Morgunblaðið - 24.01.2003, Blaðsíða 2

Morgunblaðið - 24.01.2003, Blaðsíða 2
DAGLEGT LÍF 2 B FÖSTUDAGUR 24. JANÚAR 2003 MORGUNBLAÐIÐ S UNNUDAGSKVÖLD og reykmettaður salurinn er þéttsetinn. Í hliðar- sal, sem er reyklaus, er líka fullt af fólki. Hvað- an kemur allt þetta fólk og hvað dregur það hingað á þennan stað? BINGÓ, það er málið. Bingó hefur um langt árabil not- ið stöðugra vinsælda víða um heim og virðist ekkert lát á, þrátt fyrir breyttan lífsstíl og nánast óþrjót- andi möguleika á hvers konar af- þreyingu. Í stórborgum erlendis má víða sjá blikkandi ljósaskilti þar sem fólk er hvatt til að líta inn og freista gæfunnar í bingó. Hér á landi hefur Stórstúka Íslands stað- ið fyrir bingó síðan árið 1982 og frá árinu 1990 hefur starfsemin farið fram í Vinabæ, þar sem áður var Tónabíó. Greinarhöfundur er einmitt þangað kominn til að fylgj- ast með og vitaskuld freista gæf- unnar í leiðinni. Fólkið er á öllum aldri og raunar kemur á óvart hversu margt ungt fólk er þarna. Gamla þjóðsagan um að bingó sé bara fyrir eldri konur á greinilega ekki við rök að styðjast. Kikkið mest þegar ein tala er eftir Gamla bíósalnum hefur verið breytt til samræmis við þarfir bingóspilara og raunar er þetta einnig tilvalinn ráðstefnusalur, með þar til gerðum raflögnum á hverju borði til að tengja heyrnartól. Blaðamaður situr til borðs með ungum pilti, um tvítugt, og konu á besta aldri, sem er að koma hingað í fyrsta skipti. Ungi pilturinn, sem við skulum kalla Nonna, er hins veg- ar öllum hnútum kunnugur. Hann hefur stundað bingó frá unga aldri og finnst það alltaf jafn gam- an og spennandi. „Ég fór fyrst með pabba þegar ég var krakki og síðan hef ég stundað þetta reglu- lega. Stundum kemur amma með og einnig hef ég farið með frænku minni,“ segir Nonni þegar hann er spurður um upphaf bingóáhugans. Hann segir að á tímabili hafi hann farið tvisvar í mánuði að meðaltali, en í seinni tíð hefur bingóferðunum fækkað og nú stundar hann bingó- ið óreglulega, kom síðast fyrir um það bil tveimur mánuðum. „Það eru margir sem stunda þetta reglulega og koma vikulega, jafn- vel tvisvar til þrisvar í viku. Það er fullmikið fyrir mig,“ segir Nonni. Hann kveðst mest hafa unnið 155 þúsund krónur, en þá vann hann „pottinn á happatölu“ eins og hann kallar það, sem of flókið mál er að útskýra hér. Viku síðar vann hann 15 þúsund krónur og nokkrum sinnum hefur hann unnið 25 þús- und krónur og oft smærri vinn- inga. „Kikkið í þessu er þegar maður á eina tölu eftir, hún síðan lesin upp og BINGÓ!“ Fyrst er spilað um aukavinning. Það er eins konar upphitun sem ekki allir taka þátt í, en vinning- urinn er sú upphæð sem nemur keyptum aukaspjöldum. Síðan byrjar alvaran, sjálft aðalbingóið. Nonni er með allar græjur með- ferðis, tússpenna til að merkja á spjöldin og lím til að líma þau föst við borðið. Það er þægilegra. Hann ráðleggur okkur nýliðunum að byrja með tvö spjöld, á meðan við erum að komast inn í þetta. Hvítt spjald er á 60 krónur og svo er einnig hægt að spila á bleikt spjald sem kostar 120 krónur. Þá verður vinningurinn líka hærri. Nýliðarnir byrja með tvö hvít spjöld hvor, en Nonni spilar á þrjú. Hann kveðst venjulega spila á þremur til fimm spjöldum. Fyrst er spilað um eina línu, hornin í rammanum og kross í miðjunni. Það gengur fljótt yfir. Síðan bætist ein lína við í hverri yfirferð og þegar þær eru orðnar fimm er spennan óneitanlega farin að grípa um sig í maganum. Kona á næsta borði kallar þrisvar upp bingó með stuttu millibili. Hún spilar líka á mörgum spjöldum. Fyrstu umferð líkur á fimm línum, það er einum fullum ramma. Síðan er byrjað upp á nýtt með nýjum spjöldum. Dregur til tíðinda Starfsfólkið er á þönum um sal- inn, til að útvega ný spjöld, ganga frá vinningum og uppfylla ýmsar aðrar þarfir bingóspilara, sem upp kunna að koma. Á sviðinu skiptast ungar stúlkur á að lesa upp töl- urnar og þær birtast um leið á hvíta tjaldinu, sem eitt sinn sýndi James Bond og Dollaramyndirnar sællar minningar. Í gamla sýning- arklefanum situr bingóstjórinn og stjórnar tölvunni sem velur núm- erin. Þau tæki voru keypt frá Nor- egi á sínum tíma og uppfylla ströngustu bingókröfur samtím- ans. Á okkar borði er tíðindalítið til að byrja með, þar til í upphafi þriðju umferðar að Nonni kallar: BINGÓ! Hann hafði fyllt út hornin og fékk sælgætiskassa í verðlaun. Við þetta eykst okkur borðfélög- unum ásmegin enda er þetta sönn- un þess að vinningur getur alveg eins fallið á okkar borð og hvert annað í salnum. Það gengur líka eftir því að í sömu umferð kallar konan við borðið skyndilega BINGÓ, þegar verið var að spila um þrjár línur. Hún vinnur 1800 krónur enda spil- aði hún á bleikt spjald. Með þessu er hún búin að vinna fyrir kostn- aðinum við kvöldið og vel það. Lengra komumst við borðfélagarn- ir ekki þetta kvöld, en þó munaði litlu, í sjöundu umferð, að grein- arhöfundur ynni 25 þúsund krónur. Þá átti hann aðeins eina tölu eftir í keppninni um fimm línur. Í hvert sinn sem ný tala var lesin upp var hver taug þanin, en allt kom fyrir ekki. Því miður var upplesna talan sú næsta við þá einu sem hann vantaði þegar einhver annar í saln- um kallaði bingó. Þessu augnabliki gleymir hann ekki í bráð: Ingi 26 - BINGÓ. Þar með var draumurinn búinn, að minnsta kosti í þetta skipti. Það gengur bara betur næst. Ræturnar aftur í öldum Sjálfsagt hafa fæstir bingóspil- arar leitt hugann að því að spilið á rætur fimm aldir aftur í tímann, til Ítalíu á því herrans ári 1530. Þá var það eins konar happdrætti sem kallað var á frummálinu „Lo Giuco de Lotto.“ Tveimur öldum síðar kemur það fram á sjónarsviðið í Frakklandi og tekur þá á sig þá mynd sem bingóspilið er í hugum nútímamanna. Frakkar tóku fyrst upp þann hátt að nota bingóspjöld og það sem allir sannir bingóspil- arar hrífast mest af, að lesa töl- urnar upphátt. Á nítjándu öld breiddist bingóið hratt út um alla Evrópu. Sá háttur var hafður á að „kallarinn“ dró trékubb eða kúlur með viðeigandi númeri frá 1 upp í 90 upp úr þar til gerðum poka. Takmarkið var svo að verða fyrst- ur til að fylla út lóðréttar eða lá- réttar línur í rammanum, eins og tíðkast nú til dags. Bandaríkjamenn kyntust spilinu fyrst í kreppunni miklu um 1930, en fyrstu sögur sem af því fara þar í landi eru frá kjötkveðjuhátíð í Atlanta í Georgiuríki. Þá kölluðu menn „Beano“ þegar þeir urðu fyrstir til að fylla út í reitina. Sölumaður einn frá New York, Edwin Lowe, kynnti síð- an spilið fyrir vinum sín- um og eftir að einn þeirra kallaði óvart BINGÓ í öllum æsinginum festist það nafn við spilið. Þannig tók það end- anlega á sig þá mynd sem við þekkjum nú, og er BINGO nú spilað undir því nafni um allan heim. Saklaus afþreying Því hefur verið haldið fram að bingóárátta sé angi af spilafíkn. Það verður þó að teljast dálítið langsótt því tak- mörk eru fyrir því hversu mörg spjöld menn geta spilað með í hvert sinn, og spjöldin eru til- tölulega ódýr. Hægt er að spila heilt kvöld fyrir tæpar þúsund krónur, ef menn spila á einu spjaldi allar umferðirnar.Ef menn spila af miklu harðfylgi er að vísu hægt að komast upp í um 5000 krónur á kvöldi, en það eru fæstir sem leggja á sig slíka þrekraun, að fylgjast með svo mörgum spjöldum í hverri umferð. Forsvarsmaður Vinabæjar segir það líka fráleitt að jafna áhuga á bingóinu við spilafíkn og ásókn í spilakassa, eins og sumir vilja meina. „Í spilakössunum geta menn tapað hundruð- um þúsunda króna á innan við klukkutíma. Í bingóinu eyða menn kannski 2000 krónum að meðaltali allt kvöldið og komast sjaldan yfir að eyða meira en fimm þúsund krónum þótt þeir leggi sig alla fram. Það má miklu frekar líta á þetta sem tiltölulega ódýra, en um leið skemmtilega afþreyingu og margir koma hingað í leit að fé- lagsskap. Það er líka algengt að vináttutengsl myndist í kringum þetta og ég veit jafnvel dæmi um að hér hafi verið stofnað til hjóna- banda.“ Að fenginni reynslu þetta kvöld má vel taka undir það sjónarmið að bingó sé saklaus afþreying, ágæt skemmtun og tilbreyting frá hvers- dagsleikanum, sem er mun ódýrari en ferð á öldurhús. Og ekki sakar að líkurnar eru nokkrar á að fara út með hagnaði, og ennfremur smá von um að hreppa stóra vinning- inn. Spjald er jú möguleiki. Morgunblaðið/Árni Sæberg Fyrir byrjendur er ágætt að byrja með tvö spjöld. Nonni spilar hins vegar á þremur. Hvað er það sem fær fólk til að sitja heilu kvöldin og spila bingó? Sveinn Guðjónsson fór í Vinabæ og upplifði spennuna sem fylgir því að eiga bara eina tölu eftir, en missa samt af vinningnum. Hringur dreginn um upplesna tölu. Blaðaúrklippa þar sem greint er frá niðurstöðum rannsókna þess efnis að bingóið sé betra fyrir heila- starfsemina en brids og skák. svg@mbl.is Morgunblaði ð/Sverrir Þar fór það! Upp kom Ingi 26, en ekki 25. Það er létt yfir „kallaranum“ við upplesturinn og talan birtist á sýningartjaldinu fyrir aftan. Ingi 26 BINGÓ!

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.