Morgunblaðið - 08.06.2003, Qupperneq 24

Morgunblaðið - 08.06.2003, Qupperneq 24
LISTIR 24 SUNNUDAGUR 8. JÚNÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ K VIKMYNDAHÁTÍÐIR eru fullkomin tímaskekkja. Þær eru síðustu dauðateygjur fas- ismans,“ eru gífuryrði sem breski kvikmyndagerðarmað- urinn virti en sérlundaði Peter Greenaway mælti í eyru mín þar sem við sátum á ströndinni, samankomnir á kvikmyndahátíðinni í Cannes, hann að kynna og fylgja eftir nýjustu mynd sinni Töskur Tulse Luper (The Tulse Luper Suitcases) og ég að flytja fregnir af því sem hátíðin hafði fram að færa. Og vitanlega bað ég manninn um að færa nánari rök fyrir þessari glæfralegu yfirlýsingu. „Nú, hvað á það að þýða á þessum tímum flæðandi upplýsingastreymis að maður þurfi enn að leggja á sig heillangt ferðalag til þess að sýna nýju myndirnar sínar og sjá aðrar. Fólkið á ekki lengur að þurfa að koma til myndanna, myndirnar eiga að koma til fólksins. Fyrir mér er svona samkunda því arg- asti fasismi.“ Umdeilanleg orð sann- arlega því auðvitað mun mannskepnan ávallt hafa þörf fyrir það að umgangast sína líka og njóta nýrrar listsköpunar í „góðum og gefandi“ fé- lagsskap. En getur samt verið að eitthvað sé til í orðum Greenaways, að kvikmyndahátíðir séu tímaskekkja og heyri brátt sögunni til? Vonandi ekki, en óneitanlega læddist þessi óþægilega hugsun að manni, er maður býsnaðist yfir því sem í boði var á Cannes-hátíðinni í ár. Málið er nefnilega að ef sú hátíð er einhver örsmár vísir að því sem koma skal þá mun Greenaway klár- lega reynast sannspár, hvort sem okkur kvik- myndaunnendum líkar betur eða verr. Lifi kvikmyndirnar! var yfirskrift 56. kvik- myndahátíðarinnar í Cannes. Orð þessi hrópaði Fellini þegar hann tók við Gullpálmanum fyrir Hið ljúfa líf (La dolce vita) árið 1960. Var það örugglega einlæg meining skipuleggjenda að góðum 40 árum síðar gætu hátíðargestir tekið undir herópi ítalska meistarans. Og auðvitað var það líka von Cannes-faranna í ár, að þeir gætu hrópað „lifi kvikmyndirnar!“ þegar sig- urmyndin yrði tilkynnt og hugsað með sælu- tilfinningu í brjósti til allra þeirra áhugaverðu listaverka sem þeir höfðu upplifað á þessari lengstu og virtustu kvikmyndahátíð sem fyr- irfinnst, í það minnsta í Evrópu. En ég, einn þessara blessuðu Cannes-fara, leyfi mér hér með að fullyrða að ekki nokkur maður hafi séð ástæðu til að gefa tilfinningunum lausan taum- inn, fundið fyrir þessari sælutilfinningu og hrópað í gleðivímu húrra fyrir kvikmyndalist- inni. Engin af þeim tugum, ef ekki hundruðum, nýju mynda sem sýndar voru á hátíðinni átti nefnilega skilið húrrahróp, hvað þá festi menn í trúnni um að í garð væri gengið annað árhundr- að dýrðlegra kvikmynda. Ef ég á að vera alveg sanngjarn og for-dómalaus, þá skulum við halda okkurvið þær myndir sem ég sá, uppundirþrjátíu talsins, allar myndirnar tuttugu sem hlotnaðist sá heiður að keppa um Gull- pálmann, og einar tíu til sem voru sýndar í Un Certain Régard-dagskránni, Leikstjóradag- skránni, á opinberri hátíðarsýningu, utan keppni eða þá á markaðinum. Tökum fyrir myndirnar í aðalkeppninni til að byrja með. Þær eiga líka að vera rjóminn, bestu myndirnar, hlýtur maður að áætla, af þeim níu hundruð sem komu til greina, að sögn skipu- leggjenda. Tuttugu myndir af níu hundruð, enginn smáklásus það. Í hvert sinn sem maður sér mynd í aðalkeppninni er maður líka viðbú- inn einhverju merkilegu, jafnvel fyrstu op- inberu sýningunni á mynd sem á eftir að vera álitin sígilt meistaraverk. En það get ég sko sagt ykkur að ekki nokkur einasta þeirra tutt- ugu sem kepptu í ár á eftir að komast í þann flokk. Ekki handhafi Gullpálmans Fíll (Eleph- ant), ekki tyrkneska Einsemd (Uzak) sem lenti í öðru sæti og fékk Grand Prix-verðlaunin og ekki heldur Dogville, sem langflestir höfðu spáð sigri. Þær eru nokkrar sem standa fyrir sínu, skulum við segja – eru athyglisverðar og vel fyrir ofan meðallag. Næst því að vera snilldarverk er myndkanadíska leikstjórans Innrás Barb-aranna (Les ivasion barbares), fram-hald hinnar margverðlaunuðu myndar hans Hnignun ameríska heimsveldisins frá 1986. Í myndinni er þráðurinn tekinn upp hjá vinahópnum úr fyrri myndinni þegar „and- legur leiðtogi“ hans, háskólaprófessorinn kven- sami Rémy liggur fyrir dauðanum á spítala, ennþá jafnskoðanaglaður, þver og tilfinn- ingaheitur. Það andar köldu milli hans og upp- komins sonarins, enda eru þeir algjörar and- stæður; sonurinn jarðbundinn einnar konu maður, lítt lesinn og genginn í lið með fjandans kapítalismanum (að mati Rémys), starfar við fjármál og þénar á einum mánuði það sem fað- irinn menntamaðurinn gerir á heilu ári. En fyr- ir móður sína fellst hann á að vera með föður sínum og gerir allt sitt, aðallega með því að nota peninga, til að gera síðustu ævidaga föður síns bærilegri. Strákur kallar saman alla gömlu vin- ina og saman skoða þeir líf sitt og dauða, afrek og eftirsjá, ólík viðhorf kynslóðanna til sam- skipta kynjanna, fjölskyldunnar og heims- stjórnmálanna. Ólíkt flestum öðrum myndum í keppninni slær Arcand á mannlega strengi, leyfir sér að gera mynd frá hjartanu, heldur sig ekki í fjarlægð og er óhræddur við að gefa til- finningunum lausan tauminn, þannig að úr varð kannski eina myndin í keppninni sem skilur áhorfandann eftir sorgbitinn, með tár á hvörm- um, en um leið hlýju í hjarta, bjartsýni og sátt. Vissulega eiga samtölin, sem myndin byggist að mestu á, til að verða svolítið tilgerðarleg, en alltaf eru þau fyndin, blátt áfram og trúverðug, sem einnig sker myndina frá öðrum í keppn- inni. Um þær, hinar 19 myndirnar í keppninni, sem ég sá allar, sé ég mig tilneyddan að fara færri orðum um, ef sumar eiga þá skilið eitt- hvert umtal yfir höfuð. Grand Prix-hafinn Ein- semd er góðra gjalda verð, vel leikin og nær- gætin stúdía á einverunni. En við hliðina á henni er Nói albínói hreinasta hasarmynd, og reyndar við hliðina á flestum myndunum sem kepptu um Gullpálmann í ár. Handhafi Gull- pálmans Fíll eftir Gus Van Sant er sannarlega umtalsins verð, hugdjörf og óvenjuleg nálgun við vandasamt viðfangsefni sem skólamorð eru. En vafasöm er hún, annað verður ekki sagt. Margumtöluðu Dogville Von Triers er í besta falli athyglisverð, í versta falli ömurleg tilgerð. Frönsku myndirnar voru fimm að þessu sinni; tvær keppnishæfar og þrjár sem ekkert erindi áttu á hátíðina. Sundlaug (Swimming Pool) Francois Ozons (8 konur) veitti mér mesta ánægju, lítið og vel leikið morgátudrama. Lili litla (Le petit Lili) eftir Claude Miller er ekta Miller-mynd, fáguð, vel leikin en of tilgerðarleg, „of frönsk“ í neikvæðri merkingu þess orðalags. Nauðgun Bertrands Bliers á leikhúsverkinu Kótiletturnar (Les Cotelettes) gekk hins vegar fram af nær öllum er sáu og samkvæmt þar til gerðum útreikningum Screen International hefur engin mynd í keppni um Gullpálmann fengið eins vonda dóma gagnrýnenda yfir það heila. Þurfti þá heilmikið út af að bregða til að slá út Brúnu kanínuna (The Brown Bunny), aðra mynd bandaríska leikarans Vincents Gal- los, einhverja erfiðustu mynd sem ég hef séð í bíói, í allri merkingu orðsins erfið. Þeir voru ófáir sem greinilega var sárlega misboðið að þurfa að sitja undir slíkri keppnismynd og Screen International birti fréttir af því að Gallo hefði beðið fólk afsökunar á að hafa kvalið það með slíkri sjálfumgleði – yfirlýsing sem hann hefur einhverra hluta vegna séð ástæðu til að draga til baka, sem segir náttúrlega allt sem segja þarf um náungann atarna. Þær voru fleiri sem ekkert erindi áttu áhátíð eins og Cannes; japanska Bjartaframtíð (Bright Future) og Shara, kín-verska Fjólublát fiðrildi (Purple Butt- erfly) og ítalska Fjarlæg hjörtu (Il Coure Altr- ove). Umtöluð endurkoma Hectors Babencos, Carandiru, olli mér vonbrigðum, er vissulega grimm en er þó í grunninn lítið meira en svart- holssápa. Og hvað sem menn segja um snilli Rússans Sokurov gat ég ekki komist að annarri niðurstöðu en að hin ljóðræna Faðir og sonur væri illa leikin, klaufalega hljóðsett og liti út eins og ítölsk rúmstokksmynd. Í slíkri eyði- mörk voru kærkomnar vinjar myndirnar Klukkan fimm síðdegis (A Cinq Heures De L’Apres Midi) eftir írönsku Samira Makhm- albaf, Dulá (Mystic River) eftir Clint Eastwood og meira að segja Töskur Tulse Luper, einn eitt ótrúlega sjónarpilið eftir Peter Greenaway en þó með öllu yfirgengileg. Er þetta ekki glæsilegt? Á slíkri hátiðþakkaði maður Guði fyrir hliðardag-skrárnar, allar hinar myndirnar en þarsá ég nokkrar mun frambærilegri en meinti rjóminn. Skoska Adam ungi (Young Adam), önnur mynd hins bráefnilega Davids Mackenzies var t.a.m. alveg mögnuð og skart- aði Ewan McGregor í sinni bestu rullu síðan í Trainspotting. Norska Eldhússögur (Kitchen Stories) eftir Bent Hamer, höfund Egg, var stórfín, allt í senn frumleg, fyndin og fagmann- leg. Ekta skandinavískur húmor vildu bresku blaðafulltrúarnir meina. Mér fannst hann svo- lítið íslenskur, jafnvel Friðriks Þórs-legur. Og hún er dásamleg fyrsta heimildarmyndin í röð sjö heimildarmynda tileinkaðra blústónlistinni í víðustu merkingu. Fór vel á að Wim Wenders riði á vaðið með Mannsins sál (The Soul of A Man) enda er hann orðið hreinn sérfræðingur í gerð ástríðufullra tónlistarmynda. Og besta mynd hátíðarinnar? Tvímælalaust Nútími Chaplins sem sýnd var í endurnýjaðri útgáfu. Þá komst ég næst því að taka undir með Fellini. Þvílík unun að fá að njóta svo sígildrar myndar á tjaldinu hvíta. Reiknimeistarar Screen International, sem fylgst hafa grannt með gæðum Cannes- hátíðarinnar í gegnum tíðina með aðstoð val- inkunnra gagnrýnenda hafa komist að þeirri niðurstöðu að myndirnar á hátíðirnar hafi feng- ið jafnverstu dóma af öllum myndum Cannes- keppninnar síðasta áratuginn. Fallið er hátt frá hápunktinum í fyrra en listrænn stjórnandi há- tíðarinnar Thierry Fremaux er þó hvergi bang- inn, segir í viðtali fyrir helgi við Screen Int- ernational að öllum rósum – síðustu tvær hátíðir – fylgi alltaf þyrnar – hátíðin í ár. Ég vona svo heitt og innilega að Peter Green- away hafi rangt fyrir sér er hann spáir því að endalok Cannes og annarra kvikmyndahátíða séu innan seilingar. Þótt vissulega kunni það að virka fasískt að mannskepnan þurfi enn að bera sig yfir höfin eftir nýrri listsköpun þá er hún og verður ætíð þess virði – þar gætu nefnilega allt- af leynst ilmandi rauðar rósir. Þyrnum þakinn Gullpálmi Ljósmynd/Halldór Kolbeins ÞYRNIRÓS: Nicole Kidman hlaut mikið lof á Cannes fyrir það hugrekki að vinna að þremur erfiðum myndum með hinum erfiða Lars Von Trier. En það eitt að Kidman hafi veifað hendi kom ekki í veg fyrir að viðstaddir styngju sig á snældunni, eða þyrnunum réttara sagt. AF LISTUM Eftir Skarphéðin Guðmundsson

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.