Morgunblaðið - 10.08.2003, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 10.08.2003, Blaðsíða 15
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 10. ÁGÚST 2003 C 15 NIGEL Dower er hógvær og glað-lyndur maður, ólíkur þeirri stað-almynd sem fólk vill gjarnangera sér af hinum drungalegaog þungbrýnda heimspekingi. Hann sérhæfir sig í alþjóðasiðfræði, þó sér- staklega því sem snýr að þróunar- og um- hverfismálum. Nigel er prófessor í siðfræði við Háskólann í Aberdeen, þar sem hann býr ásamt konu sinni. „Ég man ekki eftir því að hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að fara að kenna heimspeki. Stundum finnst mér eins og maður taki ekki ákvarðanir, heldur taki þær sig einhvern veginn fyrir mann af sjálfu sér. Þannig virðist mér stundum eins og sið- fræðin hafi hreinlega valið mig frekar en ég hana.“ Nigel segir svið sitt stundum vera ranglega nefnt „hagnýt siðfræði“ og liggi þá sú meining að baki að fræðin sjálf séu í fíla- beinsturnum fræðimennskunnar, en sé síðan stundum beitt á vandamál í „raunverulega heiminum“. Þetta segir Nigel afleitt. „Fólk verður að átta sig á því að siðfræði er alltaf hagnýt, því hún tekur á heiminum eins og hann er, og það er í eðli siðfræðinnar að vera í tengslum við mannlegan veruleika. Það að takast á við vandamálin vekur spurningarnar sem siðfræðin spyr og fæst við. Þessi glíma skapar líka lausnirnar og aðferðirnar sem við beitum. Hvernig urðu annars lögin til? Hvernig urðu siðareglur til? Þetta eru allt af- urðir „hagnýtingar“ siðfræðinnar. Siðfræðin er í eðli sínu hagnýtt í allri mannlegri breytni.“ Óréttmæt árás á Írak Nigel var og er enn mikill andstæðingur árásar „Bandalags hinna viljugu“ á Írak og hélt magnþrungið erindi um stríðið gegn hryðjuverkum í Háskóla Íslands í maí síðast- liðnum. Hann telur ekki mögulegt að réttlæta árásina á neinn skynsamlegan hátt. „Sjálfur er ég af grundvallarástæðum mótfallinn hvers konar stríði. Þó er oft talað um „Jus ad bellum“ eða réttláttar ástæður fyrir stríði, en slíkar ástæður voru ekki fyrir hendi. Okkur ber að virða sjálfræði þjóða, þó okkur mislíki stjórnendur þeirra. Einnig ber okkur að virða það ferli sem samráð alþjóðasamfélagsins er, það er ófullkomið, en það er eini vettvang- urinn fyrir heiminn til að ná ásættanlegum niðurstöðum í málum. Hver er raunveruleg ástæða hryðjuverka? Ég tel að hún sé mjög einföld. Hryðjuverka- samtök blómstra þar sem fátækt og vonleysi þrífast. Þá er ég ekki að segja að hryðju- verkamennirnir sjálfir séu fátækir, margir þeirra hafa það mjög gott, heldur sækja þeir bæði sannfæringu sína og fylgismenn í bágt ástand fólksins og tilfinningu þess um kúgun og óréttlæti. Þess vegna ætti stríðið gegn hryðjuverkum að vera stríð gegn fátækt og óréttlæti. Við gætum eytt miklu af stuðningi við hryðjuverkamenn með því að auka rétt- lætið. Það sem drífur áfram sjálfsmorðs- sprengjumenn í Palestínu er ósköp einfalt, það er tilfinningin um magnleysi gagnvart óréttlátum valdhöfum og nístandi fátækt. Menn segja stundum að tilgangurinn helgi meðalið, en með því að beita þessum með- ölum erum við að menga tilganginn. Það er til orðtak sem Gandhi notaði, sem segir í grófri þýðingu: Meðölin móta tilganginn. Þannig gröfum við undan frelsinu og réttlæt- inu með því að beita frelsisskerðingu og óréttlátum aðferðum í baráttunni fyrir því. Menn tala gjarnan um stríðið gegn hryðju- verkum sem baráttu til að vernda öryggi fólks á Vesturlöndum. En hvaða öryggi eru menn að tala um? Það öryggi sem barist er fyrir í stríðinu gegn hryðjuverkum er ein- ungis brot af því öryggi sem borgararnir þurfa. Við þurfum líka efnahagslegt, sam- félagslegt og heilsufarslegt öryggi. Stríðið gegn hryðjuverkum hefur í raun minnkað allsherjaröryggi fólks á Vesturlöndum, svo ekki sé minnst á þá vanlíðan sem það skapar í arabaheiminum. Við er- um að troða okkar gildum upp á araba og segja: „Þetta er rétta leiðin til að hugsa og lifa.“ Ég held að fólkið í þessum löndum upplifi aðgerðir Vest- urlanda sem gríð- arlegan hroka og hræsni og af- skiptasemi af lífs- háttum þess og menn- ingu.“ Grasrótarhreyfingar eru lífsnauðsynlegar Áhugi Nigels á umhverfis- og þróunarmálum kviknaði á átt- unda áratugnum, þegar hann starfaði í grasrótarhreyfingum sem börðust gegn fátækt og eymd í þróunarlöndum. „Ég fór að átta mig á því hvað grasrótarhreyfingar skipta miklu máli fyrir þær breytingar sem koma þarf á. Þær upplýsa og vekja fólk til vit- undar um hluti sem það getur breytt í sínu nánasta um- hverfi til þess að koma lagi á líf sitt. Það er ótrúlega margt sem þarf að bæta í þessum heimi og fátæktin í þróunarlöndunum er gríð- arlega alvarlegt vandamál.“ Nigel segir fræðimennskuna vera hans leið til þess að koma á breytingum í heiminum og vinna í því að breyta smám saman viðhorfum fólks. „Í starfi mínu gefst mér fjöldi tækifæra til að hafa áhrif á fólk sem mótar stefnu og tekur ákvarðanir. Siðferði mitt sem einstaklingur hefur vissulega áhrif á fræðilega vinnu mína. Vinna mín hefur síðan áhrif á siðferði ann- arra. Ég var einu sinni í S-Ameríku að flytja erindi á ráðstefu um umhverfissiðfræði og hitti þar unga konu sem gagnrýndi erindi mitt á þeirri forsendu að það væri of há- stemmt og væri ekki venjulegu fólki skilj- anlegt. Ég sagði að það væri líklega rétt, en aftur á móti myndu aðrir sem lifa og hrærast í umhverfismálum og stefnumótun lesa skrif mín og þau hafa áhrif á þeirra breytni. Þann- ig komast fræðilegar greinar á endanum alla leið niður á jörðina þó þær séu háfleygar. Mér þykir gott að geta beitt kröftum mínum þar sem ég get haft jákvæð áhrif á heiminn, bæði með tilliti til friðar- og umhverfismála.“ Samstöðufjölhyggja Margar ólíkar nálganir eru innan heim- spekinnar á það hvers vegna menn ættu að vernda náttúru og umhverfi. Þeim má gróf- lega skipta í þrennt. Í fyrsta lagi eru mann- hverf sjónarmið, þar sem hugsunin er sú að ekkert hafi gildi í sjálfu sér nema maðurinn og hans hagsmunir, því beri manninum ekki siðferðisleg skylda til að vernda náttúruna á neinum forsendum nema sínum eigin, þ.e.a.s. til að vernda sína hagsmuni. Ekkert hefur því gildi nema um sé að ræða hagnýtt gildi fyrir manninn. Þessa hugmyndafræði er að finna hjá helstu heimspekingum sem boða skyn- semi og rökrænu sem forsendur siðfræð- innar. Önnur meginnálgunin er sú lífhverfa, þar sem miðað er við þjáningu lífvera og réttindi þeirra til að lifa góðu lífi. Lífhverf hugsun tek- ur mið af hverju einstöku lífi og siðferðislegri stöðu þess gagnvart manninum. Undir þennan „hatt“ falla dýraverndunarsamtök og ýmiss konar réttindasamtök. Einn helsti talsmaður þessarar speki er Ástralinn Peter Singer, sem væntanlegur er til landsins í haust. Þriðja meginnálgunin er hin visthverfa. Samkvæmt henni hefur náttúran sjálf og þau vistkerfi sem í henni þrífast eigið gildi. Mann- inum ber að virða vistkerfin og stuðla að heil- brigði þeirra og fegurð. Meðal þeirra höfunda sem hafa sett fram hugmyndir um visthverfa speki eru Aldo Leopold og Holmes Rolston III, auk norska fræðimannsins Arne Naess. Þessar nálganir eru mjög ólíkar, en allar miða þær þó að því að boða grundvallarvernd náttúrunnar. Nigel segir þó ekki skipta máli hvaðan hugmyndir koma, ef sú niðurstaða sem af þeim hlýst er sú sama. „Ég aðhyllist hug- myndafræði sem mætti kalla samstöðu- fjölhyggju, en í henni felst sú hugsun að við höfum öll sameiginlegt markmið: Að bjarga lífríki jarðar og mannkyninu frá þeirri ógn sem að steðjar. Því ber okkur að vinna saman að þessu sameiginlega markmiði og setja til hliðar ágreining um heimspekilegar for- sendur og slíkt. Við höfum nógan tíma til að karpa um það í fræðilegu samfélagi, en nú ríður á að taka saman höndum til að ná okkar sameiginlega markmiði. Þessa stefnu má yfirfæra á margt annað í heiminum, til dæmis trúarbrögð og mannrétt- indi. Öll helstu trúarbrögð mannkyns og sið- menntuð samfélög eiga sameiginleg gildi sem allir geta verið sammála um þrátt fyrir að hugmyndir um tiltekin smáatriði sögu og trúarbragða séu ólíkar. Þessi sameiginlegu gildi og markmið koma til dæmis fram í jarð- arsáttmálanum sem hefur verið í vinnslu inn- an ramma Sameinuðu þjóðanna síðan 1989.“ Að upplifa nýja hluti Nigel fór í vor með undirrituðum og nokkr- um meistaranemum í umhverfisfræði að Kleifarvatni og skoðaði hveri og sérstæðar jarðmyndanir. Hann hefur, að eigin sögn, mjög gaman af því að skoða Ísland og reynir að komast í ferðalög í hvert sinn sem hann heimsækir landið. „Mér finnst afar gaman að ferðast og kynnast nýju og spennandi fólki og er sérstaklega minnisstætt þegar ég fór, fyrir nokkrum árum, að heimsækja vin minn í Kenýa. Ég kenndi þar snemma á mínum ferli og ég ákvað að heimsækja hann í þorpið þar sem hann bjó. Ég hafði skrifað honum að ég væri á leiðinni, en hafði að vísu ekki heyrt frá honum lengi, svo ég var að taka svolitla áhættu með því að fara til hans. Ég hafði í raun ekki hugsað um það hvað ég myndi gera ef hann væri ekki á svæðinu. Sem betur fer var hann heima og tók vel á móti okkur. Hann hafði fengið frá mér bréfið, en póst- samgöngurnar voru frekar stopular á svæð- inu á þessum tíma. Daginn eftir keyrðum við í nærliggjandi þorp í heimsókn til systur hans. Á leiðinni til baka vildi ekki betur til en svo að það sprakk á tveimur dekkjum á jeppanum sem við vor- um á nokkur saman. Við þurftum því að bíða í drjúgan tíma á meðan verið var að laga bíl- inn og bjarga málum. Það var ekki fyrr en seinna sem við fréttum að vegurinn sem við ókum og gengum eftir þessa löngu leið var alræmdur fyrir stigamenn sem rændu og myrtu saklausa vegfarendur. Maður lendir oft í því að atburðir sem virðast ósköp nátt- úrulegir á meðan þeir eru að gerast, reynast eftir á að hyggja hafa verið gríðarlega hættu- legir. Ég ferðaðist líka einu sinni á puttanum í Úganda um það sem ég frétti síðan að væri alræmt glæpasvæði. Einhver hefði getað rænt mig og drepið og það hefði ekki frést af mér í marga mánuði.“ Hnattvæðingin í siðfræðilegu ljósi Eitt sem er ofarlega á baugi í siðfræðinni nú á dögum er aukin hnattvæðing og þær sið- fræðilegu spurningar sem hún vekur. „Marg- ir líta svo á að hnattvæðingin sé eitthvað til- finningalaust, risastórt efnahagslegt ferli þar sem risastór fyrirtæki eru að yfirtaka efna- hag heimsins og komi siðfræðinni lítið við. Það er satt á vissan hátt, því það sem gerist yfirleitt er nokkuð siðlaust. En nákvæmlega þess vegna verðum við að hafa siðfræðilegt taumhald á hnattvæðingunni. Það er sér- staklega mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir hnattrænni ábyrgð okkar og skyldum gagnvart hvert öðru. Hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá lifum við í æ hnattvæddari heimi, þar sem sjálfsmyndir okkar, tengsl og sambönd tengjast meir og meir því sem er að gerast annars staðar í heiminum. Fyrirbærið hnattvæðing hefur áhrif á allt, og því neyð- umst við til að rannsaka siðfræðina í hnatt- væddum heimi. Aðrar hliðar hnattvæðingarinnar eru þó af- ar jákvæðar og áhugaverðar, einmitt út frá siðfræðinni, og þá sérstaklega þróun hins al- þjóðlega siðræna samfélags, þar sem fólk getur ferðast og átt samskipti við annað fólk af öllum þjóðernum. Einnig hefur myndast hnattrænt samfélag grasrótarsamtaka og frjálsra félagasamtaka á siðferðislegum grundvelli. Þessi samtök, sem eru einnig fylgifiskar hnattvæðingarinnar, taka flest á umhverfis- og fátæktarmálum. Sem dæmi um hnattræna hugsun í okkar umhverfi má nefna að lífeyrissjóður, sem breskir háskólakenn- arar borga í, fjárfestir í þungaiðnaði í Bras- ilíu og styður þannig við eyðingu regnskóga með því að byggja risastórar stíflur. Við höf- um barist hart gegn því að lífeyrissjóðurinn noti okkar peninga til að styðja við svona al- varlegan umhverfisglæp og sú barátta ber ár- angur. Það er mikilvægt að hafa græna fjár- festingastefnu að leiðarljósi, allt of algengt er að fólk láti freistast af þeirri hugmynd að fría sig ábyrgð með því að láta peningana um að vinna níðingsverkin. En við berum samt enn fulla ábyrgð á okkar fjárfestingum.“ Trúin sem hluti af lífinu Nigel er kvekaratrúar og gerðist kvekari snemma á 9. áratugnum. Kvekaratrú er grein af meiði kristinnar trúar, á nokkuð persónu- legum nótum og leggur hún ríka áherslu á æðruleysi og hógværð. Hún er einnig afar op- in fyrir andlegri fjölbreytni. Kvekarar eru oft kallaðir „Samfélög vina“ og byggir það á þeirri frumkristnu hugmynd að söfnuður sé samfélag vina. „Við kvekarar höfum enga presta eða sérstaka leiðtoga. Okkar trúar- samkomur felast í því að vinir sitja saman í þögn, þangað til einhver finnur sig knúinn til að tala um reynslu eða upplifun sem hann hefur orðið fyrir. Fólki liggur alltaf eitthvað á hjarta og það má segja að þarna sé um að ræða nokkurs konar blöndu af innhverfri íhugun og samræðu.“ Trúin og heimspekin haldast gjarnan hönd í hönd hjá Nigel og lýk- ur hann samræðum okkar á tilvitnun í kvek- araleiðtogann William Penn. „Sönn guðrækni fjarlægir okkur ekki frá heiminum, heldur eflir hún áræði okkar til að bæta hann.“ Breski umhverfisheimspekingurinn Nigel Dower heimsótti Ísland í vor og hélt málstofu um siðfræði náttúr- unnar. Nigel ræddi við Svavar Knút Kristinsson um heimspekileg við- fangsefni sín; náttúruna, trúna og andstöðuna við stríðsrekstur í Írak. Nigel Dower er ættaður frá Yorkshire í Englandi en kýs að líta á sig sem Breta frekar en Englending og heimsborgara frekar en Breta. Nigel kenndi í málstofu í umhverfis- siðfræði við Háskóla Ís- lands í vor og var þátttaka í henni gríðargóð. Morgunblaðið/Jim Smart svavar@mbl.is Samstaðan er mikilvægari en ágreiningsefnin

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.