Morgunblaðið - 09.02.2003, Blaðsíða 9

Morgunblaðið - 09.02.2003, Blaðsíða 9
komst síðan á starfsemi skjaldkirtilsins tveim- ur árum síðar,“ segir hún og tekur fram að með réttu lyfjunum hafi einnig tekist að halda bakflæði í meltingarfærunum í skefjum. „Ekki eru nema tvö ár liðin frá því að ég fékk aftur fulla heilsu og gat farið að velta því fyrir mér hvort að ég ætti að taka að mér verkefni er- lendis. Tíminn verður væntanlega að leiða í ljós hvort af því verður í nánustu framtíð eða ekki. Ekki hefur farið leynt að erlendir út- sendarar hafa fylgst með undirbúningnum undir Macbeth. Hvort eitthvað gerist í fram- haldi af því er erfitt að segja til um og auðvit- að eru ýmsir möguleikar í stöðunni. Mér hefur t.d. verið bent á að ég gæti gefið mig út fyrir að syngja aðeins lafði Macbeth og einhvern veginn líst mér betur á að taka að mér einstök verkefni heldur en að vera alltaf á kafi. Ég sé mig heldur ekkert endilega uppi á einhverjum Mont Everest í framtíðinni. Alveg eins við lít- inn læk. Þannig er ég bara.“ Langar að syngja með Sinfóníunni Ugla litla teygir úr sér í borðstofuglugg- anum og Elín Ósk svarar því hvaða hlutverk hafi verið henni eftirminnilegust á ferlinum. „Ég veit ekki hvað ég á að segja. Ég er svo heppin að hafa fengið tækifæri til að syngja svo mörg frábær hlutverk. Ég held samt að ég verði að byrja á því að nefna Leonoru í óper- unni Á valdi örlaganna. Hlutverkið er alveg einstaklega fallegt og er þar að finna m.a. eina þekktustu sópranaríu óperubókmenntanna, Pace, Pace, mio Dio. Ég hef líka alltaf verið hrifin af kaflanum með munkunum,“ svarar Elín Ósk og er spurð að því hvernig henni hafi þótt að syngja á móti Kristjáni Jóhannssyni þegar hún söng hlutverkið í Þjóðleikhúsinu árið 1994. „Okkur Kristjáni kom ágætlega saman svo langt sem það náði!“ Við höldum áfram þar sem frá var horfið að tala um eftirminnileg hlutverk. „Mér fannst líka óskaplega gaman að syngja í Aidu á sín- um tíma. Sú ópera er auðvitað bæði krefjandi og glæsileg. Ég hafði ekki kynnt mér Macbeth sérstaklega áður en ég tók að mér hlutverk lafði Macbeth núna. Satt best að segja hafði ég ímyndað mér að ég ætti enn nokkur ár í að passa í hlutverkið. Eftir að ég fór að kynna mér betur hlutverk lafði Macbeth komst ég síðan á aðra skoðun og hreifst mjög að dram- anu í hlutverkinu,“ segir Elín Ósk og bætir Toscu við upptalninguna. Blaðamaður læðir því að að sumir haldi því fram að Elín Ósk hefði átt að fá fleiri tækifæri til að syngja í Þjóðleikhúsinu, Íslensku óper- unni og með Sinfóníuhljómsveit Íslands á und- anförnum árum. „Ég held að ég sé ekki rétta manneskjan til að svara þessu. Þú verður að spyrja aðra. Aftur á móti leyni ég því ekkert að mig hefur lengi langað til að syngja nokkr- ar velvaldar óperuaríur með Sinfóníuhljóm- sveitinni. Vonandi getur orðið úr því einhvern tíma í framtíðinni.“ Lafði Macbeth — fín brennsla Athygli hefur vakið hvernig Elín Ósk beitir röddinni í túlkun sinni á lafði Macbeth. „Hlut- verkið liggur raddlega mjög hátt,“ útskýrir Elín Ósk. „Alveg frá des niður á b og fyrir þá sem ekki vita liggur des rétt fyrir ofan háa c. Ég nota brjósttónana töluvert til að ná svona „crazy“ (brjálæðis) áhrifum og svo tek ég veiku tónana með til að ná fram sterkari and- stæðum – og þær verða sterkastar í loka- aríunni. Sveiflurnar á milli hryllingsins, mýkt- arinnar og viðkvæmninnar verða rosalegar,“ segir Elín Ósk og viðurkennir að vera stund- um spurð að því hvernig jafn dagfarsprúð kona og hún sé geti umhverfst í jafn grimm- úðlega konu og lafðina. „Sannleikurinn er sá að þó að ég sé alla jafna yfirveguð blundar undir niðri í mér gífurleg ákveðni og jafnvel harka. Svo hef ég alveg frá barnæsku haft þessa dramatísku tilhneigingu. Annars hef ég alltaf haft gaman að því að syngja létt og lýr- ískt – ekki bara í óperum heldur líka í ljúfum dægurlögum.“ En er ekki líka rosalega erfitt líkamlega að syngja í sýningunni? „Jú, vissulega. Ég verð að viðurkenna að eftir fyrstu æfingarnar var ég með strengi um allan líkamann. Með hverri æfingunni fann ég síðan hvernig ég styrktist en það eru mikil hlaup og átök sem eiga sér stað á sviðinu, t.d. liggur við að hægt sé að vinda okkur Ólaf Kjartan upp eftir fyrsta þátt óperunnar. Við hlaupum upp og niður stiga í öllum ljósunum svo svitinn bogar af okkur í sýningunni,“ segir Elín Ósk. Þú þarft þá væntanlega ekki í Hress á meðan? „Nei, nei, þá yrði örugglega lítið eft- ir af mér. Ef vinkonur mínar spyrja hvort ég ætli ekki að fara að drífa mig í ræktina segi ég einfaldlega „lafði Macbeth – flott brennsla!““ Frábært samstarf Elín Ósk segir að vinnan við uppsetningu óperunnar Macbeth hafi gengið ákaflega vel fyrir sig. „Venjulega gefur fólk sér um 7 vikur til að setja upp svona óperu. Við tókum ekki nema rúmar 4 vikur í að undirbúa uppsetn- ingu Macbeths. Leikstjórinn Jamie Hayes kom líka hingað afar vel undirbúinn. Jamie var alveg frábær í samstarfi, viðræðugóður og dagfarsprúður maður. Hið sama var reyndar hægt að segja um alla aðstandendur sýning- arinnar ásamt því sem við erum með frábæran hljómsveitarstjóra, Petri Sakari, sem er flest- um Íslendingum að góðu kunnur. Ég hefði heldur ekki getað verið heppnari með mót- söngvara minn sem Macbeth. Ólafur Kjartan er ákaflega vandaður söngvari og maður. Samstarfið gekk afskaplega vel og aldrei hljóp snurða á þráðinn.“ Hvernig leið þér svo þegar klappið, stappið og bravóhrópin byrjuðu í salnum eftir sýn- inguna? „Ofboðslega vel og sú hugsun flaug í gegnum hugann hversu æðislegt væri að vita loks fyrir víst að allt hefði gengið upp – eins og að var stefnt.“ Nánast alæta á tónlist „Ég er eiginlega alæta á tónlist. Ef ég á að nefna eitthvað get ég kannski helst sagt að þungarokk falli ekki að mínum smekk. Strák- urinn minn, Heimir Þór, hefur voðalega gam- an af því að bera undir mig alls konar tónlist. Sumt finnst mér flott og annað ekki. Hann er á fermingaraldri og ekki alveg með sama tón- listarsmekk og foreldrarnir. Ég hlusta sjálf mest á óperur og ljóðatónlist,“ segir hún og viðurkennir að hafa lengi haft sérstakt dálæti á samtímakonu Maríu Callas – Renötu Teb- aldi. „Ég hlusta á hana bæði mér til ánægju og af því að ég veit að ég get lært ýmislegt af þessari frábæru söngkonu. Önnur frábær söngkona er svo Edita Gruberova – kóleratúr með ótrúlega tækni eins og heyrist vel í óper- unni Luciu di Lammermoor. Hún leikur sér að tónunum á ótrúlega mjúkan en fylltan máta. Fáar söngkonur geta hreykt sér af jafn stór- kostlegri flauelsrödd,“ segir Elín Ósk og sér að Ugla hefur algjörlega snúið við henni baki þar sem hún kúrir í borðstofuglugganum. Elín Ósk stofnaði Söngsveit Hafnarfjarðar haustið 2000. „Kórstarf hefur lengi verið stór hluti af mínu lífi. Ég söng sjálf í kór og svo stjórnaði ég Rangæingakórnum í ein 10 ár. Eftir að ég lét af því starfi langaði mig að gera gamlan draum að veruleika og stofna stóran óperukór þó hann starfaði ekki endilega á sviði. Viðtökurnar létu heldur ekki á sér standa því að fjöldinn allur af kórfólki sýndi áhuga og kom í prufu. Núna erum við 62 alls staðar að af höfuðborgarsvæðinu þó að Hafn- firðingar séu reyndar flestir enda Söngsveit Hafnarfjarðar,“ segir hún og tekur fram að fyrir henni komist kórstjórnin næst því að syngja sjálf. „Að fá að taka á móti og móta þennan stórkostlega samhljóm.“ Með kórskóla undir fótunum „Ég gef mig ekki út fyrir að vera einhver súperstjórnandi,“ segir Elín Ósk þegar hún er spurð að því yfir hvaða eiginleikum góður kór- stjórnandi þurfi að búa. „Óneitanlega hef ég þó lært ýmislegt á lífsleiðinni. Ekki spillir heldur að kórstjórnendur séu sjálfir söngv- arar. Annars er líka orðið ótrúlega algengt að kórfólk sæki söngtíma og verði náttúrlega eft- irsóttara fyrir vikið.“ Þið hjónin rekið einmitt kórskóla? „Já, við hjónin höfum rekið kórskóla hérna niður í kjallaranum heima hjá okkur í vetur. Þessi kórskóli er bæði fyrir þá sem eru í kór og langar til að bæta sig og verðandi kórfólk. Enda þótt við höfum nánast ekkert auglýst hefur verið meira en nóg að gera. Við höfum verið með 4 til 8 vikna einstaklingsnám í söng ásamt tónheyrn og tónfræði en sumir hafa verið allan veturinn í námi,“ segir Elín Ósk og er spurð að því hvernig sé að hafa svona heil- an skóla heima hjá sér. „Á því eru bæði kostir og gallar þó kostirnir séu fleiri, t.d. er mun styttra fyrir mig að fara í vinnuna niður í kjallara en í Söngskólann í Reykjavík þar sem ég kenndi í 14 ár frá 1987. Okkur finnst heldur ekkert verra þó ómur heyrist aðeins upp. Auð- vitað fylgir þessu meiri erill en ella en þó að ég sé heimakær hef ég líka óskaplega gaman af því að vera í góðra vina hópi,“ segir Elín Ósk og reynir að lokka Uglu til sín fyrir myndatökuna. Kisa þykist í byrjun ekki taka eftir því að verið sé að kalla á hana. Henni hef- ur greinilega þótt nóg um að þurfa að deila at- hyglinni með blaðamanninum þennan tíma. Hún töltir ekki til Elínar fyrr en blaðamað- urinn sýnir á sér fararsnið og hættan virðist vera liðin hjá. Morgunblaðið/Sverrir gið í gegn í hlutverki sínu sem lafði Macbeth í óperunni Macbeth eftir Verdi. ago@mbl.is „Mér hefur t.d. verið bent á að ég gæti gefið mig út fyrir að syngja aðeins lafði Macbeth og einhvern veginn líst mér betur á að taka að mér einstök verkefni heldur en að vera alltaf á kafi. Ég sé mig heldur ekkert endilega uppi á einhverjum Mont Everest í framtíðinni. Alveg eins við lítinn læk. Þannig er ég bara.“ MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 9. FEBRÚAR 2003 B 9

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.