Morgunblaðið - 24.07.2003, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 24.07.2003, Blaðsíða 16
HÖFUÐBORGARSVÆÐIÐ 16 FIMMTUDAGUR 24. JÚLÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ ÞRJÁR stúlkur úr fimleikadeild Gróttu eru þessa dagana að und- irbúa sig fyrir þátttöku á erlendum mótum í sumar. Sif Pálsdóttir, sem er Íslandsmeistari í áhaldafim- leikum, mun taka þátt í heimsmeist- aramótinu sem haldið verður í Anaheim í Kaliforníu í ágúst en þær Hera Jóhannesdóttir og Harpa Snæ- dís Hauksdóttir eru á leið til Parísar þar sem Ólympíuleikar æskunnar verða haldnir í lok mánaðarins. Hlakka til að spreyta sig Stelpurnar hafa æft stíft að und- anförnu og segjast hlakka til þess að fá að spreyta sig. „Í vetur æfðum við fimm til sex sinnum í viku, þrjá tíma í senn en í sumar jukust æfingarnar um helming. Við æfum núna tvisvar á dag og fáum einn dag í frí,“ segir Sif. Það eru þó engin þreytumerki að sjá á þeim, enda eru þær hreystin uppmáluð og segjast alltaf hafa jafn gaman af þessu. „Þetta er mjög skemmtilegt. Auðvitað tekur þetta tíma en maður fær svo mikið út úr þessu í staðinn,“ segir Hera. Hún lætur ekki nægja að æfa fimleika sex daga vikunnar heldur spilar hún einnig á fiðlu. Hún segir að það gangi vel að samhæfa þetta, til þess þurfi bara skipulag. Stelpurnar hafa allar æft fimleika í mörg ár. Þær segja að einbeitingin sé lykillinn að góðum árangri. „Svo er mikilvægt að passa svefninn og mataræðið og það skiptir líka máli að vera jákvæður og brosa,“ segir Harpa. Stuðningur frá Seltjarnarnesbæ Fimleikadeild Gróttu hefur náð miklum árangri að undanförnu. Í vetur varð félagið meðal annars bik- armeistari í áhaldafimleikum í fyrsta skipti. Sif varð auk þess Ís- landsmeistari fjórða árið í röð, Harpa varð þar í 2. sæti og Hera í 6. sæti. Auk þess hlutu Sif og Harpa meistaratitla á unglingamóti og eldri flokkamóti í vor. Guðrún B. Vilhjálmsdóttir, stjórnarmaður í fimleikadeildinni og móðir Hörpu, þakkar þennan góða árangur meðal annars stuðningi bæjarfélagsins. „Seltjarnarnesbær hefur í gegn- um árin stutt vel við bakið á íþrótta- félaginu. Það er ekki nóg að skapa góða aðstöðu heldur þarf að styðja félögin fjárhagslega þannig að stjórnarfólk hafi svigrúm til þess að sinna uppbyggilegu starfi. Við telj- um okkur hafa fengið það. Eins skiptir máli að skólinn hér hefur verið einsetinn og íþróttastarf hefur byrjað strax eftir skóla. Þetta gerir foreldrum og iðkendum kleift að sameina skóla og íþróttir,“ segir Guðrún. Hún nefnir einnig að þjálfarar fé- lagsins séu allir fyrsta flokks og gott starf fari fram í félaginu. Fimleikar hafa verið í mikilli sókn að undanförnu og eru nú í 5. sæti yf- ir þátttakendafjölda í íþróttagrein- um. Guðrún segir að fimleikar eigi að geta hentað öllum krökkum. „Það skiptir mestu máli hvað hver og einn vill leggja á sig þótt hæfi- leikar einstaklingsins skipti auðvit- að líka máli. Það þarf aga og skipu- lag til þess að ná góðum árangri og þegar fram í sækir er þolinmæði nauðsynleg því það getur tekið lang- an tíma að ná framförum. Það er líka mikilvægt að þessir krakkar fái hvatningu heiman frá. Það fer mikill tími í æfingar hjá þeim og oft þarf fjölskyldan að aðlaga sig að því,“ segir hún. Hópfimleikar vaxandi Hún segir að hópfimleikar hafi farið mjög vaxandi hér á landi en þar er lögð áhersla á gólfæfingar, trambólín og dans. „Stúlkurnar keppa í hópi og samhæfing skiptir miklu máli. Æfingar eru ekki eins miklar og í áhaldafimleikum og því hentar þetta fleirum. Auk þess er þetta íþrótt sem fólk getur stundað nánast alla ævi.“ Að sögn Guðrúnar eru 14 stúlkur frá Gróttu nú staddar í Portúgal þar sem þær taka þátt í stórri hópfimleika sýningarhátíð sem nefnist Gymnastrata. Íslenskir þátttakendur á hátíðinni eru hátt í tvö hundruð. Guðrún segir fimleika ekki síður vera fyrir stráka þótt stelpur séu enn í meirihluta. „Við höfum verið með yngri stráka hér, frá 6 og upp í 10 ára, en höfum ekki enn lagt út í það að vera með afrekshópa fyrir drengi. Við finnum þó fyrir heil- miklum áhuga hjá strákum. Fim- leikar eru auk þess góð undirstaða fyrir aðrar íþróttir. Þeir geta meðal annars verið fyrirbyggjandi fyrir fótboltastráka, sem verða oft stirðir, enda mikið um teygjur í fimleik- unum. Við höfum meira að segja verið með sérstaka fótboltahópa hér,“ segir Guðrún. Fimleikastúlkurnar sýndu listir sínar í fjörunni við Gróttu en áður fyrr voru fimleikar oft stundaðir í fjörum. Morgunblaðið/Árni Torfason Harpa Snædís Hauksdóttir gerir æfingar á slánni. Harpa, Sif og Hera hafa allar æft fimleika í mörg ár. Einbeiting skiptir mestu máli Seltjarnarnes Fimleikastúlkur æfa fyrir stórmót í Kaliforníu og París

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.