Morgunblaðið - 07.04.2003, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 07.04.2003, Blaðsíða 12
PÓLS HF. var rekið með 433 þúsund króna halla á árinu 2002, samanborið við tæplega 26 milljóna króna hagnað árið áður. Rekstrartekjur félagins voru 469,6 milljónir samanbor- ið við 319,5 milljónir árið 2001 og jukust um 46,98% á milli ára. Rekstrargjöld án afskrifta voru 450,2 milljónir og jukust um 59,4% milli ára. Hagnaður fyrir afskriftir var 19,4 milljónir króna samanborið við 37,1 milljón árið áður. Afskriftir voru 5,3 milljónir, svipaðar og árið á undan. Í fréttatilkynningu frá félag- inu er rætt um erfiðleika sem hátt gengi krónunnar veldur útflutningsfyrirtækjum, en 90- 95% af framleiðslu Póls eru seld úr landi. Segir í fréttinni að félagið hafi brugðist við þessum aðstæðum með niðurskurði á kostnaði og auknu aðhaldi í öll- um rekstri. „Aðgerðirnar miða að því að fyrirtækið geti lifað af það tímabil hágengis krónunnar sem spáð er að muni ríkja næstu 4 árin.“ Skorar félagið á stjórnvöld að styðja ákveðna þætti í rekstri tæknifyrirtækja. „Fé- lagið mun jafnfram kalla eftir tafarlausum aðgerðum stjórn- valda til að styðja við bakið á þeim þáttum í rekstrinum sem augljóslega verður að láta sitja meir á hakanum en æskilegt er, þ.e. markaðsrannsóknir, vöruþróun og markaðssetning. Stjórnvöld verða á þessu tíma- bili að leggja aukið fé til að styðja þessa þætti í rekstri tæknifyrirtækja sé vilji fyrir því að þau haldi velli og haldi frumkvæði á heimsmarkaði,“ segir í fréttatilkynningu félags- ins. Í tilkynningunni segir einnig að samþykkt hafi verið á nýaf- stöðnum aðalfundi að auka hlutafé félagsins um allt að 17 milljónir að nafnverði og bjóða það núverandi og nýjum hlut- höfum. Halli þrátt fyrir 47% tekju- aukningu Póls á Ísafirði VIÐSKIPTI/ATHAFNALÍF 12 MÁNUDAGUR 7. APRÍL 2003 MORGUNBLAÐIÐ FRAMBOÐ á laxi í heiminum held- ur áfram að aukast, fyrst og fremst vegna eldis á Atlantshafslaxi. Slíkt laxeldi skilar nú nálægt einni millj- ón tonna og eru Norðmenn þar langafkastamestir með ríflega 440.000 tonn á síðasta ári. Nokkuð hefur dregið úr vexti laxeldis í Nor- egi, en gífurlegur árlegur vöxtur virðist vera stöðugur í Chile. Þrátt fyrir þennan mikla vöxt hefur afkoman verið misjöfn og ráða verðsveiflur á markaðnum þar nánast öllu. Árið 2000 var gósentíð í laxeldi. Verð til norskra framleið- enda á 4 til 5 kílóa slægðum fersk- um laxi náði þá nærri 40 norskum krónum á kíló, ríflega 400 íslenzk- um krónum á vordögum. Adam var reyndar ekki lengi í paradís, því verðið var komið niður fyrir 275 krónur íslenzkar í árslok. Ekki tók betra við árið 2001, þegar verð fór niður undir 150 krónur á kílóið í árslok. Síðan þá hefur það verið á bilinu 160 til 275 krónur og það sem af er þessu ári hefur verðið verið í kringum 20 krónur norskar eða 220 íslenzkar. Þessi verðþróun hefur leikið norska framleiðendur grátt. Þeir sem græddu á tá og fingri fyrir tveimur árum, berjast í bökkum og töpuðu reyndar flestir miklu fé á síðasta ári. Það er helzta skýringin á minni vexti í Noregi, þótt fram- leiðslan hafi aldrei verið meiri en í fyrra. Skýringin á miklum vexti í Chile og Kanada, svo dæmi séu tekin, er hins vegar sú að á gróða- tímabilinu gátu norskir framleið- endur ekki fjárfest í nýjum eld- isleyfum í Noregi, nema að mjög takmörkuðu leyti, og fóru því með ýmsum hætti inn í eldið í þessum tveimur löndum, og reyndar víðar. Sé reynt að finna skýringar á verðsveiflunum má benda á að á ár- unum 1993 til 1995 var gífurlegur vöxtur í eldinu. Framboð jókst um meira en 200.000 tonn og verðið lækkaði mikið. Á árunum 1995 til 1999 var vöxturinn hins vegar inn- an við 10% á ári og verðið náði há- marki í kjölfarið í maí árið 2000. Skýringin á því er minna framboð af laxi vegna mikils samdráttar í veiðum, sem skiluðu litlum hagnaði. Framboðið jókst svo töluvert á ný á árinu 2001, en verðið lækkaði strax á árinu 2000 vegna frétta um vax- andi framleiðslu. Tímabundin bjartsýni á skammri gósentíð varð því til þess að fram- boð jókst það mikið að verðið féll strax og hefur haldizt lágt síðan. Hagnaðarvonin er því minni en áð- ur og gera má ráð fyrir því að aukning á þessu ári verði ekki eins mikil og árin 2001 og 2002. Það sem framleiðendur berjast við er að halda framleiðslukostnaði nægilega undir afurðaverði til þess að hafa eitthvað fyrir sinn snúð. Það hefur ekki alltaf tekizt hjá Norðmönnum, þótt þeir hafi náð að lækka framleiðslukostnaðinn ótrú- lega mikið. Við upphaf laxeldisins var munurinn á kostnaði og skila- verði hvorki meiri né minni en ná- lægt 150 íslenzkum krónum á kíló, enda var verð á laxinum þá um 450 krónur. Nú er það komið niður í ríf- lega 200 krónur, en framleiðslu- kostnaður nálægt 180. Munurinn kominn niður í 20 krónur eða svo. Það er því lítið svigrúm til mikilla athafna, en þegar arðsemin er lítil, reyna menn oft að vinna það upp á magninu. Aukin framleiðsla getur á hinn bóginn leitt til verðlækkunar. Þegar áherzla er lögð á lækkun framleiðslukostnaðar, getur það leitt til lakari gæða. Ein leiðin er að auka vaxtarhraðann, en hraður vöxtur og mikið innihald fitu þýðir lakari gæði. Afleiðingin verður því hugsanlega lægra verð. Tveir kostir og báðir vondir? Norðmenn stærstir Sé litið á framvinduna í helztu framleiðslulöndunum, bera Norð- menn höfuð og herðar yfir keppi- nauta sína. Á síðasta ári fluttu þeir út 420.000 tonn miðað við heilan lax að verðmæti um 100 milljarðar króna. Raunverulegt magn á árinu nam hins vegar 360.000 tonnum og var meðalverð á kíló um 290 krón- ur. Hafði það þá ekki verið eins lágt í fimm ár. Hæst fór með- alverðið árið 2000, í 394 krónur. Útflutningurinn jókst um 27.000 tonn, eða 6,7%, en neyzla á laxi inn- anlands er um 18.000 tonn á ári. Aukningin í útflutningnum var fyrst og fremst til Evrópusam- bandsins, Rússlands og annarra Austur-Evrópuríkja. ESB er og hefur verið stærsti markaðurinn fyrir norskan lax. Ekki er gert ráð fyrir mikilli aukningu í laxeldi Norðmanna á þessu ári. 8% árlegur vöxtur í Chile Laxeldi í Chile hefur vaxið mjög hratt og er áætlað að svo verði áfram. Gert er ráð fyrir að árlegur vöxtur næstu 5 árin verði um 8%. Vaxtarmöguleikar eldisins í Chile eru góðir. Aðstæður eru mjög góð- ar og rými fyrir mun fleiri eld- isstöðvar. Framleiðslukostnaður er lágur og erlendir fjárfestar eru vel- komnir til landsins. Laxinn er nánast allur fluttur út og hefur útflutningurinn aukizt úr 160.000 tonnum 1997 í 300.000 tonn árið 2001. Aukningin er 47% á fimm árum. Verðmæti útflutningsins hefur aukizt á hverju ári, bæði í krafti aukins magns og hækkandi verðs ef árið 2001 er undanskilið. Þá lækk- aði verð á laxi í Bandaríkjunum verulega, en þau eru stærsti mark- aðurinn fyrir chileska laxinn ásamt Japan. Verðið hækkaði svo á ný í fyrra. Í byrjun þessa árs var verðið um 4 dollarar, tæplega 320 krónur, en er komið yfir 5 dollara nú, eða um 400 krónur á kílóið. Vaxandi hlutfall laxins er nú flutt utan flak- að og eykur það verðmætin veru- lega. Þá hefur útflutningur á reykt- um laxi farið vaxandi og fer hann í auknum mæli til Brasilíu, sem er að jafna sig eftir mikla efnahags- kreppu. 160.000 tonn í Skotlandi Laxeldi í Skotlandi, á Hjaltlandi og á Orkneyjum hefur aukizt hratt undanfarin ár. 1980 skilaði eldið 600 tonnum, en 160.000 tonnum í fyrra. Útflutningur hefur aukist að sama skapi, en hátt hlutfall fer einnig til neyzlu innan lands. Árið 2001 nam útflutningurinn 64.000 tonnum og er Frakkland stærsti markaðurinn, með tæpan helming alls útflutningsins, en næstur kem- ur Spánn. Skotarnir fá að jafnaði hærra verð fyrir laxinn en Norðmenn á Rungis-fiskmarkaðnum í París, enda þykja gæði skoska laxins meiri. Verðmunurinn á síðasta ári var allt upp í 20% Skotum í vil. Skýringin á því er sú að skozki lax- inn er ekki látinn vaxa eins hratt og sá norski og er hann einnig fitu- minni. Færeyjar með 40.000 tonn Laxeldi Færeyja skilar nú um 40.000 tonnum árlega og er það tal- ið nálægt hámarki þess, sem þar er hægt að ala. Sjúkdómar hafa höggvið nokkuð stór skörð í eldi Færeyinga. Hlutfall flaka í útflutn- ingnum hefur aukizt, en ríflega helmingur laxins er seldur til Dan- merkur. Færeyingar eru smáir á heimsmarkaðnum og ráða engu um heimsmarkaðsverðið. Þeirra mark- mið er því að halda framleiðslu- kostnaði niðri til að geta mætt frek- ari verðlækkunum, sem hugsanlega fylgja aukinni heimsframleiðslu. Laxeldi á Írlandi er smátt í snið- um, en hefur farið vaxandi síðustu árin. Á síðasta ári ólu Írar um 22.500 tonn. Mest af laxinum selja þeir Frökkum, en heimamarkaður- inn tekur um 12.500 tonn. Aukning og lágt verð? Það virðist ljóst að laxeldi heldur áfram að aukast, enda eru fleiri lönd að koma inn í myndina, eink- um Kanada og Ísland. Það tekur þó nokkur ár áður en framleiðsla hér á landi verður mikil, en tæplega verð- ur hún meira en nokkrir tugir þús- unda tonna vegna takmarkana á staðsetningu eldisstöðva. Ekki verður leyft að vera með laxeldi í sjó nálægt gjöfulum laxveiðiám. Markaður fyrir laxinn verður áfram mikill. Hann hefur aukizt í nokkru samræmi við aukið framboð og lækkandi verð. Verðið getur ekki lækkað endalaust og hlýtur að stöðvast í einhverju lágmarki og sveiflast svo lítillega upp frá því í framtíðinni. Þeir sem geta haldið framleiðslukostnaði niðri halda þá velli, en allir verða að búa við nán- ast sama markaðsverðið á hverjum markaði, þó dæmin sýni reyndar að meira sé borgað fyrir bezta fiskinn. Gósentíðin frá árinu 2000 heyrir sögunni til. Framleiðendur verða að búa við markaðsverð á bilinu 200 til 250 krónur á kíló af heilum laxi eins og útlitið er nú. (Kíló af ýsuflökum kostar um 1.000 krónur út úr búð á Íslandi.) Þeir geta svo aukið vinnsluvirðið með flökun og jafnvel reykingu svo fremi sem það standi undir auknum vinnslukostnaði. Þá má ekki gleyma því að vinnsla úr heilfrystum laxi eykst stöðugt í Kína, þar sem framleiðslukostnaður er sama og enginn. Mánaðarlaun verkafólks eru um 8.000 krónur og enginn hörgull á vinnukrafti. Það gæti leitt til lækkunar á verði unn- inna laxafurða. Stöðugleiki í framboði og eft- irspurn ætti að nást innan nokk- urra ára og þar með það verð, sem framleiðendur verða að búa við. Framtíðin sker úr um það hvort það gengur upp. Gósentíð heyrir sögunni til Verð á eldislaxi nærri helmingi lægra en í góð- ærinu árið 2000                                                                                       Laxeldi í heiminum vex stöðugt fiskur um hrygg og kemur um milljón tonna upp úr eldiskvíunum á ári. Fátt bendir til annars en eldið aukist áfram og verð verði fremur lágt. Hjörtur Gíslason kannaði stöðuna á heimsmarkaðnum og í helztu framleiðslu- löndunum og las sér til í Seafood Inter- national og á fréttavef Intrafish. HAGNAÐUR varð af rekstri Ævisjóðsins hf. á síðasta ári að fjárhæð 463 þúsund krónur. Sjóðurinn er skuldabréfasjóður og er í vörslu Kaupþings banka hf. Hreinar fjármunatekjur sjóðsins í fyrra voru 28,4 millj- ónir króna en voru 4,9 milljónir árið áður. Hagnaður fyrir skatta nam 469 milljónum króna. Eign sjóðsins í hlut- deildarskírteinum og hluta- bréfum nemur 4.391 milljón króna og handbært fé er 16,2 milljónir króna. Eignir sjóðsins nema samtals um 4.409 millj- ónum króna. Hlutafé félagsins er 4,0 millj- ónir króna og er allt í eigu Kaupþings banka hf. Eigið fé var í árslok 2002 tæpar 5,0 milljónir króna. Skuldir sjóðs- ins nema 4.403 milljónum króna. Stjórn félagsins leggur til að ekki verði greiddur arður til hluthafa á árinu 2003, að því er fram kemur í tilkynningu frá Ævisjóðnum. Ævisjóð- urinn skil- ar hagnaði

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.