítvín hálfur dl grænmetiskraftur 1 bolli ferskar kryddjurtir (eftir smekk og það sem til er á markaðnum) Hrærið öllu hráefni saman í skál og berið fram sem meðlæti t.d. með soðnu grænmeti eða grilluðum laxi. Hvítkál er e.t.v. eitt af vanmetn- ustu grænmetistegundunum á markaðnum og þarf gjarnan að dúsa í óspennandi félagsskap maj- óness og reyndar jú einnig tómata-, gulróta- og agúrkuflygsna í plast- öskjum merktum hrásalat. Lítum nú á þetta eðla kál í nýju ljósi. Hvítkálskássa Fyrir fjóra 1 meðalstórt hvítkálshöfuð 2 msk. sesamolía 1 sneið ferskur engifer 1 tsk. salt svartur pipar 2 og hálfur dl grænmetiskraftur Sósa: 2 og hálfur dl mjólk 150 g kjúklingakjöt, tætt niður 2 sléttfullar msk. maizenamjöl leyst upp í ögn af köldu vatni 3 msk. sakè eða Martini dry Þvoið kálið og skerið í fína strimla. Hitið olíuna á wok-pönnu eða breiðri og djúpri pönu sem á er lok. Léttsteikið kálið í olíunni og snúið því af og til. Bætið engiferi (sem hefur verið skorið í fína strimla), salti og pipar og brúnið við vægan hita í 5 mín. Hellið kraft- inum þá út á pönnuna, hyljið hana með loki og látið allt saman malla við vægan hita í 15 mín. Útbúið sós- una þannig: Hrærið saman í skál öllum hráefnum og blandið vel sam- an. Eftir að kálið hefur mallað í sín- ar 15 mín. hellið þá sósunni út á pönnuna og látið malla í aðrar 5 mín. og hrærið vel í á meðan. Á svölum haustdegi er gott að verma kroppinn með heitri og hollri súpu sem þessari. Elskaðu íslensku kartöflurnar í allri sinni ófrýnd eins og sjálfan þig! Þær breytast reynd- ar í algjörar fegurðardísir í þessari súpu undir parmesanslörinu. Kartöflu- og lauksúpa Fyrir 4–6 4 msk. smjör 2 msk. ólífuolía 675 g laukur, fínt saxaður 1 kg kartöflur 1 og hálfur kjötkraftsteningur leystur upp í 900 ml af vatni 3 msk nýrifinn parmesan salt og nýmalaður pipar Bræðið smjör og olíu saman á pönnu við mikinn hita og gyllið laukinn. Takið pönnu af hita. Skrælið kartöflurnar og sjóðið í kraftinum þar til þær eru vel mjúk- ar. Hellið kartöflum ásamt krafti út á pönnuna með lauknum og sjóðið í aðrar 10 mín. Hrærið í á meðan. Stráið ostinum yfir og berið fram með nýbökuðu brauði. Markaðsstemmning á haustdögum

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.