Morgunblaðið - 30.06.2003, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 30.06.2003, Blaðsíða 22
22 MÁNUDAGUR 30. JÚNÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ                        BRÉF TIL BLAÐSINS Kringlunni 1 103 Reykjavík  Sími 569 1100  Símbréf 569 1329  Netfang bref@mbl.is Allt efni sem birtist í Morgunblaðinu og Lesbók er varðveitt í upplýsinga- safni þess. Morgunblaðið áskilur sér rétt t i l að ráðstafa efninu þaðan, hvort sem er með endurbirtingu eða á annan hátt. Þeir sem afhenda blaðinu efni ti l birtingar teljast samþykkja þetta, ef ekki fylgir fyrirvari hér að lútandi. PÉTUR Pétursson þulur gaf nýlega út sérprent með fyrirlestri sem séra Ragnar E. Kvaran flutti í Sam- bandskirkju Íslendinga í Winnipeg árið 1933. Kreppan mikla var heiti fyrirlesturs, og birtist hann í Heims- kringlu í Winnipeg, skömmu síðar var hann endurprentaður í Alþýðu- blaðinu hér heima og loks sérprent- aður á yfirstandandi vori með grein- argóðum formála útgefanda. Séra Ragnar Kvaran var prestur hjá Vestur-Íslendingum frá 1922– 1933 og meginið af þeim tíma forseti hins Sameinaða kirkjufélags Íslend- inga í Vesturheimi. Þá var hann for- seti Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi 1927–1929. Vinsældir séra Ragnars náðu langt út yfir söfn- uð hans og ekki ofmælt að hann væri á sínum tíma flestum öðrum athafna- meiri í vestur-íslensku menningar- starfi. Utan kirkjulegra embættis- verka má rétt nefna fjölda greina sem hann skrifaði, flutning fyrir- lestra á menningarsamkomum og mannamótum af ýmsu tagi og efl- ingu leiklistar meðal Vestur-Íslend- inga. Segir það nokkra sögu að þeg- ar sá sem þetta ritar kom fyrst til Kanada síðsumars 1956 mátti enn greina saknaðartár hjá fólki í Nýja Íslandi vegna Íslandsfarar séra Ragnars og fjölskyldu hans rúmum tveim áratugum áður. Í formálsorðum sínum að ofan- greindu sérprenti kemst Pétur Pét- ursson svo að orði um höfundinn: „Með fyrirlestri sínum um kreppuna miklu skipaði hann sér í fremstu röð þeirra fræðimanna, sem fjölluðu af rökvísi, innsæi og spádómsgáfu um atburði, sem gerðust í kauphöllinni í New York þegar hrunið mikla varð þar á verðbréfamarkaði. Segja má að fyrirlesturinn sé einstakur, bæði hvað varðar efnistök og samkomu- stað. Að vísu verður að hafa í huga að Vestur-Íslendingar höfðu í mörgum málum aðra siði en tíðkuðust í gamla landinu. Kirkjufélög og söfnuðir þeirra ræddu jafnan veraldleg efni og hverskonar mannfélagshreyfing- ar, engu síður en trúarbrögð og kirkjunnar málefni.“ Því miður féll séra Ragnar frá árið 1939 aðeins um hálffimmtugt. Marg- ir urðu til þess að mæla eftir hann. Pétur Pétursson vitnar í skrif þeirra Lárusar Sigurbjörnssonar og Valtýs Stefánssonar. Lárus rekur nokkuð leiklistarstarf séra Ragnars vestan hafs og austan en Valtýr, gamall bekkjarbróðir hins síðarnefnda, tek- ur svo til orða: „Það er þjóðartjón þegar slíkir menn falla frá á besta aldri ... Aldrei hefi ég hitt mann, sem hafði hreinni reikninga við tilveruna en hann, sem viðbúnari var að mæta hverju sem að höndum bar með full- komnum sálarstyrk, engum sem gat betur en hann tekið sér í munn hreystiyrði sálmaskáldsins ódauð- lega sem mætti manninum með ljá- inn með ávarpinu: „komdu sæll þeg- ar þú vilt“.“ Hafi Pétur Pétursson heila þökk fyrir að hafa vakið athygli á störfum séra Ragnars Kvaran með tilhlýði- legum hætti. HARALDUR BESSASON, Háskólanum á Akureyri. Í minningu séra Ragnars E. Kvaran Frá Haraldi Bessasyni: MARGT breytist, sumt ekki til batn- aðar, annað til hins betra. Íslenskt sjónvarp hóf útsendingar, eins og kunnugt er, 30. september 1966. Þeir, sem nú eru á fimmtugs- aldri og yngri, muna vart annað en að sjónvarpsútsendingar hafi verið hér á landi. Svona er tíminn fljótur að líða. Nokkru fyrir opnun íslensks sjónvarps gátu að vísu nokkrir á höf- uðborgarsvæðinu náð sendingum frá hernum í Keflavík. En það var ekki beint um Sjón- varpið, sem ég þarf að láta ljós mitt skína í Morgunblaðinu að þessu sinni, heldur fólkið og háttsemi þess bak við skjáinn. Snemma efndi Sjón- varpið til umræðuþátta um ýmis málefni. Og þá gat að líta þau, sem þar komu fram. Við hlýddum á mál þessa fólks, sem margt var vel máli farið, og við vorum ýmist sammála eða á öndverðum meiði við það, líkt og þau, sem leiddu þar oft saman hesta sína. En við, sem horfðum á skjáinn, veittum fleiru en hinu talaða orði athygli. Við horfðum líka á, hvernig fólkið bar sig að. Og sjá: Þar var það flest reykjandi. Að þessu fann enginn þá, enda reykti þá um helmingur þjóðarinnar á að giska. Nú er orðin breyting hér á sem betur fer. Enginn, sem fram kemur í sjón- varpi, sést lengur totta vindling, vindil eða pípu. Fólk gerir sjálfsagt eitthvað af þessu heima hjá sér, en hefur það ekki fyrir alþjóð. Það gerir gæfumuninn. Annað sem breyst hefur til batn- aðar er, að nú munu fermingarveisl- ur lausar við áfengisneyslu. Sjálfsagt man ekki miðaldra fólk og yngra eft- ir þessu, en ég sótti sem ungur mað- ur á fimmta áratug síðustu aldar fermingarveislur, þar sem áfengi var haft um hönd, og í miklum mæli. Bindindismenn hófu áróður í útvarpi og blöðum gegn þessum óvanda og varð vel ágengt. Sýnir þetta, að breyta má almenningsáliti með marktækum hætti ef hugur fylgir máli. Nú dettur engum í hug að hafa áfengi í fermingarveislum. Ýmsu miðar áfram til batnaðar sem betur fer. Við skulum vera bjartsýn. AUÐUNN BRAGI SVEINSSON, Hjarðarhaga 28, 107 Reykjavík. Breyting er á orðin – til batnaðar Frá Auðuni Braga Sveinssyni:

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.