Morgunblaðið - 31.03.2003, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 31.03.2003, Blaðsíða 15
LISTIR MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 31. MARS 2003 15 NÚTÍMA borgarbörn þekkja fæst lífið til sveita af eigin reynslu. Af er lagður sá siður að senda börn til sum- ardvalar í sveit þar sem þau þurftu mörg hver að vinna erfiðisvinnu við illan kost, a.m.k. ef borið er saman við þau makindi sem flest börn alast upp við á Íslandi í dag. Sitt sýnist eflaust hverjum um gildi þessa aflagða siðar og þá staðreynd að íslensk börn þekkja núorðið kannski fæst mun á hófum og klaufum. Hitt er þó víst að misjafnlega þrifust borgarbörnin í sveitinni meðan slík sumardvöl þótti eins sjálfsögð og soðin ýsa á mánu- dögum. Ólafur Haukur hefur skrifað leikrit fyrir börnin þar sem sögð er saga af drengnum Nonna sem sendur er í sveit. Tími verksins er einhverntíma á seinni hluta nýliðinnar aldar og margt ansi forneskjulegt á bænum þeim sem drengurinn lendir á. Vél- væðing hefur ekki gengið í garð á bænum, kýrnar handmjólkaðar, grasið slegið með orfi og ljá og salt- fiskur í alla mata nema á laugardög- um, þá er saltkjöt, og á sunnudögum hnoðaðar saman bollur úr hvoru tveggja: fisknum og kjötinu. Drengn- um líst ekki á blikuna í byrjun, kúg- ast stöðugt yfir lyktinni af mykjunni, fólkinu sem þvær sér sjaldan og ólystugum saltfisknum. Auk þess saknar hann mömmu sinnar og er ógnað af framhleypinni og naut- sterkri heimasætunni, henni Silju. Bæði eru þau Nonni og Silja á því þroskaskeiði sem Laxness kallaði „á milli heys og grasa“. Leikritið er því öðrum þræði þroskasaga Nonna, sem fer lítill og óframfærinn í sveitina en kemur tilbaka reynslunni ríkari, hef- ur eflaust meiri krafta í kögglum en áður og hefur að auki kysst stelpu í fyrsta sinn. Það síðastnefnda sagði hann vera eina þá hræðilegustu og erfiðustu reynslu nokkurs manns (en því var reyndar mótmælt kröftug- lega af tæplega fimm ára peyja meðal áhorfenda). Jón Páll Eyjólfsson fór vel með hlutverk Nonna. Hann var afskap- lega aumkunarverður í byrjun og vakti samúð áhorfenda þegar hann skældi og kallaði á mömmu sína. Sömuleiðis uppskar hann mikla kát- ínu þegar hann kúgaðist og ældi yfir ólyktinni og saltfisknum. Halla Mar- grét Jóhannesdóttir var sannkallað- ur kvenskörungur sem rak Reykja- víkurdrenginn áfram af mikilli harðfylgni og með hótunum um að kyssa hann ef hann stæði sig ekki! Uppsetning Hafnarfjarðarleik- hússins á Gaggalagú er einföld að því leyti að ekki er lagt mikið í umgjörð- ina heldur er notast við fáa leikmuni og látbragðsleik, auk þess sem eitt atriðið er í formi skuggamyndar á tjaldi. Þórunn María Jónsdóttir hannar búninga og dýragervi sem eru öll í formi höfuðfata og mjög skemmtileg. Vala Þórsdóttir leikur dýrin og fer á kostum í hlutverkum hænunnar og kýrinnar. Þá leikur Vala einnig bóndann og skiptir á milli hans og hundsins á augabragði af mikilli kúnst. Gaggalagú endar á fjörugu söng- lagi eftir Ólaf Hauk þar sem hann dregur saman í hnotskurn söguna sem búið er að sýna áhorfendum. Lagið var rúsínan í pylsuendanum á bráðskemmtilegri sýningu sem Er- ling Jóhannesson leikstjóri og sam- starfsfólk hans geta verið stolt af. En ég er hrædd um að foreldrar þurfi að útskýra fyrir börnum sínum að svona frumstætt sé lífið ekki í sveitinni í dag… Soffía Auður Birgisdóttir Lífið í sveitinni – í gamla daga Morgunblaðið/Brynjar Gauti Gaggalagú: Bráðskemmtileg sýning sem Erling Jóhannesson leikstjóri og samstarfsfólk hans geta verið stolt af. LEIKLIST Hafnarfjarðarleikhúsið Höfundur texta og tónlistar: Ólafur Hauk- ur Símonarson. Leikstjóri: Erling Jóhann- esson. Leikarar: Halla Margrét Jóhann- esdóttir, Jón Páll Eyjólfsson og Vala Þórsdóttir. Leikmynd og búningar: Þór- unn María Jónsdóttir. Lýsing: Kjartan Þórisson. Hafnarfjarðarleikhúsið, 29. mars 2003 GAGGALAGÚ ENN er blásið í lúðra í Íslensku óperunni, skömmu eftir vel heppnaðar sýningar á Mac- beth eftir Verdi. Að þessu sinni var valinn sá kostur að sýna tvær óperur í styttum útgáfum með píanóleik í stað hljómsveitar, og kemur þar tvennt til, annars vegar sparnaður – of kostn- aðarsamt væri fyrir Óperuna að setja strax aft- ur upp heila óperu í fullburða mynd, en hins veg- ar sá möguleiki sem skapast með þessari „einföldun“ að fara með sýninguna út á land og gefa þeim sem annars ættu þess ekki kost, tæki- færi til að heyra og sjá óperur í flutningi fimm fastráðinna söngvara Íslensku óperunnar. Þá þarf að vega og meta hvort útdrættir af þessu tagi gera sig, gagnvart síðarnefnda kostinum, að fleiri fái að njóta. En fyrst að verkefnavalinu. Báðar óperurnar eru sígildar og hafa notið mikilla vinsælda gegn- um tíðina. Madama Butterfly var samin 1903 og segir frá japönsku geisunni Cio-Cio San, fimm- tán ára stúlku, sem er „keypt“ af bandaríska sjó- liðsforingjanum Pinkerton, verður ástfangin af honum og elur honum barn, meðan dátinn hafði ekkert í hyggju annað en að njóta stundargam- ans með henni. Ítalska stúlkan í Alsír er tæplega öld eldri, frumsýnd 1813, og segir frá ítölsku stúlkunni Ísabellu sem hneppt er í þrældóm til Mústafa soldáns í Alsír, sem hyggur einnig á að eiga sér stundargaman með henni, meðan eig- inkona hans horfir afskipt á. Grundvallarmunur á óperunum er sá, að Madama Butterfly er harmrænt drama, meðan Ítalska stúlkan í Alsír er laufléttur gleiðileikur. Báðar óperurnar eiga það þó sameiginlegt, að þar er kvenfólkið í stöðu þess sem er misrétti beittur – karlarnir eru þeir sem díla og víla um velferð þeirra og farnað í líf- inu, og hafa ráð þeirra í hendi sér. Þar er þó munur á. Madama Butterfly er passívur þol- andi, sem lætur ameríska stórveldið í gervi Pinkertons yfir sig ganga, bregst ekki til varnar fyrir sjálfa sig og torímist á endanum. Ítalska stúlkan bregst hins vegar strax við og finnur leið til að koma karlinum með valdið á kné og bjarga sér úr prísundinni með stæl. Það er erfitt að sjá hvaða erindi boðskapur Madömu Butterfly á við samtímann í ljósi hvors tveggju, heimsmála og jafnréttismála. Auðvitað má líta á söguna sem frásögn af óendurgoldinni ást ungrar stúlku til manns sem er henni allt – dauðinn, ef ekki lífið. Í dag væri Pinkerton þó varla kallaður annað en hreinræktaður „skít- hæll“ og staða hans sem fulltrúi herveldis er ekki til að bæta hans hlut. Það er ekki það langt síðan Íslenska óperan setti þetta verk á svið að fólk sé svo glatt búið að gleyma síðustu upp- færslu verkins. Af öllum þessum ástæðum hefði verið heppilegra að velja annað verk, þó svo að tilgangur með valinu hafi sjálfsagt í og með ver- ið sá að sýna verk sem hentar nýráðnum söngv- urum Óperunnar. Þetta breytir þó ekki því að tónlist Puccinis er dásamleg, og óperan tónlist- arlegur gimsteinn sem gaman er að rifja upp kynnin af. En þar komum við að enn einum veik- um hlekk í uppfærslunni nú. Puccini er óumdeil- anlega einn besti orkestrator óperubók- menntanna. Snilli hans í hljómsveitarskrifum verða engan veginn framkölluð í einföldum pí- anóleik, sama hversu góður píanóleikarinn kann að vera. Puccini er maður endalausra blæbrigða og litrófs í hljómsveitarútsetningum og kunni öðrum betur að nota hljómsveitina sem rétta hljóðfærið til að draga fram stemmningu og andrúmsloft. Því miður glatast sá þáttur algjör- lega í uppfærslu af þessu tagi. Þá er óperan líka einfaldlega of stór og margbrotin til að hún geri sig í svona stuttri útgáfu. Það er of margt sem tapast, fyrst og fremst í músíkalskri framvindu verksins, en þó einnig í sögulegri framvindu. Persóna Sharpless, ameríska ræðismannsins, er nánanst horfin, en hann skapar þó grundvall- armótvægið við Pinkerton; milli þeirra eru mik- ilvægir átakafletir vegna samúðar Sharpless við Butterfly og andúðar hans á hegðun Pinkertons, og af þessu fáum við aðeins smjörþefinn. Það sem eftir stendur er prýðileg frammi- staða söngvara Íslensku óperunnar. Hulda Björk Garðarsdóttir söng Butterfly af öryggi, og túlkaði undirgefni hennar og skilyrðislausa ást mjög vel. Rödd hennar hentar þessu hlut- verki fullkomlega. Þó vantaði nokkuð upp á inn- lifun hennar í hlutverkið, og það hlýtur að skrif- ast á kostnað uppfærslunnar. Það hlýtur að vera erfitt að byggja upp sannfærandi karakter þeg- ar stiklað er svo á stóru gegnum margbrotið til- finningaferli hennar. Aríuna fallegu, Un bel di vedremo, söng hún afar fallega. Jóhann Friðgeir er líka raddlega sniðinn fyrir Pinkerton. Hann söng líka prýðisvel, en þar var það sama uppi á teningnum, að hann náði ekki að gera karakter- inn nógu trúverðugan. Hann er rétt kominn í gang, þegar hann segir við Butterfly: „Ég loga af þrá“ – undirbygginguna vantar og söngvarinn stendur statískur meðan þetta er sungið. Þarna vantaði tilfinnanlega meira kjöt á beinin. Dúett Jóhanns Friðgeirs og Ólafs Kjartans Sigurðar- sonar í hlutverki Sharpless í upphafi var þó afar góður og það besta í þessum hluta ásamt söng Huldu Bjarkar í Un bel di. Dúett hennar og Sesselju Kristjánsdóttur í hlutverki þjónustu- stúlkunnar undir lokin mistókst og var óþægi- lega óhreinn. Sesselja, Davíð Ólafsson og Ólafur Kjartan voru svo í aðalhlutverkum í Ítölsku stúlkunni í Alsír, eftir hlé. Óperan sú er ótvírætt heppilegri til úrdráttar af því tagi sem hér heyrðist, og má betur við því að vera stytt. Rossini var heldur ekki hljómsveitarmaður á borð við Puccini – hjá honum eru söngvararnir og húmorinn í sögunni í forgrunni. Það virtist líka vera að söngvara- hópurinn fyndi sig betur í galsanum og fjörinu en í dramatíkinni hjá Puccini. Sesselja, Davíð og Ólafur Kjartan voru öll í burðarhlutverkum í Rakaranum í Sevilla sem sýnd var í haust, og hér fá þau aftur tækifæri til að láta enn frekar reyna á kóloratúr – flúrsöng og grínaktugan gamanleik. Á því sviði er engum blöðum um það að fletta að Ólafur Kjartan er bestur. Hann er raddlega fullkomlega burðugur til að takast á við þessa tegund söngs, og er að auki kómíker fram í fingurgóma á mjög fagmannlegan máta. Hann söng bæði hlutverk Taddeos, fylgdar- sveins og vonbiðils Ísabellu. Davíð var líka skemmtilegur sprellikarl í hlutverki Mústafa, og túlkaði soldáninn einfalda með miklum húmor. Þar með tókst honum líka að bæta upp það sem á vantaði í flúrsöngnum. Hann getur þetta vissulega, en það vantaði þó sums staðar upp á þindarstuðning og úthald til að fallegur hljómur raddar hans héldist lifandi. Hann var kostulegur þegar hann brast í búgí og varð því fjörugri sem vonirnar um að ná Ísabellu urðu heitari. Sess- elja fór líka á kostum sem Ísabella. Raddlega var hún fín, þótt sums staðar ætti hún við stuðn- ingsvandamál að glíma, en leikur hennar var stórskemmtilegur. Ísabella varð í hennar hönd- um hið mesta klækjakvendi, sem veigraði sér ekki við að nota daður og dillibossadans til að ná takmarki sínu, að ná völdum yfir þeim sem tók af henni völdin. Hún var frábær í atriðinu þar sem hún klæðir sig upp fyrir Mústafa, áður en hún lætur til skarar skríða gegn honum. Hulda Björk var í litlu hlutverki eiginkonu soldánsins og var virkilega góð. Jóhann Friðgeir var hér í litlu hlutverki Lindoros, ítalsks þræls Mustafa og enn annars vonbiðils Ísabellu. Þótt rödd hans hentaði síst söngvaranna fimm stíl Rossinis, gerði hann sér mat úr kómíkinni og komst vel frá sínu. Besta atriðið í þessum hluta var loka- atriðið, þegar Ísabella sæmir Mústafa ítölsku nafnbótinni Pappataci sem þýðir éttu og þegiðu – en Mústafa sakir græskuleysis heldur að sé meiriháttar viðurkenning á karlmennsku sinni. Kvintett þar var vel sunginn og virkilega gaman að heyra hvernig „fastaraddirnar“ fimm bland- ast saman. Það sem skein í gegn í þessum hluta sýningarinnar, og mun betur en í Madam Butt- erfly, var einskær sönggleði söngvaranna fimm og ekki síður sannfærandi leikgleði, sem gefur fyrirheit um að hópurinn eigi eftir að vinna vel saman í framtíðinni. Það mæddi mikið á píanóleikaranum Clive Pollard sem bar uppi undirleikinn af miklu þol- gæði. Það er engan veginn við hann að sakast, þótt eyrað hafi verið búið að fá nóg af einhæfn- inni í píanóinu í samanburðinum við þann ríka hljóm sem hljómsveit hefði skapað. Clive var fylginn söngvurunum og studdi þá vel, en varla er hægt að segja að hlutverk hans hafi boðið upp á margvísleg tilþrif af öðru tagi. Sviðsetning verkanna var einföld og tilkostn- aður í sviðsmynd og búningum augljóslega í lág- marki. Einfaldleikinn stóð þó vel fyrir sínu. Sviðsmyndin í Butterfly var hreinleg og falleg, en gerði sig ekki eins vel í Ítölsku stúlkunni. Búningarnir voru líka fábrotnir, en þó nógu svipsterkir til að virka. Það að láta söngvarana mæta til leiks í kjól og hvítu og klæðast og af- klæðast á sviðinu fyrir framan áhorfendur und- irstrikaði einfaldleikann í uppsetningunni og það að hér er um tilraunaverkefni að ræða. Það er ljóst að það verður auðvelt að pakka þessari sýningu niður í ferðatösku og sýna víða. Í heild má segja að Ítalska stúlkan í Alsír standi prýðilega í uppfærslu Óperunnar nú, en Madama Butterfly varla. Óperan gæti þó óhikað boðið upp á slíkar uppfærslur, þessar eða aðrar sem hádegisóperur og farið með þær hvert á land sem er, eins og ráðgert er. Eftir Macbeth og þann standard sem þar var náð vill maður meira kjöt á beinunum á alvöru kvöldsýningum. Eftir sýninguna á laugardagskvöld vakna óneitanlega ýmsar spurningar um stöðu Ís- lensku óperunnar. Það sem var hvað áþreifan- legasti galli sýninginnar, hljómsveitarleysið, vekur mann til umhugsunar um möguleika á samstarfi Óperunnar við Sinfóníuhljómsveit Ís- lands, en þaðan koma þeir hljóðfæraleikarar sem alla jafna leika í Óperuhljómsveitinni. Eins og kunnugt er, er ekki gert ráð fyrir starfsemi Íslensku óperunnar í Tónlistarhúsinu sem rísa mun við Reykjavíkurhöfn. Það má þó velta því fyrir sér hvort það sé ekki einmitt fýsilegur kostur að gera ráð fyrir starfsemi Óperunnar þar, ekki síst vegna þess hvern grundvöll slíkt fyrirkomulag myndi skapa fyrir ákjósanlegt samstarf og samvinnu stofnanana tveggja, ís- lensku tónlistarlífi til framdráttar. Veikar konur og sterkar, tap og sigur Morgunblaðið/Jón Svavarsson Ítalska stúlkan í Alsír ásamt vonbiðlum sínum þremur. Sesselja Kristjánsdóttir, Jóhann Frið- geir Valdimarsson, Davíð Ólafsson og Ólafur Kjartan Sigurðsson. ÓPERA Íslenska óperan Frumsýning Íslensku óperunnar á tveimur óperum, Madama Butterfly eftir Giacomo Puccini og Ítölsku stúlkunni í Alsír eftir Rossini í styttum útgáfum. Leikstjóri og höfundur leikgerðar er Ingólfur Níels Árnason. Söngvarar: Huda Björk Garðarsdóttir, Sesselja Krist- jánsdóttir, Jóhann Friðgeir Valdimarsson, Ólafur Kjartan Sigurðarson og Davíð Ólafsson. Píanóleikur: Clive Pollard. Búningar: Mohammed Zahawi (Butterfly) og Anna Björg Björnsdóttir (Ítalska stúlkan). Leikmynd: Geir Óttar Geirsson. Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason. Laugardag kl. 19.00. Madama Butterfly og Ítalska stúlkan í Alsír Bergþóra Jónsdóttir

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.