Morgunblaðið - 26.09.2003, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 26.09.2003, Blaðsíða 16
16 | FÓLKIÐ | FÖSTUDAGUR 26|9|2003 MORGUNBLAÐIÐ ÞEGAR CAGE ER SEM KYNDUGASTUR  Peggy Sue Got Married (1986). Nicolas Cage var kostulegur, sumir segja reyndar illþolandi, sem hinn vonlausi eig- inmaður titilpersónunnar (Kathleen Turner) í ljúfsáru tíma- flakksdrama hjá Coppola frænda.  Raising Arizona (1987). Cage er í fínu formi sem klaufabárð- ur á krimmabrautinni í hugmyndaríkum fáránleikafarsa Coen-bræðra.  Moonstruck (1987). Cage stelur Cher frá eldri bróður sínum og ofleikur skemmtilega þann gallagrip í smelli Normans Jewisons. Leikur hans í Moonstruck gerði hann að „öðru- vísi“ hjartaknúsara meðal kvenþjóðarinnar.  Wild at Heart (1990). Cage er sérlega eftirminnilegur sem snældugalinn Elvis-dýrkandi í ofbeldisfullu, brokkgengu og furðulegu vegadrama Davids Lynch.  Leaving Las Vegas (1995). Cage hafði aldrei gert betur en í nístandi túlkun sinni á drykkjusjúkum handritshöfundi með bullandi sjálfseyðingarhvöt í drama Mikes Figgis. Cage fékk verðskuldað Óskarsverðlaun fyrir tímamóta frammistöðu á ferlinum.  Bringing Out the Dead (1999). Yfirspennt en innlifuð túlkun Cage á útbrunnum manni, sjúkraflutningamanni í New York sem á sér þann eina lífstilgang að bjarga lífi annarra. Þessi stórborgarrýni Martins Scorsese hefur nokkra galla en kostirnir eru stærri og fleiri.  Adaptation (2002). Nicolas Cage er hér á hátindi leikferils síns í tvöföldu hlutverki andstæðra bræðra sem fást við handritsgerð, annar er fælinn, stíflaður og flókinn, hinn svalur, einfaldur og hömlulaus. Stórsnjallt furðuverk frá Spike Jonze og Charlie Kaufman. Eftir að Nicolas Cage, sem nú er tæplega fertugur, hafði ákveðið að leggja leiklistina fyrir sig og skipt um eftirnafn til að enginn gæti sakað hann um að reyna að slá sér upp á nafni frænda síns Francis Fords Coppola (Cage varð fyrir valinu vegna aðdáunar sinnar á tónlistarmanninum John Cage og myndasöguhetjunni Luke Cage), hefur verkefnaval hans einkennst af eirðarlausri leit að ögrandi tilbreytingu. Hann er ekki leikari sem lætur aðra skipa sér á bás og ef hann getur hefur hann valið hið óvenjulega frekar en venju- lega. Hann hafði byrjað aðeins 18 ára í dramatísku unglingamyndunum Fast Times at Ridgemont High og Valley Girl en eftir að hann komst á þrítugsaldurinn fór hann að rækta sinn garð með túlkun alls kyns furðufugla, mismunandi elskulegra, ólánlegra og létt- geggjaðra. Hann hefur mestanpart haldið því áfram til þessa dags, að undanskildum nokkrum tilraunum til að verða frekar hefðbundin hasarhetja (The Rock, Con Air, Face/ Off, Gone in 60 Seconds), sem ekki hafa farið honum vel, næstum aulalegu útliti hans og sérstæðum, stundum ýktum leiktöktum. Nicolas Cage hentar best hlutverkum jaðar- manna, sem eiga í basli með sjálfa sig og umhverfið. Sjálfur viðurkennir hann að myrkar persónur á útkanti mannfélagsins virðist höfða mest til sín. „Ég veit ekki hvers vegna. Kannski vegna þess að ég er sjálfur þannig náungi,“ hefur hann sagt. „Mér finnst best að vinna úr mínum málum með því að taka hið neikvæða og gera það jákvætt með skapandi vinnu.“ Cage er frægur fyrir að fara út í öfgar til að fá tilfinningu fyrir hlutverkum sínum. Þannig lét hann draga úr sér tönn án deyfingar til að upplifa reynslu hermannsins sem hann lék í Birdy (1984). „Ég vil ekki að mér líði of vel við það sem ég er að fást við.“ |ath@mbl.is FÆLNI FURÐU- FUGLINN FR UM SÝ NT Svikahrappur einn sem þjáist af fælni og ýmsum andlegum kvillum (Nicolas Cage) er í þann veginn að landa gróðavæn- legu svindli ásamt félaga sínum (Sam Rockwell) þegar tán- ingsdóttir hans (Alison Lohman) birtist óforvarandis og trufl- ar ráðagerðirnar og vandlega skipulagt líf hans. Ridley Scott leikstýrir gamansömu glæpadrama, Matchstick Men, eftir sögu Erics Garcia og frumsýnt er hérlendis um helgina.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.