Morgunblaðið - 17.08.2003, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 17.08.2003, Blaðsíða 26
LISTIR 26 SUNNUDAGUR 17. ÁGÚST 2003 MORGUNBLAÐIÐ Á SÍÐASTLIÐNUM áratug eða svo hafa Íslendingar loksins vaknað til meðvitundar um sumartónleika, sem eru mjög algengir í Evrópu og Skandinavíu. Hingað til hefur mest allt menningarlíf okkar verið tengt vetrinum og lagst í dvala yfir sum- arið og listafólk verið úr allri þjálf- un þegar það loks hefur komið til starfa eftir langt frí. Nú er þetta sem betur fer að breytast og raðir sumartónleika hafa sprottið upp og virðast ætla að lifa góðu lífi allt í kring um landið. Ein slík er Kamm- ertónleikar á Kirkjubæjarklaustri sem voru nú haldnir í 13. sinn undir listrænni stjórn Eddu Erlendsdótt- ur píanóleikara sem búsett er í París. Að þessu sinni fékk hún til liðs við sig hjónin Gerði Gunnars- dóttur fiðluleikara og Claudio Punt- in klarinettleikara, einnig Ásdísi Valdimarsdóttur og Unu Svein- björnsdóttur sem öll eru búsett í Þýskalandi, Vovka Stefán Ashken- azy píanóleikara sem einnig kom til landsins til að taka þátt í tónleik- unum, sem og enski sellóleikarinn Michael Stirling, og Bryndísi Höllu Gylfadóttur sellóleikara. Allt er þetta hámenntað tónlistarfólk sem starfar sem einleikarar og hefur mikla reynslu í kammertónlist. Einnig tók þátt Ólafu Kjartan Sig- urðarson óperusöngvari. Alls eru þetta níu listamenn sem leggja saman krafta sína og það ríkti því töluverð eftirvænting fyrir tón- leikana. Tónleikagestir létu sig ekki vanta og salurinn var fullur á öllum tónleikum helgarinnar. Fyrri hluti föstudagstónleikanna voru helgaðir Wolfgang Amadeusi Mozart (1756–1791). Ólafur Kjartan og Edda hófu tónleikana með vönd- uðum og vel mótuðum flutningi fimm sönglaga. Canzonettuna Rid- ente la calma / Brosandi ró KV 152 / 210a (1772 eða 1775), Warnung / Viðvörun KV 433 / 416a (1783), Komm, liebe Zither / Komdu, kæri sítar KV 351 / 367b (1781) með mandólíninnslagi sem Ólafur var ekki í vandræðum með, höfundar þessara ljóða eru óþekktir. Síðan fylgdu Abendempfindung / Kvöldúð (J. H. Campe) KV 523 (1787) og ar- íettan Un baccio di mano / Hand- arkoss (L. Da ponte) KV 541 (1788). Mozart var snillingur í að finna upp laglínur og eitt af mý- mörgum dæmum þar um er Klarín- ettkvintettinn í A dúr KV 581 sem er uppfullur af fallegum laglínum. Það var fyrir leik Antons Stadler sem Mozart heillaðist af basett- horninu (alt klarinett), fyrir hann samdi Mozart kvintettinn KV 581 og nefndi hann „Stadler-kvintett- inn“. Hann samdi einnig m.a. Klar- inetttríóið KV 498 og Klarinett- konsertinn KV 622 fyrir Stadler. Strengjakvartettinn skipuðu þau Gerður, Una, Ásdís og Sterling og Claudio Puntin lék glæsilega á klarínettið með mjúkum, syngjandi og fallegum tón. Flutningurinn var í heild góður, vel og sannfærandi mótaður og laglínurnar nutu sín til fulls í yfirleitt vel samstilltu sam- spili hljóðfæraleikaranna. Eftir hlé fluttu þeir Ólafur og Vovka laga- flokkinn Don Quichotte à Dulcinèe / Don Quixote syngur til Dulcineu fyrir píanó og söngrödd sem (Jos- eph) Maurice Ravel (1875–1937) samdi 1932–33 við ljóð eftir Paul Morand. Þessi ljóðaflokkur sem er seinasta tónverk Ravels er í þrem köflum, eða Chansonum, sem Ólaf- ur söng á frönsku við öruggan og góðan píanóleik Vovka Stefáns. Bryndís Halla og Edda léku tveggja þátta sónötu op. 4 fyrir selló og píanó (1909–10) eftir Zolt- án Kodály (1882–1967). Sónatan sem er tóntegundalaus (atonal) er gríðarlega krefjandi fyrir sellóleik- arann og var leikur Bryndísar hreint stórkostlegur og samspil þeirra Eddu var mjög samstillt og yfirvegað. Síðast á efnisskrá kvöldsins voru þrjú sönglög fyrir bariton, víólu og píanó eftir Eng- lendinginn Frank Bridge (1879– 1941). Far, Far From Each Other / Langt, langt hvor frá annarri, Where is That Our Soul Doth Go? / Hvert er það sem sál vor fer og Music When Soft Voices Die / Þeg- ar lágróma raddir deyja. Bridge, sem m.a. var góður víóluleikari, var aðeins á undan samtímanum í tón- list sinni og því lengi vel eins konar „utangarðsmaður“ þar til nemandi hans Benjamin Britten kom fram á sjónarsviðið og þar með ný kynslóð sem lærði að meta tónlist Bridge. Það voru þau Ólafur, Ásdís og Edda sem fluttu lögin og var flutn- ingurinn mjög góður, víólan var sérlega falleg í miðlaginu og píanó- ið naut sín afar vel í því síðasta og samspil flytjenda var samstillt og í góðu jafnvægi. Fyrri hluti laugardagstónleik- anna var mjög slavneskur og hófst með Slóvakískum tilbrigðum fyrir selló og píanó eftir tékkneska tón- skáldið og fiðluleikarann Bohuslav Martinú (1890–1959) sem þær Bryndís Halla og Edda fluttu. Martinú var mjög fjölhæft tónskáld og vann jafnt með tékkneska al- þýðutónlist, djass, ragtime og bar- okktónlistarform eins og heyra mátti í þessum tilbrigðum en þar kenndi ýmissa grasa, helsti veik- leiki hans var að hann samdi mjög hratt og endurskoðaði sjaldnast það sem hann hafði skrifað. Bryn- dís og Edda nýttu sér smæð og góðan hljóm salarins með fárveik- um og varla heyranlegum tón og síðan allan styrkleikaskalann upp úr og til baka aftur, allt í góðri samvinnu hvor við aðra þannig að stef og tilbrigði nutu sín vel. Senni- lega er Rússinn Sergei Prokofiev (1891–1953) þekktastur hjá mörg- um fyrir barnaverkið um Pétur og úlfinn. Prokofief sem var marg- verðlaunaður píanóleikari samdi jafnt óperur, hljómsveitarverk, kammerverk, kórverk, píanóverk, söngva og kvikmyndatónlist svo eitthvað sé nefnt, en fyrstu verkin hans þóttu of „nútímaleg“ fyrir áheyrendur þess tíma. Árið 1920 samdi hann Fimm sönglög án orða op. 35 sem einnig finnst í útsetn- ingu fyir píanó og fiðlu (op. 35 b) sem þau Una og Vovka Stefán fluttu af mikilli natni og frábærri samvinnu, með rússneskum krafti og flauelsmýkt en þó alltaf góðu jafnvægi milli hljóðfæranna. Íslensku þjóðlögin Blástjarnan, Söknuður og Úti ert þú við eyjar bláar í útsetningu Jóns Þórarins- sonar (1917) söng Ólafur Kjartan við blíðan undirleik Vovka Stefáns og síðan fluttu þeir lagaflokkinn Of Love and Death sem Jón Þórarins- son samdi í tilefni Listaþings 1950 við þrjú kvæði eftir Christinu G. Rosetti um ást og dauða. Guð- mundur Jónsson frumflutti flokkinn með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn dr. Róberts A. Ottós- sonar. Píanóleikur Vovka var virki- lega góður sem og söngurinn hjá Ólafi sem fór mjög vel með en átti það til að vera aðeins of sterkur fyrir salinn. Aðalverk dagsins var frum- flutningur á kvintett fyrir klarínett og strengjakvartett, Fratelli di sangue (fóstbræður) eftir klarínett- leikarann Claudio Puntin (1965), sem saminn var til frumflutnings á þessari hátíð. Verkið skiptist í fimm þætti sem eru tileinkaðir fjór- um merkum tónlistarmönnum frá Austur-Evrópu, nema miðkaflinn, Friðlaus, sem tileinkaður er sígaun- um. Verkið gerir ráð fyrir frjálsum spuna flytjendanna innan viss ramma í verkinu og virðist við fyrstu heryn vera kröfuhart til hljóðfæraleikaranna og þá sérstak- lega klarínettleikarans, bæði tækni- lega og í úthaldi, en Puntin lék sjálfur á klarínettið og stýrði hópn- um. Það er greinilegt að hann veit hvað má bjóða hljóðfærinu og nýtir það alveg út á ystu nöf í hljómstyrk (allur skalinn), tónmyndun og tæknilega og sýnir að hann er hreint feiknagóður klarínettleikari. Í verkinu mátti heyra áhrif ýmissa stíltegunda svo sem djass, rúss- neska alþýðutónlist og dansa, klezmískan stíl (upprunnin úr gyð- ingatónlist), umhverfishljóð (5. þáttur) gerð á hljóðfærin o.fl. Verk- ið var vel flutt undir öruggri stjórn Puntins. Lokatónleikarnir hófust á For- leik við gyðingastef op. 34 fyrir pí- anó, klarinett og strengjakvartett sem Prokofieff samdi 1919. Flytj- endur voru þau sömu og í verki Puntins, þau Puntin, Gerður, Una, Ásdís og Bryndís Halla auk Eddu. Verkið er líflegt, fullt af fallegum stefjum með skemmtilegri úr- vinnslu og var vel spilað og lista- fólkið lifði sig inn í verkið með mik- illi samspilsgleði. Maður hefði ætlað að á þessum tíma væri komin mikil þreyta í lið listafólksins eftir þrotlausar æfingar í heila viku og tvenna mjög kröfuharða tónleika en svo var aldeilis ekki, gleðin geislaði af þeim til áheyrenda. Greinilegt var að allir höfðu fundið hver ann- an í samstarfinu og þess fengu áheyrendur að njóta. Tersettinn í C-dúr op. 74 fyrir tvær fiðlur og víólu (1887) eftir Antonin Dvorák (1841–1904) léku þær Gerður, Una og Ásdís mjög músíkalskt og fal- lega. Ólafur og Vovka fluttu fimm sönglög eftir Pyotr Tchaikovsky (1840–1893) en eftir hann liggur fjöldi sönglaga. Sleza drazhyt / Tár titrar op. 6 nr. 4, Lied der Mignon / Söngur Mignonar op. 6 nr. 6, Serenada Don Juans op. 30 nr. 1, Sred’ shumnogo bala / Í miðjum dunandi dansi op. 38 nr. 3 og Blag- oslovliaiu vas, lesa / Ég blessa ykk- ur, skógar op. 47 nr. 5. Ólafur söng lögin á rússnesku og féll hin stóra rödd Ólafs vel að þessum lögum. Hlutur píanósins í þessum söng- lögum er mikill og sýndi Vovka enn hversu fantagóður píanisti hann er og þó sást það enn betur í síðasta verki helgarinnar, Píanókvintett Johannesar Brahms (1833–1897) í f-moll op. 34 frá 1864 en þar fór Vovka hreinlega á kostum og hver nóta var vandlega úthugsuð og mótuð. Það sama má í raun segja um allan hljóðfæraleikinn í þessu verki. Þau Vovka, Gerður, Una, Ás- dís og Bryndís fluttu kvartettinn af slíkri samstillingu og vandvirkni með geislandi spilagleði að salurinn var sem steinrunninn og í lokin heyrðust andvörp á borð við „vá“ og síðan braust út mikið þakklæti í formi lófataks. Ég vil óska íbúum Skaftárhrepps til hamingju með há- tíðina og vona að hún eigi eftir að lifa um mörg ókomin ár. Kammertón- leikar með slavnesku ívafi Morgunblaðið/Jim Smart Tónlistarfólkið sem fram kom á kammertónleikum á Kirkjubæjarklaustri. TÓNLIST Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri 2003 Flytjendur: Ásdís Valdimarsdóttir á víólu, Bryndís Halla Gylfadóttir á selló, Claudio Puntin á klarínett, Edda Erlendsdóttir á píanó, Gerður Gunnarsdótttir á 1. fiðlu, Michael Stirling á selló, Ólafur Kjartan Sigurðarson bariton, Una Sveinbjörns- dóttir á 2. fiðlu, Vovka Stefán Ashkenazy á píanó. Reynir Axelsson þýddi alla söng- texta sem fylgdu með prentaðir í efnis- skránni. Listrænn stjórnandi var Edda Er- lendsdóttir. Verk eftir W.A. Mozart, M. Ravel, Z. Kod- ály og F. Bridge. Föstudagurinn 8. ágúst 2003 kl. 21. Verk eftir B. Martinú, S. Prokofieff, Jón Þórarinsson og Claudio Puntin (frum- flutningur). Laugardagurinn 9. ágúst kl. 17. Verk eftir S. Prokofieff, A. Dvorák, P. J. Tchaikovsky og J. Brahms: Sunnudagurinn 10. ágúst kl. 15. Jón Ólafur Sigurðsson RADDBANDAFÉLAG Reykjavíkur heldur tónleika í Stykk- ishólmskirkju í dag, sunnudaginn 17.ágúst, kl. 14. Raddbandafélagið skipa 10 einstaklingar sem flestir hafa sungið í ýmsum kórum um árabil og margir eru jafnframt í einsöngsnámi. Sönghópurinn var stofnaður haustið 2002 og hefur því verið starfandi í tæpt ár. Hópurinn hefur komið fram við ýmis tækifæri á liðnu ári s.s. við vígslu Höfuðborg- arstofu, á hátíðum í Smáralind, á ýmsum kosningaskemmt- unum, í stórafmælum og brúðkaupum svo dæmi séu nefnd. Á efnisskrá tónleikanna er fjölbreytt úrval laga, íslensk og er- lend þjóðlög af ólíkum toga, íslensk og erlend sönglög, bar- bershop lög og erlend dægurlög í léttri sveiflu. Stjórnandi kórsins er Sigrún Grendal og Jónas Sen leikur með á píanó. Aðgangseyrir að tónleikunum er 1.000 kr. Raddbandafélag Reykjavíkur. Raddbanda- félagið í Stykkis- hólmskirkju KOMIN er út ljóða- bókin Þríhendur eftir Gunnar Dal. „Bókin er í vasabrotsformi og inniheldur 332 hækur sem höf- undur kýs að nefna þríhendur vegna þess að þær eru í þremur línum. Annars viðheldur Gunn- ar Dal hefð japönsku hækunnar með hinum hefðbundna atkvæðafjölda, 5- 7-5. Þeir sem vilja fræðast betur um rit Gunnars og list geta leitað sér fanga á nýrri heimasíðu hans: www.gunnar- dal.is, “ segir í fréttatilkynningu. Eftir Gunnar Dal liggur á sjötta tug ritverka, ljóð og skáldsögur og heim- spekirit. Bókin er gefin út af Lafleur-útgáf- unni. Háskólafjölritun annast prentun bókar. Nýjar bækur
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.