Morgunblaðið - 10.06.2003, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 10.06.2003, Blaðsíða 23
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 10. JÚNÍ 2003 23 reisn og æðruleysi og án þess að kvarta í eyru nokkurs manns nema þá kannski Skúla, og væri þá varla láandi. Er virkilega eitthvert rétt- læti til í því að þurfa að yfirgefa þennan heim óumbeðið frá öllu því sem kærast er og ógert? En þetta er víst ekki í fyrsta sinn sem sú spurning leitar á og fáir trúi ég hafi svarað henni. Við vorum ung og glöð árgang- urinn sem útskrifaðist frá MR 1967. Býsna margir tengdust þar bönd- um sem hafa enzt síðan, þar með talið hópur okkar fernra para sem öll giftust. Vinskapur okkar hefur verið fölskvalaus og tryggur og skarðið sem Vilborg skilur eftir sig er sem hyldjúp gjá. En vinskapur er ekki sjálfgefinn. Það eru jú allir vinir á yngri árum og böllin í Íþöku, Selsferðirnar og félagslífið yfirleitt viðhéldu léttleikanum sem þurfti til að komast í gegnum þurrt pensúm- ið. En svo tók alvara lífsins við, framhaldsnám, niðurhleðsla á börn- um og húsbyggingar. Allt tók þetta tíma frá græskulausu gamninu sem áhyggjuleysi menntaskólaáranna var svo ríkt af. En einmitt þá fóru að styrkjast þau bönd sem aldrei hafa rofnað síðan. Og Vilborg var einmitt svo lagin við að mynda þessi bönd. Ekki svo að auðvelt sé að benda á eitthvað sérstakt. Hún bara ræktaði vinagarðinn sinn af svo mikilli natni. Og smám saman þurfti engin orð. Börnin okkar allra stækkuðu og urðu allt í einu full- orðin, og svo fóru að koma barna- börn. Ferðirnar austur í sumarbú- stað, laufabrauðsskurðurinn og ferðalögin voru orðin ótrúlega hefð- bundin, eins og ekkert myndi nokk- urntíma breytast. Alltaf var jafn- gaman. Og þá kom fyrsta kallið. Allt breyttist á einni svipstundu. Vina- böndin sem áður höfðu verið svo sjálfsögð urðu nú að dýrmætum sjóði, sem allt í einu rann upp fyrir okkur að gæti tæmst. Svo við lögð- um eins mikið í sjóðinn og við gát- um. Síðasta ferðin sem við aukinn og endurnýjaður vinahópurinn fór- um saman var til Lech í Austurríki í lok febrúar þar sem við endurnýj- uðum endurminningarnar frá okkar fyrstu sameiginlegu skíðaferð. Skaparinn gaf okkar yndislegu vin- konu stundarþrek eina dýrðlega viku. Ekki ský á lofti og hún hafði orð á því að þetta væri eins og í himnaríki! Þar dvelur hún nú, því enginn staður er betur til þess fallinn að vernda hana og geyma. Tárin sem við fellum eru staðfesting þess órjúfanlega vinskapar sem gefur lífinu gildi og færir okkur það besta sem við getum beðið um, endur- minningar sem við geymum sem gimstein í hjarta. Anna Lovísa og Heimir. Allt frá því ég man eftir mér hef- ur Vilborg og fjölskylda hennar verið hluti af fjölskyldu minni. Þótt skyldleikinn sé ekki genetískur var samgangurinn meiri en við margan ættingjann. Í minningunni leið aldrei sá dagur að Vilborg og mamma töluðu ekki saman í síma. Mér finnst eins og síminn hafi alltaf hringt rétt undir hádegi og símtölin tekið nákvæmlega sama tíma og það tók grjónagrautinn að vella upp úr pottinum. Líklega var það sami tími og Halldóra og Þórður bróðir minn sváfu úti í vagni. Kennarasumrin voru löng í þá daga og mér finnst eins og við höf- um setið hundrað sinnum í sólinni í Hafnarfirðinum. Það var alltaf til- hlökkunarefni að fara til Vilborgar á daginn. Hún tók vel á móti gest- unum, sama á hvaða aldri þeir voru, og bauð upp á sérrétt hússins fyrir okkur stóru börnin, rauðar pylsur í brauði. – Henni var umhugað um að allir væru sælir og sáttir enda sjálf alltaf glöð og jákvæð. Seinna hætti grauturinn að malla í hádeginu og börn að sofa úti í vagni en símtölin á daginn hættu aldrei. Ég man eftir að hafa óskað þess sem unglingsstelpa að ég myndi eiga svona góða vinkonu þegar ég yrði stór; vinkonu eins og Vilborgu sem væri alltaf til staðar og alltaf væri gaman að tala við. Þegar ég heimsótti Vilborgu á spítalann eftir fyrstu aðgerðina, fyrir réttum tveimur árum, bjóst ég við að sjá fársjúka konu. En það var öðru nær. Hún sat í setustofunni og spjallaði um heima og geima við mömmu eins og þær höfðu alltaf gert. Hún ætlaði sér greinilega að vera áfram til staðar. Lengi vel virtist hún líka standa allt af sér. Það var aldrei neinn bilbug á henni að finna og hún bar veikindin ekki utan á sér, var hnarreist og glæsi- leg sem fyrr. Við hittumst í kaffi viku áður en hún dó, við mæðgurnar, Vilborg, Þorfinnur og Halla og Embla litla. Vilborg var orðin afar máttfarin en tók þó af öllum mætti þátt í sam- ræðunum. Það var gott að heyra að hún gat enn slegið á létta strengi þótt hún hefði augljóslega miklu meira að segja og gefa en heilsan leyfði. Síðasta minning mín um Vil- borgu er því eins og allar aðrar, af henni brosandi. Elsku Skúli, Þorfinnur, Halla og Embla, Halldóra og Elli. Missir ykkar er mikill. Ég veit að símtal- anna verður líka sárt saknað. Ég sendi ykkur innilegar samúðarkveðjur frá Ameríku. Leitt er að geta ekki verið með ykkur í dag. Brynhildur Þórarinsdóttir. „Hugsaðu um mig þegar þú ert í miklu sólskini. Bráðum skín sól upprisudagsins yfir hinar björtu leiðir, þar sem hún bíður skálds síns. Og fegurðin mun ríkja ein.“ (H.K. Laxness.) Þessi hrifnæmi lokakafli úr verk- inu „Heimsljós“ kom sterklega upp í huga minn þegar ég fregnaði and- lát minnar gömlu, góðu bernskuvin- konu og bekkjarsystur frá barna- og unglingsárum. Í sólsetrinu að kveldi aðfaradags „upprisudagsins“ slokknaði lífslogi Vilborgar, sem hún var umvafin nánustu ástvinum sínum. Á slíkum stundum þegar „veru- leikinn er líkt og rykkorn í auga“ leitar hugurinn til bernskuáranna. Vilborg var ein af þessum einstöku manneskjum sem verða á vegi manns. Minnisstæðar eru mér þær stundir þegar hún sat við píanóið og spilaði fyir mig „Für Elise“ eftir Beethoven með sínum löngu grönnu spilafingrum, síðan þá hef- ur þessi melodía minnt mig á Vil- borgu og mun gera, enda hljómar hún hér baka til þegar þessi orð eru skrifuð. Saman sátum við allan barna- og unglingaskólann, samhliða sungum við í Unglingakórnum. Hlið við hlið krupum við saman við gráturnar í Selfosskirkju á fermingardegi okk- ar. „En ekki fara allir á kirkjugarðs- ballið í haust sem hlökkuðu til þess í vor.“ (H.K. Laxness.) Í vorangan og sumarkomunni núna í maí brá skugga yfir. Heilsu Vilborgar hrakaði snöggt, hel- stríðið var sem betur fer stutt, að- eins tveir sólarhringar og heima var hún þar til yfir lauk. Þakklát er ég fyrir að hafa fengið tækifæri til að að halda í hennar fögru hendur, nokkrum stundum fyrir andlátið. Ástvinum hennar öllum sendi ég hlýjar samúðarkveðjur. Ykkar fjár- sjóður er fólginn í minningunni um Vilborgu. Kæra vinkona, ég veit að hún mamma þín hefur breitt faðminn á móti þér við himnaborðin og sveip- að þig sjali. Farðu sæl inn í fegurð himins, og vermi þig sól upprisunn- ar. Þóra Grétarsdóttir. Stöndum á fjarlægri strönd síð- asta sumar í glöðum vinahópi. Næst okkur Vilborg og Skúli. Unaðsgolu andar af vatni. Amstur og áhyggjur víkja. Upp leitar hálfgleymd tilfinn- ing yngri ára að lífið sé eilífðarferð full af björtum fyrirheitum. Myrkur leggst yfir, eldflugur iða í grasi, ljós blika á bátum við festar. Stutta stund töpum við áttum á ókunnum stað en það er ekkert að óttast. Hlýja síðsumarkvöldsins umvefur okkur áfram. Vilborg Þorfinnsdóttir var þeirr- ar gerðar að vinátta hennar var eins og akkeri fyrir okkur sem nut- um. Föst fyrir, sleppti aldrei. Heimili þeirra Skúla Valtýssonar sem þau byggðu samhent af elju- semi og smekkvísi ber ekki síst svipmót Vilborgar. Ekkert skorti, engu er ofaukið, allt vandað, gegn- heilt og fallegt. Vilborg var ekki aðeins kennari að menntun og starfi, heldur einnig af lífi og sál. Sálargáfum sínum miðlaði hún ríkulega til eigin barna, Þorfinns og Halldóru, og síðar ömmubarnsins, Emblu. Bókmennt- ir og listir hafði hún í öndvegi. Hall- dóra leikur á píanó og oft gerðist það á heimili þeirra þegar endur- skoðandinn Skúli var að lesa mér pistilinn um skynsamlega meðferð fjármuna að athyglin hvarflaði að kraftmikilli Beethovensónötu eða dillandi Chopenvalsi innan úr stofu. Reyndar gat það alveg eins verið Vilborg sjálf sem sat við hljóðfærið því að hún tók aftur upp þráðinn frá unglingsárum í píanónámi. Þorfinn- ur hefur stundað myndlist meðfram aðalgrein sinni, bókmenntum. Í Verslunarskólanum fyrir tólf árum birti hann eftirfarandi tvær hækur, ávöxt persónuleika, menntunar og uppeldis: Neistar frá eldi andartaks blik, litaflóð síðan, svarblátt húm Grár bærist reykur eftir stendur askan ein brennt barn forðast eld Hugir okkar Ragnheiðar þessa tregasáru daga eru hjá Skúla, börn- um þeirra Vilborgar og fjölskyld- um, eftirlifandi föður og systrum. Björt minning um einstaka konu af- léttir svarbláu sorgarhúmi. Sigurþór Aðalsteinsson. Það er margt sem ég minnist þegar ég kveð æskuvinkonu mína, Vilborgu. Við ólumst upp á Selfossi, fyrir utan Á, þar sem fólkið í götunni var sem ein fjölskylda. Húsin okkar lágu saman og var hennar hús mitt annað heimili. Það er mér ofarlega í huga þegar Þor- finnur smíðaði dúkkuhús handa Vil- borgu, þá gerði hann annað eins handa mér, og þegar Vilborg fékk litla barnaprjóna frá ömmu í Auðs- holti, þá fékk ég líka eins. Við vorum ekki gamlar þegar Magga og Þorfinnur keyptu píanó og Vilborg lærði að spila. Var sem hún hefði aldrei gert neitt annað en að spila Mozart og gat ég þá setið tímunum saman og hlustað með að- dáun á vinkonu mína spila. Um tíma lágu leiðir okkar í sitt hvora áttina. Vilborg fór í M.R. og kynntist þar Skúla. Við Skúli urð- um strax góðir vinir og alltaf var gaman að koma á heimili þeirra. Eins minnist ég þess hvað það var gaman að fara í búðir með Vilborgu. Hún var alltaf fljót að finna út hvaða föt færu best, enda einstak- lega smekkleg eins og klæðnaður hennar, heimili og garður báru vott um. Að lokum vil ég þakka fyrir allt sem þau hafa veitt mér og mínum í gegnum tíðina. Skúli minn, börn , tengdabörn og Embla, sem fær því miður allt of stutt að njóta ömmu sinnar, Þor- finnur minn, Hjördís og Kristín, ég tek þátt í sorginni með ykkur. Guð verið með ykkur. Ragnheiður Kristjáns- dóttir og fjölskylda. Það var ekki fjölmennur starfs- mannahópur er hóf störf við stofn- un Engidalsskóla haustið 1978, 12 fastráðnir kennarar og sjö aðrir starfsmenn. Þetta voru allt ungir og áhugasamir starfsmenn, sem allir stóðu saman sem einn um að koma upp góðum skóla. Vilborg var ein af kennurunum í þessum hópi. Þessir kennarar tengdust fljótt vináttu- böndum, sem haldist hafa og orðið traustari og einlægari eftir því sem árin urðu fleiri. Samheldnin hefur best sýnt sig, ef veikindi eða aðrir erfiðleikar hafa komið upp hjá ein- hverjum í hópnum. Vilborg var ein af þessum sterku stoðum hópsins. Hún var samviskusöm og ósérhlífin í sínu starfi. Hún gerði sér far um að hlúa að nemendum sínum og hver og einn skipti hana máli. Við ræddum oft saman í lok skóladags og hugleiddum hvernig best væri að vinna úr einstökum málum nem- enda og kom þá alltaf fram hve nærgætin hún var og tillitssöm við nemendur sína. Sonur minn átti því láni að fagna að hafa Vilborgu fyrir kennara í nokkur ár, og sem móðir þakka ég henni þau ár sérstaklega. Við Vilborg áttum nokkrar ljóð- línur úr „Skólaljóðunum“ sem við létum stundum fljúga á milli okkar í lok erfiðs skóladags. Gleðstu yfir góðum degi, gleymdu því sem miður fer, sýndu þrek og þolinmæði þegar nokkuð út af ber. Þessar línur hafa oft komið upp hjá mér núna síðustu mánuði, er Vilborg barðist með ótrúlegu þreki og þolinmæði við hinn illvíga sjúk- dóm, er að lokum hafði yfirhöndina. Nú höfum við, þessi litli kenn- arahópur, misst eina af þeim styrku stoðum sem verið hafa burðarstoðir þessa litla skóla í Norðurbænum í Hafnarfirði í 25 ár. Fyrir sex árum féll önnur stoð fyrir sama sjúkdómi. Í dag mun þessi kennarahópur bera góða, dýrmæta vinkonu hinstu sporin, en eftir lifir minningin um vináttuna og sú minning verður frá engum tekin. Ég vil fyrir hönd starfsfólks Engidalsskóla þakka Vilborgu allar samverustundirnar og ómetanlegt starf við nemendur skólans í 25 ár. Við sendum fjölskyldu Vilborgar og ástvinum samúðarkveðjur. Fyrir hönd starfsfólks Engidals- skóla í Hafnarfirði. Hjördís Guðbjörnsdóttir skólastjóri. Látin er vinkona mín og sam- kennari Vilborg Þorfinnsdóttir eftir hetjulega baráttu við erfiðan sjúk- dóm. Vilborg var einstök mann- eskja og átti fáa sína líka. Hún hafði heillandi framkomu, mikla útgeisl- un og henni fylgdi ofurkraftur þannig að ekki var hægt að sjá það á henni að hún gengi í gegnum þessi miklu veikindi. Á kveðjustundu rifjast upp ára- tuga samskipti og góðar samveru- stundir. Vilborgu kynntist ég fyrst þegar við hófum báðar kennslustörf við Víðistaðaskóla í Hafnarfirði árið 1970. Þar hófst náið samstarf því við kenndum oftast nemendum úr sama árgangi. Við sóttum sömu kennaranámskeiðin og fórum sam- an í eftirminnilega ferð með dönskukennurum til Danmerkur. Árið 1978 þegar Engidalsskóli var stofnaður fluttum við okkur nokkrir kennarar úr Víðistaðaskóla yfir í Engidalsskóla, en um vorið bættist Vilborg í hópinn, fyrst sem forfallakennari, en fékk síðan fast- ráðningu næsta skólaár á eftir. Þannig héldum við áfram samstarfi í Engidalsskóla, en það var alveg sérstaklega gott að vinna með Vil- borgu. Hún kom með margar góðar hugmyndir inn í kennsluna og var afar farsæll kennari. Haustið 1979 missti ég manninn minn af slysförum. Vilborg reyndist mér vel á þessum erfiðu tímum og var alltaf tilbúin að hjálpa mér og styrkja á allan hátt. Ég mun seint gleyma því þegar hún dreif mig og dætur mínar með fjölskyldu sinni til Spánar, þar sem við áttum sam- an góðar stundir. Eftir að ég kynntist Steindóri seinni manninum mínum var Vil- borg fljót að bjóða hann velkominn í vinahópinn. Við Steindór höfum síð- an átt margar góðar samverustund- ir bæði innan lands og utan með þeim hjónum Vilborgu og Skúla. Það var alltaf jafn gaman að heim- sækja Vilborgu, því hún tók vel á móti gestum, var ætíð hrókur alls fagnaðar og höfðingi heim að sækja. Kæra vinkona, við kveðjum þig með trega og jafnframt þakklæti fyrir tryggð þína og vináttu. Við eigum eftir að sakna þín, en trúum því að þú sért á góðum stað. Elsku Skúli, Þorfinnur, Halldóra og fjölskylda, við Steindór sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur og biðjum Guð að styrkja ykkur í sorg- inni. Erla María. Á útfarardegi Vilborgar fer ekki hjá því að litið sé til baka og ákveðnar minningar kallaðar fram í hugann. Það var fyrir 17 árum að við lögðum upp í okkar fyrstu skíða- ferð til útlanda átta saman, öll skólafélagar úr MR. Við þekktumst misvel en höfðum öll tengst vináttu- böndum á skólaárunum. Síðar bættust fleiri góðir félagar í hópinn og saman höfum við farið á skíði á hverju ári. Fyrstu árin var alltaf farið til Lech en með aukinni getu og áræði var farið að heimsækja fleiri skíðastaði. Í þessum ferðum hefur hópurinn átt fjölmargar skemmilegar stundir saman og vin- áttan hefur verið treyst. Við höfum oft rifjað upp skemmtileg atvik í þessum ferðum en ekkert eins oft og þegar sá okkar sem lengst taldi sig kominn í skíða- listinni ákvað að nú væri tími til þess kominn að hinir í hópnum fengju tækifæri til þess að reyna sig í hinum erfiðari skíðabrekkum. Til þessa var valin brekka sem lá niður af bröttum hamravegg. Sumir þurftu að hálfskríða meðfram veggnum sökum lofthræðslu, en við tók brött hólabrekka sem flestir ætluðu aldrei að komast niður. Það eru orð Vilborgar sem vekja núna hjá okkur þessar minningar, því þegar hún hafði sigrast á brekkunni geystist hún á skíðunum fram úr hópnum og hrópaði til okkar: „Ég treysti engum framar.“ Eftir þessa eldskírn hikaði hún aldrei framar, hversu óvægin sem brekkan fram- undan var. Þannig tókst hún einnig kjarkmikil á við þá miklu erfiðleika sem hún varð að horfast í augu við eftir að hún veiktist. Það gerði hún af æðruleysi og aðdáanlegu hug- rekki. Nú í lok febrúar fór hópurinn enn til Lech til þess að rifja upp gamlar minningar. Þótt veik væri fór Vil- borg á skíði með okkur alla daga og lét engan bilbug á sér finna. Hún naut ferðarinnar til hins ýtrasta og gleðin skein úr andliti hennar hvern dag. Þessi vika verður okkur öllum ógleymanleg og návist okkar við Vilborgu munum við geyma í minn- ingunni. Skíðahópurinn.  Fleiri minningargreinar um Vil- borgu Þorfinnsdóttur bíða birt- ingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.