Morgunblaðið - 29.01.2003, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - 29.01.2003, Blaðsíða 37
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 29. JANÚAR 2003 37 með pínulitlu munnhörpuna og spilaði afmælislagið! Víst er að Áslaugar verður sárt saknað hér í húsinu. En eitt sinn skal hver maður deyja. Þannig er nú lífið þó okkur finnist dauði hennar á allan hátt ótímabær. Við biðjum góðan Guð að geyma Áslaugu í nýjum heimkynnum og vottum aðstandendum hennar inni- lega samúð okkar. Hulda og Berglind. Að heilsast og kveðjast, það er lífsins saga. (Páll J. Árdal.) Síðasta kveðjustundin sem við átt- um með vinkonu okkar, Áslaugu Skúladóttur, var friðsæl og fögur. Stríðið var stutt, en hart og hún barð- ist eins og hún hafði lifað, með reisn og æðruleysi. Hún var kornung þegar hún fór utan til starfa hjá utanrík- isþjónustunni, dvaldi langdvölum sem sendiráðsfulltrúi í Bonn og Stokk- hólmi og greiddi þar götu landa sinna. Hún tók á móti öllum með geislandi brosi og menn urðu strax eins og heima hjá sér. Þótt Áslaug væri gáfuð, glæsileg heimskona, sem talaði mörg tungu- mál, var hún líka svo hlý og elskuleg í viðmóti, að það var alltaf gott að njóta samvista við hana. Gestrisin var hún með afbrigðum og nutum við hjónin þess á ferðum okkar. Hún opnaði okkur fallega heimilið sitt í Stokk- hólmi oftar en einu sinni og var öruggur bílstjóri og frábær leiðsögu- maður í Finnlandsferð sem hefur ósjaldan verið rifjuð upp, með tilheyr- andi hlátrasköllum. Það var aldrei nein lognmolla í kringum Áslaugu, hún var lífsglöð kona, lífsnautnakona og mikill vinur vina sinna. Áslaug var listunnandi, sótti leik- hús, tónleika, óperu- og ballettsýning- ar og átti marga vini úr hópi lista- manna. Það kom fyrir að hún slóst í hópinn á leikferðalögum þegar hún kom til Íslands að sumarlagi í gamla daga. Þá sló hún tvær flugur í einu höggi, gat notið bæði náttúrufegurðar og samveru við góða vini. Ævikvöldinu vildi Áslaug eyða hér heima, því „römm er sú taug, er rekka dregur föðurtúna til“. Hún naut þess að hafa meiri tíma aflögu til að hlusta á fagra tónlist, lesa góðar bækur og sinna öðrum hugð- arefnum. Hún hafði kennt sér meins fyrir nokkrum árum en náð heilsu á ný og horfði full bjartsýni fram á veg- inn. En fyrir skömmu drap óvæntur gestur á dyr og honum varð því miður ekki úthýst, fremur en öðrum gest- um. Því kveðjum við nú kæra vinkonu og þökkum henni samfylgdina með orðum organistans í Atómstöðinni: „Það er yndislegt að hafa farið þessa ferð.“ Margrét Ólafsdóttir og Steindór Hjörleifsson. „Snú andliti þínu mót sólinni – þá sérð þú ekki skuggana.“ Mér varð hugsað til þessara orða Helenar Kell- er, þar sem við sátum, fjölskyldan og gestir okkar, á jóladag og hlustuðum hugfangin á Áslaugu rifja upp bernsku sína og uppvaxtarár. Við vissum öll að hverju stefndi, en þarna var hún, glæsileg og geislandi, hreif okkur með sér og hló með okkur, oft og innilega. Þessi sterka og kjark- mikla kona gaf fagurt fordæmi þetta jólakvöld og þannig munum við minn- ast hennar. Hún sneri andlitinu ótrauð mót sólinni. Það verða vafalaust margir, sem sakna þess að vakna ekki við sím- hringingu á afmælisdaginn sinn og heyra Áslaugu spila afmælissönginn á pínulitlu munnhörpuna sína! Þetta var skemmtilegur siður, sem gaf líf- inu lit og þær eru í öllum regnbogans litum, minningarnar, sem þessi lífs- glaða og listelska vinkona okkar skil- ur eftir hjá okkur. Fyrir þær viljum við þakka nú að leiðarlokum og við munum lyfta glösum og skála henni til heiðurs í kirsuberjavíninu góða, sem hún færði okkur, og borða sænska ostaköku með. Það verður, eins og Áslaug sjálf hefði sagt: „jättegott!“ Og sólin mun skína á ný. Ragnheiður Steindórsdóttir, Jón Þórisson og börn. Við höfum hist í allmörg ár í des- ember nokkrar kerlur á ýmsum aldri sem áttum það sameiginlegt að sakna góðrar vinkonu, Sigríðar Hagalín. Síðast hittumst við hjá Vigdísi Finn- bogadóttur núna um jólin. Þá var Ás- laug sæt og spræk eins og ævinlega þótt við vissum allar að hún var alvar- lega veik. En að það væri svona stutt eftir datt engri okkar í hug. Ég kynntist Áslaugu fyrst þegar við Stefán fórum til Stokkhóms árið 1970 í framhaldsnám. Stefán, sem hafði dvalist langdvölum í Stokkhólmi fyrir mína tíð og verið formaður Ís- lendingafélagsins, talaði oft um Ás- laugu „sem ræki sendiráðið“ eins og það var kallað. Hún varð líka fræg í hinni umdeildu sendiráðstöku ís- lenskra námsmanna á sínum tíma, en þar hafði hún sýnt bæði stjórn- kænsku og samningalipurð. Það var nú ekki amalegt fyrir fá- tæka námsmenn eins og okkur að eiga hana Áslaugu fyrir vin. Hún bauð okkur heim man ég rétt eftir að ég kom út og ég minnist glæsileikans og sjarmans sem var í kringum allt sem hún snerti. Ég minnist þess líka hvað hún var góð við mig þegar ég lá veik lengi vel á sjúkrahúsi í Stokkhólmi og hvað hún var ræktarleg við okkur alla tíð. Röggsemi hennar, gáfur og hjálp- semi nýttust vel í þágu lands og þjóð- ar í hennar erfiða og krefjandi starfi. Ég ímynda mér að utanríkisþjónust- an þurfi á svona fólki að halda og Ás- laugar sé sárt saknað þar á bæ. Best kynntist ég persónulega þess- um hæfileikum hennar þegar við týndum stórri ferðatösku á lestarferð á leið áleiðis heim til Íslands. Þrátt fyrir margra mánaða leit á öllum lest- arstöðvum þvers og kruss um Svía- ríki, fannst taskan hvergi. Við höfðum gefið upp alla von um að finna töskuna þegar Áslaug hringdi í okkur að utan mörgum mánuðum seinna og sagðist hafa fundið hana „undir bekk upp í Lapplandi“ eins og hún orðaði það. Aldrei vissi ég hvernig hún fann töskuna, en eitt er víst að allt okkar hafurtask var í henni þegar hún skil- aði sér loks heim á stétt til Íslands fyrir atbeina Áslaugar. Svona eiga sýslumenn að vera. Og svona snillinga á utanríkisþjónustan að hafa í hverju horni. Áslaug var heillandi heimskona, sem bjó erlendis mestan hluta ævinn- ar, en hélt þó alltaf mikilli tryggð við Ísland og vini sína þar. Hún sýndi mér glöð íbúðina sem hún keypti sér þegar hún flutti alkomin heim og sagðist loks hafa fengið íslensku fjallasýnina í gluggann sinn aftur. Hún er nú horfin á vit þeirra eilífu fjalla og við Stefán söknum góðs og trygglynds vinar. Þórunn Sigurðardóttir. Áslaug vinkona okkar hjónanna er látin. Mig langar til að kveðja hana með nokkrum orðum, en mér verður orða vant. Hún var Ísfirðingur í hug og hjarta þó að hún dveldist ekki lengi þar í uppvextinum. En svo er um okk- ur Ísfirðinga, þar eigum við rætur okkar, hvert sem örlögin bera okkur á lífsleiðinni. Fyrstu veruleg vináttubönd okkar urðu þegar við bjuggum og störfuð- um í Stokkhólmi og Áslaug var sendi- ráðsritari og síðar sendiráðsfulltrúi í íslenska sendiráðinu. Sem betur fer þurftum við ekki oft að leita til hennar eftir aðstoð, en þegar það gerðist mættum við skilningi og hjartahlýju. Áslaug kunni allt sem einn sendiráðs- fulltrúi þarf að vita og kunna og fyr- irgreiðsla hennar var ekki veitt af skyldurækni einni, heldur ekki síður af umhyggju og væntumþykju. Mér er ógleymanlegt atvik þegar Vidís Finnbogadóttir var forseti Ís- lands og kom í opinbera heimsókn til Stokkhólms. Svo sem vera ber, bauð íslenska ríkið sænsku konungshjón- unum og æðstu embættismönnum sænska ríkisins til veislu og var ég beðinn að sjá um tónlistarflutning í samkvæminu. Ég fór á fund í sendi- ráðinu til þess að fá upplýsingar um hvað í raun ætti að gera, hitti þar sendiherra og fleiri ágæta menn sem undirbjuggu heimsókn Vigdísar. Sitt- hvað vafðist fyrir þeim með svör við spurningum mínum þar til sendiherra sagði: „Biðjið hana Áslaugu að koma hingað inn.“ Áslaug kom og á fáeinum mínútum fengu allir viðstaddir skýr svör við öllum vafaatriðum. Þannig var Áslaug, hún vissi jafnan hvað gera þurfti og sá til þess að það var gert. Áhugi Áslaugar á menningu og list- um var mjög sterkur þáttur í hennar lífi. Hún stundaði t.d. myndlistarsýn- ingar, tónleika og leikhús af hjartans einlægni og þörf og þekkt er um- hyggja hennar fyrir íslenskum leik- urum sem komu til Stokkhólms til þess að kynna sér leikhússtarfsemi þar í borg, enda átti hún marga vini í þeirri stétt listamanna. Hug sinn til Sinfóníuhljómsveitar Íslands sýndi hún með stórbrotinni gjöf sem von- andi verður til mikils gagns fyrir hljómsveitina og áheyrendur hennar í framtíðinni. Ekki veit ég hvort hún lagði stund á leiklistar- eða tónlistarflutning, en þegar eitthvert okkar átti afmæli var hún vön að hringja og spila fyrir okk- ur á munnhörpu! En efst í huga okkar hjónanna nú, þegar við verðum að kveðja Áslaugu, er vinkonan sem heimsótti okkur og gladdist með okkur á afmælum, á stúdentsprófi og brúðkaupi dóttur okkar eða bara yfir einföldum kaffi- sopa og spjalli í eldhúsinu. Og nú er Áslaug farin. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. (V. Briem.) Stella Margrét og Ingvar Jónasson. Þegar við Kolfinna komum til Ás- laugar skömmu fyrir andlát var mjög af líkamsmætti hennar dregið en and- inn óbugaður og skynbragðið á um- hverfinu og samhengi hlutanna samt við sig: „Góði , settu nú rósina fyrir mig í vasa, en ekki með túlípönunum; rósir og túlípanar, það fer ekki sam- an.“ Á langri og gifturíkri ævi var það eitt af aðalviðfangsefnum hennar í starfi að halda utan um og tryggja rétta skipan og framsetningu mála, sem oft voru viðkvæm og snertu ör- lagaþætti fjölmargra einstaklinga. Um þau atriði starfsins vissu kunn- ingjar hennar ekki svo gjörla; aftur á móti þekktu þeir hvernig viðhorf hennar til sögu, samtíðar og sam- ferðafólks birtist í hýbýlahyggju og smekk á heimili hennar. Það heimili mótaði hún fyrir sig, en ótalinn er sá fjöldi gesta sem naut góðs af, naut gestrisni Áslaugar og áhuga hennar á listum, jafnt í tónum, myndum og máli. Leiðir okkar Áslaugar lágu saman í Stokkhólmi, einkum á tveim tíma- skeiðum. Við fjölskyldan bjuggum þar eitt misseri við lok sjötta áratugarins og stofnuðum þá til varanlegra kynna við hana. Næsti kafli okkar samskipta var mjög ólíkur þeim fyrri ljúfu Stokkhólmsdögum. Hann kom til rúmum áratug síðar, og um þær tvær Stokkhólmsferðir okkar Kolfinnu skal það eitt sagt að við upphaf hvorr- ar um sig ríkti fullur vafi um að við hjón yrðum bæði í farþegarými á heimleiðinni. Við slíkar aðstæður var Áslaug Skúladóttir betri en enginn. Hún opnaði heimili sitt á Sandhamns- gatan fyrir fylgdarmanni og sjúklingi svo vikum skipti, taldi ekki eftir sér neina snúninga né fyrirgreiðslu og það var ekki merkjanlegt að henni flygi nokkurn tíma í hug að hún ætti eftirgjald eða viðurkenningu skilið. Lok þessa tímabils voru sælir sum- ardagar á Sandhamnsgatan og upp- haf á ótrúlegum afturbata. Það verð- ur ekki með nokkru móti til þess ætlast að opinberir fulltrúar Íslands erlendis geri þurfandi fólk að skjól- stæðingum sínum á slíkan hátt, en þess eru nú samt mörg dæmin og óþarft að þau liggi í þagnargildi. Við Kolfinna þökkum forsjóninni fyrir að hafa átt Áslaugu að vini og velgerðarmanni og sendum vanda- mönnum hennar einlægar samúðar- kveðjur. Hinrik Bjarnason. Áslaug er horfin okkur allt of fljótt og allt of skyndilega. Hún fékk loka- dóminn fyrir liðlega mánuði síðan. Höggið var þungt, engin grið gefin og von um bata engin. Bara skammtaður tími sem þó reyndist mun skemmri en vonir stóðu til. Eftir stöndum við og skiljum varla hvernig þetta gat gerst, svona nánast í einni andrá. Hún sem var holdgervingur lífsgleðinnar og lífsnautnanna í besta skilningi orðsins átti ekki að fara svona. Hana langaði til að lifa og njóta og okkur langaði til að hafa hana lengi, lengi enn. Hún hafði verið hluti af tilveru manns frá því maður var lítill. Reynd- ar var hún alltaf í útlöndum, en við og við kom hún heim og þá kom hún með hluta af útlöndunum með sér og fyllti allt í kringum mann af gleði og kátínu sem henni einni var lagið. Auðvitað naut maður þess að hún var vinkona hennar mömmu. Þegar ég óx úr grasi og varð táningur var ekki ónýtt að eiga hana að í útlöndum. Ég sendi henni úrklippur úr tískublöðum í pósti og hún keypti svo handa mér pæjuföt í Svíþjóð, þegar ekkert var hægt að fá af svoleiðis hérna heima. Hún var alltaf að gefa gjafir, bæði gaf hún veraldlegar gjafir og hún gaf af sér gleði og vináttu. Vinátta hennar var djúp og traust og hún var ekki að- eins bundin mömmu og Gumma, Hrafnhildi systur og mér. Seinna þegar ég eignaðist Björn Vigni, manninn minn og börnin mín, Sigríði og Kolbein, gerði hún þau að vinum sínum. Það sama gilti um Pétur, mág minn og Siggu litlu hennar Hrafnhild- ar. Hún átti okkur öll og hún var alla tíð örlát við okkur. Á afmælum hringdi hún og spilaði afmælissöng- inn á munnhörpuna sína. Á jólunum kom hún með jólagjafir til okkar og skreytta appelsínu með negulnöglum að sænskum sið til að hengja í dyra- stafinn og hrekja út illar vættir. Jóla- appelsínan hennar Áslaugar er orðin svo nauðsynlegur þáttur í jólahaldinu hjá okkur að Sigríður, dóttir mín, mátti ekki til annars hugsa en að hafa jólaappelsínuna á sínum stað á fyrstu jólunum hennar á eigin heimili í Dan- mörku um síðustu jól. Á skilnaðarstundu er mér efst í huga söknuður en líka þakklæti. Þakklæti fyrir allar góðu minningarn- ar sem við eigum um Áslaugu og það sem hún var okkur. Ég bið góðan Guð að vaka yfir henni og ég veit að það hefur verið tekið vel á móti henni. Kristín Ólafsdóttir. Þegar foreldrar manns eru fallnir frá verða nánustu vinir þeirra manni óneitanlega meira virði en áður. Með þeim á maður minningar um sameig- inlega fortíð og í þá er hægt að sækja ýmislegt sem annars væri löngu gleymt. Áslaug Skúladóttir var einn nánasti vinur foreldra minna frá því ég man eftir mér. Hún var lengst af búsett í Svíþjóð og yfir henni hvíldi alltaf man ég ákveðinn ævintýraljómi, hún vann í sendiráðinu í Stokkhólmi og hitti marga eins og lög gera ráð fyrir í slíku starfi, og þegar hún kom heim í heimsókn sagði hún sögur af kóngum og hvers kyns fyrirfólki og það var vakað og hlegið fram á nætur. Þannig mynd hafði ég af henni sem barn, sem síkátri og lífsglaðri og hvar sem hún fór fékk hún fólk til að skella upp úr með einhverjum skemmtileg- heitum og skondnum frásögnum. Seinna, eftir að Áslaug fluttist heim styrktust enn tengslin við for- eldra mína og enn seinna varð hún fjölskylduvinur á heimilum okkar systranna. Hún hélt áfram að heiðra okkur með nærveru sinni á hinum ýmsu hátíðis- og tyllidögum eins og hún hafði gert meðan foreldrar okkar lifðu. Og hún var ræktarsöm og stál- minnug. Alltaf með þeim fyrstu sem hringdu á afmælisdaginn minn: Það var örstutt þögn í símann og svo upp- hófst söngurinn spilaður á pínulitla munnhörpu sem henni hafði áskotn- ast einhvers staðar á ferð sinni um heiminn og hún dró oft upp í boðum mönnum til ómældrar skemmtunar. Hún lauk svo laginu með glissandó- tilþrifum í restina og hló svo rosalega, ég sagði við hana að með hverju árinu færi henni meira og meira fram í leikni sinni á hljóðfærið og þá hló hún enn meira. Áslaug var skarpgreind og svo margtyngd að hún var eftirlæti allra í veislum með útlendingum því hún gat slegið um sig með allra handa tilvitn- unum og málsháttum á ólíklegustu tungumálum og gert sig skiljanlega með einhverjum hætti. Þegar ég var barn fannst mér þetta ótrúlegt, lét hana þylja góðan daginn á rússnesku og jiddísku og fara með vísur á hinum og þessum málum afturábak og áfram. Oft var hún kölluð til í Stokk- hólmi þegar þurfti að þýða íslenskar bíómyndir og gerði það þá undirbún- ingslaust og jöfnum höndum og eins og að drekka vatn. Áslaugar verður sárt saknað í okk- ar röðum. En við geymum með okkur óteljandi minningar um hana og þær fjölmörgu stundir sem hún gladdi okkur með nærveru sinni. Hrafnhildur Hagalín. Okkur systurnar langar til að minnast hennar vinkonu okkar, Ás- laugar, í örfáum orðum. Hún „Slauga“ var alltaf hluti af fjölskyld- unni þó að engin væru ættartengslin. Hún kom inn í líf okkar beggja í Stokkhólmi, þar sem foreldrar okkar bjuggu um skeið fyrir tæpum 40 ár- um. Þar myndaðist vinátta sem var okkur öllum svo dýrmæt. Áslaug var nefnilega svo skemmtilega lífsglöð og kát, og þess vegna var svo gaman og gefandi fyrir okkur að vera í kringum hana. Þegar hún bjó í Svíþjóð hlökk- uðum við alltaf til að fá hana heim í jólafrí eða sumarfrí, því þá upphófst mikið boðastand og félagslíf fjölskyld- unnar tók kipp. Hún Áslaug var svo mikil veislukona og hafði svo gaman af því að punta sig og skemmta sér með góðum vinum. Hún var líka alltaf fínust allra og bar með sér heimskon- ublæ sem okkur fannst svo spenn- andi. Í sólarhring Áslaugar var til dæmis það sem hún kallaði „Hitch- cock hour“. Það var kl. 17.00, en þá fékk hún sér gjarnan einn Jim Beam með engiferöli. Okkur fannst þetta af- skaplega heimsborgaralegt. Þegar Áslaug flutti heim til Ís- lands, urðu samskiptin enn meiri. Þá komumst við enn betur að því hvað hún var hlý og ræktarsöm. Hún hafði einlægan áhuga á öllu því sem gerðist í okkar lífi, þó ekki hafi það jafnan verið hægðarleikur fyrir hana. Núna þegar hún er farin frá okkur, þá getum við ekki annað en vonað að það sé „Hitchcock hour“ í himnaríki líka. Væntanlega er hún þar hrókur alls fagnaðar Við munum sakna Áslaugar, hlýju hennar, gleði og skemmtilegheita. Nú er enginn sem hringir á afmælisdag- inn og spilar afmælissönginn fyrir okkur á munnhörpuna sína. Í dag kveðjum við vinkonu okkar með söknuði og þakklæti fyrir að hafa fengið að njóta lífsins með henni. Kristín og Lára. Áslaug Skúladóttir var eftirminni- leg kona. Undir glöðu og kátu yfir- bragði bjó annars vegar óvenju glöggt minni, greind og einstök sam- viskusemi og hins vegar tónlistargáfa og djúpur áhugi á hvers konar listum og skáldskap. Hið glaða skap og gjaf- mildi hugans gerði Áslaugu hvar- vetna aufúsugest og færði henni nýja kunningja og vini á öllum aldri alveg fram í andlátið. Fjölmargir vinir og vandamenn standa nú hnípnir og höggdofa við andlát hennar sem ber að svo skömmu eftir úrskurð um banvænt mein í byrjun desember síðastliðins. Þeim skapadómi tók hún sem hetja, gerði þær ráðstafanir sem gera þurfti, kveinkaði sér hvergi og gladd- ist með glöðum yfir hátíðarnar. Vegna starfa Áslaugar í utanríkis- þjónustunni var starfsferill hennar að mestu erlendis, í Stokkhólmi og Bonn. Hún var þó rómaður starfs- maður Norðurlandaskrifstofu, sem þá heyrði undir utanríkisráðuneytið, á árunum 1987-1991. Á norrænum vettvangi eignaðist hún fjölda vina eins og annars staðar þar sem hún kom. Fyrir samstarfið þar, eins og svo margt annað, er henni þakkað. Við erum mörg sem í dag söknum vin- ar í stað og yljum okkur við minn- ingar um góða, lífsglaða og skemmti- lega konu. Megi góður guð vaka yfir anda Ás- laugar. Snjólaug Ólafsdóttir.  Fleiri minningargreinar um Áslaugu Skúladóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.