Morgunblaðið - 08.06.2003, Side 15

Morgunblaðið - 08.06.2003, Side 15
sótt sprek langar leiðir út í skóg. Og konur sitja í kófinu yfir opnum eld- unum við að sjóða matinn. Sjálfir sjá íbúar kampsins um sorphreinsun. Ég verð eitt spurn- ingamerki. Við skipuleggjum þetta sjálfir og krakkarnir sem hafa heila limi eru dugleg við framkvæmdina einu sinni í viku. Safna sorpinu í hrúgu í útjaðri kampsins og svo kveikjum við í því. Ég sé konur að þvo við eina vatnspóstinn í kampin- um og krakka að sækja í hann vatn. Maður veltir fyrir sér hvaða framtíð öll þessi börn eigi, þau ófötluðu jafnt sem þau fötluðu. Fæst eiga þau nema eitt foreldri á lífi. Mörg þeirra bera andleg sár ekki síður en líkamleg úr stríðinu. Mörg hafa horft upp á sína nánustu drepna eða nauðgað og limi höggna af foreldrunum eða mátt þola það sjálf. Sá sem helst hefur orð fyrir viðmælendum mínum segir að verst sé að þeir geti ekki sent börn sín í skóla, hafi ekki efni á því. Þau eru framtíðin, segja þeir. Í samtali okkar kemur fram að ef samfélaginu í kampinum áskotnaðist nú eitthvert fé, þá mundu þeir líklega velja eitt barn úr hverri fjölskyldu og senda það í skóla. Það hefur þá betri mögu- leika á að vinna. Handalaus piltur, sem gengur með mér um kampinn, kveðst hafa verið í vinnu til að kosta yngri bróður sinn í skóla þegar þeir komu og hjuggu af honum báða handleggina. Bróðir hans dó af ígerð sem hljóp í hans sár. Nú getur hann engum hjálpað með báða handleggi afhöggna upp undir öxlum. Myndarleg miðaldra kona heldur hendi fyrir aftan bak. Hún er treg til að rétta hana fram. Framhendin með öllum fingrum hefur verið höggvin af um mitt handarbakið. Af hverju? Af því að hún ætlaði að reyna að kjósa þegar efnt var til kosninga í landinu 1996. Þá komu þeir og hjuggu af henni hendina. Til að hræða fólk frá kjörstöðum. Margir eru búnir að vera þarna í fimm ár. Fyrst kom fólk frá ýmsum erlendum hjálparstofnunum og reyndi að liðsinna þeim eitthvað, en fáir nú orðið. Jú, helst KFUM, sem enn kemur færandi hendi, áréttar einn. Nú hafa þau heyrt að eigi að leggja þennan kamp niður. Hvað þá? Ætli þau verði þá ekki send út í sínar heimabyggðir. Þar væru þau enn verr sett. Hafa heyrt að norsk hjálp- arsamtök hafi einhvers staðar uppi í sveit byggt hús fyrir þeirra líka með fjölskyldur. En á hverju gætu þau þá lifað? Þá er betra að vera svona í einu samfélagi, þar sem þó er hægt að tala saman um málin. Eiga sitt samfélag. Og þegar einhver deyr getum við þó reynt að aðstoða fjölskyldu hans, bætir einn við. Ekkert til að linna þjáningar Fyrir utan eitt hreysið situr mað- ur. Hann segir að konan sín sé svo kvalin að hún liggi bara fyrir. Þegar hún kemur út segja þau mér að margir haldi áfram að finna til í stubbunum þar sem hendi eða fótur voru, og þau hafi engin verkjalyf. Margir búi við stöðugan sársauka. Segja að fyrstu þrjú árin hafi sjálf- boðasamtök lækna Medicins Sans Frontiéres veitt þeim læknishjálp í kampinum, en síðan ekkert. Sex eru nýlega dánir og líka þrjú börn. Þetta fólk situr í kring um mig, haltir og handalausir, og ræðir blátt áfam og af ljúfmennsku við mig. Hvað er hægt að segja við svona fólk, sem í rauninni ætlast ekki til neins eða væntir neins af manni? Bið þá bara um utanáskrifina til að senda þeim greinina: Amputee Camp, Aberdeen Road, Murray Town, Freetown, Sierra Leone, West-Afr- ica. Og þegar ég spyr um banka- reikning fer leiðangur til að finna út úr því og kemur með: War Affected Amputee Association, Sierra Leone Commercial Bank, A/C number 20321598, International Division. Þegar ég kem heim bíða mín skila- boð um að ég geti komist með lækn- um í þyrlu út á land strax í býtið morguninn eftir. Þá er ég enn svo miður mín og heltekin af þessari upp- lifun í Kampi aflimaðra að meðan við bíðum á þyrluvellinum fer ég að segja dr. Koka Rao, yfirlækni hjá friðargæsluliðinu UNAMSIL, frá þessari upplifun. Að mér hafi gengið einna mest til hjarta að þetta fólk skuli ekki einu sinni geta fengið nein lyf til að deyfa sársaukann í afhöggn- um stubbunum. Hafði raunar þegar um kvöldið ausið þessu öllu yfir framkvæmdastjóra liðsins, Steinar Berg Björnsson. Mér var mikið niðri fyrir. Dr. Koka Rao kvaðst ekki hafa vitað af þessu en hann skyldi líta eftir hvort þeir gætu eitthvað bætt úr. Og í kvöldverðarboði eftir að ég var aft- ur heim komin hvíslaði hann því að mér að hann ætti stefnumót í Amput- ee Camp daginn eftir. Heimkomin til Íslands langaði mig að vita hvort eitt- hvað hefði komið út úr því og sendi honum orð. Óvænt gleðitíðindi Sem ég er að semja greinina berst óvæntur og ánægjulegur póstur. Dr. Koka Rao flytur mér þær gleðifréttir að vikulega muni læknir og hjúkrun- arkona koma í búðirnar og veita þeim aflimuðu sjálfum almenna læknis- þjónustu og lyf. Þar sem þetta verði að gerast í sjálfboðavinnu og utan vinnutíma muni þau koma á laugar- dögum. Hann sendir mér skýrsluna um heimsókn þeirra í kampinn, þar sem segir: „Í liðinni viku heimsótti ég með hóp heilbrigðisstarfsfólks Amputee Camp. Ávarpaði bæklaða fólkið og sagði því að þessi heimsókn væri að þínu frumkvæði, íslenska blaða- mannsins Elínar Pálmadóttur, sem hefði komið til þeirra nýlega. Ég út- skýrði áhyggjur þínar um hagi þeirra, sérstaklega hvað læknishjálp varðar. Formaður þeirra útlima- skertu var mjög snortinn af samúð þinni í þeirra garð og þessu velviljaða framtaki. Ég hef lagt fram skýrslu okkar með ítarlegu og nákvæmu mati á ástandinu og þeim aðstæðum sem þetta útlimaskerta fólk býr við, ásamt tillögum til framkvæmda- stjóra okkar mr. Björnssons, sem er mikill stuðningsmaður hvers kyns aðgerða í mannúðarmálum. Það gleður mig að geta sagt þér að hann hefur veitt sitt leyfi til þess að við veitum þessu aflimaða fólki al- menna læknishjálp. Þannig að eld- móður þinn, dýrmætar uppástungur, eftirfylgni og framtak hafa borið ávöxt svo að læknateymi með lækni og hjúkrunarkonu mun koma í kamp- inn vikulega til að veita bækluðum læknishjálp og skylda þjónustu. Ég trúi því að þessi þjónusta geri mikið til að bæta heilbrigðisástandið í kampinum. Heilbrigðisfræðsla og meðvitund um heilbrigðismál mun vissulega hafa jákvæð áhrif til að bæta líðan þessa ólánsama fólks.“ Læknirinn lætur fylgja afrit af skýrslunum um heimsóknina í kamp- inn og hvað út úr henni hefur komið, þar sem hann gerir alltof mikið úr hlut íslenska blaðamannsins Elínar Pálmadóttur, sem ekki verður tíund- að hér frekar. Ég er bara himinglöð og aðallega steinhissa. Þótt maður blási út og tali þá mikið er maður ekki vanur því að það hafi svo skjót og mikil áhrif. Í skýrslunum kemur fram að ætl- unin sé að sinna þeim sem misst hafi limi og veita þeim læknishjálp og lyf, auk þess að leiðbeina og fræða um hollustuhætti og hreinlætismál í kampinum, sem komi þá öllum íbú- unum til góða. Í neyðartilfellum geti þeir þó veitt öðrum fyrstu hjálp og beint þeim á sjúkrahús ríkisspítal- anna. Þótt læknarnir og hjúkrunar- konurnar ætli að leggja fram sína vinnu í sjálfboðavinnu virðist samt ekki liggja ljóst fyrir hvaðan fé til dýrra lyfjakaupa muni koma, hvort þeir hyggjast safna því og þá hvar. Dr. Koka Rao, Medical Services, UNAMSIL, Hotel Mammy Yoko, Freetown, Sierra Leone gæti veitt um það frekari upplýsingar ef ein- hver hefði áhuga á stuðningi við útli- maskerta fólkið í kampinum, vegna hjálpartækja eða lyfja. Eins og sjá má þá rennur manni enn til rifja ástandið varðandi líf þeirra og limi. MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 8. JÚNÍ 2003 15

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.