Morgunblaðið - 24.07.2003, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - 24.07.2003, Blaðsíða 34
MINNINGAR 34 FIMMTUDAGUR 24. JÚLÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Soffía Gísladóttirfæddist að Hofi í Svarfaðardal 15. mars árið 1906. Hún lést þann 18. júlí síð- astliðinn á Dalbæ, dvalarheimili aldr- aðra á Dalvík. For- eldrar hennar voru Ingibjörg Aðalrós Þórðardóttir hús- freyja, f. 29. sept. 1869 í Holárkoti, d. 28. jan. 1952 á Hofi og Gísli Jónsson bóndi, f. 11. nóv. 1869 á Syðrahvarfi, d. 8. jan. 1964 á Akureyri. Systkini Soffíu eru öll látin. Þau voru, Hall- dóra, Gunnlaugur, Jón, Dagbjört og fóstursystirin Hallfríður Ingi- björg Kristjánsdóttir. Soffía var ógift. Fóstursonur hennar er Gísli Símon Pálsson bú- settur á Akureyri. Soffía bjó á Hofi fram til ársins 1965 að hún fluttist til Ak- ureyrar þar sem hún starfaði í Niðursuð- unni og síðar í Hrað- frystihúsinu. Soffía var mikil hannyrða- kona alla tíð, hún bæði óf og prjónaði. Hún var formaður í stjórn kvenfélagsins Tilraunar og innti af hendi ýmis störf fyr- ir verkalýðsfélagið Einingu á Akureyri. Útför Soffíu verður gerð frá Dalvíkurkirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 13.30. Jarðsett verður í Vallakirkjugarði í Svarf- aðardal. Af eilífðarljósi bjarma ber, sem brautina þungu greiðir. Vort líf, sem svo stutt og stopult er, það stefnir á æðri leiðir. Og upphiminn fegri en auga sér mót öllum oss faðminn breiðir. (Einar Benediktsson.) Stóra Sossa er farin í faðm himins- ins og víst er að vel verður á móti henni tekið. Hún var Svarfdælingur í húð og hár og hafði faðm svo hlýjan að hún gat tekið á móti okkur öllum hvenær og hvar sem var. Hún stýrði búi ásamt bróður sínum, afa okkar á Hofi eftir að hann varð ekkjumaður á besta aldri. Hún virtist alltaf hafa tíma, nóg að gefa og var örlát á allt, hvort sem það var af andlegum eða veraldlegum toga. Við nutum þess að vera hjá þeim á Hofi. Oftar en ekki var rifist um það hvert okkar mætti fara, ef það var utan hins hefð- bundna sumar- og jóladvalartíma sem var árviss meðan hún bjó þar eða fram til 1965 að hún flyst til Ak- ureyrar. Þar fengum við einnig að njóta nærveru hennar og hlýju og varð hún alltaf stór og sterk persóna í okkar augum, ekki síst eftir fráfall mömmu. Hún var ættfróð svo eftir var tekið, hafði stálminni, sagði skemmtilega frá og átti auðvelt með að hemja okkur óþekktarormana með sögum og vísum sem hún kunni firnin öll af. Ef við vorum sérstak- lega óþæg fór hún með þuluna um ókindina í dalnum og þá vorum við fljót að spekjast. En oftast vorum við þó spök og fengum fínar sögur. Hún var alltaf svo stolt af okkur, við vor- um af „réttu“ ættinni og fengum öll eitthvað af ættareinkennunum sem hún var svo nösk á að greina og hampa þegar það átti við. Það gat bara verið flati hnakkinn hans Þórð- ar afa á Hnjúki eða háraliturinn hennar Dagbjartar systur sem gat glatt hana og gert hana svo dæma- laust ánægða að okkur fannst við vera þó nokkurs virði. Hún gaf okk- ur gott veganesti út í lífið og hélt því áfarm fram á síðasta dag. Það var alltaf gott að sækja hana heim og við fórum ríkari frá henni í hvert skipti. Guð blessi hana fyrir allt. Arnfríður, María, Soffía, Guðrún og Ingibjörg. Hún Soffía afasystir mín var kjarnakona, enda kölluðum við systkinin hana Stóru Sossu, reyndar líka til aðgreiningar frá alnöfnu sinni, Soffíu systur. Hún var lengst af full af orku og vinnuþrekið ótrú- legt og þegar líkaminn fór að bila, hélzt vitið algjörlega óskert. Hún mundi nánast allt, það sló aldrei út í fyrir henni, en síðustu árin þurfti maður að hafa svolítið hátt svo hún heyrði. Hún varð líka nærri hundrað ára. Ég var ekki gamall þegar ég byrj- aði að dvelja sumarlangt á Hofi hjá Jóni afa og Stóru Sossu, en saman stunduðu þau búskapinn á Hofi og eftir að Arnfríður amma mín dó, langt um aldur fram, sá Soffía um heimilið allt þar til afi brá búi og fóst- ursonur hans Agnar tók við. Þá flutti hún til Akureyrar. Það voru dýrðar dagar á Hofi. Þar var alltaf blíða ut- an sem innan dyra alla sumardaga í minningunni en stundum varð vetr- arhamurinn mikill í kringum jólin, en það var bara skemmtun líka. Soffía varð eins konar amma og átti í okkur hvert bein. Hún umbar í okk- ur ólætin, hún huggaði okkur þegar þannig stóð á og það var hlýtt og gott að kúra hjá henni, sérstaklega ef sál- in var aum í ungum dreng. Svo var ótrúlega oft hægt að lesa sögu eða taka í spil. Soffía var grandvör kona og gerði sitt til að innræta okkur guðsótta og góða siði án þess að ég fjölyrði nokk- uð um árangurinn. Hún blótaði aldr- ei, en fyrir kom að hún þurfti að leggja áherzlu á eitthvað, til dæmis þegar þurfti að vanda um við mig. Það kom sem sagt fyrir! Þá sagði hún gjarnan: Ja, hvert í hoppandi og ef málið var alvarlegt kom: Ja, hvert í hoppandi gamli hrognadallur. Þetta þótti okkur svo fyndið að skammirn- ir urðu að engu við hlátrasköllin, en skilaboðin voru engu að síður skýr og meðtekin og allt féll í ljúfa löð með mjólkurglasi og ástarpungum. Já, það var góður skóli að vera á Hofi sem barn, en því miður naut þeirra daga ekki eins lengi og helzt hefði verið kosið. Á Hofi lærði maður að vinna, umgangast dýrin og náttúr- una með tilhlýðilegri virðingu og bera virðingu fyrir sér eldra og reyndara fólki. Þegar Soffía fluttist til Akureyrar var ekki síður gaman að heimsækja hana, fyrst í Sniðgötuna og síðan Þórunnarstrætið. Maður var varla kominn inn fyrr en eldhúsborðið var hlaðið af bakkelsi. Kleinurnar, ást- arpungarnir og flatbrauðið sem hún bakaði var sérstakt lostæti að ekki sé talað um seydda rúgbrauðið. Þá var nú ekki verið að spara smérið. Þegar hún bauð svo í gangnasúpuna var sannkölluð veizla, en það var kjöt og kjötsúpa, sem hún eldaði aðeins um göngur á haustin eftir sérstakri leyniuppskrift. Og það var ekki verið að spara matinn. Hún bar endalaust í móttækilega unglinga sem virtust, að minnsta kosti í þá daga, geta látið endalaust ofan í sig. Og svo var oft tekið í spil. Já, þá var nú munur að lifa. Þegar móðir okkar dó frá sjö börnum, á aldrinum 6 til 19 ára, reyndist Soffía okkur öllum og pabba einstök stoð og stytta. Var tilbúin að aðstoða hvenær sem var og víst er að eitthvað hefur matarreikn- ingurinn hjá þeirri gömlu hækkað um þær mundir. Henni verður seint þakkað allt sem hún gerði fyrir okk- ur systkinin. Soffía var afar minnug og ætt- fræðiþekking hennar ótrúleg. Ég held ég fari meira að segja rétt með það að hún hafi verið fengin til að leiðrétta ættfræðirit og kirkjubæk- ur. Hún vissi ýmislegt. Hún gat rak- ið ættir okkar systkinanna langt aft- ur í aldir og alltaf var maður jafn upp með sér þegar í ljós kom að maður var kominn af norskum kóngum! Hún gat líka verið dómhörð og þegar talið barst að fólki, sem henni var ekki að skapi, var það ekki skylt okk- ur, heldur komu þar saman ættir. Þetta sagði hún meðal annars um ónefndan stjórnmálamann, en Soffía var gallharður stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins. Að rekja ævi og athafnir Soffíu Gísladóttur frá vöggu til grafar er efni í heila bók. Henni var svo margt til lista lagt og svo margt gott lét hún af sér leiða. En einn þátt vil ég nefna enn. Upp úr 1930 tók hún að sér ung- an dreng frá Siglufirði, Gísla Símon Pálsson, en Soffía var einhleyp alla sína ævi. Honum reyndist hún og Svönu konu hans eins og bezta móðir og studdi eins og henni var unnt. Hún naut svo ómældrar aðstoðar Gísla, eða Lalla eins og hann var allt- af nefndur, til aðgreiningar frá tveimur Gíslum á Hofi, þegar heilsan fór að bila. Lalli og Svana, meðan hennar naut við, voru hennar stoð og stytta í hvívetna og ófáar voru ferðir þeirra út á Dalvík til að heilsa upp á Soffíu, sem varði síðustu æviárum sínum á Dvalarheimilinu Dalbæ. Elsku Lalli. Það er mikill harmur að þér kveðinn. Þú hefur með stuttu millibili misst bæði eiginkonu og fóstru. Guð veri með þér og styrki þig í sorginni. Þær bíða þín í himna- ríki. Hjörtur. SOFFÍA GÍSLADÓTTIR Innilegar þakkir og kveðjur til allra sem sýndu okkur samúð og vinarhug við andlát og útför okkar ástkæra fósturföður, SIGURBJÖRNS JÓNSSONAR, Vallarbraut 3, Akranesi. Guð blessi ykkur öll. Elí Halldórsson, Auður Þorvaldsdóttir, Sigrún Halldórsdóttir, Benedikt Jónsson, Anna Leif Elídóttir, Ásgeir Kristinsson, Þóra Björg Elídóttir, Sóley Ósk Elídóttir, Árni Freyr Elíson, Emma Bachmann, Einar Daníelsson, Rúnar Dór Daníelsson, Sandra Sif Benediktsdóttir, Díana Dröfn Benediktsdóttir og barnabarnabörn. Innilegar þakkir sendum við öllum þeim er sýndu okkur samúð og hlýhug við andlát og útför elskulegs eiginmanns míns, föður okkar, fósturföður, tengdaföður, sonar og afa, BIRGIS KRISTINS SCHEVING, Birkiteigi 3, Keflavík. Ágústa Erlendsdóttir, Sigmar Scheving, Linda Helgadóttir, Davíð Scheving, Harpa Frímannsdótir, Erlendur Karlsson, Elísabet Andrésdóttir, Vilborg Sigríður Tryggvadóttir, Christopher MacNealy, Margrét Scheving, Andri Scheving, Andrés Már Erlendsson, Linda Malín Erlendsdóttir og Sandra Ösp MacNealy. Kveðja frá Skáta- hreyfingunni Með þessum örfáu orðum vill Skátahreyf- ingin kveðja fyrrver- andi starfsmann sinn til margra ára, Sigurð Jónsson. Sigurður kom til starfa hjá okkur þegar um hafði hægst hjá honum á fullorðinsárum og annaðist hann móttöku, síma- vörslu og ýmis störf í Skátahúsinu við Snorrabraut. Hann sinnti starfi sínu af mikilli alúð og samviskusemi þessi ár sem hann starfaði hjá okk- ur og átti auðvelt með samskipti við unga sem aldna sem erindi áttu á SIGURÐUR JÓNSSON ✝ Sigurður Jóns-son frá Einars- stöðum í Reykjadal fæddist 23. janúar 1920. Hann lést á Sóltúni í Reykjavík 18. júní síðastliðinn og var útför hans gerð frá Grafarvogs- kirkju 3. júlí. staðinn. Ekki hafði Sigurður verið skáti á yngri árum en það kom ekki að sök í starfi hans, hann var fljótur að átta sig á starfsum- hverfinu og var í reynd sannur skáti í anda. Ávallt var létt yfir Sig- urði og stutt í hlátur- inn og var gaman að ræða við hann um menn og málefni, en hann hafði víða komið við á lífsleiðinni og margt reynt. Ekki var ævi hans án áfalla en ekki var á honum að heyra að hann bæri kala til neins og ef eitthvað var gerði hann lítið úr áföllum sínum. Undirritaður vill fyrir hönd skátahreyfingarinnar þakka Sigurði störf hans og samfylgd og votta börnum hans, ættingjum og vinum samúð við fráfall hans. Með skáta- kveðju, Þorsteinn Fr. Sigurðsson, framkvæmdastjóri BÍS. ✝ Kristín Einarssonfæddist í Reykja- vík 4. ágúst 1914. Hún lést í Sóltúni 12. júlí síðastliðinn. Foreldr- ar hennar voru Vil- hjálmur Bjarnason, f. í Hjallakróki í Ölfusi 3. des. 1867, d. 5. mars 1946, og Guðný Magnúsdóttir, f. á Mel í Þykkvabæ 28. apríl 1873, d. 30. janúar 1954. Kristín var yngst ellefu systkina, sem öll eru látin. Hinn 2. júní 1934 giftist Kristín Erlendi Einarssyni múrarameistara, f. 12. des. 1912. Foreldrar hans voru Einar I. Er- lendsson, f. í Reykjavík. 15. okt.1883, d. 24. maí 1968, og Sig- ríður Lydía Thejll, f. í Ólafsvík 9. jan. 1877, d. 22. des. 1943. Kristín og Erlendur bjuggu nær allan sinn bú- skap á Tjarnarstíg 9 á Seltjarnarnesi. Börn þeirra eru: Ein- ar, f. 1935, maki Turid Erlendsson, þau eiga fimm börn; Erla, f. 1936, maki Bragi Guðmundsson, þau eiga tvö börn; Árni, f. 1948, maki Inga Hrönn Péturs- dóttir, þau eiga þrjú börn; Snorri, f. 1949, maki Hanna Erlends- son, þau eiga þrjú börn; Sigrún, f. 1952, maki Jón Ingi Haraldsson, þau eiga þrjú börn; og Helgi, f. 1959, hann á eitt barn. Barnabarnabörnin eru 19. Útför Kristínar verður gerð frá Fossvogskirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 13.30. Með söknuði í hjarta kveðjum við ömmu okkar og tengdaömmu, Lillu. Þegar við hugsum til baka gleðj- umst við þeirra stunda sem við átt- um með henni. Minnisstæðust eru okkur jólaboðin og sunnudagsheim- sóknir á Nesinu. Alltaf var vel tekið á móti okkur og hafði amma ein- stakt lag á að gera heimsóknir okk- ar sérstakar með ýmsum kræsing- um sem hún bar fram með miklu stolti. Það gladdi hana mikið að sýna okkur allar fjölskyldumynd- irnar í myndaherberginu sem henni þótti svo vænt um að eyða stundum í. Hún var alltaf svo kát og fjörug og átti hún auðvelt með að smita þá sem voru nálægt henni af léttleika og gleði. Við viljum senda afa Lamba og fjölskyldu okkar innilegustu sam- úðarkveðju. Vigdís Einarsdóttir, Jón Auðunn Gunnarsson, Er- lendur Einarsson, Vigdís Hulda Vignisdóttir, Hans Kristján Einarsson, Hrefna Hauksdóttir. KRISTÍN EINARSSON Afmælis- og minningargreinum má skila í tölvupósti (netfangið er minning@mbl.is, svar er sent sjálfkrafa um leið og grein hefur borist) eða á disklingi. Ef greinin er á disklingi þarf út- prentun að fylgja. Nauðsynlegt er að tilgreina símanúmer höfundar og/eða sendanda (vinnu- síma og heimasíma). Þar sem pláss er takmarkað getur þurft að fresta birtingu greina, enda þótt þær berist innan hins tiltekna frests. Nánari upplýsingar eru á mbl.is. Um hvern látinn einstakling birtist formáli og ein aðalgrein af hæfilegri lengd á útfarardegi, en aðrar greinar skulu ekki vera lengri en 300 orð, u.þ.b. 1.500 slög (með bilum) eða um 50 línur í blaðinu (17 dálksentimetrar). Tilvitnanir í sálma eða ljóð takmarkast við eitt til þrjú erindi. Einnig er hægt að senda örstutta kveðju, HINSTU KVEÐJU, 5–15 línur, og votta virðingu án þess að það sé gert með langri grein. Greinarhöfundar eru beðnir að hafa skírnarnöfn sín en ekki stuttnefni undir greinunum.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.