Morgunblaðið - 03.02.2003, Blaðsíða 13

Morgunblaðið - 03.02.2003, Blaðsíða 13
Kólumbía var 20 ára gömul og þær raddir heyrast nú að of lengi hafi verið treyst á gamla hönnun GEIMFERJUR Bandaríkja- manna hafa verið mun lengur í notkun en ráð var fyrir gert í upp- hafi. Eftir því sem árin hafa liðið hefur flotinn látið á sjá og um leið hafa áhyggjur manna af öryggi áhafna farið vaxandi. Eldsneytisleiður hafa lekið, hurðir hafa skekkst, skellir og blettir hafa myndast, meira að segja hafa fuglar skaddað geim- ferjurnar. Geimferjuflotinn er orðinn 22 ára gamall. Þar með er nýtingar- tíminn orðinn tvöfalt lengri en hönnuðir geimferjunnar gerðu ráð fyrir í upphafi. Svo langt er liðið frá því að ferjurnar voru smíðaðar að sumir hlutir í þær eru nú ófáan- legir. Fyrir hefur komið að tækni- fræðingar hafa þurft að leita að varahlutum á Netinu. Á sama tíma hefur bandaríska geimvísindastofnunin, NASA, þurft að sætta sig við minni fjár- veitingar en áður. Þetta hefur m.a. haft í för með sér að færri menn sinna nú viðhaldi en áður. Nú vinna um 1.800 manns við viðhald en þeir voru rúmlega 3.000 um miðjan síðsta áratug. Kólumbía var elsta og þyngsta geimferja Bandaríkjamanna. Þótt sérfræðingar segi að enn sé of snemmt að fullyrða um orsakir harmleiksins á laugardag hafa tals- menn NASA jafnan lagt áherslu á að ferjurnar séu ekki orðnar of gamlar. Og nú sem jafnan áður sé allt gert til að tryggja öryggi geim- faranna. Yfirmaður geimferjuáætl- unar NASA, Ron Dittemore, sagði á laugardag að geimferjur Banda- ríkjamanna væru allar í mjög góðu ástandi. Hann kvaðst ekki telja að aldur geimferjunnar Kólumbíu hefði verið orsakavaldur í slysinu. Geimferjurnar áttu að geta farið í hundrað ferðir hver. Kólumbía var í sinni 28. ferð þegar hún fórst á laugardag. Hins vegar er ekki vitað með vissu hversu lengi má í raun gera ráð fyrir því að hver geimferja endist. Sannkallaðir ógnarkraftar verka á þær þegar þeim er skotið á loft og þegar þær koma inn í gufuhvolf jarðar á margföldum hraða hljóðsins. Þar sem ekkert benti til þess að vilji væri fyrir því að sett yrði sam- an ný geimáætlun ákvað NASA að treysta áfram á geimferjurnar. Ákveðið var að endurnýja ferjurn- ar og sögðu talsmenn NASA að með því móti gætu flotinn verið í notkun „fram til 2012 og lengur“. Fram hafði komið það mat að ferj- urnar yrði unnt að nota allt til árs- ins 2020. Kólumbía var fyrsta geimferjan sem fór á braut um jörðu. Það var árið 1981. Þar sem hún var elsta ferjan íhugaði NASA að taka hana úr notkun. Hún var auk þess eina geimferjan sem hönnunar sinnar vegna gat ekki flutt áhafnir og búnað til Alþjóðlegu geimstöðvar- innar (ISS). Um tíma íhugaði NASA að selja geimferjuna en áhuginn reyndist lítill. Upp kom og sú hugmynd að breyta geimferj- unni og leggja hana við Alþjóðlegu geimstöðina. Hún yrði þá höfð þar til taks ef áhöfnin þyrfti skyndilega að yfirgefa geimstöðina. Svo fór að lokum að NASA ákvað að endurnýja Kólumbíu. Það verkefni tók alls 18 mánuði og kostaði meira en 70 milljónir Bandaríkjadala. Geimferjan var í raun endursmíðuð og sögðu starfs- menn NASA að Kólumbía væri í senn „elsta og nýjasta“ geimferjan í flotanum. Ýmsir hafa þó haft efa- semdir um réttmæti þess að end- urnýja þennan búnað. „Það eru takmörk fyrir því hversu oft má endurnýja 40 ára gamla hönnun,“ segir þingmaðurinn Dana Rohra- bacher sem á sæti í geimnefnd Bandaríkjaþings. „Vera kann að tími okkar hafi verið runninn út vegna þess að við nýttum okkur gamla tækni,“ bætir hún við. Fleiri hafa tekið í svipaðan streng. „Geimferjan er ekkert frá- brugðin bílnum þínum,“ sagði einn sérfræðingur sem rætt var við. „Ef þú keyrir um í bíl frá 1981 er aug- ljóst að þú þarf að leggja meira á þig til að halda honum gangandi en ef þú ættir nýjan bíl.“ Gamall geimferjufloti The Los Angeles Times. ’ Vera kann aðtími okkar hafi verið runninn út vegna þess að við nýttum okkur gamla tækni. ‘ ERLENT MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 3. FEBRÚAR 2003 13 HERMENN úr bandaríska þjóð- varðliðinu vakta brot úr Kólumb- íu, sem féllu til jarðar í bænum Nacogdoches í Texas. Hefur fólk verið varað við að snerta á þess- um brotum vegna hættu á, að þau geti verið geislavirk. Fjölmennar her- og lögreglusveitir vinna nú að því að safna þeim saman og verður það mikið verk þar sem þau er að finna á víðáttumiklu svæði í tveimur ríkjum, Texas og Louisiana. AP Brot úr Kólumbíu GEORGE W. Bush, forseti Banda- ríkjanna, minntist í fyrradag geimfar- anna sjö klökkri röddu og lofaði þá fyrir „fyrir hugrekki og hugsjónir“. Sagði hann, að þeir hefðu vitað, að hver einasta geimferjuferð væri hættuför, sem nú hefði endað með skelfilegum hætti. Sagði Bush, að þrátt fyrir þetta áfall yrði geimferða- áætlunum Bandaríkjanna haldið áfram. „Kólumbía fórst. Enginn komst lífs af,“ sagði Bush í sjónvarpsávarpi til þjóðar sinnar. „Sá, sem skapaði stjörnurnar, þekkir líka nöfn þeirra sjö manna, sem við syrgjum í dag.“ Sean O’Keefe, yfirmaður NASA, bandarísku geimvísindastofnunar- innar, færði Bush fréttirnar af slysinu strax og ljóst var hvað hafði gerst en Kólumbía átti að lenda í Flórída klukkan 9.16 á laugardagsmorgun. Var það fyrsta verk forsetans að ræða við fjölskyldur geimfaranna sjö. „Ég vildi, að ég gæti verið með ykkur á þessari erfiðu stund, huggað ykkur og grátið með ykkur,“ sagði Bush en aðstandendur geimfaranna voru samankomnir í Flórída þar sem þeir höfðu ætlað að fagna ástvinum sínum við komuna. „Öll þjóðin syrgir með ykkur. Þess- ir menn og konur gengu óhikað til móts við hættuna í þágu alls mann- kyns. Við söknum þeirra sárt og minnumst hugrekkis þeirra og hug- sjóna.“ Öll bandaríska þjóðin er sem lömuð vegna slyssins, sem er þriðja stór- slysið í sögu bandarískrar geimkönn- unar. Í gær og fyrradag voru fánar í hálfa stöng um allt landið og Bush hefur fyrirskipað, að ekkert verði til sparað við að safna saman leifum geimferjunnar, sem dreifðust yfir tvö ríki, Texas og Louisiana. „Öll þjóðin syrgir“ Washington. AP. KÓLUMBÍU-slysið kann að hafa í för með sér að töf verði á frekari upp- byggingu Alþjóðlegu geimstöðvar- innar (ISS). Sumir sérfræðingar telja að mörg ár kunni að líða þar til Bandaríkjamenn taka geimferjur aft- ur í notkun. Sérfræðingar segja ljóst að mann- aðar geimferðir leggist nú af um hríð, hið minnsta. Þeir leggja hins vegar áherslu á að geimfararnir þrír sem nú eru í Alþjóðlegu geimstöðinni séu ekki í hættu en bandarískar geimferj- ur hafa verið notaðar til að flytja þangað áhafnir og vistir. Þar eru nú tveir Bandaríkjamenn og einn Rússi. „Þeir eru ekki fastir í stöðinni og ef þörf er á er unnt að koma þeim til jarðar með rússnesku Soyuz-geim- fari,“ sagði Lionel Suchet, háttsettur embættismaður við frönsku geimvís- indastofnunina CNES. Rússnesk þriggja manna Soyuz-geimflaug er ævinlega höfð til taks við Alþjóðlegu geimstöðina til að unnt reynist að flytja geimfarana burt skapist neyð- arástand um borð. Til stóð að geimfararnir þrír, Rúss- inn Nikolaí Búdarín og Bandaríkja- mennirnir Ken Bowersox og Don Pet- it kæmu til jarðar 1. mars með geimferjunni Atlantis. Nú hefur bandaríska geimvísindastofnunin, NASA, aflýst öllum geimferðum þar til að rannsókn á Kólumbíu-slysinu hefur leitt í ljós hvað fór úrskeiðis á laugardag þegar geimferjan splundr- aðist við það að koma inn í gufuhvolf jarðar. Geimfararnir hafa birgðir sem nægja munu þeim fram í júnímánuð, að því er fram kom í máli talsmanns NASA. Lionel Suchet segir að verði langt hlé á mönnuðum geimferðum í kjölfar Kólumbíu-slyssins sé sýnt að frekari uppbygging Alþjóðlegu geimstöðvar- innar tefjist. Stefnt var að því að ljúka því verki árið 2006. Rússneska frétta- stofan Ítar-Tass hafði eftir Sergeij Gorbúnov, yfirmanni geimferðaáætl- unar Rússlands, að ljóst væri að mörg ár liðu þar til Bandaríkjamenn hæfu á ný að skjóta geimferjum á loft. Tveggja ára hlé varð á slíkum ferðum eftir Challenger-slysið 28. janúar 1986 er sjö geimfarar fórust í flugtaki. Haft var og eftir ónefndum rúss- neskum geimvísindamanni að líklegt væri að mönnuðum geimferðum yrði hætt í kjölfar Kólumbíu-slyssins. Gera mætti ráð fyrir því að geimfar- arnir þrír í Alþjóðlegu geimstöðinni yrðu látnir snúa til jarðar en ný áhöfn yrði ekki send til dvalar þar. Stöðin yrði sett á sjálfstýringu og látið við svo búa um ókomna tíð. Þó svo unnt sé að nýta Soyuz-eld- flaugar til að flytja geimfara til stöðv- arinnar hafa þeir í raun fátt þar að starfa ef ekki er tiltækur rannsókn- arbúnaður sá sem bandarísku geim- ferjurnar hafa séð um að flytja. Hið sama á við um þá vinnu sem fram hef- ur farið við stækkun stöðvarinnar. Í ráði var að senda alls 36 geimfara til stöðvarinnar á þessu ári. Var gert ráð fyrir fimm ferðum geimferja og tveimur Soyuz-eldflaugum. Óvissa um framtíð geim- stöðvarinnar Mörg ár kunna að líða þar til geimferjur verða nýttar á ný París. AFP. ARIEL Sharon, forsætisráðherra Ísraels, lýsti yfir því í gær að þjóðin myndi áfram láta til sín taka á sviði geimvísinda. Dauði Ilans Ramons, ísraelska geimfarans sem fórst með Kólumbíu á laugardag, myndi engu breyta í því efni. „Fleiri ísraelskir geimfarar verða sendir út í geiminn,“ sagði Sharon á ríkisstjórnarfundi. Sagði hann geimfarana sjö sem fórust hafa fórnað lífi sínu í nafni enda- lausrar þekkingarleitar mannsins. Þeir væru hetjur og heimsbyggðin vottaði þem virðingu sína. Þjóðarsorg ríkir í Ísrael. Ilan Ramon varð þjóðhetja í Ísrael þeg- ar sú frétt barst að hann myndi, fyrstur Ísraela, halda út í geiminn. Gríðarlegur fögnuður braust út þar í landi þar sem tilefni til fagnaðar hafa verið heldur fá á undanliðnum árum. Ramon var 48 ára gamall. Faðir hans, sem fylgdist með aðflugi Kól- umbíu í sjónvarpssal í Ísrael, lifði af vist í útrýmingarbúðum nasista í Auschwitz. Ramon gekk í ísraelska herinn og varð foringi í flug- hernum. Hann tók m.a. þátt í stríð- inu við araba árið 1973. Ramon var þó ekki fyrstur gyð- inga til að fara út í geiminn. Á með- al þeirra sem á undan honum fór var Judy Resnik, sem fórst þegar geimferjan Challenger sprakk í loft upp skömmu eftir flugtak 28. jan- úar 1986. Reuters Harmi slegnir nemendur í skóla í Jerúsalem virða fyrir sér fréttir um örlög Kólumbíu en með henni fórst fyrsti ísraelski geimfarinn, Ilan Ramon. Þjóðarsorg í Ísrael

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.