Morgunblaðið - 16.09.2003, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 16.09.2003, Blaðsíða 6
FRÉTTIR 6 ÞRIÐJUDAGUR 16. SEPTEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ UPPLÝSINGAFLÆÐI milli starfsstétta á Landspítala – háskólasjúkrahúsi er mjög bágborið samkvæmt könnun sem Vinnueft- irlitið hefur unnið í samstarfi við læknaráð LSH á starfsumhverfi lækna við spítalann. Mjög skortir á ánægju lækna með yfirstjórn sjúkrahússins að því er þar kemur fram og einungis tæpur þriðjungur, 31%, yfirmanna er ánægður með vinnuandann á spítalanum. Til yfirmanna teljast yfirlæknar og sviðs- stjórar. Í hópi sérfræðinga er hutfallið enn lægra, 16% eru ánægð með vinnuandann og 13% aðstoðar-/deildarlækna. Að sögn Kristins Tómassonar, yfirlæknis hjá Vinnueftirlitinu, er þetta í fyrsta sinn sem jafnheildstæð könnun er unnin á starfs- umhverfi lækna við spítalann. Könnunin var gerð í mars og apríl á þessu ári, spurn- ingalistum var dreift meðal 571 læknis og svarhlutfall var 47–78%, eftir því hvaða stétt lækna á í hlut. Í könnuninni kemur fram að um þriðjungur yfirmanna var ánægður með upplýsingaflæði á spítalanum en einungis 10% sérfræðinga og 8% aðstoðar-/deild- arlækna. Endanleg útgáfa væntanleg í haust Kristinn hefur kynnt læknaráði og yfir- stjórn LSH frumniðurstöður skýrslunnar en endanleg útgáfa hennar er væntanleg í október og tekur til ýmissa fleiri þátta í starfsumhverfi lækna. Að sögn Kristins er það samruni sjúkrahúsanna á undangengn- um árum og þ.a.l. breytingar á stjórn- skipulagi og rekstrarfyrirkomulagi sem geta kallað fram ýmis hættumerki í vinnuum- hverfi sem vert er að skoða. „Það sem kem- ur manni á óvart er sá þáttur að upplýs- ingaflæði var í raun ekki fullnægjandi á spítalanum í heild. Það er líka verulegt áhyggjuefni að töluverð óánægja er með skipulag vinnunnar á hverri deild þar sem menn starfa.“ Þegar spurt var hvort fólk gæti ofteða fremur oft haft áhrif á vinnu sína voru um 70% yfirlækna á þeirri skoðun, fjórðungur sérfræðinga og fimmtungur aðstoðarlækn- anna. Kristinn segir þetta áhyggjuefni út frá sjónarhóli vinnuverndar. „Það er mikilvægt að menn hafi ákveðið sjálfstæði og rými til þess að þróast og til þess að starfa og til að ná sem bestu út úr sjálfum sér.“ Hann segir það mikið áhyggjuefni að ein- ungis 4% stjórnenda séu mjög ánægð með yfirstjórn spítalans, 1% sérfræðinga en eng- inn úr röðum aðstoðar-/deildarlækna. Nokk- uð fleiri sögðust þó fremur ánægðir með yf- irstjórn spítalans, fjórðungur yfirmanna, 8% sérfræðinga og 5% aðstoðar-/deildarlækna. Meirihluti telur væntingar til læknastarfsins hafa ræst Að sögn Kristins er það jákvætt að þrír af hverjum fjórum svari að væntingar til læknastarfsins hafi uppfyllst. Að því leyti hafi stjórn spítalans úr mjög jákvæðum efnivið að moða. Þrátt fyrir það virðist hins vegar sem andleg líðan lækna sé snöggtum verri meðal deildarlækna og sérfræðinga heldur en yfirmanna og ánægja með vinn- una sé klárlega minni meðal þessara hópa. „Þetta segir manni að það þarf að efla sjálf- ræði í starfi og upplýsingaflæði til starfs- manna á gólfinu; til þeirra sem eru í hand- verkinu, til þess að tryggja að andleg líðan þeirra dag frá degi sé með góðum hætti.“ „Þetta er ekki áfellisdómur yfir einu eða neinu, þetta gæti hafa verið svona alla tíð, við eigum ekki upplýsingar um hvernig þetta var hér áður fyrr. Svona upplýsingar eru fyrst og fremst mikilvægar fyrir það að þær lýsa ástandinu eins og það er. Nú þurfa spítalastjórn, forsvarsmennhennar og læknaráð og læknasamtökin að varpa fram þessari spurningu: hvernig getum við bætt aðbúnað, líðan og vinnuumhverfi þessara starfsmanna þannig að þeirra líðan í vinnu verði betri og þannig að betra og skilvirkara heilbrigðiskerfi fáist.“ Aðeins þriðjungur yfirstjórnar Landspítala – háskólasjúkrahúss ánægður með vinnuandann Upplýsingaflæði innan spítalans mjög bágborið Morgunblaðið/Þorkell Kristinn Tómasson, yfirlæknir hjá Vinnueft- irlitinu, kannaði starfsumhverfi lækna. STURLA Böðvarsson samgöngu- ráðherra segir að á næstu dögum muni skýrast hvað gera þurfi við Grímseyjarferjuna Sæfara til að hún megi flytja fleiri farþega. Frá síðustu mánaðamótum hefur ferjan einungis leyfi til að flytja 12 farþega, en yfir sumarmánuðina má Sæfari flytja 90 farþega samkvæmt sérstakri undan- þágu frá reglum Evrópusambands- ins. Þessa mánuði er sett þar til gert farþegahús á ferjuna og því heimilt að flytja þetta marga farþega. Grímseyingar bentu í Morgun- blaðinu í gær á að ástandið væri óvið- unandi og gæti ekki gengið svo leng- ur, hvorki gagnvart ferða- né heima- mönnum. Þá verður flugvöllurinn í eynni lokaður í októbermánuði vegna endurbóta. Sturla sagði vissulega ánægjulegt að vinna væri að hefjast við endur- bætur á flugvelli eyjarskeggja og myndi aðstaðan batna til muna að þeim loknum. „Ég hafði áhuga á því að hraða framkvæmdum og það lítur út fyrir að þeim verði lokið að fullu á næsta ári, þannig að ástand mála hvað flugið varðar batnar mikið,“ sagði samgönguráðherra. Hann sagði að nefnd undir forystu Kristjáns Vigfússonar hjá Siglinga- málastofnun væri nú að skoða sam- göngumál Grímseyinga og vænti hann þess að niðurstaða lægi fyrir innan fárra daga. „Nefndin er m.a. að skoða hvað gera þurfi við ferjuna til að hún megi flytja fleiri farþega og allt verður reynt til að svo verði hægt innan þeirra reglna sem í gildi eru,“ sagði Sturla. Hann sagði að strangar öryggisreglur giltu um ferjusigling- ar og hann væri ekki tilbúinn til að hvika frá þeim. Hann sagði að nefnd- inni væri ætlað að horfa til framtíðar hvað samgöngumál Grímseyinga varðaði og m.a. yrði skoðað hver af- kasta geta ferjunnar þyrfti að vera. „Þessi mál skýrast innan fárra daga og þá kemur í ljós hvaða úrbætur þarf að gera á henni svo fjölga megi farþegum,“ sagði Sturla. Samskip sjá um ferjusiglingar Sæfara milli Dalvíkur og Grímseyjar. Ráðherra um sam- göngumál Grímseyinga Niður- staða inn- an fárra daga SLÖKKVILIÐ Akureyrar var með verklegar æfing- ar fyrir væntanlega nýliða í fastráðningarhópi liðs- ins í gær en til stendur að fjölga um fjóra slökkvi- liðsmenn um næstu mánaðamót. Ein æfingin fólst í því að fara óvænt í útkall í brennandi hús. Kveikt hafði verið í húsinu Lækj- arbakka, vestan Akureyrarflugvallar, og stóð það í ljósum logum þegar nýliðarnir komu á staðinn ásamt varðstjórum úr slökkviliðinu. Þeim gekk þó nokkuð vel að ráða niðurlögum eldsins. Alls tóku fimm nýliðar þátt í æfingunum en fjórir þeirra verða fastráðnir, uppfylli þeir þau skilyrði sem þarf. Með fjölguninni verða 24 menn í varðliðinu og alls 30 í slökkviliðinu. Morgunblaðið/Kristján Nýliðar á brunaæfingu Akureyri. Morgunblaðið. VERÐ á greiðslumarki í sauðfjár- rækt hefur enn ekkert lækkað þrátt fyrir að afkoma í greininni hafi versnað. Verðið er núna á bilinu 20– 22 þúsund krónur á hvert ærgildi, en það er nokkru hærra en ríkið var að greiða fyrir hvert ærgildi meðan það stóð að uppkaupum á greiðslu- marki. Gunnar Sæmundsson, bóndi í Hrútatungu, sem sæti á í stjórn Bændasamtakanna, segir þetta óeðlilega hátt verð. Viðskipti með greiðslumark, sem er nafn á þeim stuðningi sem ríkið veitir sauðfjárbændum, voru gefin frjáls í fyrra. Á árunum þar á undan var ríkið að kaupa upp greiðslu- mark í þeim tilgangi að draga úr framleiðslu og bæta afkomu þeirra sem eftir voru í greininni. Ríkið greiddi í upphafi 22 þúsund krónur fyrir hvert ærgildi, en þessi upp- hæð lækkaði niður í 19 þúsund krónur og síðasta árið voru greidd- ar 16 þúsund krónur fyrir ærgildi. Eftir að viðskipti með greiðslumark voru gefin frjáls fór verðið fljótlega í um 21 þúsund krónur og verðið hefur ekkert lækkað síðan þrátt fyrir versnandi afkomu í sauðfjár- rækt og þrátt fyrir að nú sé styttra eftir af samningnum við ríkið. Gunnar í Hrútatungu segir að það nái engri hátt hvað menn séu að greiða hátt verð fyrir greiðslu- markið. Þetta geti í reynd ekki skil- að bóndanum neinu nema því aðeins að menn séu að kaupa sig frá út- flutningi með því að komast í svo- kallaða 0,7 reglu, en hún þýðir að bændur sem framleiða innan við 70% af sínu greiðslumarki þurfa ekki að flytja lambakjöt á erlenda markaði. Samkvæmt upplýsingum frá Bændasamtökunum falla um 200 sauðfjárbændur undir svokallaða 0,7 reglu. Þetta eru um 10% stétt- arinnar, en formaður Landsamtaka sauðfjárbænda segir að fjölgað hafi í þessum hópi eftir að viðskipti með greiðslumark voru gefin frjáls því hópur bænda hafi séð sér hag í að kaupa sig frá útflutningsskyldu. Gunnar segist hafa upplýsingar um að sveitarfélög og afurðastöðvar hafi aðstoðað bændur við að kaupa greiðslumark, m.a. með því að greiða niður vexti. Hann segir slík viðskipti óeðlileg. Slæm afkoma í sauðfjárrækt hefur ekki lækkað verð á greiðslumarki Hátt verð á greiðslumarki SLÖKKVILIÐ, sjúkralið og lögregla voru kvödd út vegna elds í Vestfjarðagöngum á fimmta tímanum í gærdag. Að sögn lögreglu tókst slökkviliði fljótt að ráða niðurlögum elds- ins. Hlynur Snorrason, rann- sóknarlögreglumaður á Ísa- firði, segir að svo virðist sem kveikt hafi verið í rusli eða ámóta í Önundarfjarðarlegg ganganna. Mikill reykur var í göngunum. Málið litið alvarlegum augum Lögregla lokaði göngunum vegna rannsóknar málsins en hleypti umferð um þau aftur á upp úr kl. 18. Hlynur Snorrason biður veg- farendur sem komu á vettvang að setja sig í samband við lög- regluna þar sem hún leitar upp- lýsinga um mannaferðir í göng- unum. Málið er litið alvarlegum augum af hálfu lögreglunnar. Að sögn kunnugra þarf ekki mikið bál í jarðgöngum til að leiða af sér mjög hættulegt ástand. Kveikt í rusli í Vest- fjarða- göngunum

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.