Morgunblaðið - 02.07.2003, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 02.07.2003, Blaðsíða 14
ERLENT 14 MIÐVIKUDAGUR 2. JÚLÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ Heimilisfang: BRÆÐRABORGARSTÍGUR 24 Stærð eignar: 59,4 fm. Brunabótamat: 6,9 millj. Byggingarár: 1906 Áhvílandi: 4,7 millj. Verð: 8,9 millj. Falleg og björt 3ja herbergja. íbúð á jarðhæð með sérinngangi í fallegu tvíbýlishúsi. Snyrtileg eldhúsinnrétting. Flísar á gólfum. Saml. gróinn garður og viðarverönd. Sérbílastæði. Hrafnhildur Bridde, löggiltur fasteignasali RE/MAX sýnir eignina í dag milli kl.18-19. Hrafnhildur Bridde, sími 899-1806, hrafnhildur@remax.is Hrafnhildur Bridde lögg. fasteignasali BRÆÐRABORGARSTÍGUR 24 - VESTURBÆR TALIÐ er að allt að 400.000 íbúar Hong Kong hafi í gær tekið þátt í friðsamlegri kröfugöngu til að mót- mæla nýjum lögum gegn undirróðri, sem verða líklega samþykkt innan nokurra daga, en margir óttast að lögin kunni að hafa áhrif á pólitískt frelsi borgaranna. Lögregluyfirvöld í Hong Kong staðfestu í gær að þetta séu stærstu mótmæli í borginni frá því að milljón manns mótmæltu morðunum á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Mótmælin skyggðu á hátíðahöld í tilefni þess að í gær voru sex ár liðin frá því að borgin varð á ný hluti kínverska ríkisins. Mótmælendur á öllum aldri héldu á kröfuspjöldum og hrópuðu slagorð til að mótmæla 23. grein laga sem þeir telja skerða borgaraleg réttindi verulega auk sem þeir óttast að lögin kunni að ógna málfrelsi og frjálsu flæði upplýsinga í borginni. Þá eru margir hræddir um að lögin kunni að spilla hugmynd sem kennd er við hugtakið „Eitt land, tvö kerfi“ en hún átti að róa þá sem óttuðust að þegar Hong Kong yrði aftur hluti Kína 1997 myndi það merkja enda- lok alls frjálsræðis og markaðsskipu- lags á staðnum. Telja lögin ólýðræðisleg Flestir mótmælendurnir voru klæddir svörtum stuttermabolum sem áttu að vera táknrænir fyrir dauða frjálsræðis í Hong Kong. Þá var áletrunin „Við erum þreytt, við erum reið, segðu af þér“ rituð á marga bolina auk þess sem margir hrópuðu „segðu af þér“ og kröfðust þannig afsagnar Tung Chee-hwa, æðsta embættismanns borgarinnar. Margir mótmælendur sem frétta- stofa AFP náði tali af sögðu enn fremur nýju lögin, sem kveða á um bann við landráði, uppreisnaráróðri, stuldi á ríkisleyndarmálum og niður- rifsstarfsemi, vera ólýðræðisleg. Þegar mótmælendur komu að skrifstofum ríkisstjórnarinnar var einungis litlum hópi fólks leyft að mótmæla þar en lögreglan bað aðra að halda göngu sinni áfram. Samgöngukerfi borgarinnar lam- aðist að nokkru á meðan mótmæl- endur gengu í gegnum borgina enda voru þátttakendur mun fleiri en gert hafði verið ráð fyrir. Þannig þurfti að loka tveimur neðanjarðarlestar- stöðvum sem og hinu fræga spor- vagnakerfi Hong Kong þar sem mót- mælendur fylltu göturnar og gengu því einnig á akbrautum ætluðum fyr- ir sporvagnana. Hitinn í borginni náði 32 gráðum á meðan á mótmæl- unum stóð. Því leið fjöldi fólks niður vegna hitaörmögnunar í miðri kröfu- göngunni og þurfti sjúkraflutninga- fólk að bera fólkið á brott. Mótmælendur tóku margir börnin sín með sér í kröfugönguna og sögð- ust ekki vera að mótmæla sín vegna heldur fyrir komandi kynslóðir. Ein þeirra var Joanne Chow: „Dóttir mín spurði mig hvers vegar við þyrftum að mótmæla. Ég sagði henni að það væri vegna framtíðar okkar og frels- is vegna. Það væri mikil ógæfa ef við þyrftum að búa í samfélagi þar sem við þorum ekki að tjá skoðanir okkar af ótta við ofsóknir.“ Mótmæli í Hong Kong Hong Kong. AP. AFP. Reuters Hundruð þúsunda mótmæltu í Hong Kong í gær og stöðvuðu m.a. umferð í Causeway Bay-verslunarhverfinu. BANDARÍSKIR hermenn í Írak virðast hvergi vera óhultir um líf sitt og verða fyrir árásum úr launsátri á hverjum degi – meðal annars þegar þeir halda vörð um gasstöðvar eða rannsaka bílastuldi. Hefur þetta vak- ið spurningar um hvort árásirnar séu aðeins fjörbrot stjórnar Saddams Husseins eða merki um vaxandi ólgu meðal landsmanna og uppreisn. Embættismenn í bandaríska varn- armálaráðuneytinu brjóta heilann um hversu margir berjist gegn hernáms- liðinu, hversu vel skipulögð andstað- an sé og hvernig hægt sé að kveða hana niður. Sérfræðingar, sem meta áhættu fjárfestinga í hinum ýmsu löndum heims, telja talsverðar líkur á uppreisn í landinu og það gæti orðið til þess að Írakar yrðu af þeim fjár- festingum sem þeir þurfa til að rétta efnahaginn við. „Auðvitað bindast þeir samtökum“ Írakar, sem fréttamaður AP ræddi við á götunum í Bagdad, sögðust þrá frið og öryggi og vilja að árásunum linnti. Margir þeirra sögðu þó að Bandaríkjamenn ættu ekki að vera undrandi á reiði Íraka í garð þeirra, bæði meðal stuðningsmanna Sadd- ams og venjulegs fólks sem er óánægt með hversu lítið hernámsstjórninni hefur orðið ágengt við að koma lífi landsmanna í eðlilegt horf. „Þetta var fyrirsjáanlegt,“ sagði íraski stjórnmálafræðingurinn Saad al-Jawwad. „Hvað er til ráða fyrir mann þegar örvæntingin hefur náð tökum á honum? Það eina sem hann getur gert er að bera vopn og ögra þeim mönnum sem hernema land hans og gera ekkert fyrir hann eða fjölskyldu hans. Hvar er lýðræðið? Hvergi. Hvar er stöðugleikinn? Hvergi. Hvar er rafmagnið? Vatnið?“ Al-Jawwad sagði að margir Írakar hefðu snúist gegn hernámsstjórninni vegna tilrauna hennar til að fjarlægja leifarnar af stjórn Saddams Husseins og víkja frá tugum þúsunda lágt settra embættismanna og ríkisstarfs- manna úr Baath-flokknum. Þá ríkti mikil reiði meðal um 1,5 milljóna fyrr- verandi hermanna sem væru nú án atvinnu og hefðu ekki fengið laun í marga mánuði. „Hvað haldið þið að þessir menn geri? Standi kyrrir eins og sauðir? Auðvitað bindast þeir samtökum,“ sagði Al-Jawwad. „Og það leiðir til uppreisnar.“ „Fámennir hópar“ Bandarískir embættismenn segja að flestir Írakar séu Bandaríkja- mönnum þakklátir fyrir að steypa Saddam Hussein af stóli og binda enda á harðstjórn hans. Margir Írak- ar skilji að það taki hernámsstjórnina tíma að koma landinu á réttan kjöl. Embættismennirnir viðurkenna þó að þeir skilji ekki til fulls hvers vegna ofbeldið hefur aukist. Þeir viti ekki hversu margir berjast gegn hernáms- stjórninni eða hversu skipulögð and- staðan sé. Og þeir viti ekki hvernig hægt sé að kveða hana niður. Donald H. Rumsfeld, varnarmála- ráðherra Bandaríkjanna, neitaði því að Bandaríkjaher væri fastur í „kvik- syndi“ í Írak. „Því hefur verið lýst réttilega að öllum meiriháttar átökum er lokið og að í landinu eru enn marg- ir stuðningsmenn Baath-flokksins og liðsmenn sérsveita sem eru í nánum tengslum við Saddam Hussein,“ sagði Rumsfeld á föstudag. „Við gerum allt sem við getum til að uppræta þá.“ Rumsfeld kvaðst telja að „fámennir hópar“ tækju þátt í ofbeldinu, ekki stórar hersveitir eða uppreisnarsam- tök. Bandaríski undirhershöfðinginn John Abizaid, sem á að taka við af Tommy Franks sem yfirmaður her- liðsins í Írak, rakti ofbeldið til þriggja hópa: leifa af öryggissveitum Baath- flokksins; bókstafstrúaðra múslíma, meðal annars nokkurra útlendinga; og glæpamanna sem Saddam lét sleppa úr fangelsum fyrir stríðið. Fjörbrot liðsmanna Saddams eða uppreisn? Bagdad. AP. AP Írakar heilsa bandarískum hermanni í Bagdad. Bandarískir hermenn í Írak segjast aldrei vera óhultir um líf sitt þótt Írakar séu oft vingjarnlegir. SAMTÖK atvinnulífsins í Noregi telja nú, að fyrirtæki á Finnmörku og í Norður-Noregi geti áfram búið við lægri launatengd gjöld en önnur norsk fyrirtæki. Hefur Göran Pers- son, forsætisráðherra Svíþjóðar, fall- ist á að gera ekki frekari athuga- semdir við það en málið verður þó tekið upp aftur hjá ESA, Eftirlits- stofnun EFTA. Stjórnvöld á Íslandi og í Liechten- stein samþykktu í síðustu viku að gera ekki athugasemdir við þetta fyr- irkomulag á norskum byggðastyrkj- um en Norðmenn þurfa einnig að fá samþykki aðildarríkja Evrópusam- bandsins, ESB. Þar hafa Svíar verið erfiður ljár í þúfu en hafa nú eins og fyrr segir fallist á að láta málið kyrrt liggja. Segir Persson, að hann hafi engar sérstakar skoðanir á norskum byggðamálum en leggur um leið áherslu á, að vegna samkeppnissjón- armiða muni Svíar krefjast sömu undanþágna í byggðamálum. Í samningnum um Evrópska efna- hagssvæðið, EES, er ákvæði sem gerir EFTA-ríkjunum kleift að taka ákvarðanir í byggðamálum, sem ekki samrýmast meginreglum ESA. For- sendan er þó sú, að öll ríkin séu sam- mála um það og fyrir liggi „sérstakar ástæður“. Lögfræðingar ESB hafa hins vegar varað við þessu ákvæði og segja, að Norðmenn séu komnir út á mjög grátt svæði og óvíst hvaða laga- legar og pólitískar afleiðingar það geti haft. Svíar fall- ast á norsk- an byggða- styrk ANDSTÆÐINGAR refaveiða með hundum fögnuðu í gær eftir að neðri deild breska þingsins samþykkti með miklum meirihluta atkvæða frumvarp um algert bann við veið- unum. Ólíklegt er þó að frumvarpið verði að lögum vegna andstöðu lá- varðadeildarinnar við bannið. Frumvarpið var samþykkt með 362 atkvæðum gegn 154 í fyrrakvöld eftir að stjórn Tony Blairs forsætis- ráðherra ákvað á síðustu stundu að draga til baka málamiðlunartillögu um að refaveiðar með hundum yrðu háðar leyfi en ekki bannaðar. Margir af þingmönnum Verkamannaflokks- ins og sjö ráðherrar í stjórn Blairs, þeirra á meðal John Prescott aðstoð- arforsætisráðherra, greiddu atkvæði með banninu. Blair var ekki við- staddur atkvæðagreiðsluna. Búist er við að lávarðadeildin hafni banninu og hún hefur tvisvar sinnum fellt frumvörp um algert bann við refa- veiðum með hundum. Andstæðingar veiðanna fögnuðu samt niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Þeir segja að veiðarnar séu grimmilegar en stuðn- ingsmenn bannsins neita því og segja að þær séu árangursrík leið til að halda refastofnunum niðri og rótgróin hefð í dreifbýlinu í Bret- landi. Stjórnmálaskýrendur lýstu niður- stöðu atkvæðagreiðslunnar sem auð- mýkjandi ósigri fyrir Blair en hann varð einnig fyrir öðru áfalli í gær þegar Financial Times birti skoðana- könnun sem bendir til þess að 66% Breta treysti honum ekki. Aðeins rúm 30% aðspurðra sögðust ánægð með frammistöðu hans í embætti. Um 1.000 manns voru í úrtaki könnunarinnar. Refaveiðibann samþykkt London. AFP. Stjórn Blairs bíður ósigur í neðri deild þingsins

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.