Morgunblaðið - 21.09.2003, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 21.09.2003, Blaðsíða 4
4 B SUNNUDAGUR 21. SEPTEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ F ÁIR MÆLA því mót að Björgvin Gíslason er með fremstu gítarleikurum landsins og hefur verið svo í áraraðir eða allt frá því hann sló í gegn með Náttúru fyrir þrjátíu og fjórum árum. Þá var hann talinn með bestu gítarleikurum aðeins átján ára, en hafði verið að frá því fyrir ferm- ingu að hann féll flatur fyrir bítlinu. Fyrir skemmstu sendi hann svo frá sér sína fimmtu sólóskífu, en annars hefur lítið heyrst af honum undan- farin ár, hann segist hættur að spila fyrir fólk, spili bara fyrir sjálfan sig. Björgvin Gíslason segist hafa eign- ast fyrsta gítarinn þrettán ára gam- all, þá orðinn Bítlaaðdáandi og síðar urðu Rolling Stones í miklu uppá- haldi. „Ég var alltaf í kjallaranum að æfa og missti samband við vinina því ég sá ekkert annað en gítarinn,“ seg- ir hann og kímir. Æfingarnar í kjallaranum snerust aðallega um það að reyna að spila eins og Keith Richards, en síðan tók Björgvin að fikra sig út í blús annars vegar og svo í þyngra rokk. „Ég fíl- aði blúsinn í botn, fékk áhuga á hon- um frá því að hlusta á Stones.“ Björgvin lék í skólahljómsveit í Austurbæjarskóla um tíma, en fór svo af einhverjum ástæðum að spila með strákum úr Kópavoginum, þar sem mikil gróska var, og var í ýms- um hljómsveitum þaðan þar til hann gekk til liðs við Pops. Músíkina sem þessar hljómsveitir léku segir Björg- vin hafa verið dægurlög þess tíma, lög eftir Small Faces og fleiri og svo segir hann að mikið Who-tímabil hafi hafist, „brjálæðislega flott hljóm- sveit“ segir hann og bætir við að þeir hafi verið vanmetnir í seinni tíð og eins Small Faces. „Ég var alltaf að leita að þyngri tónlist meðfram blúsnum, Cream varð mín hljómsveit þegar hún kom fram og svo enn þyngri músík eins og King Crimson og Pink Floyd, sinfóníupopp, mér fannst það æðislegt,“ segir hann. Zoo, Pops og Náttúra Björgvin segir að af hljómsveit- arfélögum sínum á þeim tíma séu engir eftir í músíkinni. „Framan af voru nokkrar hljómsveitir í gangi og menn fóru mikið á milli hljómsveita, en síðan komst þetta í nokkuð fastar skorður í hljómsveitinni Flamingo sem síðar þróaðist út í Zoo sem var eiginlega fyrsta alvörubandið, var þónokkuð að spila og við í því að brjóta gítara og svoleiðis, stæla Who,“ segir Björgvin og hlær. „Það var mjög skemmtilegur tími en eng- inn okkar hélt áfram í músík nema ég,“ segir Björgvin og rifjar upp nokkur nöfn: „Óli Torfa, Grand hótel eigandi var í bandinu, söng, tromm- arann hef ég ekki séð árum saman og veit ekki hvað hann er að gera, Sissi bassaleikari er smiður og Ari Krist- insson sem spilaði á orgel er kvik- myndagerðarmaður.“ Eftir Zoo kom hljómsveitin Pops sem Björgvin gekk til liðs við 1968 og var um tíma ein vinsælasta hljóm- sveit landsins. Hann segir að það hafi verið góður tími. „Við vorum allir unglingar, vinsælir hjá ungum krökkum og mikið í gangi, mjög skemmtilegur tími.“ Hann langaði þó að fást við þyngri músík, var á kafi í framúrstefnu og þungu blúsrokki og þegar Jónas R. Jónsson bauð honum að vera með í Náttúru 1969 var hann ekki lengi að slá til. „Mér fannst það mikil upphefð að fá að spila með þessum náungum, allir eldri en ég og frægir gæjar,“ segir Björgvin. Náttúra var þó ekki tilbúin að fara að spila þegar Björgvin gekk til liðs við sveitina, hún var enn að mótast og hann segir að það hafi tekið marga mánuði áður en menn voru búnir að ákveða hvað þeir vildu gera. „Það var mikið setið og talað og tal- að, pælt í því hvað ætti að fara að gera og hvernig ætti að gera það. Við vildum ekki vera með hefðbundna hljómsveit sem væri að spila venju- legt popp, við vildum vera þungir.“ Þegar sveitin fór svo loks af stað varð til nóg af frumlegri músík og Náttúra tók mikið upp að því er Björgvin segir. Þrátt fyrir það lauk sveitin ekki við nema eina plötu, Ma- gic Key, sem kom út fyrir jólin 1972, en þá höfðu talsverðar mannbreyt- ingar orðið í sveitinni. Sú plata hefur ekki enn verið gefin út á geisladisk og óljóst hvenær af því verður að því er Björgvin segir, en fregnir eru af því að hún sé seld á tugi þúsunda milli íslenskra safnara og jafnvel á enn hærra verði erlendis – Björgvin segist hafa frétt af safnarabúið í Hol- landi þar sem menn væru til í að kaupa plötuna á um 70.000 kr. Hann segist síðast hafa hlustað á plötuna á síðasta ári, en þá voru menn að velta því fyrir sér að gefa hana út aftur í tilefni af þrjátíu ára afmæli hennar. Fyrir ýmsar sakir varð ekkert af því en Björgvin segir að Magic Key hafi hljómað ágætlega, þó að ýmislegt hefði svo sem mátt fara betur, enda menn óvanir í hljóð- veri og fyrir vikið hafi að hans mati ekki tekist að skapa það einstaka frelsi sem einkenndi tónlist sveit- arinnar. Það hafi á móti komið hon- um skemmtilega á óvart hve mikið af tónleikaupptökunum var gott, mikil spilagleði þó að hljómur hafi ekki alltaf verið góður. „Það er kannski ágætt að hafa þetta bara svona, það voru gerð af plötunni 1.000 til 1.500 eintök, og láta bara þar við sitja, gefa hana aldrei út aftur,“ segir hann og kímir, enda á hann eintak sjálfur. Tók poppið fram yfir tilraunirnar Jónas R. hætti í Náttúru 1970 og í hans stað kom Pétur Kristjánsson sem hætti svo sjálfur 1972 til að stofna Svanfríði. 1973 bað Pétur svo Björgvin að stofna með sér nýja hljómsveit, Pelican, og Björgvin sló til, en segist sjá eilítið eftir því í dag að hafa tekið poppið fram yfir til- raunirnar. Pelican varð strax gríðarlega vin- sæl hljómsveit og kemur varla á óvart að liðsmenn hennar hafi snemma farið að spá í það að koma sér á framfæri erlendis, sumir þeirra að minnsta kosti, því Björgvin segist ekki hafa velt því fyrir sér. „Þetta skipti mig engu máli, ég var ekkert að spá í þessa hluti á þessum tíma. Það var þó svo sem mikið í gangi þegar við tókum upp seinni plötuna 1975 Massachusetts því þá var allt fullt af einhverjum útlendingum í kringum okkur og alls konar menn sem vildu gera við okkur samninga.“ Ekkert varð þó úr samningum að sinn, Pétur var rekinn úr sveitinni og Herbert kom í staðinn og svo hætti Herbert og þeir voru fjórir eftir en þá segir Björgvin að hljómsveitin hafi verið þreytt og þá hætti hann. Pelican, Paradís og Póker Eftir Pelican kom Paradís og svo Póker. Björgvin segist hafa átt ágæt- an vin í Bandaríkjunum sem var allt- af að hvetja hann til að koma út með hljómsveit. Þegar Póker var stofnuð 1977 var það svo ekki síst til að ná ár- angri í útlöndum og náði svo langt að þeir Björgvin og Pétur fóru út til að hitta lögfræðinga í New Orleans og spiluðu fyrir þá prufuupptökur. Svo leist mönnum á að þeir vildu gera við sveitina milljónasamning en enn varð ekkert úr þegar á reyndi, nú vegna þess að einhverjir liðsmanna vildu vera heima hjá óléttum eiginkonum í stað þess að leggjast í hark í útland- inu að því er Björgvin segir. Björgvin tók upp fyrstu sólóskíf- una á þessum tíma, platan kom út 1977 og bar nafn hans, en með hon- um á skífunni voru gamlir félagar úr rokkinu. Hann segir að lögin á plöt- unni hafi verið ágæt, þar á meðal Örævarokk, sem margir muna eftir, en hljómurinn á henni er afskaplega slæmur. Um það leyti sem sú plata kom út segist Björgvin hafa verið orðinn hvekktur á því hve illa gekk að láta hlutina ganga upp þegar tækifærin buðust svo hann einsetti sér að reyna bara fyrir sér einn síns liðs. Hann gifti sig 1980 og flutti svo til Bandaríkjanna með konu og börn, settist að í Bay St. Louis skammt frá New Orleans og undi hag sínum vel til að byrja með að minnsta kosti, það var til einhver peningur svo hann gat setið við að semja lög. Þegar gekk á sjóðina fór hann að spila með hljóm- sveitum, meðal annars með rokk- sveit. Ekki var Björgvin þó bara í rokk- inu, hann spilaði líka með kántrísveit, spilaði í partíum með ítölskum bræðrum sem hann segir að hafi ver- ið miklir furðufuglar og einnig með tónlistarmanninum David Craig sem hafði meðan annars starfað talsvert með blúsaranum litríka Clarence „Gatemouth“ Brown. Eitt sinn sem oftar voru þeir Björgvin og Craig að hita upp fyrir Gatemouth Brown þegar píanóleikari þess síðarnefnda forfallaðist og Björgvin var beðinn að hlaupa í skarðið. Það lukkaðist allt vel og nokkrum dögum síðar var hringt í hann og hann beðinn að koma með í tónleikaferð með Gate- mouth og hljómsveit og átti þá að leika á gítar og píanó. Tónleikaferðin stóð í fimm vikur og var spilað á hverjum degi, ný borg og nýtt hótel á hverjum degi, ekki nema einn dagur í frí. „Þegar ég kom heim var ég búinn að fá nóg, vissi að þetta væri ekki eitthvað fyrir mig – við fórum heim til Íslands.“ Þetta var 1981 og Björgvin segir að við heim- komuna hafi hann snarlega verið sendur í sveit. „Íbúðin okkar var enn í leigu þannig að við vorum eiginlega húsnæðislaus. Við fórum því vestur á Barðaströnd til systur konunnar minnar og þar fór ég að vinna í hrefnuskurði, það voru mikil við- brigði,“ segir Björgvin eftir smá- þögn, „en það var í lagi, ég hef alltaf haft gaman af að breyta til,“ heldur hann svo áfram og skellir upp úr. Örugglega Björk Haustið 1981 gerði Björgvin sína aðra sólóskífu, Glettur, sem kom út fyrir jól. Enn kallaði hann til gamla félaga en sá nú um sönginn sjálfur, „fannst það persónulegra“. Næsta sólóskífa kom svo út 1983, Örugg- lega, sem er þekktasta sólóskífa hans hingað til að minnsta kosti. Á henni syngur hann öll lög utan eitt sem Björk Guðmundsdóttir syngur. „Það er mest spilaða lag sem ég hef samið og hefur elst vel, það var kannski ekki svo slæmt eftir allt saman,“ seg- ir Björgvin og kímir. Frá 1983 hefur Björgvin leikið með ýmsum hljómsveitum, meðal annars Frökkunum sem hann segir að hafi verið eina skemmtilegustu hljómsveit sem hann hafi leikið með og nefnir sérstaklega Mike Pollock, „dúndursöngvari og frábær náungi“. „Náttúra með Áskeli, Shady og Jó- hanni G. og Frakkarnir eru þær hljómsveitir sem mér hefur þótt skemmtilegast að spila með.“ Nóg af harki Björgvin hefur dregið úr spila- mennsku á síðustu árum og segist hafa fengið nóg af því að harka með lög eftir aðra þegar hann var að spila með hljómsveit sem kallaðist Blái fiðringurinn. „Það var ágætt að spila með þeirri sveit, en við vorum að spila lög sem ég lærði að spila þegar ég var við fermingu og ég var búinn að fá nóg. Ég væri alveg til í að vera í hljómsveit sem er að fást við frum- samda pælingatónlist, en ekki meira af lögum eftir aðra. Annað sem fór í taugarnar á mér var að vera sífellt að spila fyrir fólk sem var að drekka. Ég spila oftast með lokuð augun og svo þegar ég opnaði augum var eitthvert dauðadrukkið andlit ofan í mér, ég kunni bara ekki að meta það. Svo var ég bara orðinn skíthræddur að vera á ferð í miðbænum um miðja nótt eftir að hafa verið að spila,“ seg- ir Björgvin, en hann hefur ekki stað- ið á sviði í rúm tvö ár. Fjórða sólóskífa Björgvins kom út 2001, þegar hann varð fimmtugur, í 50 tölusettum eintökum og líka á Netinu – einskonar afmælisgjöf hans til vina og velunnara. Um daginn kom svo út fimmta platan, Punktur, kveikjan að þessu spjalli. Á henni eru lög frá ýmsum árum að því er hann segir. „Elsta lagið á henni er frá því ég var tvítugur, ég samdi það þegar ég var í Náttúru, á henni er líka lag sem ég samdi þegar ég var að vinna með Kristjáni Frímann, lög frá Frakkatímabilinu og svo nýrri lög. Þetta eru lög sem ekki hafa passað fyrir neitt annað og þessi plata er svo sem út og suður, en mér finnst það bara betra.“ Það stendur ekki til að halda neina útgáfutónleika, hann segist ekki hirða um hvort platan selst vel eða illa, hann sé að gefa hana út fyrir sjálfan sig. „Ég kann ágætlega við mig í kjallaranum heima, þar get ég verið að gera það sem ég vil í músík og enginn skiptir sér af því. Þar get ég lokað augunum og ímyndað mér að ég sé að spila á Wembley og þar birtist ekkert andlit þegar ég opna augun, því ég er með herbergið lok- að,“ segir hann og skellir upp úr. Spila bara fyrir mig Björgvin Gíslason tók upp gítarinn fyrir fjörutíu árum. Hann sendi á dögunum frá sér sína fjórðu sólóplötu, Punkt, en sagði Árna Matthíassyni að nú orðið spilaði hann aðeins fyrir sjálfan sig. Morgunblaðið/Jim Smart BJÖRGVIN Gíslason hefur verið í fremstu röð íslenskra tónlistar- manna frá því hann gekk til liðs við hljómsveitina Náttúru 1969, en með þeirri hljómsveit léku margir af þekktustu rokkurum landsins á átt- unda áratugnum. Fæddur 4. september 1951. Fær fyrsta gítarinn 12 ára og raf- magnsgítar um fermingu. Fer að spila með hljómsveit skömmu síðar í Austurbæj- arskóla og síðan í eftirtöldum hljómsveitum: Flamingo 1966–67 Zoo 1967–68 Pops 1968–69 Náttúru 1969–73 Pelican 1973–75 Paradís 1976–77 Póker 1977 Íslenskri kjötsúpu 1979 Hljómsveit Clarence Gatemouth Brown 1980 Friðryki 1981–82 Frökkunum 1983–84 Þremur á palli 1985 Gömlu brýnunum 1990–98 Bláa fiðringnum 1998 KK Band 1993 Plötur: Fimm sólóplötur: Björgvin Gíslason 1977 Glettur 1981 Örugglega 1983 Bíó (gefin út í 50 tölusettum eintökum og á Netinu) 2001 Punktur 2003 Að auki lék Björgvin inn á eina plötu með Náttúru 1972, tvær með Pelic- an, 1974 og 1975, eina með Paradís 1976, Íslenska kjötsúpu 1979, plötu Frakkanna 1984, og með KK Band 1993. Til viðbótar við þetta hefur hann leikið inn á fjölmargar plötur sem gítarleikari og verið upp- tökustjóri og -maður á ýmsum plöt- um. Hver er Björgvin Gíslason? arnim@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.