Morgunblaðið - 27.07.2003, Blaðsíða 9

Morgunblaðið - 27.07.2003, Blaðsíða 9
mér hjálminn svo þetta hefur verið eitthvað í hugsuninni, ef veðrið yrði þannig. Svo var þarna bara ládeyða og slétt og ekki hægt að fá það betra. Við bundum bátinn um klukkan hálftíu og gengum svo austur með bjarginu tvö til þrjú hundruð metra að svokölluðu Urðarnefi. Ég var búinn að kortleggja leiðina. Ég vissi alveg fyrirfram að það var ekki um aðra leið að ræða þarna.“ En fyrsta hluta leiðarinnar, um 140 metra, hafði Ragn- ar ekkert kannað og trúlega enginn klifið nokkru sinni áður. – Þú varst búinn að sannfæra sjálfan þig um það að ef þú kæmist upp í sylluna sem þú kallar Efri-Þræðing að þá kæmist þú alla leið upp? „Já, efri hlutann var ég búin að kanna, en í þessum syllum eða þræðingum eru oft lóðréttir strengir, sem koma þvert á syllurnar og skera þær í sundur. Í þessari syllu er einn slíkur en ég hafði einu sinni farið yfir hann áður.“ Kjartan settist í var undir stein í fjörunni og Ragnar lagði til uppgöngu. Ragnar hafði engan útbúnað nema bretahjálminn á höfði sem notaður var við sig í bjargið. Að öðru leyti var hann venjulega búinn, berhentur og í lágum gúmmístígvélum. Hann saknaði bjarggoggsins, sem var áhald áþekkt fiskigoggi en sterklegra, og notað í bjarginu til að ýta frá sér lausu grjóti og höggva spor. Hann hafði með sér 30 faðma línu sem hann ætlaði að nota ef hann þyrfti að snúa við. Það verður að sam- komulagi á milli þeirra að þegar Ragnar veifi til Kjartans skuli hann fara á bátnum yfir að Horni. Leiðin upp Urðarnef til að komast upp á sylluna sem kölluð er Efri-Þræðingur liggur upp klappir og snar- brattar skriður upp í um 140 metra hæð, eða sem svarar tæpum tveimur Hallgrímskirkjuturnum. – Hvernig gekk uppgangan þennan fyrsta hluta? „Þetta gekk nú bara betur en ég bjóst við, það skiptust á nokkuð brattar aurskriður og klappir, en það þýddi náttúrulega ekkert að renna af stað þá hefði maður húrr- að alveg niður í sjó.“ Þegar Ragnari tekst að komast upp á sylluna Efri- Þræðing, sem hann þekkti, veifaði hann til Kjartans bróður síns að fara af stað á bátnum yfir að Horni. Ekki þarf að taka fram að ekkert þýðir að kalla þegar menn eru komnir í þessa hæð, fuglagargið er svo mikið. Björninn var nú hins vegar ekki alveg unnin hjá Ragn- ari hann átti eftir að fikra sig austur eftir syllunni um þrjú hundruð metra að svokallaðri Harðviðrisgjá. Nafnið Harðviðrisgjá er ekki sérlega blítt og vísar til þess að byljir sem skella á börmum gjárinnar kalla fram drunur eða skelli. Á þessari leið var syllan víða mjög tæp og á einum stað lokuð af svokölluðum streng eða berggangi. „Mesta hættan var að fara yfir strenginn, það hefði ekki verið gott fyrir lofthrædda því ef þú misstir ein- hverntíma hand- eða fótfestu varstu farinn í fjöruna og þá þurfti ekki að spyrja að leikslokum. En það þýddi ekk- ert að hætta við. Báturinn var farinn.“ Á barmi hengiflugs Strengurinn sem svo er kallaður er berggangur, einn til tveir metrar á breidd, sem veðrast hægar en bergið umhverfis. Hann stendur því eins og lóðréttur veggur út úr bjarginu og lokar syllunni og stendur út fyrir hana. Þetta þurfti Ragnar að fikra sig yfir í algjöru manndráps- hengiflugi og hafði ekki á neitt að treysta nema eigin færni og styrk. „Ég byrjaði á því að finna grastoppa sem vaxa út úr sprungum til að grípa í með höndunum og tyllti fótunum á smá stalla. En þessar hand- og fótfestur voru svo veik- ar að ég mátti ekki sleppa nema einni í einu. Færa fyrst annan fótinn og svo hinn, standa síðan í báða fætur og færa aðra höndina og svo koll af kolli, svona smáfikraði ég mig yfir.“ Þegar Ragnar er kominn yfir strenginn er syllan breið og honum létt í skapi. Á leiðinni sem eftir er yfir að Harð- viðrisgjá, eru síðan nokkrar tæpur þar sem syllan er örmjó og ekkert má út af bera, föt geta krækst í nibbur, ein vanhugsuð hreyfing og allt er búið. Harviðrisgjáin var Ragnari vel kunnug. Þessi mikla náttúrusmíð er með nokkrum björgum eða stöllum sem þarf að klífa og það hafði hann gert áður. Frá sjó séð virð- ast sumar þessar torfærur ekki miklar en eru í raun lóð- réttir hamraveggir og algjörlega ófærir nema vönum og fimum bjargmanni. Að sjá á ljósmynd frá efri brún gjár- innar er hún nánast þverhnípt og eins og að sleppa úr há- karlskjafti að komast þar upp á brún. Ragnar stóð á brúninni í nærri 400 metra hæð um klukkan hálftólf og gekk síðan sem leið liggur niður að bæjunum á Horni og kemur þangað um miðnætti. Hann var nokkuð hruflaður á höndum eftir átökin við bjargið, en vel á sig kominn. Hefði getað klifið Everest Eftir að hafa hlýtt á frásögn Ragnars af þessu ein- stæða afreki hans, sem hann þó lýsir af eðlislægri hóg- værð, blasir það við að spyrja hann hvort það hafi haft áhrif á hann að Hillary kleif Everest um tveimur vikum áður. „Ég veit það ekki, jú eflaust hef ég heyrt það í útvarp- inu og það getur vel verið að það hafi spilað eitthvað inn í. En ég hugsa að ég hefði getað klifið Everest, ég var létt- ur á mér á þessum árum, en svo veit maður ekki hvort maður hefði þolað þunna loftið.“ Þessir dagar með Ragnari í Reykjarfirði og förin norð- ur undir Hornbjarg verða okkur leiðangursmönnum ógleymanleg. Ragnar er um margt athyglisverður maður og tilgangurinn með þessari grein er ekki að ausa hann óverðskulduðu lofi heldur að skrásetja þetta merka afrek hans áður en það fellur í gleymsku. Um leið er hann verð- ugur fulltrúi þess dugnaðar- og hagleiksfólks sem háði sína lífsbaráttu á Hornströndum. Morgunblaðið/Sigurgeir f Hornbjarg fyrir hálfri öld, benti á leiðina sem hann fór og lýsti átökunum við bjargið.                     Myndir frá vinstri Nágrenni staðarins þar sem Ragnar fór í land til að klífa bjargið. Fjalirnar við Hornbjarg eru sérkennileg náttúrusmíð. Leiðangursmenn um borð í Sædísi úti fyrir Horn- ströndum. F.v. í aftari röð: Halldór Sveinsson, Sigurður Stefánsson skipverji, Reimar Vilmundarson skipstjóri, Guðmundur H. Guðjónsson, Daníel Guðjónsson, Páll Guð- mundsson og Guðlaugur Sigurgeirsson. Sitjandi f.v.: Elín Ragnarsdóttir Jakobssonar, Ragnar Jakobsson og Börk- ur Grímsson. Sjórinn var svo stilltur að hægt var að sigla bátnum undir fossinn í Blakkabás og þvo svo rúðurnar. Morgunblaðið/Sigurgeir Höfundar texta eru Börkur Grímsson, útibússtjóri Íslands- banka í Vestmannaeyjum, og Guðmundur H. Guðjónsson, organisti Landakirkju. MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 27. JÚLÍ 2003 B 9

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.