Morgunblaðið - 26.01.2003, Blaðsíða 9

Morgunblaðið - 26.01.2003, Blaðsíða 9
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 26. JANÚAR 2003 B 9 naut þess að hafa verið í Þjórsárverum og kynnst svæðinu vel. Mér fannst að það yrði mikill skaði ef þau færu undir vatn, þetta fallega svæði. Það vildi svo vel til að ágætur maður hjá Orkustofn- un, Haukur Tómasson, kom með þá hugmynd að veita upptakakvíslum Þjórsár yfir í Þórisvatn, ásamt þverám á austurbakkanum. Þessi hug- mynd var kölluð Kvíslaveita. Við ræddum þetta við Náttúruverndarráð og það endaði með að þessi tilhögun varð ofan á. Öll áform um að sökkva Þjórsárverum voru lögð á hilluna. Síðan var gengið til samninga við Náttúruverndarráð um að friðlýsa svæðið sem tæki til Þjórsárvera. Í friðlýsingunni var ákvæði um að gera mætti lón fyrir neðan verin sem teygði anga sína upp eftir ánni og inn í þau að einhverju leyti. Yfirborð lónsins átti að vera í 581 metra hæð yfir sjáv- armáli. Menn voru á því að í friðlýsingunni kæmi ákvæði um að þetta mætti gera, enda sýndu rannsóknir að þetta mundi ekki valda óhæfileg- um náttúruspjöllum á verunum.“ Jóhann Már segir að Landsvirkjun hafi sett í gang rannsóknaráætlun sem stóð allt frá árinu 1981 og þar til nú. „Ég efast um að nokkuð svæði á landinu hafi verið rannsakað jafn rækilega og þetta. Nú vita allir að það eru deilur um Þjórs- árver og Norðlingaölduveitu. Við hjá Lands- virkjun höfum talið okkur vinna eftir sam- komulaginu sem gert var. Hins vegar er komin upp andstaða nokkurra aðila við Norð- lingaölduveitu sem er svo hatrömm að engin málefnaleg rök virðast komast að. Það er hryggi- legt til þess að vita að í svona máli skuli ekki vera hægt að ná neinni málamiðlun við þá sem harðast berjast á móti, því hér er hagur alls þorra lands- manna í húfi. Á sínum tíma var Kvíslaveita mála- miðlun. Við hjá Landsvirkjun höfum alltaf verið í því að reyna að finna þá fleti á málunum sem menn gætu sameinast um. Það næðu ekki allir sínu ítrasta fram, en menn næðu skynsamlegri málamiðlun.“ Jóhann segir að upphaflega ætlunin með Norðlingaöldustíflu hafi verið að virkja Þjórsá niður fyrir Gljúfurleitarfoss. Síðan hafi menn séð að það var mun hagkvæmara að leiða vatnið í Þórisvatn og senda það í gegnum allar þær virkj- anir sem byggðar hafa verið þar fyrir neðan. „Með því móti fæst meiri vatnsmiðlun og í þessum virkjunum, sem meðal annars keyra inn á hinn almenna markað þar sem aflþörfin sveifl- ast milli sumars og veturs, fást meiri afköst úr hverri virkjun. Virkjanir eru alltaf byggðar með ákveðna umframaflgetu, þess vegna er hægt að nýta þetta vatn, án þess að gera nokkuð annað, og fá þannig meiri afköst út úr virkjunum sem fyrir eru. Norðlingaölduveita er langódýrasta virkjun, ef svo má að orði komast, sem við eigum völ á í dag. Ef ekki verður af henni held ég að þjóðin missi af miklum ávinningi.“ Engin eftirsjá Þú naust þeirra forréttinda að fá að kynnast hálendi Íslands þegar það var sannarlega nær ósnortið. Fannst þú einhvern tíma til trega þegar þið fóruð að breyta þessu landsvæði í þágu virkj- ana? „Nei,“ segir Jóhann Már með áherslu. „Ég fyllist ánægju yfir því hvað þetta hefur tekist vel. Hugsaðu þér að það er kominn malbikaður vegur að Vatnsfelli! Við vorum sólarhring að komast þangað í gamla daga og börðumst yfir Tungná, beljandi fljótið, á tíu hjóla trukkum. Nú rennir þú þetta á innan við þremur tímum. Hágöngumiðlun er byggð á svörtum aursöndum. Nú er komið þarna þetta fallega stöðuvatn og þegar maður sér Vatnajökul spegla sig í því í fallegu veðri þá fellur maður í stafi og sér hvað er mikil prýði að þessu! Ég er mjög ánægður með það sem hefur verið gert í þessum málum og tel að það hafi allt verið gert með mjög mikilli aðgát og fyrirhyggju. Það er leitt ef menn stoppa góð verkefni, bara vegna óútskýranlegra tilfinninga. Þegar velsæld og hagsæld þjóðarinnar er í húfi finnst mér að menn megi ekki láta tilfinningarnar stjórna sér. Landsvirkjun hefur alltaf verið tilbúin til að ræða málin. Gott dæmi er Norðlingaölduveita. Í friðlýsingunni var talað um 581 metra hæð yfir sjávarmáli (mys). Menn gátu ekki sæst á það og það var farið alla leið niður í 575 mys. Skipulags- stofnun telur jafnvel betra frá náttúruvernd- arsjónarmiði að fara í 578 mys, sem líka er betra fyrir virkjunaraðilann. Við höfum verið að sveigja okkur og beygja til að ná samkomulagi. En árangurinn er sá að það er risið upp og menn bara hrópa: Þetta má alls ekki gera, það má ekki eyðileggja Þjórsárverin. En þetta er ekki rétt, það er ekki verið að búa til þetta lón í Þjórsár- verum. Náttúruverndarráð skilgreindi hvað væri Þjórsárver og dró um þetta verðmæta land hring á landakorti. En af því að það passar ekki þeim sem eru harðastir á móti Norðlingaölduvirkjun segja þeir: Þetta er ekki rétt. Þjórsárver ná langtum neðar og út um allt!“ Jóhann segist standa ráðþrota gagnvart því hvernig hægt sé að ná sátt í svona stöðu. Hann segir Landsvirkjun hafa alltaf verið fúsa til við- ræðna um málamiðlun, að svo miklu leyti sem í hennar valdi stendur. „En við viljum ekki gefa það eftir að besti virkjanakostur landsins hverfi út um gluggann án gildrar ástæðu! Þá værum við að svíkjast undan okkar hlutverki.“ Fyrstu þrjár vélar Búrfellsvirkjunar voru gangsettar árið 1970, síðar var bætt við þremur vélum. „Það var þyrlað upp miklu fárviðri um að þarna myndi allt stöðvast af ís og krapi. Það var mjög erfið umræða,“ segir Jóhann Már. „Þá voru menn mikið á móti álverinu í Straumsvík og töldu sumir að það væri næstum því landráð að leyfa útlendingum að fjárfesta í slíku hér á landi. Ég þekki ekki marga í dag sem hallmæla ál- verinu í Straumsvík. Hafnarfjörður getur hrósað happi yfir að þetta skyldi verða að veruleika. Bæjarfélagið hefur blómstrað og það má að verulegu leyti þakka álverinu í Straumsvík. Þessar raddir eru allar hljóðnaðar. Eins verður með álverið í Reyðarfirði ef það kemst upp. Þá hljóðna allar raddir og menn sjá að það verður þjóðinni til gæfu. Það hefur mín reynsla að minnsta kosti sagt mér. Menn reyndu lengi að reikna út að það væri tap á álverinu í Straums- vík. Það tókst aldrei að sanna það. Nú er Búr- fellsvirkjun búin að borga sig og malar gull fyrir þjóðarbúið.“ Hvað má reikna með að virkjun á borð við Búrfellsvirkjun endist lengi? „Virkjunin er 32 ára gömul og á eftir að endast í 50 ár í viðbót að minnsta kosti. Þessum virkj- unum er vel haldið við, þær eru alltaf eins og nýj- ar! Auðvitað er rekstrarkostnaður í því fólginn, en hann er tiltölulega lítill. Við erum til dæmis búnir að skipta um túrbínur í Búrfelli og með nýjustu tækni var hægt að auka aflið úr 210 MW í 270 til 280 MW. Tæknin er alltaf að aukast og við fengum þessi 60 til 70 MW aukalega fyrir mjög lágt verð. Steypumannvirkin eru eins og þau hefðu verið byggð í gær, enda var mjög mik- ið vandað til steypunnar. Það má segja að með Búrfellsvirkjun hafi verið byrjað að hugsa um steypugæði fyrir alvöru hér á landi. Amerík- anarnir komu með vísindin í steypumálin hjá okkur. Á tímabili þurfti að sækja sand í steypuna suður á Reykjanes. Þessum hörðu kröfum hefur verið fylgt við virkjanagerð síðan. Jarðstíflur endast von úr viti. Það eina sem raunverulega úreldist er búnaðurinn, honum er hægt að skipta út eins og dæmin sanna.“ Jóhann nefnir að búið sé að endurnýja Sogs- stöðvar. Þegar ráðist var í þá endurnýjun voru stöðvarnar búnar að borga sig fyrir löngu. „Það má segja að við höfum fengið fyrir lítið fé alveg nýjar virkjanir í Soginu, Steingrímsstöð, Ljósa- foss og Írafoss. Þessar virkjanir eru 90 MW og kostaði endurnýjunin ekki nema um þrjá millj- arða, sem er brot af því sem myndi að kosta að reisa þær nýjar í dag. Vatnsaflsvirkjanir eru hreinustu gullnámur. Þær eru erfiðar í fjár- magnsþörf í upphafi en rekstrarkostnaður er af- ar lítill. Þegar búið er að greiða stofnkostnað virkjunar verður hún hreinasta gullnáma – ekk- ert annað! Þar að auki má nefna að í vatnsafls- virkjunum er verið að nýta sólarorkuna og búa til rafmagn á mengunarlausan hátt, sem er ekki lít- ils virði í heimi sem berst við sívaxandi mengun.“ Landsvirkjun hefur efnast vel Hefur þá Landsvirkjun ekki hagnast mikið í áranna rás? „Það hefur ekki verið gerður stóriðjusamn- ingur svo að ekki komi sú gagnrýni að við töpum á honum. Maður spyr sjálfan sig hvers vegna Landsvirkjun sé svo öflugt fyrirtæki, sem raun ber vitni, ef við værum búnir að tapa árum sam- an. Fyrirtækið er með fjörutíu milljarða í eigin fé! Það virðist erfitt að fá menn til að trúa þessu. Auðvitað eru skuldir, en samt sem áður hefur fyrirtækið safnað þessu eigin fé.“ Þú sérð verðmæti í því að virkja, en aðrir í að virkja ekki. Hefur verið tekið með í dæmið hverju er fórnað fyrir virkjanir? „Hvernig ætlar þú að bera það saman? Ég get reiknað út hvað hægt er að hagnast á svona fyr- irtæki. En þú kemur og segir: Þetta land er miklu meira virði. Þá spyr ég: Hvað er til marks um það? Þá verður fátt um svör, því þú getur ekki reiknað það út. Þú ert þarna með áþreif- anlegar staðreyndir á móti tilfinningum. Það er auðvitað hárrétt að land getur verið verðmætt í sjálfu sér, en getur þú sýnt fram á að þjóðin fái meira fyrir sinn snúð með því að gera ekki neitt við landið?“ Eru að þínu mati einhverjir hagkvæmir virkj- anakostir í landinu, sem þér finnst ekki koma til greina að nýta vegna þess að í þeim er fólgið meiri verðmæti en aðeins hin virkjanlegu? „Gullfoss er gott dæmi um það. Ég er alveg tilbúinn að segja fyrir mína parta að mér myndi ekki detta í hug að stinga upp á því að virkja Gullfoss. En það er ekki þar með sagt að framtíð- arkynslóðir geti ekki hugsað sér það. Niagara- fossar á landamærum Kanada og Bandaríkjanna eru gott dæmi. Þeir eru virkjaðir, en það sér ekki nokkur maður. Ég hef komið þar ofan í stöðv- arhúsið og margir fara og skoða virkjunina og hún þykir mjög merkileg. Það er hægt að búa svo um hnútana að menn sjái þetta ekki, en bara það að vita að það sé búið að hreyfa við náttúruöfl- unum á einhverjum stað gerir suma mjög óánægða. Ég sé enga ástæðu til að virkja nú á stöðum sem vitað er fyrir víst að mikill meirihluti þjóðarinnar muni ekki samþykkja eins og nú standa sakir. Við skulum bara bíða með það þangað til komandi kynslóðir taka um það ákvörðun.“ Þú nefnir að það hafi orðið viðhorfsbreyting til virkjana að undanförnu. Er tilfinning þín sú að það verði æ erfiðara að ráðast í nýjar virkj- anaframkvæmdir vegna andstöðu? „Ef miðað er við minn starfsferil þá hefur þyngst undir fæti alveg stöðugt. En ég er bjart- sýnn á að þetta eigi eftir að breytast.“ Innblástur í erli dagsins Þú segir að Spánn hafi breytt þér, gert þig víð- sýnni og opnað augu þín, meðal annars fyrir ljóð- list. Þú hefur sjálfur fengist við ljóðagerð og birt eftir þig ljóð. Er þetta tómstundaiðja, eða færðu innblástur í erli dagsins? „Flest ljóða minna hafa orðið til fyrir inn- blástur, en ég les mikið ljóð, hef gaman af þeim og hrífst mjög af ljóðlist. Ég á uppáhaldsskáld eins og Stein Steinarr og Jón Helgason. Einn góður vinur minn í stjórn Landsvirkjunar, Árni Grétar Finnsson, hefur verið að yrkja mörg mjög snjöll ljóð.“ Nýlega rifjaðist upp fyrir Jóhanni Má með sérstökum hætti eftirfarandi erindi í Árnasafni eftir Jón Helgason: Senn er þess von að úr sessinum mínum ég víki, senn skal mér stefnt inn í skugganna fjölmenna ríki, spyrji þá einhver hvar athafna minna sér staði, er það í fáeinum línum á gulnuðu blaði. „Ég var að líta á ljóð sem ég birti í Lesbók Morgunblaðsins fyrir rúmu ári. Ég klippti það út og setti á borðið mitt. Svo fann ég það um daginn og þá var það orðið heiðgult.“ Jóhann Már segist hafa snemma farið að kasta fram tækifærisvísum. Svo hefur hann haft hjá sér kompur til að skrifa í þegar honum hefur dottið eitthvað í hug. Hann segir ljóðagerð sína mest til gamans og afköstin ekki mikil. „Safnið er mjög rýrt. Ég er nú að taka upp gömul plögg og finn þar ljóð. Stundum ef mér hefur dottið eitthvað í hug hef ég sett það á blað. Nú fer ég í gegnum það aftur.“ Er von á ljóðabók frá þér? „Það leyfi ég mér að efast um, en maður veit aldrei.“ Óttast ekki iðjuleysi Jóhann Már óttast ekki iðjuleysi þótt hann láti af annasömu starfi hjá Landsvirkjun. Hann fer daglega í Laugardalslaugina og tekur þátt í líf- legum samræðum í potti númer eitt. Svo er hann forseti Rotary-klúbbsins Reykjavík Austurbær fram í júlí á næsta ári. Hann segir ekkert ákveðið við hvað hann ætlar að sýsla á skrifstofunni sinni nýju, sem hann leigir af KOM í Borgartúni 20. „Það getur vel verið að það reki eitthvað á mínar fjörur. Ég gæti hjálpað mönnum með ýmislegt, þótt ég nenni ekki að fara að reikna mikið. Ég get hjálpað þeim að skilgreina hlutina, en ég er ekkert æstur í of mikla vinnu. Ætla að vera alveg laus við allar áhyggjur. “ Jóhann Már telur sig hafa verið afskaplega heppinn með samstarfsmenn hjá Landsvirkjun. Hann hefur unnið með þremur forstjórum, Ei- ríki Briem, Halldóri Jónatanssyni og Friðriki Sophussyni. Jóhann Már ber þeim öllum vel sög- una, segir þá ólíka menn á margan hátt. Þótt formlega hafi Jóhann Már látið af störfum er hann enn með verkefni fyrir Landsvirkjun. Sam- kvæmt reglum Landsvirkjunar varð hann að hætta þegar hann varð 67 ára og er sáttur við það. Það væri rétt að draga sig í hlé nú meðal annars vegna þess að tímarnir eru svo breyttir. „Ég hlakka bara til að fylgjast með. Mér þætti ekkert gaman að standa í framlínunni nú og ríf- ast við þessa virkjunarandstæðinga. Ég bara kann það ekki; kann ekki leikreglurnar lengur. Hér áður fyrr var hægt að tala saman, en ég sé ekki að það sé hægt í dag. Það er bara stál í stál. Ég veit ekki hvar það endar. Sem betur fer hefur skynsemin hingað til oftast fengið að ráða að lok- um. Menn reyna að draga úr tilfinningahitanum og horfa raunsætt á hlutina.“ Það leynir sér ekki, Jóhann Már, að starfið hefur verið þér meira en bara vinna. „Maður lifði og hrærðist í þessu og var í þessu af hugsjón. Það finnst mér þegar ég lít til baka. Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessu ævintýri.“ Viltu ekki enda þetta samtal með einu ljóði eft- ir þig? „Ja, það má nú segja að það sé farið að hausta hjá mér og ef til vill væri því viðeigandi að enda á ljóði sem ég orti um haustið og hljóðar þannig: Haustið Haustið kom til mín í morgun eins og óvæntur gestur nýkominn úr langferð það kyssti mig skarplétt á kinnina um leið og ég gekk út úr húsinu og sá björkina í garði nágrannans depla til mín gulu auga.“ Magnús Karl Pétursson, Bvstamante og Jóhann Már Maríusson fyrir framan víngerðarhús Bvstamantes í Jerez de la Frontera. Fyrirtækið seldi koníak til Íslands og var það eina viðskiptalandið utan Spánar. Íslendingunum var tekið eins og þjóðhöfðingjum þegar þeir komu í heimsókn. Ljósmynd/Magnús Karl Pétursson Fiskimenn greiða úr netunum í fjörunni í Pedregalejo og konurnar bíða eftir aflanum. Fiskimannaþorpið er nú orðið hverfi í Málagaborg. Á menntaskólaárunum starfaði Jóhann Már á sumrin sem mælingamaður og kynntist ósnortnu hálendinu af eigin raun. gudni@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.