Morgunblaðið - 10.09.2003, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 10.09.2003, Blaðsíða 23
LISTIR MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 10. SEPTEMBER 2003 23 HENNING Mankell er vafalaust sánorræni höfundur sem hvað bestþekktur er hér á Íslandi og þóttvíðar væri leitað. Hann er einn mest seldi spennusagnahöfundur heims, en lætur ekki þar við sitja, heldur hefur hann fengist við fleiri greinar bókmenntanna, til dæmis barnabækur, auk þess sem hann hefur ritað fjölda leikrita og fengist við svokallaðar fagurbókmenntir. Var til dæmis bók hans Comedia Infante tilnefnd til Bókmenntaverð- launa Norðurlandaráðs. Henning er staddur á Íslandi í fyrsta sinn – en segist hafa hrifist af fornsögunum í æsku. Það hafi síðan verið einn af draumum hans að koma hingað og þetta sé því eins konar píla- grímsför. „Bókmenntaarfleifð ykkar er afar mikilvægur hluti af norrænni menningu,“ seg- ir hann, „og þann arf þarf að rækta.“ En víst er að Ísland er eilítið úrleiðis fyrir þennan áhugaverða höfund sem býr hálft árið í Svíþjóð, hálft árið í Mósambík, eða eins og hann segir sjálfur. „Ég er með annan fótinn í snjónum, hinn í sólinni.“ Hvers vegna Mósambík? „Það er nú engin rómantík í því. Ég fór til Mósambík fyrir þrjátíu árum til þess að fá ytra sjónarhorn á Svíþjóð og reyndar á Evrópu. Eins og verkast vill hafði landið mikil áhrif á mig og mér fannst gott að vera þar og vinna.“ Mörk milli glæpasagna og annarra bókmennta að hverfa En svo við snúum okkur að því bókmennta- formi sem þú ert þekktastur fyrir; hvers vegna eru glæpasögur eins vinsælar og raun ber vitni um allan heim? „Í glæpasögum álít ég að ég sé að vinna með elstu bókmenntahefð sem þekkt er. Ef við lít- um á Shakespeare, þá er Macbeth eitt af mín- um uppáhaldsverkum – og er líklega ein besta glæpasaga sem sögð hefur verið. Þegar kemur að því að segja sögu er þetta spurning um að hafa gott „plott“ og ef við leitum enn lengra aftur, til forn-grísku harmleikjanna, sjáum við að verk eins og Efiginíu, sem fórnar dóttur sinni til þess að fá góðan vind, Medeu sem fórnar börnum sínum á mjög eftirminnilegan hátt, og svo framvegis. Og hvað eru ykkar eig- in fornsögur annað en glæpasögur? Það er ævagömul hefð fyrir því að nota glæpi sem spegil á okkur sjálf og samfélagið – og hún er mjög áhrifarík. Í henni felast svo miklar mót- sagnir um samfélagið og hvernig það virkar. Þar fyrir utan eru glæpasögur góð aðferð til þess að segja sögur. Um það er ég sammála Snorra Sturlusyni. Og ef ég á að nefna dæmi úr íslenskum samtíma, þá er kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar, Hrafninn flýgur, klassísk glæpasaga. Hún fjallar um mann sem ákveður að ná fram hefndum. Lesendur, eða viðtak- endur, sjá þetta og skilja. Þess vegna eru þetta vinsælar bókmenntir. Það hafa löngum verið dregin yfirborðsleg mörk á milli glæpasagna og annarra bók- mennta og þau mörk hafa orðið til vegna snobbviðhorfa þeirra sem telja sig hafa meira vit á bókmenntum en aðrir. Þetta er að breyt- ast og ég held að ekki séu nema í hæsta lagi fimmtán til tuttugu ár þar til glæpasagnahöf- undur hlýtur Nóbelsverðlaunin. John le Carré ætti nú þegar að hafa hlotnast þau. Hann er einn af bestu rithöfundum heims; bækurnar hans eru algert afbragð.“ Barnabækur og leikrit Nú eru barnabækur þínar af nokkuð öðrum toga og í sumum löndum ertu þekktari fyrir þær en glæpasögurnar. „Já, það er misjafnt hvers konar bækur virka á fólk í ólíkum löndum. Í barnabókum mínum fjalla ég um þætti sem við erum mjög upptekin af þegar við erum börn, til dæmis líf- ið, dauðann, einsemdina. Ég byggi á minni eig- in æsku í Norður-Svíþjóð og reyni að skrifa eins einlæglega og mér er unnt um þær hugs- anir og tilfinningar sem bærðust með mér á þeim tíma, vegna þess að þær voru ekki bara mínar, heldur eru þetta sömu hugsanir og til- finningar og önnur börn upplifa hvar sem er í heiminum. Ég fæ mikið af bréfum, en ég man sérstak- lega eftir bréfi sem ég fékk frá Víetnam. Þar spyrja börn sömu spurninga og ég spurði þeg- ar ég var barn. Þau hafa aldrei séð snjó en þau þekkja tilfinninguna „einsemd“. Þau vita að það þýðir að vera „kalt inni í sér“. Þess vegna skilja þau tilfinninguna sem verið er að lýsa þegar talað er um snjó.“ Nú er bók þín Comedia Infante allt annars eðlis en glæpasögurnar sem þú ert þekktastur fyrir. „Já, það er mjög mikið af mér sjálfum í henni. Þessi saga stendur nær hjarta mínu en aðrar bækur mínar. Þetta er saga af ungum dreng sem vill segja sögu sína áður en hann deyr. Svo virðist sem hún hafi orðið fleirum en mér mikilvæg saga.“ Henning hefur skrifað fjölda leikrita þótt ekki höfum við enn fengið að berja þau augum hér á landi og þegar hann er spurður hvers vegna hann fáist við svona mörg bókmennta- form segir hann: „Þú átt að nota þinn jarðveg á margvíslegan hátt; ekki nýta hann fyrir eina tegund ár og síð. Ég er svo heppinn að hafa haft tækifæri til þess að vinna einnig sem leik- stjóri. Það eru forréttindi. Ég get lokað að mér mánuðum saman og setið einn við skriftir, opn- að síðan dyrnar og unnið með hópi af fólki – og lokað að mér aftur.“ Sameiginleg ábyrgð okkar allra Hvert er umfjöllunarefnið í nýjustu bókinni þinni? „Þar fjalla ég um eyðni. Ég hef horft upp á eyðingarmátt þessa sjúkdóms árum saman í Afríku. Ég var til dæmis í Úganda í fjórtán daga í vor og þeim dögum var varið í að ræða við deyjandi fólk, ömmur og afa, sem voru að skrifa sögu sína til þess að barnabörnin fengju að kynnast þeim. Ég var einnig listrænn stjórnandi leikhúss í Mósambík í tíu ár. Einn veturinn settum við upp „Við borgum ekki“ eftir Dario Fo. Í sýn- ingunni var líkkista og þegar við hættum sýn- ingum ákvað ég að við skyldum geyma alla leikmyndina; það væri aldrei að vita hvenær við myndum nota hana næst. Nokkrum árum seinna ætluðum við að nota hana, en þá var kistan horfin. Þegar ég fór að grennslast fyrir um hvað af kistunni hefði orðið kom í ljós að hún hafði ver- ið notuð fyrir unga stúlku sem dó úr eyðni en var svo bláfátæk að hún átti ekki fyrir kistu. Þetta snart mig mjög djúpt. Þegar við tölum um eyðni höfum við til- hneigingu til þess að tala um „þau“ og „okkur“. En það er ekki til neitt sem heitir „þau“ og „við“. Það er aðeins til „við“. Eyðni er gríð- arlegt vandamál sem fer vaxandi – og ekki bara í Afríku, heldur í Rússlandi, Indlandi, Kína, svo einhver dæmi séu nefnd og við ber- um öll ábyrgð gagnvart þessum sjúkdómi. Jú, jú, við vitum hvernig við eigum að verja okkur – en málið er miklu stærra en svo að það nægi bara að við verjum okkur. Við getum les- ið um hinar og þessar plágur sem herjuðu á mannkynið fyrr á öldum, eins og bólusótt og spænsku veikina, en eyðni hefur drepið marg- falt fleiri en allar þessar plágur til samans. Fólk verður að fara að opna augun fyrir því sem er að gerast í þeim heimi sem við lifum öll í. Við berum öll ábyrgð á velferð hans.“ Hvað tekur við hjá þér þegar þú ferð frá Ís- landi? „Um miðjan september byrja ég að skrifa nýja skáldsögu. Þá loka ég dyrunum að her- berginu mínu og sit þar einn fram í miðjan jan- úar. Þá kem ég út til þess að heilsa konunni minni og held síðan til Mósambík til þess að setja upp leikrit. En um hvað nýjasta sagan fjallar … Ætli sé ekki best að hafa sem fæst orð um það. Það eina sem ég get sagt er að hún er ekki spennusaga og hún byggist á atburðum sem áttu sér stað í fyrri heimsstyrjöldinni.“ Sænski rithöfundurinn Henning Mankell er þekkt- astur hér á landi fyrir spennusögur sínar en hefur einnig ritað barnabækur, leikrit og fagurbókmenntir – enda segir hann rithöfund eiga að nota jarðveg sinn til þess að rækta ólíkar teg- undir. Súsanna Svavars- dóttir ræddi við þennan gest á Bókmenntahátíð. Glæpasagan er elsta bókmenntaform í heimi Morgunblaðið/Þorkell Henning Mankell: Bókmenntaarfleifð ykkar er afar mikilvægur hluti af norrænni menningu. ÁSTRÍÐUR Alda Sigurðardóttir heldur sína fyrstu opinberu tónleika í Salnum í kvöld kl. 20.00. Ástríður Alda lauk einleikaraprófi í píanóleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1999, og Artist Diploma frá Ind- ianaháskóla í Bloomington nú í vor. Á tónleikunum í kvöld leikur hún Píanósónötu í Es-dúr ópus 31 nr. 3 eftir Beethoven, Danssvítu fyrir pí- anó eftir Béla Bartók og 24 Prelúdíur ópus 28 eftir Chopin. „Þetta eru verk sem ég hef verið að vinna að, þau passa vel saman, og sum hef ég spilað á tónleikum úti,“ segir Ástríður Alda um verkin. „Þau eru fjölbreytt og öll meðal uppáhalds- verka minna.“ Ástríður Alda segir klassíska tíma- bilið í tónlistarsögunni alltaf hafa leg- ið vel við sér, og komið eðlilega og fyrirhafnarlaust. „Kennaranum mín- um úti fannst ég líka alltaf best í klassíkinni, en ég hef líka unnið mikið í rómantíkinni, en minna í nútímatón- listinni. Kennarinn minn var ekkert mjög hrifinn af henni.“ Ástríður Alda stendur á tímamót- um, og eftir tónleikana í kvöld hefst leit að nýjum kennara. „Mig langar mest til Evrópu og helst í einhverja stórborg. Blooming- ton er bara háskólabær úti á akri, uppi í sveit. Ég á mér svosem engan draumastað. Það er mikið talað um það hvað Berlín er heit um þessar mundir, en það er aldrei að vita.“ En fyrst er þó að ljúka tónleikun- um í kvöld. „Jújú, það er alltaf skrekkur í mér, það bara fylgir, en þetta er mjög spennandi, og maður gerir bara sitt besta og vonar að aðrir verði sáttir við það.“ Klassíkin kom fyrirhafnarlaust Morgunblaðið/Ásdís Ástríður Alda Sigurðardóttir SUÐURLANDSMYNDIR Sigfúsar Eymundssonar eru nú til sýnis í Hús- inu á Eyrarbakka. Sýningin er á vegum Sjóminjasafnsins á Eyrar- bakka. Sigfús Eymundsson er einn nafn- kunnasti ljósmyndari landsins og fyrsti Íslendingurinn sem gerði ljós- myndun að ævistarfi. Myndir hans eru varðveittar á Þjóðminjasafni Ís- lands. Sigfús rak ljósmyndastofu um áratugi í Reykjavík frá 1866–1909 og tók fleiri myndir af bæjum, hús- um og mannlífi heldur en aðrir ljós- myndarar á þeirri tíð. Hjá honum störfuðu og lærðu margir ljósmynd- arar en lengst starfaði þó hjá honum Daníel Daníelsson ljósmyndari, sem síðar gerðist bæði veitingamaður og kaupmaður í Sigtúnum við Ölfusá og rak brauðgerðarhús á Stokkseyri. Á sýningunni í Húsinu er brugðið upp myndum úr ferðalögum Sigfús- ar og Daníels um Suðurland 1884 og 1886. Sýningin verður opin út októ- ber á sýningartíma safnsins og eftir samkomulagi. Þjóðminjasafnið/Ljósmyndasafn Sigfúsar Eymundssonar Þúsundir húsa hrundu í Suðurlandsskjálftanum 1896. Á þessari mynd sjást mæðgurnar Margrét Jónína Hinriksdóttir og Ingibjörg Bessadóttir. Mynd- in er kölluð fyrsta íslenska fréttaljósmyndin, tekin af Daníel Daníelssyni. Suðurlandsmyndir í Húsinu Skæðadrífa eftir Pál Sigurðsson hefur að geyma safn sjötíu stuttra greina um margvísleg mál- efni, sem höf- undur hefur látið sig varða á liðn- um árum. Allar eru greinarnar nýlegar, hin elsta frá árinu 1995 og þær yngstu frá 2003. Meirihluti greinanna hef- ur komið áður á prenti en þó birt- ast fjórtán þeirra í fyrsta sinn í þessari bók. Þær fjalla margar um mikilvæg menningarmál og önnur þjóðmál, sem skoðanir eru skiptar um, og bera sumar með sér harða gagnrýni eða ádeilu. Öðrum er eink- um ætlað að vera fræðandi og vekj- andi. Ekki er um að ræða eiginlegar fræðigreinar heldur eru þær flestar pólitískar, í víðtækum skilningi, þ.e. bera með sér skoðanir höfund- arins, stefnumið, tillögur og áeggj- an. Bókinni er kaflaskipt: Laganám og lögvísi; Almenn háskólamálefni; Lög og samfélag; Umhverfisvernd og skyld efni; Af vettvangi Ferða- félags Íslands og Í ljósgráu gamni – og alvöru. Höfundur er prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands. Útgefandi er Háskólaútgáfan. Verð: 3.900 kr. Greinar

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.