Morgunblaðið - 03.10.2003, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 03.10.2003, Blaðsíða 4
4 | FÓLKIÐ | FÖSTUDAGUR 3|10|2003 MORGUNBLAÐIÐ Hún vissi alveg hvað hún var að fara út í. Þetta var einmitt á þeim tímapunkti í ævi hennar þar sem hún hafði svo mikla þörf fyrir að sannreyna hversu huguð og sjálfstæð hún væri. Nicole Kidman var nýbúin að slíta samvistum við Tom Cruise þegar hún ákvað að taka að sér aðalhlutverkið í næstu mynd þessa skrítna en sjóðheita Dana sem þá var nýbúinn að fá Gull- pálmann í Cannes fyrir Myrkradansarann og gera söngkonuna Björk að kvikmyndastjörnu. „Ég féll gjörsamlega fyrir Brim- broti og lét þess getið í einhverju viðtali að ég vildi gjarnan vinna með honum. Þegar ég fékk þau boð að hann væri búinn að skrifa handa mér hlutverk, gat ég ekki annað en látið slag standa.“ Umrætt handrit var fyrir myndina Dogville sem er sú fyrsta í nýjum þríleik Lars Von Triers og er frumsýnd í dag á Kvikmyndahátíð Eddunnar í Regnboganum. Önnur myndin á að heita Mandalay og sú þriðja Wasington, með engu h-i. Mið- punktur allra verður Grace, sú sem Von Trier skrifaði fyrir Kid- man. Í þeirri fyrstu er hún á flótta og leitar skjóls í smábænum Dogville, þar sem íbúar eru þröngsýnir og þverir – rétt eins og Von Trier sjálfur sér einmitt bandarísk yfirvöld. „Ég viðurkenni að þegar ég sá leikmyndina teiknaða á senu þar sem öll myndin átti að vera leikin, þá leist mér ekki á blik- una,“ segir Kidman. „Ekki dró úr efasemdum þegar ég sá hund teiknaðan á gólfið og skrifað við hliðina „HUNDUR“! Svo átti ég rogast um með einhverja hlekki! En ég ákvað að leggja allt traust mitt á hann. Þó ekki fyrr en eftir að við héldum krísufund og útkljáðum nokkur mál. Hreinsuðum loftið. Það er nauðsyn- legt ólíkum listamönnum sem ætla sér að vinna saman.“ En hvernig voru samskipti þeirra Von Triers? Íslenskum blaðamanni lék auðvitað forvitni að fá að vita það í ljósi meintra samskiptaörðugleika Von Triers við Björk. „Ég dæmi fólk út frá persónulegum samskiptum mínum við það og engu öðru. Mín reynsla af Lars er mjög góð og því gæti ég alveg hugsað mér að vinna með honum aftur.“ - „Til dæmis að Mandalay,“ grípur hinn óútreiknanlegi Von Trier á lofti, sitjandi hjá Kidman á blaðamannafundinum. Kidman fer greinilega hjá sér. „Þú ert að stilla mér upp við vegg, Lars!“ segir hún, greinilega komin úr jafnvægi. „Við vor- um búin að tala um þetta. Ég ætla að leika Grace áfram.“ - „Ég veit. Vildi bara að þau heyrðu þetta líka.“ Nýjustu fregnir herma að Kidman sé, þrátt fyrir yfirlýsingar í Cannes, hætt við að leika í Mandalay. Beri við að vinnuálagið sé búið að vera svo mikið að hún ætli frekar að sinna börnum sínum. Og sannarlega hefur hún haft nóg að gera. Þrjár myndir klárar, að undanskilinni Dogville, og þrjár aðrar væntanlegar. Enginn tími fyrir hlekki Von Triers. |skarpi@mbl.is Morgunblaðið/Halldór Kolbeins NICOLE KIDM AN

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.