Morgunblaðið - 09.09.2003, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 09.09.2003, Blaðsíða 22
LISTIR 22 ÞRIÐJUDAGUR 9. SEPTEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ Þ EGAR ég sest niður við skriftir hef ég ekki hug- mynd um hvað mun ger- ast. Ég hef ekki hugleitt söguþráð, samtöl eða annað áður en ég hefst handa. Sagan verður til meðan ég skrifa. Ég bara sest niður og tek því sem að höndum ber. Þetta er eins og að fara í tölvu- leik. Allt getur gerst.“ Japanski rithöfundurinn Haruki Murakami segir að hann sé í raun ekkert hissa þótt sumum þyki furðu- legir hlutir gerast í sögum hans. Hann verði stundum undrandi sjálfur. „Stundum gerast yfirnáttúrulegir hlutir í sögunum mínum. Ég trúi ekki á slíka hluti sjálfur. Ekki í heiminum sem við höfum fyrir augunum dags- daglega. En slíkir hlutir eru til innra með mér. Þar verða atburðir sem ekki er hægt að skýra. Og á þá trúi ég. Sögur mínar koma að innan og þær eru alveg sannar.“ Murakami segir að sumir lesenda sinna eigi erfitt með að leggja trúnað á þessar sögur. Hann hafi til dæmis verið spurður margra mjög erfiðra spurninga í þýskalandi. „Þjóðverjar eru miklir raun- og rökhyggjumenn, en ég geri ráð fyrir að Íslendingar eigi ekki jafnerfitt með að skilja atburði í sögunum. Þið trúið á drauga eins og Írar, ekki satt? Írar áttu ekki í neinum vandræðum með að lesa sögur mínar og trúðu þeim alveg, eins og landar mínir gera, en í Japan eru skilin milli þessa heims og hand- anheima ekki skýr.“ Haruki Murakami skrifar skáld- sögur um fólk sem veit oft ekki í hvorn fótinn það á að stíga. Í Sunnan við mærin, vestur af sól, sem er eina saga hans sem hefur verið þýdd á íslensku (2001), segir til dæmis frá Hajime sem er hamingjusamlega kvæntur með tvö börn er æskuástin birtist og setur hann algerlega úr jafnvægi, hann elskar konu sína og börn en æskuást- in, sem er ákaflega dularfull eins og svo margar konur í bókum Murakam- is, hefur þvílík heljartök á Hajime að það flæðir fljótlega undan fótfestu hans. Magnað innsæi Murakamis nýt- ur sín í lýsingum á aðstæðum Hajim- es, átökunum innra með honum og oft og tíðum óskynsamlegri hegðun, efa- semdunum, lygunum og hikinu frammi fyrir valkostum sem báðir valda óbætanlegum missi, kosta fórn- ir. Hef misst í þessu starfi Í skáldsögu Murakamis, Sputnik Sweetheart (1999), sem væntanleg er í íslenskri þýðingu, er að finna litla sögu um það hvernig Kínverjar bjuggu til borgarhlið sín sem þeir töldu að sál borgarinnar byggi í. Þeir söfnuðu saman mannabeinum á forn- um orrustuvöllum og múruðu þau inni í hliðin í von um að andar her- mannanna héldu áfram að verja borg- ina. Þegar þeir höfðu reist hliðin skáru þeir hunda á háls og mökuðu blóði þeirra á hliðin. Aðeins þannig myndu fornar sálir hinna látnu lifna við. Þessu er svipað farið með skáld- sagnaritun, segir sögumaður við hina ungu Sumire sem hefur einsett sér að verða rithöfundur. Þú safnar saman beinum og býrð til hlið, en það er ekki nóg. „Saga er ekki af þessum heimi. Alvöru saga þarfnast nokkurs konar töfraskírnar til þess að tengja heiminn hérna megin við heiminn hinum meg- in.“ Skyldi þetta vera skáldskaparfræði höfundarins sjálfs? „Já, þetta er kjarni sagnagerð- arinnar,“ svarar Murakami. „Allir geta sagt sögu en mjög fáir geta sagt góða sögu. Það krefst blóðfórnar – í táknrænum skilningi eins og bent er á í sögunni – að skrifa góða sögu. Maður verður að fórna einhverju sem er manni mjög kært. Það býr saga í hverjum manni en það er ekki auðvelt að finna hana. Maður þarf að kafa djúpt til þess að komast niður á hana. Og það krefst iðulega fórna. Sjálfur hef ég misst í þessu starfi, bæði sál- arró, vini, og um tíma heimaland mitt.“ Murakami hóf að skrifa skáldsögur þegar hann var 29 ára. Hann rak lít- inn djassklúbb í Tókýó og hafði aldrei skrifað neitt. Hann var hamingju- samur í starfi sínu, gat hlustað á tón- list allan daginn en það er hin ástríðan í lífi hans. En einn góðan veðurdag langaði hann til að skrifa eitthvað. „Ég hafði ekki hugmynd um það hvernig ég átti að bera mig að,“ segir hann. „Mér tókst samt að setja saman sögu sem hlaut eins konar byrj- endaverðlaun í Japan. Ég held að ég hafi verið heppinn, ég fann leyniveg- inn sem liggur að sögunni í mér þegar í upphafi.“ Á flótta frá Japan Fyrsta bók Murakamis nefnist Hlustaðu á vindinn syngja (1979) en það var ekki fyrr en með fimmtu bók- inni, Norwegian Wood (1987, nefnd eftir Bítlalaginu), sem hann sló í gegn í Japan, og það svo rækilega að hann fékk engan frið. Stuttu seinna yfirgaf hann heimaland sitt og flutti til Evr- ópu þar sem hann bjó til ársins 1991 er hann fluttist til Bandaríkjanna. Hann segist hafa viljað fá að vera í friði svo hann gæti einbeitt sér að skrifunum. En hann segist raunar hafa verið á hörðum flótta frá Japan allt frá því hann byrjaði að skrifa. „Ég las gríðarlega mikið á ung- lingsárum mínum og ég las aðallega evrópska og ameríska höfunda. Ég hreifst af rússnesku meisturunum, Dostojevskí, Tolstoj og Turgenjev. Og síðan reif ég í mig ameríska samtíma- höfunda eins og Truman Capote og F. Scott Fitzgerald. Ég las ekki mikið af japönskum höfundum, ég vildi fjar- lægjast Japan. Kannski hafði ég ekki áhuga á japönskum bókmenntum vegna þess að foreldrar mínir voru bókmenntakennarar og mér leiddist það ógurlega hvað þau reyndu að halda þessu viðfangsefni sínu að mér. En upp á síðkastið hef ég snúið mér að japanskri bókmenntahefð í aukn- um mæli.“ Hvers vegna? „Ég var óviss um sjálfsmynd mína. Það má segja að ég hafi verið að leita að sjálfsmynd minni sem japanskur höfundur.“ Það er raunar oft sagt að sögur þín- ar séu ekki sérstaklega japanskar. Og þær eru raunar fullar af vísunum í vestræna menningu. „Já, það er rétt, en ég held að þetta sé að nokkru leyti spurning um sjón- arhorn. Ef þú hefur í huga að lífið í japönskum borgum er mjög vestrænt þá ætti þetta ekki að koma á óvart. En á hinn bóginn þá er japönsk menning- arhefð vissulega mjög frábrugðin þeirri evrópsku og amerísku og þann greinarmun er kannski ekki að finna í bókum mínum. En hin vestrænu áhrif fara minnkandi í sögunum. Ég þarf ekki á þessum vísunum í vestræna menningu að halda lengur. Ég þarfn- ast ekki lengur fjarlægðarinnar við Japan. Ég hef verið að breytast að þessu leyti og kannski er ég að verða japanskari höfundur.“ Verð aldrei samur Murakami flutti aftur til Japan eftir tvo hörmulega atburði árið 1995, jarð- skjálftann í Kobe 17. janúar og eitur- efnaárásina í neðanjarðarlestarkerfi Tókýó tveimur mánuðum síðar. „Mér fannst mér vera það skylt að snúa heim eftir þessa atburði. Kobe er heimabær minn. Foreldrar mínir misstu húsið sitt í skjálftanum og fjöl- mörg skyldmenni og vinir áttu um sárt að binda. Ég hafði yfirgefið landið vegna þess að ég vildi vera frjáls og sjálfstæður. En núna þótti mér ég þurfa að gera eitthvað fyrir landið mitt.“ Murakami skrifaði tvær bækur sem fjalla um þessa atburði. Neð- anjarðar kom út í tveimur hlutum ár- in 1997 og 1998 en í henni eru birt við- töl við 62 fórnarlamba gasárásarinnar í Tókýó eða aðstandendur þeirra. Í smásagnasafninu Eftir skjálftann (2000) fjallar hann síðan um áhrif skjálftanna í Kobe. En hvers vegna valdir þú þessar ólíku nálganir, viðtöl og smásögur? „Starf mitt er að segja sögur og mig langaði til þess að leggja mitt af mörk- um með því að skrifa sögur um þessa atburði sem myndu geta varpað ein- hverju ljósi á þá. En ég áttaði mig fljótlega á því að ég gat ekki skrifað sögu um gasárásina. Það sem ég fann mig knúinn til að gera var að hlusta, ég varð að hlusta á sögur þessa fólks. Og ég gerði það í rúmt ár. Það var mikil reynsla. Og hún breytti mér. Ég skrifaði bókina sem miðlaði sögum þessa fólks, raunum þess og sársauka. En það var ekki nóg. Ég heyri enn raddir þessa fólks. Og ég verð aldrei samur. Þessar raddir breyttu lífi mínu, sjónarhorni mínu og stíl. Trum- an Capote skrifaði In Cold Blod um fjöldamorð sem tveir geðsjúklingar frömdu í Bandaríkjunum og sú bók breytti lífi hans. Ég skil það vegna þess að raunveruleikinn er mjög mik- ilvægur skáldskapnum, rétt eins og skáldskapurinn er raunveruleikanum mjög mikilvægur. Sumir gagnrýndu mig fyrir að taka ekki afstöðu í við- talsbókinni, en það var mér mikilvægt að leyfa röddum fólksins að njóta sín. Ég vildi ekki fella neina dóma. Þegar kom að því að skrifa um skjálftana vissi ég strax að það yrðu sögur. Ég taldi mig geta lýst þján- ingum fólksins í Kobe í sögum. Ég taldi mig geta miðlað röddum þeirra af meiri einlægni í skáldskap. Í bók- inni segi ég raunar sögur af fólki sem skjálftinn hafði ekki bein áhrif á en ég læt það tala um hann í formi skáld- skapar. Þannig taldi ég mig geta nálg- ast hugarástand þeirra sem skjálft- arnir höfðu bein áhrif á.“ Konur sem hverfa Murakami býr nú í borginni Oiso sem er skammt suður af Tókýó ásamt eiginkonu sinni. Hann er ekki beinlín- is feiminn, en hann horfir út undan sér þegar hann talar og gýtur augunum öðru hverju á spyrilinn. Hann talar hægt og yfirvegað, það koma þagnir meðan hann hugsar. Hann veitir ekki mörg viðtöl en hann vill greinilega vanda svör sín þegar hann lætur til leiðast. Hann segist meta friðhelgi einkalífsins mikils. Hann vill frið til að starfa. Og hann segist fá hann í Japan. Í Tókýó hverfi hann í mannfjöldann og það veiti honum frelsi. Hann segist lifa mjög venjulegu lífi. Vakna klukk- an fimm á morgnanna til þess að setj- ast við skriftir. Hann borði hollan mat og hreyfi sig reglulega og fari snemma að sofa. Þetta sé nauðsynlegt til þess að geta skrifað. Rithöfundur þurfi að vera í fullkomnu jafnvægi til þess að geta sinnt starfi sínu, hann þurfi að vera sterkur á sál og líkama. „Það er erfitt starf að vera rithöf- undur,“ segir hann alvöruþrunginn. „Það er hreint ekki auðvelt að setjast einn með sjálfum sér og spinna upp sögur. Maður þarf að vera sterkur til að geta horfið svona inn í annan heim.“ En skilin milli þessa heims og ann- ars eru, eins og áður sagði, ekki alltaf skýr í skáldskap Murakamis. Og í sumum þeirra þykjast lesendur þekkja höfundinn sjálfan. Hajime í Sunnan við mærin, vestur af sól rek- ur til dæmis djassklúbb eins og Mura- kami gerði á sínum tíma. Og Mura- kami er greinilega vanur því að fólk setji samasemmerki á milli hans og sögupersóna hans. Þegar hann er spurður hvers vegna konur í verkum hans, svo sem eins og æskuástin hans Hajimes, séu alltaf að hverfa, þá svar- ar hann: „Það er erfitt að segja en svo mikið er víst að ég hef verið kvæntur sömu konunni í þrjátíu ár og hún hefur aldr- ei farið neitt. Konurnar í verkum mín- um eru oft miðlar á milli tveggja heima. Þær eru alltaf hugfangnar af heiminum hinum megin. Og þær hverfa þangað um skemmri eða lengri tíma.“ Murakami er hugsi um stund og heldur síðan áfram: „Ég hef mikla samúð með fólki sem hverfur og aðstandendum þess. Vinur minn hvarf sporlaust. Það veit enginn hvað varð um hann. Kannski er hann látinn. Tilfinningarnar sem þessi missir vakti búa enn innra með mér og ég skrifa um þær. Sputnik Sweetheart fjallar um þær. Ég held að samúð sé grundvallaratriði í skáld- skap, samúð og samlíðan.“ Aftur kemur löng þögn, og síðan heldur Murakami áfram: „En ég er ekki að fara neitt, ég verð áfram í þessum heimi. Og konan mín líka. Það er hins vegar starf mitt að skrifa sögur um fólk sem flakkar á milli ólíkra heima. Og til þess að skrifa slíkar sögur þarf maður að vera stað- fastur og sterkur, maður verður að vera raunsær og maður má ekki fara. Og ég held að ég uppfylli þessi skil- yrði.“ Og sögur sem ekki enda En þú skilur samt iðulega við les- endur þína eins og í lausu lofti. Sögur þínar enda ekki, frásögnin stöðvast bara einhvers staðar þar sem maður ætti frekar von á því að meira yrði sagt. Hvers vegna yfirgefur þú les- endur þína með þessum hætti? „Vegna þess að ég kann ekki að meta niðurstöður. Þegar mér finnst bók vera búin hætti ég að skrifa. Og það byggist frekar á tilfinningalegu mati en frásagnarlegu. Og það er vissulega ekki óbrigðult. Þegar ég lauk við fyrsta hlutann af Sögunni af upptrekkta fuglinum (1994–1995) hélt ég að henni væri lokið. En síðan skrifaði ég annan hluta eftir að fyrsti hlutinn kom út og hélt að þar með væri ég búinn. En það var ekki fyrr en ég hafði skrifað þriðja hlutann ári síð- ar sem ég var í raun búinn að skrifa þessa bók. Margir kvörtuðu undan þessu í Japan. Smásögur mínar eru flestar með ákveðinni niðurstöðu. En þær verða samt sumar að skáldsög- um. Upptrekkti fuglinn er byggður á smásögu. Fyrsti kaflinn í Sputnik Sweetheart var skrifaður löngu áður en ég ákvað að spinna við hann skáld- sögu. En ég kann ekki að meta end- anlegar niðurstöður í sögum. Þær eru kæfandi. Ég vil hafa endinn opinn. Ég vil hafa einhverja möguleika. Þannig er lífið. Í því lýkur engu fyrr en þú deyrð og þá er allt búið. Á meðan þú lifir er engu lokið. Þannig vil ég líta á hlutina.“ Morgunblaðið/Árni Sæberg „Ég kann ekki að meta endanlegar niðurstöður í sögum,“ segir Haruki Murakami. Sögur mínar koma að innan og þær eru alveg sannar Japanski rithöfundurinn Haruki Murakami er meðal gesta á Bókmenntahátíð í Reykjavík. Þröstur Helgason ræddi við hann um skáldsög- ur hans sem hafa notið gríðarlegra vinsælda undanfarin ár í Japan og hinum vestræna heimi. throstur@mbl.is HARUKI Murakami heldur fyrirlestur í hátíðarsal Háskóla Íslands kl. 16 í dag. Fyrirlest- urinn markar upphaf haustdag- skrár Stofnunar Vigdísar Finn- bogadóttur sem helguð er japönskum bókmenntum. Murakami flytur fyrirlestur- inn á ensku og er aðgangur ókeypis. Fyrirlestur Murakami í dag kl. 16

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.