Morgunblaðið - 12.03.2002, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 12.03.2002, Blaðsíða 26
26 C ÞRIÐJUDAGUR 12. MARS 2002 MORGUNBLAÐIÐHeimiliFasteignir H vernig mótaðist funkis-stefnan og hvenær barst hún hingað til lands? Funkis er í raun sama stefn- an og kölluð er módernismi á alþjóðlega vísu, eða nú- tímastefna. Orðið funksjónalismi má þýða sem notagildisstefna í bygging- arlist, en orðið funkis er stytting á orðinu funktionalismi og er eins kon- ar gæluorð eða viðurnefni úr sænsku sem notað var af almenningi þar yfir þessa stílstefnu og breytingu sem varð í húsastíl eftir 1930. Margþætt áhrif mótuðu breytingarnar sem urðu á byggingarlist upp úr 1930. Þetta var ný stílhugsun sem birtist í því að klassískri hefð í mótun forma var kastað fyrir róða. Öllu því sem kallast gat skraut var ýtt til hliðar og því var þetta róttæk endurhugsun á öllum þáttum húsbygginga, t.d. í ljósi iðnbyltingarinnar og samfélagshug- mynda þess tíma. Arkitektúrinn átti ekki bara að vera skraut í híbýlum hinna efnameiri, heldur ætti alþýðan einnig rétt á því að búa í heilsusam- legu, einföldu og góðu húsnæði, og njóta sömu grunngæða í húsnæði sínu og þeir sem betur máttu sín. Þessi nýja sýn á samfélagið, sem tengdist stjórnmálahreyfingu þess tíma, var einn þáttur í mótun funkis- stefnunnar. Þessi fagurfræði einfaldleikans sótti fyrirmyndir sínar mjög mikið í hin nýju samgöngutæki sem voru að koma fram á þeim tíma. Menn trúðu því að iðnbyltingin – tækni og þekk- ing mannsins – mundi skapa nýjan og betri heim. Þetta var því liður í því að brjóta tenginguna við fortíðina og skapa eitthvað nýtt frá grunni. Þá litu menn helst til forms þessara nýju tæknilegu hluta, svo sem bíla, flug- véla, loftskipa, þar sem formið og gerð hlutarins mótaðist algjörlega af því sem var tæknileg nauðsyn, en öllu skrauti var sleppt. Þ.e. þar sem nota- gildið mótaði form hlutarins, en sem dæmi um slíka hluti má t.d. nefna tennisspaðann. Að einhverju leyti var leitast við að ná þessu sama í bygg- ingarlist. Menn komu fram með skil- greiningar eins og „húsið er vél til að búa í“, en þegar maður skoðar þessi hús minnir útlit þeirra mjög mikið á vélræn form í yfirbyggingum skipa; verandirnar á þakinu með stálpípu- handriðunum minna á þilför o.s.frv. Þetta er ekki fráleit samlíking. Menn voru mjög uppteknir af þessum nýja heimi tækninnar og möguleikum á að nýta hana mannkyninu til góðs. Í raun var þetta fremur allsherjar hug- sjón um að endurhugsa byggingarlist frá grunni heldur en nýr stíll. Það sama átti sér stað í myndlist og tón- list. Þessi formbylting fór í ákveðinn farveg og þessi hús hafa vissulega ákveðin útlitseinkenni. Margir þeir sem voru að teikna hús hér á landi á þessum tíma tóku í raun upp ytri formeinkennin og gerðu að einskonar stíl þótt það hafi aldrei verið hugsun þeirra frumherja sem mótuðu þessa stefnu í upphafi. Hvenær berast funkis-áhrifin til Íslands? Þessir nýju straumar í húsagerð- arlist berast hingað til lands um og eftir 1930. Fyrsta húsið sem teiknað var með skýrum útlitseinkennum þessarar nýju stefnu, er hús Ólafs Thors við Garðastræti 41 í Reykja- vík. Þessu húsi er þó búið að breyta mikið þannig funkis-stíleinkennin eru ekki jafnaugljós og þau voru í upphafi. Það sem vekur athygli á því húsi eins og það leit út í upphafi eru t.d. horngluggarnir, sem eru eitt auð- þekkjanlegasta útlitseinkenni þess- arar stefnu, en það var einnig með flötu þaki og á þakinu voru svalir. Það var hægt að ganga út á þakið úr litlu þakhýsi og stálpípuhandrið var á svölunum. Í staðinn fyrir skreytingu utan á húsunum, sem hafði verið ein- kennandi í húsagerðarlist fyrir þenn- an tíma, var allt slétt skorið og hreint. Formin eru mjög hreinskorin en eru jafnframt ákveðinn leikur með grunnform, s.s. sívalning, ferning, tening. Það var svo ákveðin fagur- fræði eða formtilfinning falin í því hvernig menn settu þessi form sam- an. Hugsunin snerist þó mikið um rökrétt innra skipulag, svo sem að herbergjum væri raðað niður með til- liti til notagildis þeirra og hlutverks, og einnig að innbyrðis afstaða þeirra væri skýr og niðurröðun þeirra tæki tillit til sólarljóssins. Rýmishugsun var svo einnig þáttur í þessari nýju stefnu, eða að ytra og innra rými hússins gætu tengst og opnast. Er- lendis gengu menn töluvert langt í þessum efnum, húsin voru með stórum samfelldum glerveggjum með opið út í garð eða á svalir, svo ytra og innra rými rann saman í eina heild. Hér á landi kom sú hugsun í húsagerð ekki fyrr en nokkru seinna, eða eftir stríð. Samt má segja sem svo að t.d. horngluggarnir frá þess- um tíma sé ákveðið skref í þessa átt. Með því að opna upp horn herberg- isins í stað þess að hafa gluggann sem afmarkaðan reit á miðjum vegg þá skapaði það öðruvísi og opnari tengsl út á við heldur en hefðbundnir gluggar. Hvernig reyndust þessi hús við ís- lenskar aðstæður? Það kom í ljós að tæknilegir ágall- ar voru á þessum fyrstu fulltrúum funkis-húsa sem byggð voru hér á milli 1930 og 1935. Á þeim tíma réðu menn ekki alveg við það að gera flöt eða lítið hallandi þök og því reyndust þökin á sumum þessara húsa ekki nógu vel. Lekavandamál skutu upp kollinum, svo fljótlega hurfu menn frá því að byggja marflöt þök, og þessi nýja húsagerð gekk í gegnum um aðlögun að íslenskum aðstæðum. Þessa aðlögun má t.d. sjá á húsum við Hávallagötu í Reykjavík, þar eru komin valmaþök sem halla í fjórar áttir, og koma þau í staðinn fyrir flötu þökin. En grunnhugsunin í húsunum, áherslan á einfaldleika og notagildi breyttist ekki þrátt fyrir þessa aðlög- un. Ákveðnir byggingarhættir hér á landi ýttu undir útbreiðslu þessarar stefnu. Steinsteypa sem byggingar- efni í almennum íbúðarhúsabygging- um var notuð í meira mæli hér en er- lendis og þessi nýi stíll féll vel að efniseiginleikum steinsteypunnar. Á síðari hluta 4. áratugarins byggðust því upp stór og heildstæð hverfi, eins og t.d. Norðurmýri og Melarnir, og svo Hlíðarnar og Laugarneshverfi á styrjaldarárunum. Funkis-stefnan hefur haft mótandi áhrif á þessi hverfi og þó svo einstök hús séu kannski ekki meistaraverk í sjálfu sér, þá varð til sterk heildarmynd. Er hægt að breyta þessum húsum án þess að skemma stílinn? Búið er að breyta flestum þökum fyrstu húsanna sem hér voru byggð og var það vegna tæknilegra vanda- mála, s.s. leka. Það er hins mjög erfitt að byggja við eða breyta þessum hús- um svo vel fari. Þau eru svo hrein- skorin og samspil formanna er mótað af mikilli næmni, og í raun eru þau eins konar höggmyndir. Ef reynt er að breyta þessum formum þá riðlast öll hlutföll hússins. Einnig hefur mik- ilvægum deililausnum verið breytt, s.s. gluggum. Í mörgum tilvikum voru mjög fínlegir gluggar í þessum húsum, oft voru gluggapóstar úr málmi. Opnanlegu fögin voru líka fín- leg og nánast ósýnileg. Þessum gluggum hefur í flestum tilfellum verið skipt út og í staðinn hafa komið gluggar sem hafa ekki sama léttleika og upprunalegu gluggarnir. Í sumum tilfellum hefur verið málað yfir upp- runalega múrinn í stað þess að gera við hann með upphaflegum aðferð- um, sem vel er hægt enn í dag. Það er auðvitað ekkert óeðlilegt að hálfrar aldar gömul hús þurfi sitt viðhald. Þessi hús sem byggð voru með hefð- bundnu funkislagi sem mótaðist hér á landi, s.s. valmaþakshúsin, hafa mörg hver reynst afskaplega vel. Svo það má segja að það hafi eingöngu verið frumherjahúsin sem var breytt að einhverju ráði. En það er eftirsjá í því að við skulum ekki eiga fleiri full- trúa þessa tímabils í sinni rétt út- færðu, upphaflegu mynd. Garðastræti 37, teiknað árið 1939 af Gunnlaugi Halldórssyni arkitekt fyrir Magnús Víglundsson, er gott dæmi um fyrstu gerð funkis-húsa sem byggð voru hér á landi, þótt það sé byggt í lok 4. áratugarins. Þessu húsi hefur verið breytt í tím- ans rás með viðbyggingum. Melahverfi í Reykjavík er dæmi um áhrif funkis-stefnunnar. Morgunblaðið/Ásdís Kanon-arkitektar ehf. hönnuðu þessi nýju fjölbýlishús við Kristnibraut undir áhrifum funkis-stefnunnar. Funkis er stefna í bygg- ingarlist sem hófst upp úr 1930. Hún á sér hlið- stæðu bæði í myndlist og tónlist, en þetta hugtak er yfirleitt notað um byggingarlist módern- ismans fram að seinni heimsstyrjöld. Guðlaug Sigurðardóttir ræddi við Pétur H. Ármannsson, deildarstjóra byggingar- listardeildar Reykjavíkur, um funkis-stefnuna og þau áhrif sem hún hafði á byggingarlist hér á landi. F U N K I S Fagurfræði einfaldleika og nytsemi

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.