Morgunblaðið - 09.01.2003, Qupperneq 8
FRÉTTIR
8 FIMMTUDAGUR 9. JANÚAR 2003 MORGUNBLAÐIÐ
Olympus Camedia
C-220 ZOOM
Olympus Camedia
C-300 ZOOM
Það ætti að geta farið vel um ykkur hérna, herrar mínir. Bara rollugirðingar og óvopnaður vörður.
ABC-hjálparstarf
Hugsjón varð
að veruleika
ÞESSA dagana erudagatöl ABC-hjálparstarfs að
detta inn um bréfalúgur
landsmanna. „Ólaunaður
framkvæmdastjóri“ ABC
er Guðrún Margrét Páls-
dóttir og svaraði hún
nokkrum spurningum
Morgunblaðsins.
– Hver er nú tilurð
þessa hjálparstarfs?
„Árið 1985 fór ég ein
míns liðs í hnattferð eftir
að hafa unnið sem hjúkr-
unarfræðingur í nokkur
ár. Ég fór víða og sá
margt. Ólæst og óskrif-
andi fólk. Munaðarlaus
börn sofandi úti á götu. Ég
fékk ákveðna hugsjón að
vinna að hjálparstörfum
við þetta. Ég kom síðan
heim, ákveðin í að halda utan á ný
að þremur mánuðum liðnum.
Stefnan var tekin á El Salvador.
Hins vegar var ég varla komin
heim er ég hitti manninn minn og
varð við það mjög tvístígandi. Af
því að ég hef alltaf verið mjög trú-
uð leit ég á þetta sem innígrip og
ég krafði því Guð um skýr svör.
Tók sex peninga, þrjá tíkalla og
þrjár krónur, lokaði augunum og
kastaði myntunum upp í loft
hverri af annarri og sagði Guði að
ef enginn fiskur kæmi upp þá færi
ég ekki utan. Ég opnaði síðan
augun, safnaði saman peningun-
um og það var enginn fiskur.
Þetta skoðaði ég sem afgerandi
svar og fór ekki. Hins vegar
brann hugsjónin áfram og næstu
tvö árin vissi ég ekki hvernig ég
ætti að finna henni farveg. Þá var
það að bróðir minn kom með
þessa hugmynd og við stofnuðum
sjö saman ABC-hjálparstarf. Ég
hef rekið þetta starf síðan.“
– Hvernig er ABC rekið?
„Það er sjö manna stjórn,
ásamt mér, allir launalausir, og
margir sjálfboðaliðar. Síðan eru
2,2 stöðugildi á skrifstofunni þar
sem nokkur fyrirtæki og einstak-
lingar hjálpa okkur með launin.
Húsnæðið er frítt og síðan seljum
við jólakort, penna og dagatöl til
að standa straum af öðrum
rekstri. Erlendis eru fimm traust-
ir samstarfsaðilar sem sjá til þess
að hver einasta króna skilar sér.“
– Í hverju er þetta starf fólgið?
„Þetta er samkirkjulegt hjálp-
arstarf sem unnið er í góðu sam-
starfi við ýmsa aðila sem hafa
hjálpað okkur. Við styrkjum börn
í skóla með þeim hætti að fá ein-
staklinga og fyrirtæki til að veita
framlög. Á Filippseyjum kostar
t.d. 1.950 krónur á mánuði að
framfleyta einu barni í skóla með
fæðispeningum og læknisþjón-
ustu. Sömu upphæð kostar að
halda úti barni í Úganda þar sem
við höfum byggt einkaskóla með
mat og læknisþjónustu. Hér er
oftast um að ræða munaðarlaus
börn í fóstri, eða börn sem búa við
erfiðar heimilisaðstæður. Í Úg-
anda stendur til að stækka barna-
skólann og að auki erum við með
unglingaskóla í bygg-
ingu. Stærstu verkefn-
in eru hins vegar tvö
heimili sem við höfum
reist og rekum í Ind-
landi, Heimili litlu ljós-
ana og El Shaddai-barnaheimilið.
Á fyrri staðnum eru núna 1.710
börn, en um 150 á hinum. Þarna
kostar 3.250 til 3.450 krónur að
framfleyta hverju barni á mánuði.
Við höfum einnig komið að tveim-
ur öðrum heimilum, kornabarna-
húsi í Indlandi og barnaheimili í
Kambódíu. Heimilin í Indlandi
eru víðtækari starfsemi en í hin-
um löndunum, þarna búa börnin
og stunda nám allt til tvítugs.“
– Framlögin framfleyta börn-
unum, en fyrir hvaða peninga
reisið þið heimili og skóla?
„Aðallega með söfnuninni
„Börn hjálpa börnum“ sem hefur
verið árleg og fer fram í mars. Ís-
lensk skólabörn ganga þá í hús og
safna til þessara framkvæmda.
Margir skólar hafa aðstoðað okk-
ur við þessa söfnun, skipulagt
hana í sínum hverfum o.þ.h. Sam-
tals fóru héðan um 84 milljónir á
síðasta ári, þar af 6 milljónir sem
söfnuðust í gegnum „Börn hjálpa
börnum“ og í þessum löndum er
mikið hægt að gera fyrir svoleiðis
upphæðir.“
– Hvernig eru viðtökurnar?
„Það gengur bara nokkuð vel í
ljósi þess að við erum ekki mikið
kynnt. Við erum með tæplega
2.700 stuðningsaðila og margir
eru með fleiri en eitt barn á fram-
færi. Hæst hefur farið í 30 til 40
börn hjá sama aðilanum. Núna er
mest um 12 börn hjá sama aðila
og einhver dæmi eru um tíu börn.
Það er ekki endilega mjög efnað
fólk sem er að láta háar upphæðir
í þetta hjálparstarf. Við erum t.d.
með verkamann sem er með tíu
börn á framfæri.“
– Vantar fleiri styrktaraðila?
„Já, t.d. vantar okkur styrkt-
araðila fyrir um 300 af 1.710 börn-
um á Heimili litlu ljósanna, þar af
210 litlar stúlkur sem koma inn í
haust. Styrkara gengi krónunnar
hefur hjálpað okkur að halda úti
rekstrinum í bili.“
– Hvers konar samband er boð-
ið uppá?
„Það eru reglulega
sendar myndir, bréf og
fleira. Eins eigum við
myndband frá heimil-
unum og fólk getur
nálgast það hjá okkur.
Í einhverjum tilvikum hefur fólk
farið utan til að hitta skjólstæð-
inga sína.“
– Er svona hjálp samt ekki
bara dropi í hafið?
„Það má ekki hugsa þannig.
Auðvitað er ógrynni barna sem
þarf á svona hjálp að halda, það
verður aldrei hægt að mæla þörf-
ina, en það skiptir þau börn öllu
sem fá slíkan stuðning.“
Guðrún Margrét Pálsdóttir
Guðrún Margrét Pálsdóttir er
fædd 15. mars 1959. Stúdent frá
MH og BS í hjúkrunarfræði frá
HÍ 1982. Starfaði sem hjúkrunar-
fræðingur víða næstu árin og
stofnaði ABC-hjálparstarf ásamt
fleirum 1988 og hefur síðan verið
„ólaunaður framkvæmdastjóri“.
Maki er Hannes Lenz, trygginga-
fulltrúi hjá Sjóvá-Almennum, og
eiga þau fjögur börn, Kristínu,
14 ára, Kristófer Pál, 12 ára,
Davíð Walter, 5 ára, og Lindu
Ragnheiði, 6 mánaða.
… en okkur
vantar fleiri
styrktaraðila