Morgunblaðið - 12.05.2003, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 12.05.2003, Blaðsíða 10
KOSNINGAR 2003 10 MÁNUDAGUR 12. MAÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ Ingibjörg Sólrún Gísladóttir Steingrímur J. Sigfússon Guðjón Arnar Kristjánsson Guðmundur G. Þórarinsson INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir, talsmaður Samfylkingarinnar, segist telja að niðurstaða viðræðna Framsóknarflokks og Sjálfstæðis- flokks um áframhaldandi stjórnarsamstarf ráðist fyrst og fremst af tvennu. Annar vegar hver verði forsætisráðherra, en framsóknar- menn hljóti að gera kröfu til forsætisráð- herraembættisins. Hins vegar hljóti niður- staðan að ráðast af því hvort flokkarnir nái samkomulagi um að hrinda skattalækkunar- áformum Sjálfstæðisflokks í framkvæmd, en framsóknarmenn hafi lýst því yfir að tillög- urnar þýði annaðhvort ógnun við stöðugleik- ann eða niðurskurð í velferðarkerfinu. „Þetta eru að mörgu leyti mjög söguleg úr- slit. Í fyrsta lagi kemst Samfylkingin yfir þennan 30% múr sem við ætluðum okkur að komast yfir. Það hefur ekki gerst síðan 1931 að nokkrum flokki, fyrir utan Sjálfstæðisflokkinn, hafi tekist það. Í öðru lagi er það sögulegt að það sé kominn annar flokkur uppi við hliðina á Sjálfstæðisflokknum. Það munar afskaplega litlu á Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki. Sam- fylkingin er að staðfesta sig þarna sem hinn stóri flokkurinn á þessu pólitíska leiksviði, en það var markmið sem við settum okkur. Þetta eru hvorttveggja mjög söguleg tíðindi.“ Ingibjörg Sólrún sagði að í þriðja lagi vekti afgerandi fylgistap Sjálfstæðisflokksins at- hygli. Það væri athyglisvert að fylgistapið væri mest í kjördæmi flokksformannsins. „Það hlýt- ur að lýsa ákveðinni óánægju kjósenda. Við hljótum að gera ráð fyrir því þegar slíkt ger- ist.“ Skoðanakannanir sýndu Samfylkinguna með yfir 40% fylgi í upphafi kosningabarátt- unnar. Ingibjörg Sólrún sagðist telja ómark- tækt að bera þessar kannanir saman við úrslit kosninganna. „Skoðanakannanir sýna allt mögulegt á hverju kjörtímabili. Spurningin er þá hvar menn ætla að núllstilla. Eini saman- burðurinn sem gildir er samanburðurinn við síðustu kosningar og síðan að skoða úrslitin í sögulegu ljósi. Þá kemur í ljós að fylgi Fram- sóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur aldrei verið minna í 25 ár fyrir utan kosningarnar þegar Borgaraflokkurinn bauð fram eftir klofning innan Sjálfstæðisflokksins. Þetta eru því að ýmsu leyti söguleg úrslit. Svo er ég mjög ánægð með þetta góða fylgi sem Samfylkingin fær í Reykjavík norður þar sem hún er stærsti flokkurinn.“ Ingibjörg Sólrún sagði að þótt ríkisstjórnin hefði haldið velli fengi hún í þessum kosn- ingum sterk skilaboð um óánægju sem hún yrði að hlusta á hvernig svo sem hún færi með það. Ingibjörg Sólrún náði ekki inn á þing þrátt fyrir að Samfylkingin fengi góða kosningu í kjördæmi hennar. Hún var spurð hvort það skipti ekki máli fyrir hana að hafa ekki þennan vettvang, þ.e. Alþingi, til að tala máli flokksins. „Ég hefði vissulega kosið að komast inn en ég vissi allan tímann að þetta yrði tvísýnt. Það þýðir bara að maður er í heldur lengri leið- angri en til stóð í upphafi.“ Til viðræðu um forsætisráðherraembættið Ingibjörg Sólrún var spurð hvort hún teldi eitthvað benda til þess að stjórnarskipti yrðu eftir þessar kosningar. „Það er ómögulegt að segja. Spurningin hlýtur að vera sú hvort þess- ir flokkar komi sér saman, annars vegar um hver verði forsætisráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ef hún heldur. Það er líklegt að framsóknarmenn geri kröfu til forsætisráðherraembættisins. Það hlýtur líka að spila sterkt inn í þessar stjórn- armyndunarviðræðurnar, að Sjálfstæðisflokk- urinn gaf afgerandi loforð um að lækka skatta um tæplega 30 milljarða. Ég get ekki ímyndað mér að það sé eitthvað umsemjanlegt af þeirra hálfu. Framsóknarflokkurinn hefur lýst því yf- ir að þetta þýði annaðhvort ógnun við stöðug- leikann eða niðurskurð í velferðarkerfinu. Maður hlýtur aðeins að velta fyrir sér hvernig menn ætla að ná saman um þetta.“ Ingibjörg Sólrún var spurð hvort Samfylk- ingin ætlaði að bjóða Halldóri Ásgrímssyni embætti forsætisráðherra í hugsanlegri sam- stjórn Framsóknarflokks og Samfylkingar. „Það fer eftir því hvernig úr málum spilast, en það er hægt að ræða það eins og fleiri hluti.“ Ingibjörg Sólrún Gísladóttir um viðræður framsóknarmanna við sjálfstæðismenn Hljóta að gera kröfu til forsætisráð- herraembættis „ÞAÐ eru mikil vonbrigði að ekki tókst að fella ríkisstjórnina eða komast nær því en raun ber vitni,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, formað- ur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. „Það er sárgrætilegt að Frjálslynda flokk- inn eða okkur vantaði aðeins nokkra tugi at- kvæða til að við tækjum tólfta manninn af Framsóknarflokknum. Það er í lagi fyrir þá vini okkar í Samfylkingunni, sem ráku stífan áróður fyrir því að eina leiðin til að fella ríkis- stjórnina væri að kjósa Samfylkinguna, að horfast í augu við þá staðreynd að útkoman varð sú að fáein atkvæði í viðbót til annars hvors hinna stjórnarandstöðuflokkanna hefði minnkað meirihluta ríkisstjórnarinnar um tvo menn,“ segir Steingrímur. Lögðum áherslu á málefni alla kosningabaráttuna Hann segir að heildarárangur Vinstrihreyf- ingarinnar í kosningunum valdi ákveðnum vonbrigðum. „Við ætluðum okkur a.m.k. að halda okkar hlut og helst bæta við hann. En ég get varla sagt annað en að í ljósi þess hvernig baráttan þróaðist á lokasprettinum, þá munar mjög litlu að við getum kallað þetta varnar- sigur. Við verjum okkar stöðu að mestu leyti, erum með nánast óbreytt fylgi en erum svo óheppnir að það kostar okkur einn mann. Ef heppnin hefði dottið okkar megin á síðustu metrunum væri ég þokkalega sáttur,“ segir hann. Steingrímur segist vera mjög stoltur af kosningabaráttu VG. „Ég tel að við getum litið stolt til baka. Við héldum okkar striki og háð- um þessa baráttu á okkar forsendum. Við fór- um aldrei út í auglýsingapeningaausturinn og ekki út í loforðayfirboðaflauminn. Við lögðum áherslu á málefni allan tímann og mér hlýnar um hjartarætur þegar maður sér tekið til þess í fjölmiðlum eins og gert er í leiðara Morgun- blaðsins í dag [sunnudag]. Það litla sem við auglýstum voru massífar málefnaauglýs- ingar,“ segir hann. VG er sterkari í dag en hún hefur nokkru sinni verið Steingrímur segir einnig ánægjulegt að öfl- ug ung kynslóð er komin til starfa með VG. „Ég fullyrði að kosningarannsóknir eiga eftir að sýna að fylgi okkar var mjög mikið í yngsta aldurshópnum,“ segir hann. „Vinstrihreyfingin – grænt framboð er sterkari í dag en hún hefur nokkru sinni verið, þó að við verðum að sætta okkur við að vera einum manni fáliðaðri á þinginu.“ Reiknum ekki með öðru en að vera í stjórnarandstöðu Spurður um stjórnarmöguleika segir Stein- grímur að því miður sé meirihluti ríkisstjórn- arinnar traustur. „Það eru hins vegar nokkuð breytt styrkleikahlutföll. Þetta er því í þeirra höndum í bili en eins og þetta snýr við okkur reiknum við í sjálfu sér ekki með öðru en að vera í stjórnarandstöðu. Mér þykir langlíklegast að í fyrstu umferð þreifi þessir núverandi samstarfsflokkar hvor á öðrum. Það er þá ekki nema Sjálfstæðis- flokkurinn telji sína útkomu það lélega að hann þurfi að hugsa sinn gang og/eða Halldór telji sína stöðu svo sterka að hann eigi rétt á að þreifa fyrir sér. Það kemur þá í ljós á næstu dögum,“ segir Steingrímur. Miðjuviðhorf virðast eiga upp á pallborðið Hann segist telja að niðurstaða kosninganna sýni ákveðna sveiflu inn á miðjuna í íslenskum stjórnmálum. „Hægri vængurinn stórtapar og sá flokkur sem skilgreinir sig lengst til vinstri er heldur í vörn, en miðjuviðhorf virðast eiga mjög upp á pallborðið um þessar mundir,“ seg- ir hann. Steingrímur segir einnig merkilegt að Frjálslyndi flokkurinn sé að festa sig í sessi. „Það tel ég vera meiri söguleg tíðindi að flokk- ur sem er hægra megin við miðjuna sé að festa sig í sessi heldur en útkoma Samfylking- arinnar, þótt ég viðurkenni að sjálfsögðu að hún er góð og óska ég þeim til hamingju með hana. Ég útlegg hana hins vegar ekki með sama hætti og aðrir gera sem segja að Sam- fylkingin sé komin upp að Sjálfstæðis- flokknum. Það er ekki rétt. Það er Sjálfstæð- isflokkurinn sem er kominn niður að Samfylkingunni. Það er mikill munur á því.“ Steingrímur telur að VG hafi tekist að verja stöðu sína bærilega í hans eigin kjördæmi, Norðausturkjördæmi. „Auðvitað söknum við sárlega vinar okkar og félaga Árna Steinars Jóhannssonar, sem mikill missir er að,“ segir Steingrímur. Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG Verjum okkar stöðu að mestu leyti „RÍKISSTJÓRNIN heldur velli og er ekki sjáanlegt annað við fyrstu yfirsýn en að hún muni halda áfram,“ segir Guðjón A. Krist- jánsson, formaður Frjálslynda flokksins. Sárt að örfá atkvæði vantaði svo Margrét Sverrisdóttir næði kjöri Guðjón er mjög ánægður með að Frjáls- lynda flokknum tókst að tvöfalda þing- mannafjölda sinn en segir jafnframt sárt að aðeins örfá atkvæði vantaði upp á að Margrét Sverrisdóttir, efsti maður á lista flokksins í Reykjavík suður, næði kjöri. „Hún er mikil baráttukona og dugnaðarforkur en við búum auðvitað að henni áfram sem framkvæmda- stjóra þingflokks og flokksins,“ segir Guðjón. Aðspurður segist Guðjón gera ráð fyrir að málflutningur og stefna flokksins í sjávar- útvegsmálum hafi átt stóran þátt í fylgisaukn- ingu Frjálslynda flokksins. Guðjón er mjög ánægður með góðan árang- ur Frjálslynda flokksins í hans kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, en þar fengu Frjáls- lyndir 14,2% atkvæða og tvo menn. Segist hann vera mjög þakklátur stuðningsmönnum, frambjóðendum og öðrum sem lögðu flokknum lið í öllum kjördæmum. Ekki annað að sjá í spilunum en að stjórnin haldi áfram Guðjón segist ekki sjá annað í spilunum núna en að stjórnarflokkarnir endurnýi stjórn- arsamstarf sitt. „Þó að Sjálfstæðisflokkurinn missi svolítið fylgi hafa stjórnarflokkarnir nægilegt fylgi til að stjórna landinu ef þeir vilja. Ég sé alla vega ekki neitt tilefni hjá þeim að rjúfa stjórnarsamstarfið á stundinni, heldur hljóta þeir að skoða málin hver sem niður- staðan verður svo að lokum. Það getur svo sem vel verið að Halldór hafi einhverjar aðrar væntingar eða áætlanir en það er ekki hægt að lesa það út úr kosninga- baráttunni. Hún gekk öll út á að þeir héldu velli,“ segir Guðjón. Ánægður með góðan árangur flokksins Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins „HVORKI ég né Davíð Oddsson náðum þeirri útkomu sem við höfðum vonast eftir. Ég er nú samt að vona að við höfum gert svolítið gagn í þessari baráttu og okkur hafi tekist að festa sviðsljósið á ákveðin mál sem ástæða er til að ræða,“ sagði Guðmundur G. Þórarinsson, for- maður Nýs afls, um úrslit kosninganna, en flokkurinn fékk 1% atkvæða. Guðmundur sagði að kosningabaráttan hefði að stórum hluta farið fram í auglýsingum, sér- staklega síðustu vikuna fyrir kosningar. „Ég tel þetta dálítið hættulegt fyrir lýðræðið, af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að lítill og nýr flokkur sem er að koma með ákveðin sjónarmið inn í kosningabaráttuna, eins og Nýtt afl, hefur engan stuðning og get- ur ekki tekið þátt í slíku auglýsingaflóði. Mér virðist þetta stefna meira og meira í átt að bandarískum stjórnmálum, að peningarnir ráði gríðarlegu miklu á lokastigi baráttunnar. Það er umhugsunarefni fyrir lýðræðið að aug- lýsingarnar snúist mest um ímynd manna og flokka en ekki um efnisatriði eða baráttumál.“ Guðmundur sagði umhugsunarefni hvaðan þessir peningar koma. Hann minnti á að það væri óvíða á Vesturlöndum að stjórn- málaflokkarnir þyrftu ekki að gera grein fyrir þessum peningum. Það væri hættulegt fyrir lýðræðið ef það væri hægt að kaupa sér rík- isstjórn. Lentum á milli „Þessi úrslit eru talsvert lakari en við gerð- um okkur vonir um. Ég held að það sé ljóst að við lentum dálítið á milli. Kosningarnar sner- ust mjög um það að ríkisstjórnin væri á hníf- seggjum. Menn veltu fyrir sér hvernig þeir ættu að kjósa eftir því hvort þeir væru með ríkisstjórninni eða á móti henni. Það er út af fyrir sig mjög eðlilegt. Skoðanakannanir drógu allan mátt úr okkur jafnóðum vegna þess að í þeirri baráttu myndum við ekki hafa nein áhrif á úrslit kosninganna.“ Guðmundur sagði að Nýtt afl hefði boðað til fundar í dag til að ræða framtíð hreyfing- arinnar. Hann sagðist ekki heyra annað en að stuðningsmenn væru ákveðnir í að halda áfram að vinna að málefnabaráttunni. Gerðum gagn í þessari baráttu Guðmundur G. Þórarinsson, formaður Nýs afls

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.