Morgunblaðið - 06.06.2003, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 06.06.2003, Blaðsíða 6
DAGLEGT LÍF 6 C FÖSTUDAGUR 6. JÚNÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ BOLLASPÁ er ævagömul list,en Kínverjar og aðrar þjóðirAusturlanda hafa frá fornu fari lesið í tebolla. Þá eru heimildir fyrir því að Rómverjar og Grikkir hafi spáð í dreggjar víns til forna. Hér á landi hefur listin að spá í kaffibolla tíðkast um langt skeið og nýtur að- ferðin talsverðra vinsælda enda ólík- legasta fólk sem setur sig í spámann- legar stellingar yfir kaffibollanum. Þegar spáð er í bolla er drukkið heitt, sterkt, svart kaffi, helst úr hvít- um, nokkuð víðum bolla. Skyndikaffi er algerlega forboðið og sumir kaffispámenn leggja áherslu á að hella upp á gamaldags ketilkaffi til að korgurinn haldist í kaffinu, en sé not- ast við nútímakaffivélar verður kaffið korglaust. Um leið og menn hafa lokið úr kaffibollanum er honum snúið þrjá hringi rangsælis fyrir ofan höfuðið og blásið í hann krossmark án þess að snúa bollanum við. Þá er bollinn látin þorna á hvolfi. Önnur aðferð er að skilja svolítið eftir af kaffi í bollanum, setja dálítinn kaffikorg út í og hræra vel saman. Því næst er bollanum hallað og kaffinu hellt varlega úr um leið og honum er snúið rangsælis. Hankinn á að snúa að þeim sem hellir og upp þegar byrjað er að hella og hellt er frá þeim sem heldur á bollanum. Þeg- ar einungis er eftir kaffislikja með korgi í er bollinn látinn þorna. Þriðja aðferðin er að skilja dreggj- arnar eftir í botni bollans eða hella þeim á undirskál og láta þær svo þorna. Eins og í mörgum spádóms- aðferðum hefur hver spámaður sinn háttinn á við að lesa í tákn bollans. Sumir byrja að lesa við hankann en þar má lesa nútíðina. Þeir lesa svo áfram til vinstri fram í tímann þar til hringnum hefur verið náð. Hver bolli spáir um það bil mánuð fram í tím- ann. Aðrir spámenn telja þau tákn sem eru upp við hankann endurspegla spáþegann og snerta hann sér- staklega. Síðan megi lesa fortíðina úr botni bollans, nútíðina úr miðbiki hans og framtíðina úr efsta hluta hans og börmum. Samkvæmt Spádómabókinni er mismunandi hvaða merkingu bolla- spámenn leggja í táknmál kaffiboll- ans og eru þar nefnd nokkur dæmi: Aflangir „mannslaga“ blettir eða stólpar frá neðri hluta bollans að börmum eru fólk. Endi stólpinn í dökkum bletti eða dropa merkir það dökkhærða manneskju en ljóshærða sé dropinn ljós. Margt fólk þétt saman merkir veislu eða einhvers konar samkvæmi. Langar, aflíðandi línur frá botni að barmi eru merki um ferðalög. Litlir deplar, nokkrir saman, eru tákn um peninga. Hringur í botni er fyrirboði um trú- lofun eða giftingu. Ólögulegur hringur í botni, sem minnir á fóstur, segir til um að barn sé í vændum. Ljósar láréttar rákir eru tákn um bréf eða pakka. Dökkir blettir við barm bollans merkja erfiðleika eða sorg. Bókstafir eru yfirleitt upphafs- stafir í nöfnum sem skipta spáþegann miklu máli. Tölustafir merkja fjölda og tíma- lengd. Oft má sjá skýrar myndir í boll- anum, svo sem landslag, hús eða far- artæki. Landslag og hús benda þá til ákveðinna staða en bílar, skip og flug- vélar boða yfirleitt ferðalög. Í Spádómabókinni er listi yfir fleiri dæmi um algeng tákn og merkingu þeirra og má þar nefna að hestur merkir elskhuga, eða keppinaut í ást- um sé spáþeginn karlmaður. Hjarta táknar ástarævintýri, rómantík eða hamingju en brotið hjarta ástarsorg. Hringur þýðir vitaskuld bónorð og eldfjall ástríður. Engill boðar góðar fréttir og fiðrildi gleði og ánægju. Um fleiri tákn sem lesa má úr kaffibolla skal hér vísað á Spádómabókina. Spáð í bolla HÆGT er að nota eplaflustil að spá. Þá er epliðflysjað þannig að flusið er skorið af í heilu lagi svo úr verður eins konar spírall. Gæta verður þess að lengjan slitni ekki sundur. Því næst er flusinu snúið varlega þrjá hringi rangsælis í kringum höfuðið og látið falla fyrir aftan bak. Úr flusinu, eins og það lendir, er svo hægt að lesa fyrsta stafinn í nafni tilvonandi maka þess sem spáir. Þessi aðferð hefur þekkst hér á landi en í enskumælandi löndum fara menn með eftirfar- andi vísu um leið og þeir snúa flusinu: Apple peel, apple peel, twist, then rest. Show me the one that I’ll love best. apple peel over my shoulder fly. Show me the one I’ll love till I die. (Eplaflus, eplaflus, snúðu þér og liggðu svo kyrrt./ Sýndu mér þá þann sem ég elska mest./ Eplaflus fljúgðu yfir öxlina á mér. / Sýndu mér þann sem ég elska þar til ég dey.) Önnur aðferð til að spá með epli er að halda í stilkinn og snúa upp á hann um hálfan hring. Um leið er fyrsti stafurinn í stafróf- inu nefndur. Svo er snúið til baka og næsti stafur nefndur og svo koll af kolli þangað til stilkurinn slitnar en þá er sá stafur fyrsti stafurinn í nafni tilvonandi maka. ÉG LÍT fyrst og fremst áspádóma sem þjóðfræði-legt fyrirbæri frekar enað ég taki beinlínis mark á þeim,“ sagði Símon Jón Jóhanns- son þjóðfræðingur sem hefur sent frá sér Spádómabókina, en bókin fjallar um það hvernig hægt er að spá í framtíðina með fjölbreyttum aðferðum frá ýmsum heimshorn- um. „Ég er hins veg- ar alinn upp við spá- dómshefð,“ sagði Símon Jón enn frem- ur. „Amma spáði í bolla og kenndi mér sem unglingi að rýna í þær rúnir sem í bollanum eru. Sagði mér hvernig ég ætti að bera mig að og hvað myndirnar í boll- anum táknuðu. Svo var oft spáð í spil í minni fjölskyldu, frænkur mínar heima voru alltaf að spá í spil. Ég ólst því upp við spádóma, eins og fjölmargir aðrir um allan heim og á öllum tímum.“ Spádómar og þjóðfræði Símon Jón sagði að allt frá fyrstu tíð hefði maðurinn haft löng- un til að skyggnast inn í framtíðina og sjá það sem koma skal. „Menn hafa þróað með sér ýmsar spá- dómsaðferðir í gegnum aldirnar og oftar en ekki eru þær samofnar þeim menningarsamfélögum sem þær eru sprottnar úr. Í þessari bók tek ég saman fróðleik um allar helstu spádómsaðferðir sem vitað er um. Bókin er hugsuð sem alþýð- leg fræðibók. Ég er að segja sögu spádómanna og rekja hvaðan þess- ar spádómsaðferðir eru komnar, en um leið má líta á hana sem kennslubók í undirstöðuatriðum hverrar aðferðar fyrir sig.“ Símon Jón sagði að ritun bók- arinnar væri í rökréttu framhaldi af því sem hann hefði verið að fást við og skrifa um á undanförnum árum í tengslum við þjóðfræðina. „Hjátrúin er það sérsvið þjóðfræð- innar sem ég hef lagt mig mest eft- ir og meðal annars hef ég kennt áfanga um hjátrú í þjóðfræðideild- inni í Háskóla Íslands, auk þess að skrifa bækur um slík fyrirbæri. Spádómarnir eru angi af þessum pælingum og sú hugmynd kom upp hjá forlaginu Vöku Helgafelli að safna saman fróðleik um spádóma og gefa út á bók. Bækur um þessa speki hafa notið vinsælda undan- farin ár og má það glöggt sjá í rekkum bókabúða af erlendum rit- um um þessi mál.“ Virkir spádómar og hlutlausir „Flestar aðferðir sem notaðar eru við spádómsiðkanir eru svo- kallaðir virkir spádómar,“ sagði Símon Jón enn fremur. „Notaðir eru ýmsir hlutir, svo sem spil, boll- ar og kristalkúlur, ýmiss konar út- reikningar, út frá gangi himin- tungla eða fæðingarstund, ellegar spáð í útlit, eins og handalínur eða höfuðlag. En frá ómunatíð hefur maðurinn einnig spáð í umhverfi sitt og lært að greina þar ýmsar vísbendingar um framtíðina. Þannig hafa menn spáð fyrir um hugsanlegar veð- urbreytingar eða framvindu mála með ýmsu móti, leitað eft- ir fyrirboðum og vísbendingum í náttúrunni, hugað að hegðun dýra og tekið mark á óvenjulegum at- vikum. Einnig hafa menn spáð í út- lit manna, einkum barna, og leitast við með þeim hætti að sjá fyrir framtíð þeirra, eiginleika og lán eða ólán í lífinu. Spádómar þar sem dregnar eru ályktanir af ýmsum slíkum umhverfisþáttum eru nefndir hlutlausir spádómar og hafa ýmis afbrigði af þeim lifað góðu lífi með íslensku þjóðinni frá upphafi byggðar í landinu. Draumatrú er líka dálítið sérís- lenskt fyrirbæri. Það að taka mark á draumum og að draumar geti sagt þér fyrir um óorðna hluti hef- ur líka fylgt okkur frá landnámi og við þekkjum mörg dæmi um slíkt úr fornsögunum.“ Spáði fyrir skólasystrunum Hefur þú sjálfur látið spá fyrir þér? „Já, ég hef látið spá fyrir mér og er opinn fyrir spádómum af ýmsu tagi, en þó fyrst og fremst út frá þjóðfræðilegum sjónarhóli. Sjálfur hef ég líka svolítið leikið mér með þessar aðferðir, og spáð fyrir öðrum svona til gamans. Til dæmis var ég dálítið að spá í bolla fyrir skólasystrum mínum í menntaskóla, en sjálfsagt hefur það nú verið meira til að ganga í augun á þeim en að ég beinlínis tryði því að ég sæi fyrir um óorðna hluti. Maður notaði auðvitað allt til að ganga í augun á kvenfólkinu á þeim árum. Á hippaárunum gekk stjörnu- merkjaspekin í endurnýjun lífdag- anna og var í hávegum höfð. Ég náði í skottið á hippamenningunni og var sem unglingur á kafi í stjörnumerkjaspekinni. Hún lifir enn góðu lífi og hippakynslóðin er enn dálítið upptekin af henni. Í bókinni er auðvitað farið ofan í saumana á stjörnumerkjaspekinni, sem ég þekki svo vel af eigin raun, en vitaskuld reyndi ég einnig að setja mig vel inn í allar þær að- ferðir sem fjallað er um í bókinni og var dálítið upptekinn af hverj- um kafla fyrir sig á meðan ég var að skrifa og prófaði mig áfram. Ég prófaði til dæmis að leggja Tarrot- spil og hefðbundin spil, var sífellt að horfa í lófann á sjálfum mér og grípandi í lófana á fólki í kringum mig og veifandi kaffibollum yfir höfði fólks sem kom í heimsókn svo dæmi séu nefnd. Í bókinni er líka fjallað um ýms- ar spádómsaðferðir sem ekki hafa farið hátt á Vesturlöndum en lifa góðu lífi annars staðar í veröldinni og þannig spannar bókin hin ýmsu og ólíku svið spádómanna,“ sagði Símon Jón Jóhannsson þjóðfræð- ingur. Spádómar um víða veröld Amma kenndi mér að spá í bolla Morgunblaðið/RAX Símon Jón Jóhannsson þjóðfræðingur leggur Tarrotspil, sem eru ein af þeim fjölmörgu spádómsaðferðum sem fjallað er um í Spádómabókinni. svg@mbl.is Frá fyrstu tíð hefur maðurinn haft löng- un til að skyggnast inn í framtíðina GÖMUL trú er að veður á brúð- kaupsdegi sýni gæfu hjóna en veðr- ið daginn eftir segi til um samlyndi þeirra. Sagt var að svo yrði hag- urinn sem dagurinn. Sólskin og góðviðri á brúðkaupsdeginum þótti boða gott og ekki spillti fyrir væri dögg á jörð eða smáskúrir því það var talið merki um frjósemi, búsæld og gott samkomulag hjóna. Storm- ur og stórrigningar voru taldir fyr- irboðar um stormasamt hjónaband. Rigning þótti sums staðar boða frjósemi og barnalán og stundum var sagt um brúðhjónin að „það rigndi yfir þau auðnum“ væri rign- ing á brúðkaupsdaginn. Þoka benti til þess að hjónabandið yrði gagns- laust og meinlaust. Brúðkaups- dagurinn Eplaspá

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.