Morgunblaðið - 19.01.2003, Blaðsíða 2

Morgunblaðið - 19.01.2003, Blaðsíða 2
2 B SUNNUDAGUR 19. JANÚAR 2003 MORGUNBLAÐIÐ Þ að er síðdegi og yfir Bessa- stöðum ríkir kyrrðin. Enginn á ferli utan heimaríks hrafns sem flýgur upp krunkandi og kvartandi yfir ónæðinu þegar ég ek í hlað. En Dorrit Moussaieff tekur mér opnum örmum, talar við mig íslensku og býður mér inn í bjarta og hlýlega stofu forsetabústaðarins. Hún skenkir mér kaffi en drekkur sjálf íslenskt vatn. Útsýnið frá stofuglugganum er fallegt og friðsælt, tún og tjarnir sem birtan daðrar við í ljósaskipt- unum, og ég spyr hvernig það sé fyrir konu úr stórborginni að vakna á Bessastöðum? „Það er munaður,“ segir hún. „Það er yndislegt að vakna við fuglasönginn og umhverfið er svo fallegt. Það eina sem getur angrað menn hér er vindurinn. Hann virðist koma úr öllum áttum. Á veturna finnst mér þó oft erfitt að vakna í myrkrinu, einkum þegar ég þarf að vera komin á fætur klukkan sex svo ég geti náð flugvélinni og verið mætt á skrif- stofuna mína í London á hádegi.“ Mér finnst sú ferð ganga ansi hratt og fæ þá skýringu að hún sé aldrei með farangur og því gangi allt fljótar. En hún hefur mætt myrkrinu á morgnana með forláta lampa sem hún kveikir á og þá er sem sólarljós flæði um herbergið. Hún segist reyndar líka vakna við fuglasöng í húsinu sínu í Lond- on, og ég spyr hvort hún sé kannski fædd þar? Hún neitar því, segist vera fædd í Jerúsalem. Þá gríp ég tækifærið, spyr með fornum Íslendingasvip hverra manna hún sé? Hún segist með ánægju vilja hverfa með mér aftur í ald- irnar, hún hafi yndi af sögu en kjósi að tala ensku í þeirri ferð. Sem er þó langt frá því að vera móðurmál hennar. Seldu við Silkiveginn Um föðurætt Dorrit Moussaieff eru til áreiðanlegar heim- ildir. Hana má rekja aftur til ársins 1260 þegar hún var í Cor- doba á Spáni og var hluti af fjölmennasta gyðingasamfélag- inu þar í borg. Forfeðurnir voru fræðimenn, læknar og kaupmenn. „Á þeim tíma voru Márar við völd á Spáni og í Norður- Afríku og þurftu að verja borgir sínar kristnum mönnum. Oft bitnuðu þau átök á gyðingum og svo fór að þeir urðu að flýja til Marokkó, þar sem einn forfaðir minn gerðist læknir músl- imaleiðtoga. Þeir urðu að skilja eigur sínar eftir í Cordoba, en þeim tókst þó að koma undan safni handrita og eru mörg þeirra nú í eigu föður míns. Hundrað og fimmtíu árum síðar urðu þeir að flýja til Egyptalands, því enn voru þeir ofsóttir, en urðu þó ekki sáttir við tilvist sína og afkomu þar. Þeim fannst þeir þurfa að finna lífi sínu nýjan farveg og ákváðu að flytjast til Jerúsalem og gerast kaupmenn. Þar byggðu þeir upp fjölskyldufyrirtæki og sérhæfðu sig í að kafa eftir perlum og finna gimsteina, sem þeir seldu meðal annars til ættar Djengis Kahn. Þeir ferð- uðust til Austurlanda eftir Silkiveginum fræga, fóru norð- urleiðina í áttina til Kína og loks til Bukara, þar sem þeir stofnuðu annað fjölskyldufyrirtæki. Það er fyrirtækið sem foreldrar mínir reka núna. Bukara, sem er í Úsbekistan og þekkt fyrir langa hefð í gullsaumi og silkivefnaði, stendur við Silkiveginn. Hún var því ákjósanlegur staður fyrir höf- uðstöðvar fyrirtækisins. Það eru til góðar heimildir um þá sem hönnuðu skartgrip- ina en sá þekktasti þeirra á síðari tímum er án efa Carl Fab- ergé. Verk hans eru nú í helstu skartgripasöfnum heims. Hann hannaði skartgripi fyrir rússneska keisarann og raun- ar flestar konungsfjölskyldur Evrópu. Ég átti því láni að fagna að sjá verk eftir hann, sem ég hafði ekki áður séð, þegar ég fór til Moskvu. Þar ræddi ég við Pútín forseta og af því að við gátum spjallað saman á þýsku og þurftum ekki túlk urðu samræður okkar góðar. Hann spurði hvað mig langaði helst að sjá og ég sagði að mig langaði til að sjá skartgripina sem væru í Kreml, þá sem ekki væru hafðir frammi á sýningum. Hann var svo vinsamlegur að lofa mér að fara niður þar sem þeir voru geymdir. Ég var leidd inn í stórt herbergi fullt af skartgripum. Flestir þeirra voru ætlaðir karlmönnum. Þetta var mér ógleymanleg stund en það flögr- aði líka að mér að kannski hefði það ekki verið undarlegt þótt þeir tækju keisarafjölskylduna af lífi á sínum tíma, þjóðin svalt heilu hungri meðan keisarinn sat á stærstu demöntum veraldar.“ Flóttinn til Ísraels Ættin bjó í Bukara í nokkur hundruð ár og þar stendur hús hennar enn. „Á hverju ári reyndu forfeðurnir að fara í píla- grímsferð til Jerúsalem. Það voru erfiðar ferðir og hættu- legar, sumir týndu lífinu, aðrir komust á leiðarenda. Sú hefð var að mæður fóru til Jerúsalem til að fæða börn og elstu syn- irnir fæddust flestir þar, einkum á átjándu og nítjándu öld. Eftir ofsóknir í Rússlandi í lok nítjándu aldar fluttist loks öll ættin til borgarinnar. Þar hóf hún viðskipti við araba, sem seldu einnig gimsteina, og báðir aðilar högnuðust vel. Á þeim tíma ríkti vinátta milli gyðinga og araba og besti vinur lang- afa míns var arabi. Þegar faðir minn fæddist hafði amma ekki næga mjólk handa honum, svo það var arabísk kona sem hafði hann á brjósti. Langafi minn eignaðist fjögur börn og hann sendi þrjú þeirra út í heim til að stofna fyrirtæki. Eitt fór til Kína, annað til Ameríku og þriðja til Evrópu. Afi minn var sá sem fann hina sérstöku bleiku perlu, sem kennd er við ána Mississippi í Ameríku. Faðir minn, Shlomo Moussaieff, fæddist í Jerúsalem. Hann átti ellefu systkini og þau bjuggu með foreldrum sínum á mörgum stöðum, í Tókýó, Genúa, Hawaii og í Palestínu. Það var fyrir stofnun Ísraelsríkis. Dæturnar, sem voru níu tals- ins, voru allar sendar til Englands í skóla, synirnir fengu menntun sína heima. En faðir minn átti við sama vandamál að stríða og ég síðar. Hann var lesblindur. Á þeim tíma höfðu menn ekki hugmynd um hvað lesblinda var. Hann átti í erf- iðleikum með nám og það olli föður hans, sem var kominn af lærdómsmönnum, miklum vonbrigðum. Þegar faðir minn var sautján ára braust stríðið út og hann gekk í breska herinn. Í átökunum við stofnun Ísraelsríkis létu margir lífið. Faðir minn var tekinn til fanga og var einn af fjörutíu sem komust lífs af. Það varð honum til bjargar að hann talaði arabísku og hafði lag á að tala fólk á sitt band. Hann hafði kvænst móður minni þremur vikum áður en hann lenti í fangelsi. Hún var fimmtán ára þegar þau kynntust og átján ára þegar þau giftust. Móðir mín, Alísa, fædd Sommernitz, er frá Vínarborg. D o r r i t M o u s s a i e f f Leiðin til Bessastaða Forfeður Dorrit Moussaieff seldu konungum gimsteina í aldaraðir og hún fetaði í fótspor þeirra eftir að hafa starfað sem innanhússhönnuður og blaðamaður. Hún hverfur aftur í tímann, segir frá ætt sinni og uppeldi, en einnig frá áhuga- málum og störfum, allt þar til leið hennar lá til Bessastaða. Kristín Marja Baldursdóttir

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.