Morgunblaðið - 14.09.2003, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 14.09.2003, Blaðsíða 20
20 SUNNUDAGUR 14. SEPTEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ I. Ellert Kárason, bílstjóri minn frá Nolli, er mættur við íbúð okkar í Tjarnarlundi 14 E á Akureyri kl. 13.40 fimmtudaginn 14.. ágúst 2003. Ferðinni er heitið til Húsavíkur að skoða Hvalamiðstöðina við Hafnar- stétt á Húsavík. Við Elli leggjum þó krók á leið okkar og hyggjumst heimsækja Þorgeir goða Þorkelsson og hina nýju kirkju hans, sem vígð var með viðhöfn á þúsund ára af- mæli kristni- tökunnar, árið 2000. Þorgeir var lögsögumað- ur árin 985– 1001, og bjó á Ljósavatni. En nýja kirkjan er harðlæst svo og hin gamla á Ljósavatni, húsráðendur að aka burt, svo eina skýringin er sú, að Þorgeir sé aftur lagstur und- ir feldinn að hugsa upp ráð við þeim fámenna hópi, sem stofnað hefur nýjan heiðingjasöfnuð og nefnt „Ásatrúarsöfnuð“. Trúfrelsi er í sjálfu sér ágætt og tryggt í stjórn- arskrá okkar, en á því eru tvær hliðar eins og öllum hlutum. Fyrsti allsherjargoðinn nýi var að vísu hinn merkasti maður, Sveinbjörn Beinteinsson skáld frá Grafardal (1924–1993), en síðan hefur val goð- anna verið einn harmleikur. Knútur Arngrímsson (l903–1945), minn ágæti sögu- og landafræðikennari í Gagnfræðaskóla Reykvíkinga, var ættaður frá Ljósavatni. Hann var prestur á Húsavík frá 1928–1933, en sneri sér þá að kennslu. II. Meðal þekktustu Þingeyinga á bökkum Skjálfandaf1jóts var Sig- urður Lúther Vigfússon (1901– 1959) frá Úlfsbæ, síðar bóndi og gestgjafi á Fosshóli. Vinur hans var Marteinn Sigurðsson (1893–1986), bóndi á Ysta-Felli I. Marteinn þótti nærtækur við skepnur og var oft fenginn til þess af Guðmundi lækni Gíslasyni (1907–1969), sem lengi var rannsóknarlæknir búfjársjúk- dóma með aðsetri á Keldum, að taka blóðsýni. Um þetta leyti var óttast mjög um garnaveiki í naut- gripum, að hún myndi breiðast út í Þingeyjarsýslu. Felur nú Guðmund- ur Marteini að taka blóðsýni úr bola einum, er sýnt hafði af sér grunsamleg sjúkdómseinkenni. Fékk hann Sigga Lúther í lið með sér og leggja þeir nú í bola vopn- aðir hnífum og hæfilega stóru glasi undir blóðsýnið. Marteinn skyldi stinga eggjárninu í æð, en Siggi Lúther sjá um að blóðið rynni í glasið. Boli lét ófriðlega og ekki tókst betur til en svo að eggjárnið lenti í hné Marteins, en Siggi Lúth- er brást ekki með glasið þannig að það fylltist. Senda þeir svo sýn- ishornið suður til Guðmundar og fá hraðskeyti til baka: „Alls ekki setja á undan þessum bola.“ III. Goðafoss skoðum við ekki, höfum séð hann nógu oft, merkastan þegar frönsk hjón voru að þvo matarílát sín í Skjálfandafljóti, rétt við foss- brún. Þá hvarflaði að mér, að kranavatnið í París væri ekki mjög hreint. Við Elli ökum út Köldukinn, yfir nyrðri brúna og þar blasir við stórbýlið Rauðaskriða I., sem er í Aðaldælahreppi. Þar er rekin Ferðaþjónusta bænda af miklum myndarskap. Komast þar oft færri að en vilja, svo stækkun er hafin. Ekkert lífsmark er að sjá á Aðal- dalsflugvelli og er hörmulegt að sjá þetta mikla mannvirki lítt eða ekki notað, en þar sem lögmál Mamm- ons gildir eru engar skyldur við landsbyggðina, nema helst á kjör- dag. Nú blasir Húsavíkurfjall við sjónum, en þar veðjaði forfaðir minn Skíða-Gunnar (Gunnar Þor- steinsson frá Ærlæk) (1760–1818 ca.) við kaupmanninn Nicolai Buck, hvort hann gæti rennt sér niður Húsavíkurfjall niður í kauptúnið framhjá verslun Bucks án þess að detta. Kaupmaður stóð fyrir framan búð sína með brennivínsstaup í hendi, öruggur um, að hann ynni veðmálið. Þetta fór á annan veg, því Gunnar stóð alla leiðina frá fjalls- toppi, framhjá verslun Bucks, greip glasið úr hendi kaupmanns og renndi úr því á ferðinni. Gunnar Gunnarsson rithöfundur (1889– 1975) er fimmti maður frá Skíða- Gunnari eins og sjá má á bakhlið mósaíkverks hans á Skriðuklaustri – Gunnar V, þar sem nú heitir Gunnarsstofnun. IV. Aðalerindi mitt til Húsavíkur er að skoða Hvalamiðstöðina við Hafn- ar-stétt. Ég hafði frétt, að safn þetta væri hið merkasta, en samt kom það mér á óvart, því landanum er oft hætt við að oflýsa svo oftast verður maður fyrir vonbrigðum, þegar slíkar stofnanir eru barðar augum. Ráðlegg ég öllum ferða- mönnum að skoða safn þetta, það er sannarlega heimsóknar virði. Sérstaklega fannst mér Hans Ellef- sen (1856–1918) gerð góð skil, því hann var allra manna stórtækastur í hvalveiðum sínum, bæði við Ísa- fjarðardjúp, á Sólbakka við Önund- arfjörð, Asknesi í Mjóafirði austur og létti eigi, fyrr en hann hafði sett upp hvalveiðistöð í Suður-Afríku. Stórskemmtileg veitingaaðstaða er á hafnarsvæðinu, t.d. „Gamli Bauk- ur“, þar sem við Elli fáum okkur hressingu. Heitir hann eftir veit- ingastað þeim, sem afi Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra (1908–1970), Sveinn Víkingur Magnússon (1846–l894), rak á síðari hluta 19. aldar, en hann var nefnd- ur „Sveinn í Bauk“ og var bæði söðlasmiður og gestgjafi. Veðrið er alveg frábært, hiti og blæjalogn. Hvalaskoðunarbátarnir koma og fara, oftast ná farþegarnir að sjá eina hrefnu í ferð, nema fyrir nokkru, að háhyrningsvaða hálf- fyllti Skjálfanda, þannig að hrefn- urnar hröktust burt. Stórhveli sjást mjög sjaldan á Skjálfanda, en þá er bara að kaupa sér myndband. Ég kom fyrst til Húsavíkur sumarið 1936 og það hefur margt breyst síð- an. Nú snýst allt um hvali, áður var sveitaverslunin mest áberandi, Kaupfélag Þingeyinga og Verslun St. Guðjohnsen. Ása Stefánsdóttir frá Öndólfsstöðum (1894–1984) og Hjalti Illugason (188l–1958) ráku Hótel Húsavík en Bjarni Bene- diktsson (1877–1964) og Þórdís Ás- geirsdóttir frá Knarrarnesi á Mýr- um (1889–1965) ráku Hótel Ásbyrgi. Allt er þetta horfið, nýir tímar teknir við. En í þeim fjöl- mörgu ferðum mínum til Húsavíkur hefi ég aldrei séð slíka fegurð, sem var að horfa út á Skjálfanda hinn 14. ágúst 2003. Við Elli höldum heim til Akureyrar að loknum ógleymanlegum degi. Húsavíkurbréf II Höfundur er lögfræðingur í Reykjavík. Morgunblaðið/Leifur Sveinsson Hvalaskoðunarsafnið t.v. (hvíta byggingin). Morgunblaðið/Rúnar Þór Elli Kára, Bensinn og Gamli Baukur, kirkjuturn Rögnvaldar Ólafssonar í baksýn. Hvalaskoðunarbáturinn „Knörrinn“. Morgunblaðið/Leifur Sveinsson Spegilsléttur hafflöturinn, safnið til hægri. Morgunblaðið/Leifur Sveinsson Þorgeirskirkja á Ljósavatni. Leifur Sveinsson Morgunblaðið/Leifur Sveinsson Eftir Leif Sveinsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.