Morgunblaðið - 10.09.2003, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 10.09.2003, Blaðsíða 10
FRÉTTIR 10 MIÐVIKUDAGUR 10. SEPTEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ TALSMAÐUR meirihluta hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Hrafnhildur Ágústsdóttir, segir að áður en Landsvirkjun hafi tilkynnt frestun á Norðlingaölduveitu hafi önnur lónhæð komið til tals, eða 567 metrar yfir sjó, mitt á milli þess sem Landsvirkjun og hreppurinn vildu fara. Hjá Landsvirkjun feng- ust þau svör að ýmsar útfærslur hafi verið mögulegar en 568 metrar verið taldir lágmarks- hæð að vetri til að tryggja rekstraröryggi veit- unnar. Hrafnhildur segir að tíðindin sl. föstudag um frestun Norðlingaölduveitu hafi í raun komið sér á óvart. Önnur lónhæð hafi komið til tals í óformlegum viðræðum við Landsvirkjun en það hafi ekkert náð lengra. Frekar hafi verið um hugmynd að ræða en tillögu. Með 568 metra lón- hæð, sem Landsvirkjun hefur viljað fara í að vetri til, er stærð lónsins 7,1 ferkílómetri. Með úrskurði setts umhverfisráðherra var kynnt til- laga VST að 566 metra lónhæð og stærð lónsins var þá 3,4 ferkílómetrar. Að sögn Hrafnhildar yrði stærðin 5,6 ferkílómetar með 567 metra lónhæð. Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir að 567 metra lónhæð hafi aldrei verið formlega til umfjöllunar. Ræddar hafi verið ýmsar útfærslur en niðurstaða Lands- virkjunar verið sú að lónið yrði að fara í 568 metra að vetri en gæti verið 566 yfir sumartím- ann. Það hafi verið niðurstaðan eftir samráð við Ásahrepp og sérfræðinga Umhverfisstofnunar og útfærsla Landsvirkjunar hafi verið í fullu samræmi við úrskurð ráðherra um að lón færi út fyrir friðlandsmörk Þjórsárvera. Spurður hvort 567 metra lónhæð komi yfirleitt til greina segir Þorsteinn þá ákvörðun stjórnar standa sem tek- in hafi verið sl. föstudag í tengslum við orkuaf- hendingu á tilsettum tíma til stækkunar Norð- uráls. Minnir hann á að Norðlingaölduveitu hafi aðeins verið frestað, undirbúningsvinna verði áfram í gangi og framkvæmdin eigi eftir að koma aftur til umsagnar sveitarfélaganna. Viljum friða meira en minna Fram kom í blaðinu í gær að bæjaryfirvöld á Akranesi hefðu farið fram á fund með hrepps- nefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Hrafnhild- ur segir þá beiðni ekki hafa borist enn með formlegum hætti en það verði í fyrsta lagi í næstu viku sem hægt verði að koma á fundi. Flestir hreppsnefndarmanna taki nú þátt í göngum og réttum. Í fljótu bragði segist Hrafn- hildur ekki sjá hvað hreppsnefndin eigi órætt við Skagamenn en þegar fundarbeiðnin komi verði hún tekin fyrir. „Við teljum að kynningin á úrskurði setts umhverfisráðherra hafi verið sú að 566 metra lónhæð sé það sem sáttin var um. Við höfum frekar viljað friða meira en minna á þessu svæði. Þess vegna höfum við ekki viljað fara lengra inn í landið og höfum verið mjög hugsandi yfir breytilegri vatnshæð. Út frá okk- ar bæjardyrum séð höfum við ekki getað fallist á 568 metra lónhæð. Hvort afstaða okkar hafi úr- slitaáhrif á stækkun Norðuráls skal ég ekki full- yrða um. Ég hef trú á að ef það væri raunin hefði Landsvirkjun farið í framkvæmdina á sínum forsendum. Landsvirkjun segist hafa allt í hönd- unum nema leyfið frá okkur og fyrirtækið hefði getað gengið framhjá okkur. Ég trúi því tæpast að frestunin sé alfarið okkur að kenna,“ segir Hrafnhildur. Hrafnhildur Ágústsdóttir, fulltrúi í hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps Önnur lónhæð kom til tals hjá hreppnum SAMVINNUNEFND um miðhálendi Íslands samþykkti á fundi sínum í gær að hefja kynn- ingu á breyttu skipulagi hálendisins í samræmi við útfærslu Landsvirkjunar um 568 metra lón- hæð við Norðlingaölduveitu. Málið var sam- þykkt en fulltrúi Reykjavíkurborgar í nefnd- inni, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sat hjá. Nokkrar umræður urðu á fundi nefndarinn- ar í félagsheimilinu Ýdölum. Á endanum var samþykkt svonefnt samráðsferli sem þýðir að útfærsla Landsvirkjunar verður send til um- sagnar hjá þeim sveitarfélögum sem land eiga að veitusvæði Norðlingaöldu, þ.e. Ásahreppi og Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Síðarnefndi hreppurinn hefur sem kunnugt er hafnað út- færslu Landsvirkjunar um 568 metra lónhæð að vetri. Að umsögn lokinni þarf nefndin að auglýsa skipulagsbreytingarnar. Útfærsla Lands- virkjunar send til umsagnar ERLENDIR starfsmenn við Kárahnjúka- virkjun eru óánægðir með laun sín og vilja fá sambærileg launakjör og Íslendingar sem starfa við virkjunina. Launasamningar virð- ast mjög á reiki og Impregilo mun hafa tekið upp nýtt launakerfi á virkjunarsvæðinu gagn- vart erlenda vinnuaflinu, en það gengur gegn samþykktum virkjunarsamnings. Meirihluti erlenda vinnuaflsins á staðnum er frá Portú- gal. Ekki upplýstir um launakjör á Íslandi Í fyrrakvöld buðu fulltrúar verkalýðshreyf- inga í samráðsnefnd um virkjunarsamning ís- lenskum og útlenskum starfsmönnum við Kárahnjúkavirkjun til fundar. Um 150 manns mættu og var farið yfir launakjör- og kerfi, vaktafyrirkomulag og kvartanir um aðbúnað. Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar og fulltrúi í samráðsnefnd um virkjunarsamning, var á fundinum og segir að portúgalskir starfsmenn vilji fá kaup og kjör eins og íslenskir starfsmenn við virkjunina. Svo virðist sem þeir hafi ekki verið upplýstir um launakjör á Íslandi og að laun þeirra séu ekki í samræmi við reglur þar að lútandi. Þorbjörn segir að undanfarið hafi ráðning- arsamningar erlendra starfsmanna verið yf- irfarnir og séu þeir mjög takmarkandi. Það líti út fyrir að einhverjir aðrir samningar séu þar til hliðar. „Okkur sýnist að sá ráðning- arsamningur sem við fengum að skoða sé bara hluti af þeim samningi sem menn gera. Það virðist sem Portúgalarnir skrifi undir þrjá samninga sem taka til ákveðinna þátta og við höfum ekki fengið þá alla,“ segir Þor- björn. Erfitt að ógilda samningana Það er mjög erfitt að ógilda þessa samn- inga,“ heldur Þorbjörn áfram. „Þó að þeir standist ekki íslensk lög þá gilda þeir í Portú- gal og ef menn hafa samið um einhverja ákveðna tölu þar og menn fá eitthvað meira hér er spurning um hvert það lendir. Við getum komist að þeirri niðurstöðu að samningarnir séu ógildir meðan viðkomandi starfar á Íslandi, en það er ekki þar með sagt að hann sé orðinn ógildur úti í Portúgal. Það kann að verða mjög erfitt að rjúfa sambandið þarna á milli. Ef einhverjar viðbótargreiðslur eða leiðréttingar koma til þá er í það minnsta ljóst að þær verða að fara beint til starfs- manna.“ Aðbúnaður og umgengni hefur batnað mjög Hvað umkvartanir um aðbúnað varðar seg- ir Þorbjörn að menn virðist hafa tekið sig mjög á hvað það snertir og öll umgengni um svæðið og vinnustaðina sé betri en áður. „Uppbyggingin er í býsna góðum gír núna eins og eins og allt virki mun betur núna. Það er því líkast að menn hafi vaknað af þyrnirós- arsvefni. Spurður um framhaldið segir Þorbjörn að nú verði athugað hvort hægt sé yfir höfuð að losa samninga Portúgalanna. „Við munum nú láta skoða hvort hægt sé að losa þessa samn- inga og sé það hægt hvað gerist í kjölfarið. Lögmenn okkar munu setjast yfir þetta á næstu dögum og þetta þarf að vinnast nokk- uð hratt. Ég álít að við höfum þessa viku til að mynda okkur einhverja skoðun um fram- haldið.“ Samráðsnefnd fékk að sjá hluta kjarasamninga Impregilo Lögfræðingar athuga hvort rifta megi samningum Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir Kárahnjúkavirkjun. Morgunblaðið. FORYSTUMENN verkalýðshreyfingarinnar áttu fund í gær með Árna Magnússyni félags- málaráðherra og Siv Friðleifsdóttur umhverf- isráðherra um stöðu mála við Kárahnjúka- virkjun. Að fundi loknum hét Árni því að skoða nánar kjör erlendra starfsmanna Impregilo við virkjunina en fram kom að aðbúnaður starfs- manna væri stöðugt að batna. „Þetta var gagnlegur fundur með ráðherr- unum. Niðurstaðan var sú að skoða nánar kjör erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun, einkum þeirra er koma í gegnum erlendar starfsmannaleigur. Félagsmálaráðherra sagð- ist ætla að skoða þau mál nánar og eiga svo fund með okkur að nýju,“ sagði Grétar Þor- steinsson, forseti ASÍ, við Morgunblaðið að fundi loknum. Með honum voru Gylfi Arn- björnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, Halldór Björnsson, formaður Starfsgreinasambands- ins og varaforseti ASÍ, og Finnbjörn Her- mannsson, formaður Samiðnar. Formaður Rafiðnaðarsambandsins átti ekki heimangengt á fundinn en þessi landssambönd eiga sæti í samráðsnefnd um virkjanasamning við Kára- hnjúkavirkjun. Grétar sagði mikilvægt að farið væri að sett- um leikreglum við virkjunina. Rökstuddur grunur væri uppi um að erlendir starfsmenn Impregilo væru ekki á þeim kjörum sem þeim bæri. Varðandi aðbúnað starfsmanna á virkjana- svæðinu sagði Grétar verulegar breytingar hafa orðið á þeim málum undanfarnar vikur. Ástæða væri til að fagna því og vonandi kæm- ust þau mál endanlega í gott horf. Árni Magnússon félagsmálaráðherra sagði talsmenn landssambandanna hafa bent á þau atriði í kjaramálum sem mögulega væri ábóta- vant. Þær ábendingar yrðu teknar til skoðunar í ráðuneytinu og fundað að nýju um málið. Ekki væri tímabært að tjá sig frekar að svo stöddu. Félagsmálaráðherra tók undir með Grétari um að fagna bæri bættum aðbúnaði starfs- manna. Svo virtist sem orð forsvarsmanna Impregilo fyrir fáum vikum væru að ganga eft- ir. Það væri vissulega jákvætt. Eftir ákveðna byrjunarörðugleika væru þessi mál á réttri leið. Verkalýðsforystan á ráðherrafundi um Kárahnjúkavirkjun Ráðherra mun skoða nánar kjör erlendra starfsmanna Morgunblaðið/Þorkell Árni Magnússon félagsmálaráðherra og Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra á fundi með forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar í gær. ♦ ♦ ♦

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.