Morgunblaðið - 28.11.2001, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 28.11.2001, Blaðsíða 8
8 B MIÐVIKUDAGUR 28. NÓVEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ BÆKUR ÆVISÖGUR hafa lengi verið með vinsælasta lestrarefni Íslendinga og kunna að vera á því margvíslegar skýringar sem ekki verða tíundaðar hérna. Vinsældir þessarar bók- menntategundar ættu þó varla að koma nokkrum á óvart; góð ævisaga getur falið í sér heillandi fróðleik um mannlíf og menningu misfjarlægrar fortíðar auk heillandi og athyglis- verðrar persónulýsingar, þegar vel tekst til. En meðal íslenskra ævi- sagna er margur misjafn sauðurinn og hnignun þessa bókmenntaforms hefur verið áberandi á síðastliðnum áratugum hérlendis sem erlendis, ekki síst í útþynntu formi þeirra í svo- kölluðum viðtalsbókum. Það er hins vegar engum blöðum um það að fletta að á undanförnum árum hefur átt sér stað ákveðin end- urreisn í íslenskri ævisagnaritun, sem meðal annars má merkja af því að nokkur slík verk hafa hlotið verð- skulduð bókmenntaverðlaun og ann- ars konar viðurkenningar. Nefna má bækur á borð við ævisögu Snorra á Húsafelli eftir Þórunni Valdimars- dóttur, ævisögu Guðmundu Elías- dóttur eftir Ingólf Margeirsson, ævi- sögu Guðmundar Böðvarssonar eftir Silju Aðalsteinsdóttur, ævisögu Hall- dóru Briem eftir Steinunni Jóhann- esdóttur, ævisögu Einars Benedikts- sonar eftir Guðjón Friðriksson og ævisögu Jónasar Hallgrímssonar eft- ir Pál Valsson. Ævisaga Bjargar C. Þorláksson eftir Sigríði Dúnu Krist- mundsdóttur skipar sér tvímælalaust í flokk slíkra úrvalsævisagna og er að henni mikill fengur. Björg Caritas Þorláksson er án efa meðal merkustu Ís- lendinga. Samtíð henn- ar þekkti hana sem menntuðustu konu Ís- lands og merkan fræði- mann, en sú staðreynd skapaði henni hvorki starf, auð né völd, og nafn hennar féll óverð- skuldað í gleymsku og hefur að mestu legið í þagnargildi þar til nú að Sigríður Dúna lyftir því aftur til lífs af eft- irtektarverðri alúð og traustri fræðimennsku. Hún „fæddist í hríð- arbyl í torfbæ norður í Húnaþingi árið 1874“ og var skírð Björg Karítas Þor- láksdóttir. Síðar tók hún sér nafn eig- inmanns síns (Sigfúss) Blöndal; breytti stafsetningu millinafnsins í Caritas; skrifaði undir dulnefninu Björn Simon; og tók að lokum aftur föðurnafn sitt í breyttri mynd: Þor- láksson, eftir skilnað frá eiginmann- inum. Sigríður Dúna leggur út af þessum nafnabreytingum í bók sinni og segir þær vitna um sjálfssköpun konunnar sem umbreytti fleygum orðum Sókratesar, „Maður, lærðu að þekkja sjálfan þig,“ og skrifaði í einu rita sinna: „Maður, lærðu að skapa sjálfan þig.“ Sjálfssköpun er leiðarstefið í verki Sigríðar Dúnu. Hún leitast við að sýna hvernig óbreytt íslensk sveita- stúlka braust til mennta af mikilli ein- urð, þrá, elju og sköpunarþrá, þrátt fyrir margvíslegt mótlæti, persónu- legt og samfélagslegt, þar til hún varði doktorsritgerð sína, „um lífeðl- isfræðilegan grundvöll þriggja eðlis- hvata; næringarhvatar, hreyfihvatar og kynhvatar,“ með glæsibrag við Parísarháskóla árið 1926. Leiðin að takmarkinu var bæði löng og ströng en vörðuð framúrskarandi námsár- angri og miklum afköstum á sviði fræða, greinaskrifa, skáldskapar og þýðinga – að ógleymdri íslensk-dönsku orðabók- inni sem hún vann að í félagi við eiginmann sinn í tvo áratugi og er æ síðan við hann kennd. En barnlaust hjóna- bandið og stopul fræða- skrif fullnægðu ekki þrá þessarar merku konu eftir lífsfyllingu og þroska andans og þegar hún var komin á fimm- tugsaldur tók hún til við nám og sjálfssköpun að nýju með áðurgreindum árangri. En líf Bjargar C. Þorláksson var síður en svo samfelld sigurganga. Hún þurfti að glíma við veikindi lík- amleg og andleg (á síðari hluta ævinn- ar), en sárast hefur vafalaust verið að glíma við þær skorður sem kynferði hennar setti henni, fordóma mennta- manna- og vísindasamfélagsins gagn- vart konum sem fóru inn á „þeirra svið“ og þrátt fyrir sína ótvíræðu hæfileika sáu ráðamenn Háskóla Ís- lands aldrei ástæðu til að búa henni starfsvettvang við hæfi hér heima, né heiðra hana á viðeigandi hátt. Sú yf- irsjón varð frænda hennar, Jóni Dúa- syni, tilefni til að spyrja í bréfi til Guð- mundar Finnbogasonar, þáverandi landsbókavarðar: „Hvers vegna gleymduð þið Björgu?“ „Í þau ellefu hundruð ár sem Ísland hefur staðið,“ segir Jón, „hafa Íslend- ingar aldrei eignast konu sem kemst í námunda við Björgu hvað lærdóm snertir og því miður verður líklegast bið á að svo verði á næstunni.“ Hann bendir á að Háskóli Íslands hafi sæmt Sigfús heiðursdoktorsnafnbót fyrir orðabókina og Bókmenntafélagið gert hann að heiðursfélaga, sem sé ágætt, en spyr hvers vegna hafi verið gengið fram hjá Björgu við þessar út- nefningar. [...] Jón segir Íslendinga aldrei hafa sýnt Björgu vísindalega viðurkenningu og þó að hún verði ekkert minni í framtíðinni fyrir það að hafa verið höfð í öskustónni þá sé þetta þvílík hneisa að ekki megi við una. Jón vill láta kjósa Björgu heið- ursfélaga í Bókmenntafélaginu og út- nefna hana heiðursprófessor við Há- skóla Íslands áður en það verður um seinan. (322–324.) Það var um seinan; Björg dó skömmu eftir að frændi hennar ritar þetta bréf, sárþjáð af brjóstakrabba- meini 23. febrúar 1934. Þótt lífsferill og sjálfssköpun Bjargar sé það söguefni sem hvað mest heillandi er að lesa um í verki Sigríðar Dúnu er ekki síður athygl- isvert að fræðast um það samfélag sem hún lifði í heima og erlendis. Sögusviðin eru mörg; Björg vex upp í lítt þróuðu íslensku bændasamfélagi nítjándu aldarinnar en átti framsýna og góða foreldra; hún bjó í rúma tvo áratugi í Kaupmannahöfn og dvaldi langdvölum í Þýskalandi og Frakk- landi. Frakkland var hennar heima- land á síðari hluta ævinnar, þar leið henni vel enda var það þar sem henni gáfust bestu tækifærin til sjálfstæðis og fræðistarfa. Það þarf ekki að fjöl- yrða um hversu umbreytingarsama tíma Björg lifði; þetta voru tímar hraðra þjóðfélagsbreytinga og fram- fara, en einnig tími fyrri heimsstyrj- aldarinnar og þeirra hörmunga sem stríðið leiddi yfir Evrópu. Öllu þessu kemur Sigríður Dúna vel á framfæri og í bókarlok gerir hún skilmerkilega grein fyrir vinnubrögðum sínum og rannsóknarvinnunni á bak við verkið. Með ævisögu Bjargar C. Þorláks- son hefur Sigríður Dúna skilað verki sem hún getur verið stolt af og fróð- legt verður að sjá framhaldið, en í ráði er að gefa út greinasafn Sigríðar Dúnu og fleiri fræðikvenna þar sem farið verður nánar í saumana á fræð- um doktors Bjargar. Ég bíð spennt eftir því verki. Soffía Auður Birgisdóttir Hvers vegna gleymdu þeir Björgu? BÆKUR Ævisaga Eftir Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur. JPV útgáfa 2001, 403 bls. BJÖRG. ÆVISAGA BJARGAR C. ÞORLÁKSSON Björg C. Þorláksson SÍÐASTA hálfa áratuginn eða svo hefur nafn verkalýðsleiðtogans Hall- dórs G. Björnssonar æ oftar borið á góma í þjóðmálaumræðunni og hann orðið meira áberandi. Þetta kann að hafa komið mörgum nokkuð á óvart, ekki vegna þess að þeir vissu ekki um tilvist mannsins eða efuðust um hæfi- leika hans, heldur vegna þess að hann kom fyrst fram á sviðið sem áberandi forystumaður í verkalýðshreyfing- unni er hann var kominn á þann aldur þegar flestir eru neyddir til að draga sig í hlé, verða „löggilt gamalmenni“, eins og stundum er sagt. Halldór var þó enginn nýgræðingur í verkalýðs- forystunni er hann gerðist formaður Dagsbrúnar og síðan Eflingar, þar á eftir Starfsgreinasambandsins og loks varaforseti Alþýðusambands Ís- lands. Þvert á móti hafði hann starfað í Dagsbrún um áratuga skeið, setið þar í stjórn, verið ritari félagsins og síðan varaformaður Guðmundar J. Guðmundssonar alla formannstíð hans. Hann var þannig gamalreynd- ur í hreyfingunni er hann loks komst þar til forystu og að sumu leyti minn- ir ferill hans á krónprinsana, sem þurfa sumir að bíða þess svo ógnar- lengi að að röðin komi að þeim. Það liggur í augum uppi, að maður sem starfað hefur í forystu- sveit íslenskrar verka- lýðshreyfingar og verið þar í innsta hring í tæp- lega hálfa öld, kann frá mörgu að segja. Og það gerir Halldór svika- laust. Ég verð að viður- kenna, að í upphafi lestrar leist mér ekki meira en svo á bókina, sýndist hún ætla að verða ein af þessum dæmigerðu íslensku endurminningabókum þekktra manna, ljóm- andi vel skrifaður texti um nánast ekki neitt. Það viðhorf breyttist hins vegar snarlega er áfram var lesið og Halldór fór að segja frá starfi sínu í Dagsbrún og kynnum af mönnum og málefnum á þeim vettvangi. Frásögn hans er öll fróðleg vel og bráðskemmtileg af- lestrar. Hann segir hispurslaust frá kynnum af forystumönnum í Dags- brún, lýsir samskiptum manna innan félags og við atvinnurekendur og í síðasta hluta bókarinnar segir nokk- uð gjörla frá gangi mála og breyt- ingum innan verkalýðshreyfingar- innar á síðustu árum. Sjálfum sér hlífir Halldór ekki heldur og segir tæpitungulaust frá einkalífi sínu. Eins og vænta má er í þessari bók að finna frásagnir af ýmsum minn- isverðum atburðum í sögu lands og þjóðar á síðari hluta 20. aldar, t.d. júnísamkomulaginu 1964 og deilum Ólafs Jóhannessonar og Björns Jóns- sonar, sem leiddu til falls vinstri stjórnarinnar vorið 1974. Frásagnir og lýsingar á ýmsum foringjum reyk- vískrar verkalýðshreyfingar eru og eftirminnilegar, ekki síst af Eðvarð Sigurðssyni og Guðmundi J. Guð- mundssyni, og skýr er lýsing Hall- dórs á samskiptum hins síðarnefnda við þá Albert Guðmundsson og Björgúlf Guðmundsson í furðulegu máli sem upp kom árið 1986. Björn Ingi Hrafnsson blaðamaður hefur fært endurminningar Halldórs í letur og tekist það ágætlega. Frá- sögn hans er öll einkar læsileg og skýr og þótt ég sé þess fullviss að ekki verði allir sammála Halldóri um viðhorf til ýmissa mála, atburða og persóna, og sumir telji jafnvel nokk- uð á sig hallað, fer hitt ekki á milli mála, að hann talar enga tæpitungu, en segir skoðanir sínar á mönnum og málefnum hreint út. Í mínum huga er það helsti galli þessarar bókar að textinn er of stutt- aralegur á köflum. Halldór getur fjöl- margra eftirminnilegra atburða og persóna úr verkalýðshreyfingunni og kjarabaráttunni, en stundum með þeim hætti að hætt er við því að les- endur, sem ekki þekkja þeim mun betur til sögunnar eigi erfitt með að átta sig á samhengi atburðarásarinn- ar og sögulegri þýðingu þess sem um er rætt. Í þeim tilvikum hefði verið gott gagn að ýtarlegri útskýringum. Íslenskt þjóðfélag hefur tekið þvílík- um stakkaskiptum á örskömmum tíma að óvíst er t.d. hvort hinir yngri í væntanlegum lesendahópi viti hvers vegna hafnarverkamenn skiptu svo miklu máli í Dagsbrún og félagið fyrir þá. Sama máli gegnir um tengsl verkalýðshreyfingarinnar og stjórn- málaflokka fyrri tíðar, að ekki sé tal- að um byltinguna, sem Halldór lætur þó blessunarlega liggja á milli hluta að mestu. Þessi bók er bráðskemmtileg af- lestrar og fróðleg um margt og hún hefur þann góða kost að lesendur kynnast sögumanni giska vel. Það er alltof sjaldgæft í íslenskum ævisög- um og endurminningum. „Silfurrefur“ segir frá Björn Ingi Hrafnsson BÆKUR Ævisaga Björn Ingi Hrafnsson skráði. Mál og menning, Reykjavík 2001. 269 bls. FRAM Í SVIÐSLJÓSIÐ. ENDURMINNINGAR HALLDÓRS G. BJÖRNSSONAR Jón Þ. Þór Halldór Björnsson Bestu vinir – Skemmtilegar sögur um vináttu hefur Vilborg Dag- bjartsdóttir þýtt. Hér eru kaflar um vináttu úr bók- um vinsælla barnabókahöf- unda. Það er fjallað um leynivini, um hvernig er að eiga engan vin, um baldna vini og um það að verða óvinir. Í kynningu segir m.a.: „Sögurnar eru bæði skemmtilegar og áhrifamikl- ar, maður brosir og kannast við sjálf- an sig í skoplegum atvikum og hrífst með lýsingum af sterkum tilfinn- ingum þessara sígildu frásagna um vináttu.“ Útgefandi er Skjaldborg. Bókin er 129 bls., prentuð í Lettlandi. Verð: 2.380 kr. Börn Frá risaeðlum til manna er í flokki barna- og ung- lingabóka frá New- ton. Þýðandi er Atli Magnússon. . Meðal efnisþátta sem fjallað er um eru líkamsgerð risaeðlanna, kjöt- ætur og jurtaætur, grameðlan, enda- lok valdaskeiðs risaeðlanna, þróunin frá apa til manns, Darwin og uppruni tegundanna, Neanderdalsmaðurinn, þorp á forsögulegum tíma, forsöguleg dýr og frumstæð list og verktækni. Bókin er ríkulega myndskreytt Útgefandi er Skjaldborg. Bókin er 52 bls., prentuð á Ítalíu. Verð: 2.380 kr. Heimur vélanna er í flokki barna- og unglingabóka frá Newton. Jón Daníelsson þýddi. Í þessari bók segir frá þróun tækni og véla á fjölmörgum svið- um sem snerta líf okkar á hverjum einasta degi. Fjallað er um járn- brautarlestir, bíla og flugvélar, raf- magn, gúmmí og plast, miðlun frá skrifletri til farsíma og gervihnatta og tölvutækni af öllu tagi, og þá er aðeins nokkuð nefnt. Bókin er ríku- lega myndskreytt. Útgefandi er Skjaldborg. Bókin er 52 bls., prentuð á Ítalíu. Verð: 2.380 kr. Hin mennska vél er í flokki barna- og unglingabóka frá Newton. Björn Jónsson þýddi. Hér segir frá mannslíkamanum og kerfum hans. Líkamanum og líkamsstarfsem- inni er líkt við vinnu vélar sem gerir frásögnina afar aðgengilega fyrir lesandann, ásamt með fjölbreyttum og aðlaðandi myndum. Fyrst er farið í ferð um líkamann og einstök kerfi skoðuð, síðan er einstökum líf- færum lýst nánar en að lokum er fjallað ítarlega um heilann og hugar- starfsemina. Útgefandi er Skjaldborg. Bókin er 52 bls., prentuð á Ítalíu. Verð: 2.380 kr. Miklihvellur – og svo kom lífið er í flokki barna- og unglingabóka. Jón Daníelsson ís- lenskaði. Hér er fjallað um það hvernig al- heimurinn varð til og hugmyndir manna um það gegnum aldirnar.Meðal efnisþátta, sem um er fjallað, eru uppruni efnisins, framtíð geimsins, svarthol, samsíða heimar, fæðing sólkerfisins, saga og lýsing hverrar stjörnu í sólkerfinu, fæðing jarðar, fæðing lífsins, fyrstu lífver- urnar og þróunarsaga lífveranna. Útgefandi er Skjaldborg. Bókin er 52 bls., prentuð á Ítalíu. Verð: 2.380 kr.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.