Morgunblaðið - 20.07.2003, Blaðsíða 9

Morgunblaðið - 20.07.2003, Blaðsíða 9
urður að láta skotið fara upp á von og óvon. Rebbi slapp með skrekkinn og rauk í burt. Ytra-Kofagreni er gamalt og mikið grafið. Það er í stórgrýttri urð sem er mikið til gróin upp. Í fljótu bragði mátti sjá tólf munna á ýmsum stöðum. Þrír, nálægt hverjum öðrum, voru augljóslega mest umgengnir. Utandyra var töluvert af gæsadrasli, hausar, fiður, vængir, bein, eggjaskurn og ungaslitur. Bústnar fiskiflugur hringuðu yfir draslinu sísuðandi. Sigurður reyndi að kalla á yrð- linga eins blíðum tófurómi og hann kunni, en fékk engin viðbrögð. Ef til vill var rebbi bara að undirbúa flutning í þetta greni, eða ný- fluttur. Ummerkin gátu eins bent til þess. Áður en farið var úr byggð höfðu grenjaskyttunum borist fregnir af tveimur nýjum grenjum á þessum slóðum. Eftir nokkra bið og árangurslaus köll ákvað Sigurður að ganga norður Hálsinn í leit að öðru þessara áður óþekktu grenja og Sveinn fór aftur heim í Sauðakofa að sækja nesti og annað dót. Undirritaður var settur á vakt við grenið. Sigurður sagði að það leyndi sér ekki ef rebbi nálgaðist, það myndi heyrast á fuglunum. Það var ekki amalegt að taka þessa vakt. Sólin skein í heiði og hægur andvari stóð af jökli. Sólskríkjur voru á eilífu flögri og sýndu listilegar kúnstir í sólarbreyskjunni. Það ilmaði úr lynginu og fjallablómskrúðinu. Undarlegt til þess að hugsa að brátt verð- ur allt þetta land komið undir vatn. Yfir í Kringilsárrana, voru hreindýr á beit. Í einni hjörð voru kýr með kálfa og hópur tarfa hélt sig annars staðar. Á dýrin brá ljósum lit sem bendir til að vetrarfeldurinn hafi ekki verið alveg horfinn. Efst á rananum þar sem Hraukana ber við loft voru tarfar að snöfla og í sjónaukanum mátti greina tígulegar krúnurnar eins og loftnet upp úr brúninni. Í fjarska heyrðist niður Jöklu sem þyngdist eftir því sem á daginn leið. Kolmórauð og ófrýnileg byltist áin í farvegi sínum. Um síðir sneru félagarnir aftur, en rebbi lét ekki sjá sig. Sveinn sagði frá ref sem þeir félagar unnu á Tungunni í vor. Þar sem þeir litu yfir dal sást refur vera að snúast hinum megin. Sveinn lædd- ist yfir í hvarfi við rebba og naut leiðsagnar Sigurðar um talstöð. Refurinn uggði ekki að sér og gekk loks í 4–5 metra fjarlægð frá Sveini. Urðu það hans hinstu spor. Sigurður sagðist sjaldan hafa orðið jafnspenntur yfir nokkurri veiði og þessari þar sem hann fylgdist með í sjónauka og stýrði félaga sínum um talstöð. Sigurður hafði ekki fundið nein merki um nýtt greni. Þá var bara að leita betur. Við vorum ekki komnir ýkja langt þegar tófa sást sitja á brekkubrún og fylgjast með okkur. Hún var utan færis og lét sig hverfa niður fyrir brúnina. Við fórum á eftir og þá sást að þetta var smogin læða, dökkmórauð á búkinn en skottið loðið ljósum hárum. Hún endasentist í burt og hvarf brátt sjónum. Sveinn fór morguninn eftir yfir Sauðá að líta á greni sem þekkt eru þeim megin. Þar leitaði hann inn eftir allri Háöldu, eins í Grenisöldu og út í Grjótárhnjúk. Þar voru engin merki um grenjadýr. Sigurður ákvað að á leiðinni á grenið skyldum við leita betur að hinu meinta nýja greni. Upplýsingar höfðu borist um að það væri sunnan við Kofagrenin og undir klapparholti. Eftir þessari lýs- ingu var stefnan tekin á mikið klapparholt og viti menn, þar sást tófa skjótast á milli steina. Mórauð, smogin og með ljóst loðið skott – lík þeirri sem sást daginn áður. Við vorum hlémegin og tófan hafði ekki veður af okkur. Sigurður læddist í færi. Eftir drjúglanga stund heyrðist hvellur og von bráðar kom Sigurður með tófuna dauða. Sigurður sagðist hafa fylgst með tófunni þar sem hún fór út í móa og fór að grafa í einhverri skvompu. Þaðan kom hún með gæsaregg í kjaftinum og fór með það í gamlan lækjarfarveg og gróf aftur. Þetta var endurtekið þar til hún lagði af stað með síð- asta eggið í kjaftinum og hljóp í færi. Eggið reyndist geyma nær fullburða gæsarunga. Ekki fannst hið meinta nýja greni þrátt fyrir ítarlega leit og var nú haldið aftur á Ytra-Kofagreni. Sigurður beitti aftur sínum blíða tófuróm og viti menn. Loks birtist yrðlingur í einum munn- anum og náðist hann strax. Það var þá staðfest að í greninu var got. Sigurður taldi best að gefa greninu svolítið frí og fórum við á góðan útsýnisstað þar sem vel sá yfir, ef rebbi skyldi ákveða að koma við. Aftur var farið og kallað við grenið og náðist annar yrðlingur og ljóst að enn var hvolpur eða tveir inni. Þegar kíkt var með ljósi inn í munna mátti sjá að þar var nóg æti, m.a. stálpaður gæsarungi sem ekkert var farið að hreyfa við. Minnisstæðar tófur „Það getur tekið frá viku og upp í þrjár vikur að fullvinna greni,“ segir Sigurður, þar sem við bökuðum okkur í austur- lenskri fjallasól. „Þetta greni, Ytra-Kofagrenið, hefur verið okkur erfitt í gegnum árin. Það er alltaf einhver umgangur, en við höf- um aldrei náð dýri hér. Það er ekki ólíklegt að einhvers staðar í nágrenninu sé annað greni sem hún er í jöfnum höndum – en það höfum við ekki fundið þrátt fyrir mikla leit.“ Spurður um erfiðasta grenið á svæðinu nefnir Sigurður svo- nefnt Þuríðarstaðadalsgreni. „Það er stundum kallað „langa grenið“ því það er um 200 metra langt. Er í urðarhjalla og tófan færir sig til í því að vild. Ef við liggjum á því sést aldrei á allt grenið í einu. Við getum legið við annan endann og þá koma hvolparnir út um hinn!“ En er tófan sá skaðvaldur að þessi fyrirhöfn og kostnaður sé réttlætanlegur? „Það verður að halda tófustofninum niðri, því um leið og hann nær sér á strik þá leggst tófan á fuglinn og þegar hann nægir ekki þá fer hún í búfé. Það er alltaf að gerast. Við höfum dæmin fyrir okkur á Hornströndum, þar sem tófan er friðuð, að þar hefur fuglalífið látið mikið á sjá. Eftir að gæsinni fór að fjölga svona mikið hér upp úr 1970 hefur tófan aðallega lifað á henni yfir sum- arið. Tekið egg, unga og þá fullorðnu fugla sem hún nær í.“ En er einhver tófan sérstaklega minnisstæð? „Ja, við náðum aldrei Þuríðarstaðadalsgránu, eftir því sem við best vitum,“ svarar Sigurður. „Þær eru líka sumar minnisstæðar sem felldar voru á löngu færi. Um daginn skaut ég eina á tæplega 300 metrum – það er minnisstætt.“ Riffillinn Guðmundur Tófuriffillinn hans Sigurðar er kominn til ára sinna og gengur undir nafninu „Guðmundur“. Þetta er heilskeftur Sako, cal. .222. „Afabróðir minn, Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi, átti þennan riffil og notaði við grenjavinnslu norður á Melrakkasléttu. Riffillinn kom til okkar í Vaðbrekku 1976, þá var Guðmundur frændi orðinn 75 ára. Hann skaut líka hreindýr með þessum riffli og skildi gripinn eftir hjá okkur þegar hann hætti veiðum. Pabbi átti eins riffil, sem ekki var heilskeftur, það var aðal refariffillinn heima. Ég notaði „Guðmund“ til hreindýraveiða í ein 15 ár, þar til ég varð eftirlitsmaður með hreindýraveiðum. Þá fékk ég mér stærri riffil til hreindýraveiða og „Guðmundur“ varð tófuriffill.“ Á „Guðmundi“ er Carl Zeiss, Jena 4x miðunarsjónauki. „Það hefur hvorki verið átt við riffilinn, né hreyfður á honum sjónauk- inn frá því við fengum hann. Riffillinn fer nánast eins með öll skot. Á tófuna nota ég 40 gr. Nosler Ballistic Tip kúlur sem fara á 3.200 feta hraða á á sekúndu. Þessar kúlur eru sérstaklega gerðar til vargveiða og fella dýrin hratt og örugglega.“ Að heyra náttúruna tala En er þetta skemmtilegur veiðiskapur? „Þetta er sú veiðimennska sem færir mig næst náttúrunni,“ segir Sigurður. „Maður liggur úti dag eftir dag og fylgist grannt með öllu. Náttúran talar ákveðið mál og ég hef lært betur að hlusta eftir því síðan ég fór að liggja á grenjum. Maður heyrir til dæmis á fuglunum þegar tófa nálgast grenið. Sólskríkjurnar eru þó undantekning. Þær glamra allan daginn og gera sér jafnvel hreiður við greni! Minn uppáhaldsfugl á tófuveiðum er lóuþræll- inn, því hann segir skýrast frá því að tófan sé að koma.“ Sigurður hefur verið leiðsögumaður hreindýraveiðimanna um árabil og sjálfur stundað hreindýraveiðar frá unga aldri. Eru hreindýraveiðar og tófuveiðar sambærilegar? „Þetta er allt öðru vísi og erfiðari veiðiskapur. Hreindýrin eru svo stór skotmörk og mikið af þeim. Vandinn er að finna hvar dýr- in halda sig, svo tekur maður mið af vindátt og staðháttum. Eftir það er hægt að skjóta þau eins og beljur – svona oftast nær!“ En hvað finnst Sigurði um tófuna sjálfa? „Ég hvorki elska hana né hata. Það er oft aðdáunarvert hvað hún er útundir sig. Þær eru misvitrar eins og mennirnir og sumar mega teljast bráðsnjallar. Þuríðarstaðadalsgrána var mjög snjöll. Tófan er tækifærissinni, nærist á því sem nærtækast er hverju sinni. Lifandi bráð eða hræjum eftir því sem verkast vill.“ Vaktaskipti á veiðum Að kvöldi þriðja dags þurftu greinarhöfundur og Sigurður að fara til byggða. Gerðar höfðu verið ráðstafanir til að Hjörtur Friðriksson, bóndi og skytta í Skóghlíð, og Jón Hallgrímsson, fyrrverandi bóndi á Mælivöllum og þaulvanur tófubani, færu Sveini til aðstoðar. Þeir félagar biðu okkar á Aðalbóli og yfirheyrðu Sigurð vand- lega um allt sem laut að hegðun dýranna við grenið. Jón taldi allt benda til þess að hvolparnir væru ekki farnir að fara út, ekki síst það að refurinn skyldi fara inn í grenið og enginn kom út á móti honum. Það skýrði tregðu hvolpanna við að svara fagmannlegu kalli Sigurðar. Ekki höfðu félagarnir erindi sem erfiði. Enginn hvolpur kom úr greninu meðan þeir stóðu við og ekkert líf var í greninu sem þeir vísuðu á. Þeir Sveinn og Sigurður þurftu að fara tvær ferðir á Ytra-Kofagreni áður en síðasti hvolpurinn náðist. Aldrei sást til gráa refsins. Þetta sýnir að grenjavinnsla er þolinmæðiverk og getur tekið langan tíma. Það er legið við hvernig sem viðrar, jafnt í bleytu og vosbúð sem brakandi sól og þerri. Þrátt fyrir grenjavinnslu og vetrarveiði lifir tófan góðu lífi og engin merki um að hún sé í útrýmingarhættu. Því má vænta þess að grenjaskyttur hafi næg verkefni næstu sumur við að halda tóf- unni í skefjum. Við Ytra-Kofagreni var töluverður aðburður, fiður og slitrur af gæsum, bein og eggjaskurn. Morgunblaðið/Sigurður Aðalsteins Sveinn kom vel nestaður, með soðið hangikjötslæri og steikt lambalæri. Eftir hverja unna tófu er hefð að fá sér Prins-Polo og sykurlausan kóladrykk. Sveinn Pálsson frá Aðalbóli fór víða um gangandi og á sexhjóli í grenjaleitinni. Hálsinn var genginn fram og aftur í leit að ummerkjum um greni og tófur. Þessi stuðlabergshóll reyndist prýðilegur útsýnisstaður. Sveinn gægist inn í grenismunna, hvort þar leynist eitthvert líf. gudni@mbl.is MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 20. JÚLÍ 2003 B 9

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.