Morgunblaðið - 05.05.2002, Blaðsíða 2

Morgunblaðið - 05.05.2002, Blaðsíða 2
TILFINNINGIN er ein-kennileg. Síbería; enda-laus slétta í allar áttir,svo langt sem augaðeygir, snjór eða trjá- breiður. # 501. Hálftíma flug í tveimur stórum þyrlum frá Salekhard, höfuðborg Yamal-Nenets-sjálfstjórnarhéraðs- ins. Þangað flugum við daginn áður í tvær og hálfa klukkustund með þotu frá Moskvu, austur yfir Úralfjöll. # 501. Hingað kemur enginn lengur. Og hefur ekki gert lengi. Þegar forseti Íslands fór fram á það að fá að skoða Gúlag, einhverjar þeirra alræmdu fangabúða sem dreifðar voru um Sovétríkin lungann úr síðustu öld, var hins vegar fallist á þá bón. Í fyrsta skipti sem erlendur þjóðhöfðingi í opinberri heimsókn kemur í slíkar búðir. # 501. Nafn búðanna er ópersónulegt. Við sjáum nokkra trékofa í fjarska, í trjálundi. Þarna er allt á kafi í snjó, en vegna komu forsetans og fylgdarliðs hans hefur verið smíð- aður trépallur í rjóðrinu miðju og göngustígur þaðan út að lendingar- stað þyrlnanna. Ófært að láta forset- ann vaða snjó upp í mitti. Staðurinn lætur ekki mikið yfir sér. Þetta er eins og að koma í ís- lenskar sumarbúðir að vetrarlagi ef ekki væri fyrir gaddavírsdræsurnar sem enn er að finna kringum svæðið. Og ef ekki væri fyrir söguna. Hún umlykur staðinn og æpir á viðstadda þegar komið er inn í vistarverur fanganna. Júrí Neyolov, héraðsstjóri Yamal- Nenets, er með í för. Þegar á staðinn er komið upplýsist að hann þekkir búðirnar af eigin raun; Neyolov fæddist hér. Foreldrar hans fangar en eftir að faðirinn hafði afplánað sinn dóm hóf hann störf sem vörður á staðnum. Það var algengt að sögn heimamanna; þegar refsidvöl lauk átti fólk ógjarnan kost á því að velja sér bústað. Margir vildu til borga, en yfirvöldum var í mun að fólk yrði ein- hvers staðar til sveita. Líkaði fólki ekki síðari kosturinn stóð því til boða að dvelja áfram í Gúlaginu, fá þar starf fangavarða, og margir tóku því boði. Eiginkona héraðsstjórans er að koma í búðirnar í fyrsta skipti. Magnað. Heimamenn segja okkur að hitinn fari upp í 35–40 gráður á sumrin og þá sé mývargurinn óskemmtilegur, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, en frostið á veturnar geti farið allt niður í 60 stig. Öfgar. Eins og lífið. Þær milljónir sem hnepptar voru í varðhald í Gúlagi – allt frá venjuleg- um glæpamönnum, þjófum og morð- ingjum, til erlendra stríðsfanga eftir síðari heimsstyrjöldina og innlendra pólitískra fanga – unnu til að mynda í námum og við gerð járnbrauta, skipaskurða, vega og orkuveitna. Þeir sem dvöldu í # 501 unnu við gerð heljarmikillar járnbrautar, að sögn fylgdarmanna okkar. Hún lá eitthvert langt í austurátt og var næstum tilbúin þegar Stalín gaf upp öndina í mars 1953. Fljótlega eftir lát foringjans var hætt við framkvæmd- ina og síðan hafa járnbrautartein- arnir ryðgað og grotnað niður. Voru aldrei notaðir. Því má segja að í # 501 hafi tugir þúsunda manna látið lífið til einskis. „Ömurleg tilvera hefur þetta óneitanlega verið og það sem mér fannst líka vera nístandi var að fljúga úr bænum og í búðirnar yfir þessar endalausu snjóbreiður og sléttur þar sem ekkert kennileiti var svo jafnvel þótt menn hefðu kannski komist út úr þessum búðum var það gjörsamlega vonlaust að finna nokk- urn tíma leið út úr því umhverfi sem hér er, hundruð og þúsundir kíló- metra í allar áttir án þess að nokk- urn annan bústað sé að finna en slík- ar fangabúðir,“ sagði forseti Íslands í samtali við Morgunblaðið eftir heimsóknina. „Það var ólýsanleg stund og erfitt að finna orð sem tjá það sem býr í huganum þegar við komum á þennan stað því að hann er enn slíkt tákn fyrir ógnarstjórnina, harðræðið, hörmungarnar og mannfórnirnar sem hér áttu sér stað og það var líka fróðlegt að heyra lýsingar fólksins héðan af svæðinu á því að rúmlega 200 þúsund manns hefðu verið í þessum búðum og stór hluti þeirra – tugir þúsunda – hefðu látist vegna harðræðisins sem þar var,“ sagði Ólafur Ragnar. Gúlag; Gasudarstvénnoe Upravl- éníé Lageréí – stjórn Ríkisvinnubúð- anna, eins og Eyvindur Erlendsson og Ásgeir Ingólfsson þýða það í verki Solsjenitsyn, Gulag eyjarnar sem kom út í tveimur bindum hjá Siglufjarðarprentsmiðju í upphafi áttunda áratugarins, skömmu eftir að Solsjenitsyn tókst að gefa hana út. Hann hlaut Nóbelinn fyrir en var kærður fyrir landráð heima fyrir og rekinn úr landi. Sjálfur var Solsjenitsyn í Gúlagi í átta ár. Hann segir á einum stað: – kona, sem ók strætisvagni í Krasnodar, var á leið heim til sín fót- gangandi að næturlagi og var svo óheppin að ganga fram á bilaðan vörubíl og menn, sem voru að brasa við hann. Bíllinn reyndist hlaðinn lík- um, hendur og fætur stóðu út undan seglinu. Nafn hennar var skrifað nið- ur og hún handtekin daginn eftir. Rannsóknardómarinn spurði hana hvað hún hefði séð. Hún sagði sem satt var (darvínskt úrval). Andsov- éskur áróður: 10 ár. – pípulagningamaður nokkur slökkti ævinlega á útvarpinu, þegar verið var að lesa þessi óendanlegu bréf til Stalíns. Nágranninn klagaði (ó, að sá nágranni væri nú hendi nær!) HE (hættulegt element): 8 ár; – einn illa upplýstur múrari hafði þann ávana, að rissa í frítímum sín- um – hækkaði sig með þessu í áliti hjá sjálfum sér. Óskrifaðan pappír var hvergi að hafa og því krassaði hann á dagblöðin. Nágrannarnir fundu blaðið hans með skreyttri ásjónu Föður vors og Lærimeistara í ruslapoka á sameiginlegu salerni. Sagan umlyk- ur staðinn og æpir á gestina Í þessum svefnskála var gert ráð fyrir rúmlega 100 manns. Að ofan: Ólafur Ragnar Grímsson og Dorritt Moussaieff ganga í fararbroddi í átt að skálanum. Svefnskálinn sem forseta Íslands og öðrum gestum var sýndur í # 501. Morgunblaðið/Skapti Eins og að koma í íslenskar sumarbúðir að vetr- arlagi ef ekki væri fyrir gaddavírinn. Og ef ekki væri fyrir söguna, skrifar Skapti Hallgrímsson sem fór með forseta Íslands í Gúlag 501 í Síberíu. Ólafur Ragnar Grímsson og Neyolov héraðsstjóri sem fæddist í Gúlaginu. 2 B SUNNUDAGUR 5. MAÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.