Morgunblaðið - 18.12.2002, Síða 10

Morgunblaðið - 18.12.2002, Síða 10
FRÉTTIR 10 MIÐVIKUDAGUR 18. DESEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ E INN vetrardag hringir síminn á heimili móður táningsstúlku á höfuð- borgarsvæðinu og er henni tjáð að dóttur henn- ar líði illa og sé stödd í Rauðakrosshúsinu. Henni er sagt að bíða eftir að haft verði samband við hana en fær engin svör er hún spyr um ástæður vanlíðunar dótturinnar sem fór að venju í skól- ann um morguninn og ekkert virtist ama að. „Fyrstu viðbrögð voru þau að eitthvað hefði gerst í skólanum, að eitthvað í fortíðinni væri að koma fram núna og ylli vanlíðaninni, eða að hún væri farin að glíma við geðsjúkdóm,“ segir móð- irin um viðbrögð sín við símtalinu. Við tók bið og það var ekki fyrr en þremur vikum seinna, eftir ótal símtöl, að móðirin var kvödd í viðtal við sál- fræðing sem greindi henni frá því að dóttir hennar væri að „brjótast undan foreldravaldi“ eins og það var orðað. „Ég sé núna að ég hefði átt að krefjast svara strax, af hverju leið dóttur minni illa? Ég átti ekki að þurfa að bíða milli vonar og ótta við símann eftir svörum. Við þessu vil ég vara foreldra. Þeir hafa neitunarvaldið. Þeir eiga heimtingu á svörum. Ég hefði aldrei átt að samþykkja að hún fengi að dvelja þarna.“ Í framhaldinu fór af stað atburðarás þar sem fjölskyldan og lögreglan leituðu stúlkunnar á víxl, hún fór tvívegis í meðferð að Stuðlum vegna neyslu eiturlyfja og flutti að heiman. Stúlkan hafði ekki lokið 10. bekk þegar saga okkar hefst. Flakk og lögregluleit Barnaverndarnefnd tók við málinu eftir að dóttirin flutti í Rauðakrosshúsið. Stuttu síðar varð dóttirin að fara þaðan þar sem hún hlýddi ekki reglum og dvaldi þá hjá fjölskyldumeðlimi fram yfir samræmdu prófin. „Barnaverndarnefnd vildi þá loka málinu en ég mótmælti því. Stelpan var komin það langt út fyrir rammann að ég var búin að missa valdið yf- ir henni. Það varð ekki aftur snúið.“ Eftir prófin kom hún aftur heim og dvaldi þar í rúman mánuð. Eitt kvöldið um vorið kom hún heim og var æst, ruddi móður sinni um koll og æddi út. Þar var beðið eftir henni. Hún hafði undirbúið þessa leiksýningu til að komast út um nóttina. „Þá fer hún aftur í Rauðakrosshúsið. Þaðan er hringt í mig og ég spurð hvort hún megi dvelja þar en ég neita.“ Svo var stúlkan á flakki úti um allt um sum- arið, bjó hjá bróður sínum, leigði herbergi og sagðist ætla að sjá um sig sjálf. „Þá var hún búin að taka völdin, hún sagði fólki hvað hún ætlaði að gera og ekkert sem við sögðum fékk því breytt.“ Móðirin var oft í sambandi við barnavernd- arnefnd um sumarið en ekkert varð að gert. Dóttirin var fljótlega rekin úr leiguhúsnæð- inu og fékk inni hjá vinum. Mikið rót var á henni. „Ég hringdi einn daginn í vinkonu hennar sem sagði mér grátandi að ég yrði að gera eitthvað, dóttir mín væri komin í eiturlyf, farin að reykja hass og taka e-pillur.“ Stuðlar óvistlegir Móðirin setti sig í samband við barnavernd- arnefnd og lögreglu og í kjölfarið var ákveðið að dóttirin færi á Stuðla. „Á þessum tíma var hún farin að láta mikið á sjá, var búin að missa mörg kíló og leit illa út.“ Þetta var um hálfu ári eftir að hún fór fyrst í Rauðakrosshúsið. Aðeins örfáum dögum eftir að hún kom á Stuðla var farið að tala um að hún yrði að fara. „Þetta var biðstöð fyrir hana. Ég svaf ekki lengi eftir að hafa komið þangað inn. Þarna er ekki vistlegt um að litast. Kaldir veggir, steinbekkir með dýnum. Ég held að tíminn þar hafi ekki reynst henni vel.“ Móðirin þvertók fyrir að dóttirin yrði send aftur í Rauðakrosshúsið eins og stungið var upp á. „Ég vil ekki að hún fari þangað aftur. Þá var sú tillaga lögð fram að hún færi heim með mér og ættingjar yrðu okkur innan handar. En hvernig átti það að ganga upp, áttum við að halda henni inni? Einnig er stungið upp á því að hún færi á Árvelli [sem Götusmiðjan rekur]. Ég vildi skoða þann möguleika vel, en þeirri tillögu var strax ýtt út af borðinu sem ég skil ekki. Sagt var að það væri lausn fyrir lengra komna fíkla en af hverju var þá verið að ræða um það í byrjun?“ Niðurstaðan varð sú að dóttirin fór heim með móður sinni, gerður var skriflegur samningur þeirra á milli um útivistartíma og reglur. Nokkrum dögum síðar neitaði dóttirin að koma heim og allt fór í sama horfið. „Eina nótt- ina vakna ég upp við að bakvakt barnavernd- arnefndar hringir í mig. Þá var dóttir mín á slysadeild og læknar vildu halda henni þar yfir nóttina. Þaðan er hún keyrð í Rauðakrosshúsið. Ég var ekki spurð álits um það, algjört sam- bandsleysi var í gangi.“ Við tók mánaðartímabil um haustið þar sem stúlkunni virtist líða vel og hún var töluvert heimavið. En eftir eitt skólaballið var henni ekið æstri heim, hún sagðist ætla að ganga í sjóinn og lætur sig hverfa. Fjölskyldan leitaði hennar um nóttina og flutti að lokum rænulitla á slysadeild. Eftir þetta útvegaði hún sér vinnu en hvarf ann- að slagið í 1–2 daga og í kjölfarið var hún komin á síðasta sjens í vinnunni. Eftir áramótin var henni sagt upp. Við tók tímabil þar sem hún var atvinnulaus og enn einn vinahópurinn kominn til sögunnar. „Hún skipti ört um vini, virtist ekki ná almennilega sambandi við neinn,“ útskýrir móðirin. Margoft hvarf hún og lögregla leitaði hennar. Að lokum fór hún aftur á Stuðla. Hún dvelur nú úti á landi hjá hjónum sem virðast að ná vel til hennar og henni líkar dvölin hjá þeim. Það liggur hins vegar fyrir að hún fái ekki að dvelja þar nema skamma stund í viðbót þar sem hún nái senn sjálfræðisaldri og barnaverndar- nefnd vill loka málinu. Hjónin hafa lýst því yfir að þau séu tilbúin að hafa stúlkuna til tvítugs. „Mér finnst sambandið okkar á milli orðið opn- ara og margt hefur lagast. Hefði fjölskyldan sem hún dvelur hjá komið inn í myndina strax í byrjun held ég að margt hafi farið á annan veg.“ Móðirin segir að í raun sé hér aðeins um út- drátt að ræða á því sem á dagana hefur drifið frá því hringt var í hana frá Rauðakrosshúsinu fyrir tveimur árum. „Það er alveg ljóst að mál dóttur minnar hefur þróast mikið og hratt niður á við. Ég lýsti í bréfi til barnaverndarnefndar ári eftir að þetta fór af stað örvæntingu minni og áhyggjum vegna dóttur minnar og bað barnaverndaryfirvöld að leita leiða til aðstoðar. Þá bað ég líka um greiningu er varðar mis- þroska, en hún hefur ekki enn farið fram.“ Hún segir starfsemi Rauðakrosshússins vissulega geta gagnast mörgum vel, en að þar séu í gildi aðrar reglur og ungir krakkar sem ekkert virðist hafa bjátað á hjá eiga þangað ekki erindi. Þar komast þau í kynni við nýtt fólk og krakkarnir eru fljótir að læra hvert af öðru. „Foreldrar eiga að fá að vita hvað er að en það vantar þarna fagfólk.“ Móðirin segir vandamálið sem hún hafi staðið frammi fyrir m.a. birtast í því að mjög margir komu að máli dóttur hennar. Samráð milli ólíkra aðila sem að málum ungs fólks koma sé nauð- synlegt, en stórlega ábótavant í dag. Nefnir hún sem dæmi að þegar dóttirin fór til hjónanna þar sem hún dvelur núna hafi engin gögn fylgt henni og telur hún þar enn eina brotalömina í barna- verndarmálum. „Ég var t.d. líka ítrekað búin að hafna því að hún færi á Rauðakrosshúsið, samt er það fyrsti staðurinn sem hún er send á af slysadeildinni. En þegar svona kemur upp er maður alveg ráðalaus. Ég þekkti ekki þennan heim, hvert ég átti að leita, hvað ég átti að gera, hverju ég gat neitað, hver var minn réttur.“ Móðirin segir að það hafi aldrei hvarflað að sér að svona færi fyrir dóttur hennar. „Ég ól hana upp ein og barðist fyrir því að hún fengi greiningu vegna lesblindu í barnaskóla. Nú spyr ég mig stöðugt, mun dóttir mín ná áttum aftur? Þetta gerðist svo rosalega hratt. Það var varla tími til að hugsa. Mig grunaði ekki fyrr en eftir á að hún hefði verið farin að neyta eiturlyfja. Ég sá það þá að hún fór að forðast gömlu vinina. Það er vissu- lega hægt að sjá margt út frá félagsskapnum. Ég hef reynt að vingast við alla hennar félaga, það er mjög mikilvægt. Þegar maður finnur ekki barnið sitt og þarf að leita að því er nauð- synlegt að hafa góð samskipti við gamla og nýja vini. Enda eru þetta auðvitað allt ágætis krakk- ar.“ Beðið eftir greiningu Móðirin bindur miklar vonir við greiningu á dóttur sinni en hún gekk á tímabili til sálfræð- ings sem bað unglingageðdeildina um að stúlk- an yrði greind þar. Í mati hans segir m.a. að hún taki illa leiðbeiningum og virðist fara alfarið eig- in leiðir. Þá bendir hann á að hugsanlega sé um athyglisbrest að ræða. Sálfræðingurinn hefur nú fengið bréf frá unglingageðdeildinni þar sem hann er beðinn um að greina stúlkuna sjálfur. „Það er verið að tefja málið, hún er að verða 18 ára á næsta ári og hvað tekur þá við? Ég er virkilega áhyggjufull vegna þess,“ segir móð- irin. „Þessi greining finnst mér skipta gífurlegu máli fyrir mig og fyrir dóttur mína. Hún var allt- af svo jákvæð. Jafnvel þótt hún glímdi við les- blindu var hún glöð og kát og einsetti sér að gera betur í næsta prófi ef henni gekk ekki nægilega vel. En svo gerist eitthvað. Ég held að greiningin komi til með að breyta framhaldinu vegna þess að ég veit að það er eitt- hvað að hjá henni sem við ekki náum tökum á. Það þarf að greina hana til að við vitum hvernig á að nálgast hana, það þarf að fara einhverjar ákveðnar leiðir að henni.“ Reynslubanki foreldra ónýttur En móðirin bendir á að ýmislegt sé hægt að gera, að foreldrar sem séu í sömu sporum og hún hafi reynslu sem hljóti að nýtast vel til að bæta stöðu ungmenna á Íslandi almennt og hjálpa foreldrum að nálgast börn sín og fást við aðstæðurnar á réttan hátt. „En það þarf tilfinnanlega fleiri fagaðila inn í starfið. Þeirra mat getur skipt sköpum. Stund- um er það besta í stöðunni að barnið fari að heiman, í öðrum tilvikum held ég að heimilið þurfi aðstoð svo barnið geti verið áfram heima. Mér finnst t.d. núna að það hafi aldrei verið ástæða til þess að dóttir mín færi inn í Rauða- krosshúsið í upphafi, þar upphófst það sem á eftir kom. Hún var svo ung og fann leið til að komast að heiman. Við verðum að loka þeim leiðum sem hægt er að loka. Suma stoppar þú ekkert af, þeir fara þangað sem þeir ætla sér. En ég er viss um að í mörgum tilvikum er hægt að koma í veg fyrir að börnin velji sér þessa afdrifaríku leið í lífinu. Ef barn fer út af sporinu á þessum aldri getur verið erfitt að koma því á rétta braut aftur. Þetta hefur verið hrein martröð. En ég er bjartsýn á framtíðina, ég er mjög þakklát fyrir það sem hefur farið á réttan veg. Auðvitað hef ég áhyggjur af dóttur minni, börnin okkar eru alltaf börnin okkar, sama hversu gömul þau verða. Við foreldrar megum aldrei gefast upp, við erum alltaf á vakt.“ „Verðum að loka þeim leið- um sem hægt er að loka“ Morgunblaðið/Kristinn „Mér finnst núna að það hafi aldrei verið ástæða til þess að dóttir mín færi inn í Rauðakrosshúsið, þar upphófst það sem á eftir kom. Hún var svo ung og fann leið til að komast að heiman.“ sunna@mbl.is ’ Stundum er þaðbesta í stöðunni að barnið fari að heiman, í öðrum tilvikum held ég að heimilið þurfi að- stoð svo barnið geti verið áfram heima. ‘ „Mun dóttir mín ná áttum aftur?“ er spurning sem brennur á móður er hefur séð á eftir unglingsdóttur sinni út af heimilinu og inn í heim eiturlyfja, sjálfsmorðshótana og slysa á ótrúlega skömmum tíma. Hún féllst á að segja Sunnu Ósk Logadóttur sögu sína og dóttur sinnar undir nafnleynd.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.