Morgunblaðið - 02.04.2002, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 02.04.2002, Blaðsíða 26
MINNINGAR 26 ÞRIÐJUDAGUR 2. APRÍL 2002 MORGUNBLAÐIÐ Áskirkja. Opið hús fyrir alla aldurshópa kl. 10–14 í neðri safnaðarsal. Skemmtiganga um Laugardalinn eða upplestur kl. 10.30. Umsjón Þóranna Þórarinsdóttir. Bæna- og fyrirbænastund kl. 12 í kirkjuni. Umsjón Guðrún K. Þórsdóttir. Léttur hádegisverður að stundinni lokinni. Samvera foreldra unga barna kl.14–16 í neðri safnaðarsal. 12 spora starf kl. 19 í kirkjunni. Bústaðakirkja. TTT-starf fyrir 10–12 ára kl. 17. Grensáskirkja. Kyrrðarstund í hádegi kl. 12.10. Orgelleikur, ritningalestur, altaris- ganga, fyrirbænir. Léttur hádegisverður í safnaðarheimili eftir stundina. Hallgrímskirkja. Fyrirbænaguðsþjónusta í dag kl. 10.30. Beðið fyrir sjúkum. Háteigskirkja. Ævintýraklúbburinn kl. 17. Fjölbreytt og skemmtilegt starf fyrir börn úr 1.–3. bekk í umsjón Guðrúnar Helgu, Sig- rúnar, Völu og Jóhönnu. Öll börn velkomin. Unglingaklúbburinn MeMe kl. 19.30. Kröft- ugt starf fyrir unglinga í umsjón Gunnfríðar og Jóhönnu. Laugarneskirkja. 12 spora hópar koma saman kl. 19 í safnaðarheimilinu. Ath. breyttan tíma. Þriðjudagur með Þorvaldi kl. 21. Lofgjörðarstund þar sem Þorvaldur Halldórsson leiðir sönginn við undirleik Gunnars Gunnarssonar. Sóknarprestur flyt- ur guðs orð og bæn. Neskirkja. Foreldramorgunn miðvikudag kl. 10–12. Umsjón Elínborg Lárusdóttir. Seltjarnarneskirkja. Foreldramorgunn kl. 10–12. Starf fyrir 7–9 ára kl. 16 og fyrir 10– 12 ára kl. 17.30. Fríkirkjan í Reykjavík. Kyrrðar– og bæna- stund í dag þriðjudag kl. 12 í kapellu safn- aðarins á 2. hæð í safnaðarheimili kirkj- unnar, Laufásvegi 13. Allir velkomnir til þátttöku. Árbæjarkirkja. Foreldramorgnar kl. 10–12. Hittumst, kynnumst, fræðumst. TTT-klúbb- urinn í Ártúnsskóla kl. 14.20–15.20. Barnakóraæfing kl. 17–18. Breiðholtskirkja. Bænaguðsþjónusta með altarisgöngu kl. 18.30. Bænaefnum má koma til sóknarprests í viðtalstímum hans. Biblíulestrar kl. 20. Síðasti dagur nám- skeiðsins. Á námskeiðinu verður leitast við að draga fram nokkra áhersluþætti í sið- fræðiboðskap Jesú sem þessar hugmyndir höfða bæði réttilega til og annað sem er rangtúlkað. Farið verður í valda texta úr Nt. og m.a. tekin fyrir stef úr fjallræðunni og dæmisögum Jesú. Fyrirlesari er dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson héraðsprestur í Reykjavík- urprófastsdæmi eystra. Á eftir fyrirlestrin- um er boðið upp á umræður yfir kaffibolla. Digraneskirkja. Starf fyrir 10–12 ára á veg- um KFUM&K og Digraneskirkju kl. 16.30– 18.15. Fella- og Hólakirkja. Kyrrðar- og bæna- stund kl. 12. Bænarefnum má koma til djákna í síma 557-3280 og í sama síma er hægt að panta keyrslu til og frá kirkju. Létt- ur hádegisverður í safnaðarheimilinu eftir stundina og húsið opið áfram til kl. 15. Starf fyrir 11–12 ára drengi kl. 17. Grafarvogskirkja. Opið hús fyrir eldri borg- ara kl.13.30–16.30. Helgistund., handa- vinna, spil og spjall. Kaffiveitingar. TTT (10– 12 ára) í Engjaskóla kl. 18.30–19.30. Kirkjukrakkar í Engjaskóla fyrir börn 7–9 ára kl. 17.30–18.30. Æskulýðsfélag í Grafar- vogskirkju, eldri deild, kl. 20–22. Hjallakirkja. Bæna- og kyrrðarstund kl. 18. Kópavogskirkja. Foreldramorgunn í dag í safnaðarheimilinu Borgum kl. 10–12. Seljakirkja. Mömmumorgunn. Opið hús kl. 10–12. Kaffi og spjall. Vídalínskirkja. Opið hús fyrir eldri borgara kl. 13.30–16 í Kirkjuhvoli. Spilað og spjall- að. Helgistund í kirkjunni kl. 16. Fjölbreytt kristilegt starf fyrir 9–12 ára stúlkur í Kirkju- hvoli kl. 17.30 í umsjón KFUK. Bessastaðasókn. TTT-kristilegt æskulýðs- starf fyrir 10–12 ára í Álftanesskóla, stofu 104, kl. 17.30. Rúta ekur börnunum heim. Fríkirkjan í Hafnarfirði. Opið hús kl. 17– 18.30 fyrir 7–9 ára. Kl. 20–22 æskulýðs- félag yngri félaga. Víðistaðakirkja. Barnastarf fyrir 8–9 ára börn í dag kl 17:00. Kyrrðar– og fyrirbæna- stund með Taizé-söngvum í dag kl. 18:00. Hægt er að koma fyrirbænaefnum til sókn- arprests eða kirkjuvarðar. Hafnarfjarðarkirkja. Opið hús fyrir 10–12 ára börn í safnaðarheimilinu Strandbergi, Vonarhöfn frá kl. 17–18.30. Lágafellskirkja. Kirkjukrakkafundur í Lága- fellsskóla frá kl. 13.15–14.30. Landakirkja í Vestmannaeyjum. Kirkju- prakkarar falla niður þar sem enn er frí í skólum. Grindavíkurkirkja. Foreldramorgnar alla þriðjudaga kl. 10–12. Hveragerðiskirkja. Foreldramorgnar þriðju- dagsmorgna kl. 10–11.30. Borgarneskirkja. TTT tíu–tólf ára starf alla þriðjudagakl. 17–18. Helgistund í kirkjunni sömu daga kl. 18.15– 19. Þorlákskirkja. Fermingarfræðsla í dag kl. 13.40. Hvammstangakirkja. Æskulýðsfundur í Hrakhólum í kvöld kl. 20. Krossinn. Almenn samkoma kl.20.30 í Hlíðasmára 5. Allir velkomnir. Kefas. Brauðsbrotning og bænastund kl. 20.30. Allir velkomnir. Fíladelfía. Samvera eldri borgara kl. 15. All- ir velkomnir. Akureyrarkirkja. Morgunsöngur kl. 9. Glerárkirkja. Kyrrðarstund í dag kl. 18.10. Safnaðarstarf KIRKJUSTARF Quand je rencontre un morceau de bon en moi, je sais qu’il vient de toi, þegar ég skynja hið góða í mér, veit ég að það kemur frá þér. (Jules et Jim, 1962.) Elsku amma mín! Það eru ekki til nein orð sem fá lýst því hversu vænt mér þykir um þig, en mér finnst ég samt verða að reyna. Þegar þú kvaddir okkur á laug- ardaginn, missti ég þá manneskju sem mér þótti vænst um í öllum heiminum. Góðmennska þín og hjartahlýja var einstök. Á 28 ára ævi minni hef ég kynnst mörgu góðu fólki, en enginn kemst nálægt þér að manngæsku. Þú verður alltaf númer eitt í mínum huga, og ég hef reyndar aldrei þurft að segja þetta með þessum orðum, því við höfum alltaf skilið hvort annað. Ég var að miklu leyti alinn upp hjá þér og afa, í Löngumýri 22, þar sem mér hefur hér um bil alltaf liðið svo vel, þökk sé ykkur. Þegar eitt- hvað bjátaði á, t.d. þegar ég meiddi mig, varst þú til staðar og huggaðir mig, og þá varð allt gott aftur. Þú hefur gert svo margt fyrir mig að það væri móðgun við þig að reyna að telja það upp hér, það finnst mér allavega. Þó verð ég að nefna matinn þinn, sem ég tæki hvenær sem er fram yfir fínustu veitingahús heimsins. Ekki bara vegna þess hve góður hann var, heldur líka vegna þess, að hann var borinn fram með svo mikilli ást og umhyggju í hvert sinn. Ég vildi að ég hefði gert meira fyrir þig, en það sem blindaði mig var hve lítið þurfti til að gleðja þig, þú varst þakklát fyrir hvert smá- ræði sem ég gerði. Ef það mætti segja að eitthvað hefði einkennt þig, þá var það það, að þú hugsaðir alltaf fyrst um aðra. Þannig minnist ég þín. Mér finnst ég heppinn að hafa átt þig fyrir ömmu, og ég sakna þín svo mikið. Ég reyni að hugga mig við orðin þín frá í haust þegar þú sagðir að þú yrðir hjá mér í huganum, því þú ert það. Takk fyrir allt sem þú hefur gefið mér. Smári Rafn. Nú er baráttu Sollýar við erfiðan sjúkdóm lokið. Ég leyfi mér að líta svo á að Sollý hafi á vissan hátt far- ið með sigur af hólmi, þótt andstæð- ingurinn hafi vissulega knésett hana. Hún gafst ekki upp fyrir hon- um, heldur tók því sem að höndum bar með æðruleysi þess sem veit að óumflýjanleg örlög manneskjunnar hér á jörðu eru ekki endalok tilver- unnar. Ég minnist heimsókna í Löngu- mýri frá bernskuárum. Í minning- unni stendur uppúr sú tilfinning að þar væru alltaf allir glaðir og ég man líka að stundum fór ég allt að því hjá mér yfir móttökunum! Svo voru þær hlýjar og innilegar. Á myndinni sem ég hef í kollinum af fjölskyldunni er Sollý ekki fremst, heldur eiginlega eins og pínulítið í miðjunni og bakvið, svolítið fyrir of- an aðra fjölskyldumeðlimi. Og alltaf brosandi! Þessi minningarmynd held ég lýsi því hvernig hún rækti móðurhlutverkið frá mínum bæjar- dyrum séð. Alltaf nálæg og til taks, en aldrei í forgrunni. Og alltaf bros- andi!! (Ég hef hingað til ekki kynnst fjölskyldu sem brosir eins mikið og innilega og Löngumýrarfólkið.) Ég hitti Sollý nokkrum sinnum eftir að hún veiktist og alltaf var brosið á SÓLVEIG JÓNSDÓTTIR ✝ Sólveig Jónsdótt-ir fæddist á Sæ- bóli í Aðalvík 18. ágúst 1932. Hún lést á heimili sínu á Ak- ureyri 9. mars síðast- liðinn og fór útför hennar fram frá Möðruvöllum í Hörg- árdal 16. mars. sínum stað. Aðspurð hafði hún það alltaf gott og sýndi meiri áhuga á að tala um annarra hagi og líðan. Spurði sérstaklega um börnin mín, hvernig þeim gengi, hvort þau væru frísk og svo framvegis og hafði greinilega raunveru- legan áhuga á því, en spurði ekki bara fyrir kurteisissakir. Ingvi náfrændi minn. Þú átt góða konu. Ég segi „átt“ en ekki „áttir“, því ég hef þá trú að ástvinir séu bundnir órjúfanlegum böndum og að dauðinn sé aðeins tímabundinn aðskilnaður. Tíma- bundinn en alls ekki auðveldur. Ég þekki þig sem afar tilfinningaríkan mann og veit að sársaukinn ristir djúpt. Ég veit líka, eða tel mig vita, að „lagið er ekki búið“! Það eru bara kaflaskil. Hrynjandin á eftir að stíga aftur og söngurinn að hljóma. Elsku frændur og frænkur. Ég hugsa mikið til ykkar og held ég skynji brot af líðan ykkar á þessari erfiðu kveðjustund. Eiki bróðir í Noregi biður fyrir hjartanlegar samúðarkveðjur. Lára sömuleiðis og Gísli og Þórdís biðja að heilsa. Börnin þekktu Sollý lítið og hefði ég gjarnan viljað að þau hefðu fengið að kynnast henni betur. Ég hef hér að ofan þrástagast á brosi Sollýar og til marks um hvað bros skiptir miklu máli í samskiptum okkar mannanna tel ég vera að Þórdís man eftir Sollý sem; „já, konan sem amma var að heimsækja á spítal- ann“. Og svo með spurnartón: „Hún brosti þó hún væri veik!“ Guð gefi ykkur styrk. Haukur Hauksson. Kær frænka mín er dáin eftir stutt en erfið veikindi. Í mínum huga hefur Sollý alltaf verið eins og engill, tákn hins góða sem geislar af. Þegar ég fór í sveit norður í land sem unglingur var sjálfsagt að banka upp á hjá frænku. „Ertu komin, elskan mín,“ sagði hún. Þá tók á móti mér grönn og falleg kona, píreygð og brosandi, með svo hlýtt og innilegt faðmlag og klapp á kinn, að það er brennt inn í minninguna sem eitt af því besta sem ég hef upplifað. Það var ekki nema sjálfsagt að taka á móti mér þó að húsið væri fullt af börn- um, en Sollý og Ingvi eignuðust átta börn. Minningarnar frá þeim stundum sem ég dvaldi á Löngu- mýri eru litaðar af góðmennsku, gleði og söng, og alltaf hafa móttök- urnar verið jafn innilegar hjá þeim hjónum. Ég þakkir færi því nú skilja leiðir. Þigg þú litla gjöf úr hendi mér. Ég bið að þínir vegir verði greiðir ég veit að ég mun aldrei gleyma þér. (Guðrún V. Gísladóttir.) Minningin um góða og hjarta- hlýja konu mun lifa að eilífu. Góður guð styrki ástvini hennar í sorginni. Elinóra Inga. Alltaf kemur dauðinn óvænt, jafnvel þótt alla gruni að stundin nálgast. Ég talaði í síma við Sollý viku fyrir andlát hennar. Rósemi og jafnvægi einkenndu tal hennar þá eins og alltaf frá upphafi veikinda. Hún sýndi ótrúlegan styrk þegar hún var spurð um líðan, alltaf já- kvæð og þakklæti til alls og allra streymdi frá henni. – Þakklæti –. Já, það er voldugt hugarástand sem byggir upp, fyrst og fremst þann sem ræktar það, en gleður jafnframt alla sem hann um- gangast. Flest heilbrigt fólk sýnir þeim þakklæti sem gera því gott. En þeg- ar dauðvona sjúklingur er fær um að brosa og þakka sjálfsagða um- hyggju, fer maður að íhuga og spyr: Hvaðan kemur sá styrkur sem gerir þetta fært? Reynsla mín af sjúklingum við þessar aðstæður er sú að undir- staðan sé djúp trúarvissa hins sjúka. Hún er ekki alltaf mest hjá þeim sem hæst hrópar. Hún kemur fram í daglegu fari manna og blómstrar þegar syrtir í álinn og þörfin er mest. Við Sollý höfum þekkst í meira en hálfa öld. Eiginmenn okkar voru systkinasynir í báðar ættir. Þegar við fjögur vorum saman á manna- mótum spurðu margir hvort við værum systur en sáu ekki svipmót frændanna. Þetta fannst okkur kát- legt. Við Sollý fórum ungar að fjölga mannkyninu og var ekki laust við að tíðar barneignir vektu umtal. Þær voru ekki „í tísku“. Við kærðum okkur kollóttar og nutum af alhug samvista við gimsteinana okkar. Ég var úr leik eftir 5 börn en Sollý og Ingvi eignuðust 6 dætur og 2 syni sem voru yngstir. Þessi 8 börn nutu öryggis og ástríkis foreldra, en líka lengi vel afa og ömmu sem bjuggu skammt frá á Akureyri. Góð heimili eru hornsteinar þjóðfélagsins og skila því nýtum þegnum. Ekki veitir af. Íslenska þjóðin er fámenn og hver einstaklingur mikils virði. Tónlist setti mikinn svip á fjöl- skyldulífið. Ingvi spilaði á harmon- iku og píanó og mikið var sungið og spilað. Jóhann Ó. Haraldsson tón- skáld, faðir Ingva var óþreytandi að láta systurnar syngja en lést of snemma til þess að bræðurnir fengju að njóta hans. Þær systur sungu víða við gítarundirleik Þor- bjargar elstu systurinnar og for- eldrarnir studdu þær í hvívetna. Þau hjón sóttu tónleika hvenær sem færi gafst og Ingvi hefur sungið í karlakór í hálfa öld. Þó að Sollý tæki ekki þátt í kórstarfi var tónlist henni í blóð borin og hún naut hennar af alhug. Hálft ár er síðan ský dró fyrir sólu og ljóst var að illkynja sjúk- dómur hrjáði Sollý. Hún tók því með þvílíku æðruleysi og yfirvegun að undrun sætti. Starfsstúlka á Sjúkrahóteli Rauða krossins hafði orð á því við mig hve dásamlegt væri að sjá samstöðu þeirra hjóna í baráttunni og hve ótrauður Ingvi legði sig í líma við aðhlynningu konu sinnar, þó eigi gengi hann sjálfur heill til skógar. Ég hef hug- boð um að Sollý myndi samþykkja að gera eftirfarandi vers úr sálmi Stefáns Thorarensen að sínum: Ég lifi nú þegar í Drottni í dag, ég dey svo að erfi ég lífið, ég ferðast mót eilífum unaðarhag. Hví er þá mín sál ei með gleðibrag? Ég á þegar eilífa lífið. Guð blessi minningu mætrar konu. Þórný Þórarinsdóttir. Fyrir tíma tölvanna voru fjöl- skyldualbúmin börnum löngum vin- sæl afþreying. Tímunum saman var hægt að sitja við gömul albúm, virða fyrir sér myndir af fólki eða stöðum sem maður ýmist þekkti eða ekki. Meðal slíkra mynda í einu af al- búmum foreldra minna var mynd af tveimur stelpum. Aðra stelpuna þekkti ég, Mörtu yngri systur hans pabba. Hina þekkti ég hins vegar ekki. Hún var lítil, svona tveggja til þriggja ára, í fínum dökkum kjól með hvítum kraga, bústnar kinnar með kolsvart hár að því er virtist og grafalvarlegum augum horfði hún á ljósmyndarann. Og svo var hún svo dökk að ég var sannfærð um að hún væri frá útlöndum. Ég var búin að spá mikið í þessa stelpu áður en ég spurði pabba minn hver hún væri. Jú, þetta var hún Sollý, frænka hans. Myndina hafði hann tekið á Langeyri í Álftafirði sumarið 1934, en þá dvaldi Sollý hjá föðursystur sinni, Ingveldi ömmu minni, og fjöl- skyldu hennar um tíma. Seinna sagði ég Sollý frá þessari mynd og hversu hugleikin hún hafði verið mér og við ræddum um dvöl hennar hjá ömmu og fjölskyldu hennar á Langeyrinni þetta sumar. Sollý litla var komin langt að, eða alla leið úr Aðalvík vestur, þar sem hún átti heima á Læk, „óðali feðr- anna“. Eflaust hafa það verið mikil umskipti fyrir litla stúlku á þessum tíma að þurfa að fara svo langt að heiman og ekki veit ég hversu vel hún þekkti þetta skyldfólk sitt fyrir, og kannski er þar skýring á alvar- legum svip litlu stúlkunnar á mynd- inni. Pabbi minn var fimmtán árum eldri og Sollý hafði gaman af að rifja upp samskipti þeirra. „Hann Hermann hafði nú gaman af að stríða mér,“ sagði hún og brosti, – en bætti svo við: „En hann var allt- af góður við mig,“ og svo hló hún sínum smitandi hlátri. Það er þessi smitandi hlátur sem var svo einkennandi fyrir hana Sollý. Hlý, grönn, brosmild, með blik í auga. Og svo þetta dökka yfirbragð sem svo margir Aðalvíkingar bera. Hún var ekki stór kona, hún frænka mín, í líkamlegu tilliti, en hún var þeim mun stærri persóna og fáa þekki ég með betri nærveru en hana. Sollý hitti ég í fyrsta skipti þegar ég var líklega fjórtán ára, þá í sum- arvinnu í apótekinu á Ísafirði. Þar kom inn hópur fólks, kórfélagar frá Akureyri á leið til Bolungarvíkur að halda þar tónleika. Hópurinn kaus að fara siglandi þangað og nokkur úr hópnum komu í apótekið að kaupa sjóveikitöflur. Þá spurði ein konan mig brosandi hvort ég væri dóttir Hermanns. Þessi spurning úr þessum ókunna hópi kom mér á óvart. Þar var þá komin Sollý, frænka mín úr Aðalvík. Næst hittumst við á Akureyri nokkrum árum síðar, en þá var ég komin í MA. Ég hef stundum sagt við dætur Sollýjar að mamma þeirra hafi þá bjargað lífi mínu, það var sama hvenær ég kom í Löngu- mýri 22, alltaf var mér tekið af sömu hlýjunni af þeim Sollý, Ingva og frænkum mínum og þau æv- inlega tilbúin að leysa allan minn vanda. Gilti þá einu hvort mig vant- aði „bara“ umhyggju, svefnpoka eða skíði fyrir skálaferðina. Það var ekki fyrr en löngu seinna að ég hug- leiddi í alvöru aðstæður þeirra á þessum árum, ungra hjóna á kafi í lífsbaráttunni. Og öll þessi börn! Eflaust hefur Sollý, þessi grann- vaxna og fíngerða kona, oft þurft að leggja hart að sér og átt langan vinnudag. En aldrei fann ég það. Það var bara eins og að koma heim að koma í Löngumýrina. Við María Björk höfum raunar augljósa skýringu á þessari seiglu, og það náttúrlega Aðalvíkurþrá- inn … og svo þessi ótrúlega létta lund, sama á hverju gekk. Það duldist ekki neinum sem þekkti Sollý að átthagarnir voru henni afar kærir. Þau Ingvi fóru í Aðalvík eins oft og því varð við komið, og þar eiga þau Sollý og systkini hennar bústað á Læk. Mér er minnisstætt þegar María Björk sagði mér frá því þegar hún fór í fyrsta skipti með mömmu sinni til Aðalvíkur. „Þá kynntist ég alveg nýrri hlið á henni mömmu, hún naut sín svo vel og það geislaði af henni.“ Ég held virkilega að hún Sollý hafi haft Aðalvíkina í blóðinu, og eflaust hefur Aðalvíkurþráinn oft bjargað henni í lífsbaráttunni, ekki síst nú í snarpri og stuttri baráttu hennar við veikindin sem hún þó varð að lúta í lægra haldi fyrir. Hún var börnum sínum öllum og barnabörnunum einstök móðir og þau voru þess umkomin að endur- gjalda henni það þegar hún þurfti á þeim að halda nú í lokin. Ég bið Guð að geyma Sollý frænku mína og þakka einstaka hugulsemi og hlýju við mig og mína. Við Árni, Áslaug, Ragnar Páll og Björn Magnús sendum Ingva og fjölskyldunni einlægar samúðar- kveðjur. Megi ljúfar minningar vera þeim styrkur. Ég leyfi mér að kveðja hana með þessu ljóði Hannesar Péturssonar: Sá er eftir lifir deyr þeim sem deyr en hinn dáni lifir í hjarta og minni manna er hans sakna. Þeir eru himnarnir honum yfir. Ásdís Hermannsdóttir (Addý).

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.